23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (4700)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Við umr. um þetta mál í fyrra gerði ég grein fyrir því, að því miður væri réttarstaða í þessu efni ekki eins augljós okkur í hag eins og hv. þm. Borgf. og sumir aðrir hefðu viljað vera láta. Ég rakti það nokkuð, að fræðilegur grundvöllur undir ýmsum þeim fullyrðingum, sem fram hafa komið um þetta efni, mundi ekki vera fyrir hendi. Og í ræðum þeirra manna, sem mest hafa um þetta mál talað, eru svo fjarstæðukenndar fullyrðingar, að því fer fjarri, að þær séu á borð berandi fyrir nokkurn dómstól. Með þessu er ég engan veginn að segja, að Íslendingar eigi þarna engan rétt, þótt hann þá hljóti að verða rökstuddur með öðrum hætti en fram hefur komið af hendi þeirra manna, sem mest hafa um þetta rætt og ritað. Ég gat þess í orðum mínum í fyrra, að ég væri ekki að kveða upp neinn dóm í þessum efnum, heldur aðeins vekja athygli á því, sem ég taldi skyldu mína að minna hv. þm. á, að því færi mjög fjarri, að við gætum fyrir fram fullyrt, að við ættum þarna þennan rétt, sem ekki væri annað en að ganga eftir, og að það sé bara af aumingjaskap okkar, að þessi réttur hafi ekki verið heimtaður í okkar hendur, vegna þess að yfirvöldin hafi verið svo tómlát í þessu efni nú um langa hríð sem raun ber vitni, vegna þess að þau hafi skort sannfæringu um þann rétt, sem hv. þm. Borgf. telur okkur eiga.

Ég hélt fram í fyrra, að áður en frekar væri aðhafzt í þessu máli yrði fræðileg rannsókn, rækilegri en enn hefur átt sér stað, að fara fram. Ég ætlaði mér að reyna að hafa þau áhrif á meðferð utanrmn., ef málið hefði þar verið fyrir tekið, að því yrði beint inn á slíka rannsóknarbraut. Eins og hv. þm. Borgf. drap á, þá tók utanrmn. málið annaðhvort alls ekki fyrir eða þá mjög lauslega, þannig að ekki varð gagn að meðferð málsins þar. En þó að utanrmn. léti málið ekki til sín taka, þá efndi ég til þess í utanrmn., að hafin væri fræðileg rannsókn á þeim gögnum, sem fyrir hendi eru um þetta mál, og hefur sérfræðingur utanrrn. í alþjóðarétti unnið að þeirri rannsókn í sumar, að vísu samfara mörgum öðrum störfum, svo að hann hefur ekki haft til þess þann tíma, sem æskilegt væri. En eftir því sem verki hans miðaði áfram, urðum við sammála um, að það væri ekki rétt, að einn maður ætti að taka á sig að kveða upp fræðilegan dóm í þessu efni, dóm, sem ætla mætti, að yrði notaður sem undirstaða í meðferð málsins í framtíðinni, annaðhvort undirstaða þess, að réttarkröfur yrðu gerðar á þann veg, sem hv. þm. Borgf. hefur svo skelegglega mælt fyrir nú á þessu þingi og áður fyrr, eða að þær leiddu til þess, að þær margorðu kröfur, sem komið hafa um, að gengið yrði eftir þessum rétti okkar, frá ýmsum félagasamtökum undanfarið, yrðu látnar niður falla, þegar rannsókn hefði leitt í ljós, að þessi réttur væri ekki fyrir hendi. Hvor niðurstaðan, sem yrði á rannsókninni, sem ég segi ekkert um fyrir fram og vil ekki hafa nein áhrif á, þá töldum við það of mikinn ábyrgðarhluta, að einn maður, þó að mjög fær sé, taki að sér rannsókn, sem efnt er til í svo þýðingarmiklum tilgangi sem þessum. Af þessum orsökum hef ég fyrir nokkru skrifað lagadeild Háskóla Íslands svo hljóðandi bréf með leyfi hæstv. forseta:

„Í utanríkisráðuneytinu hefur undanfarið farið fram rannsókn á því, hvort Ísland muni eiga réttarkröfur til Grænlands.

Áður en afstaða er tekin til málsins, virðist rétt, að fyrir liggi sameiginlegt álit þriggja manna, er tilnefndir séu af utanríkisráðuneytinu, hæstarétti og lagadeild Háskóla Íslands í því skyni, enda hafi enginn þeirra látið í ljós álit sitt á málinu opinberlega. Ég vil því hér með fara þess á leit, að lagadeild Háskóla Íslands tilnefni einn af prófessorum lagadeildarinnar til að taka sæti í nefnd þessari.

Hæstarétti hefur í dag verið ritað bréf um tilnefning af hans hálfu í nefnd þessa.“ Samhljóða bréf þessu, að breyttu breytanda, var einnig sent hæstarétti. Ætlunin var af minni hálfu, að í n. væri skipaður sérfræðingur utanrrn. í þjóðarétti, einn af prófessorum háskólans og einn af dómurum hæstaréttar. En þess vegna tók ég fram, að ég óskaði eftir, að þeir, sem tilnefndir yrðu í n., hefðu ekki áður látið uppi opinberlega álit sitt um þetta efni, að tveir hinir fremstu lögfræðingar okkar, Ólafur Lárusson og Einar Arnórsson, hafa látið uppi álit sitt og hlotið fyrir það litlar þakkir, heldur miklar ádeilur og í sumum tilfellum hvatvísleg brigzlyrði, og ég taldi ekki rétt, að þessir menn, sem þannig hafa að ástæðulausu verið dregnir inn í deilur manna, ættu að dæma um þessi mál, sem þeir þegar hafa samið álitsgerð um. Ég vildi fá álit frá fræðilega hæfum mönnum, sem ekki hefðu áður blandað sér í mál þetta. Ég hef fyrir nokkru fengið bréf frá lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hún segist hafa orðið við þessum tilmælum mínum og skipað Ólaf Jóhannesson í þessa n., en hann er sem kunnugt er prófessor í ríkisrétti, sem er ein af þeim fræðigreinum, sem hér kemur mjög til álita, og er þess vegna gott, að sérfræðingur í þeim efnum skipi þessa n. Hins vegar hefur hæstiréttur ekki enn svarað málaleitun minni, og hef ég hugboð um, að dómararnir telji, að hér sé um svo mikið starf að ræða, að þeir kinoki sér við að taka það að sér, en ég vona engu að síður, að einhver þeirra fáist til þessa starfs, því að vissulega er það mikilsvert, að einhver úr æðsta dómstóli Íslands leggi hönd á plóginn í þessu efni. Ég vona því, að hæstiréttur skipi einn af dómurum sinum til þessa verks. Í versta tilfelli yrði að veita þeim dómara frí frá störfum um sinn, vegna þess, að ég veit, að þingheimur muni vera mér sammála um, að hér sé svo mikilsvert mál að ganga úr skugga um, að ekki beri að horfa í nokkurn kostnað, til þess að undirstaða undir þann dóm, sem við verðum sjálfir fyrst að kveða upp í huga okkar, áður en lengra er farið, verði eins örugg og frekast má verða.

Ég legg áherzlu á það, að með aðgerðum mínum hef ég ekki tekið nokkra afstöðu til efnishliðar málsins, heldur hef ég reynt með rannsókn þeirri, er ég lét fara fram á málinu í ráðuneytinu á s. l. sumri, og síðan með þessari nefndarskipun að stuðla að því, að rannsókn á þessu máli gæti átt sér stað í ljósi þeirrar þekkingar, sem bezt yrði fengin, og að það yrði sem vandlegast undirbyggt af okkar hálfu, þannig að ég vonast til, að hv. þm. Borgf., þó að hann sæki þetta mál af miklu kappi, skilji, að ég hef ekki gert þetta til að leggja stein í götu málsins, heldur til þess, að það fái þá fræðilegu athugun, sem okkur er óhjákvæmileg, áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um, hvað frekar skuli gert í málinu, vegna þess að ég mundi beinlínis bregðast minni skyldu, ef ég segði ekki þingheimi frá því, að grundvöllurinn í þeim svokölluðu fræðiritum, sem enn hafa verið samin um þetta efni til styrktar því, að við ættum að gera þessar kröfur, er ekki frambærilegur að fara með í málinu fyrir alþjóðadómstól. Ég vonast til þess, að sú fræðilega athugun, sem nú hefur verið efnt til, verði til þess, að málstaðurinn verði sterkari, en það haggar ekki því, að eins og nú standa sakir, stöndum við á of veikum ísi til þess, að við getum farið út í málaferli, eða a. m. k. vil ég ekki bera ábyrgð á því.