28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur klofnað um þetta mál. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það hefur komið frá hv. Ed., en minni hl. n. leggur til, að gerð verði á því breyt., þannig að niður falli síðari málsl. 2. gr., en hann er um það, að 60% að minnsta kosti af árlegum tekjum sjóðsins sé varið samkvæmt 4. gr. fiskimálasjóðsl. Nú er það svo um fiskimálasjóðsl., að það er þannig ákveðið verkefni fiskimálasjóðsins í 4. gr., að fiskimálasjóðurinn veiti styrki til hafrannsókna, rannsókna á fiskigöngum og fiskistofnum, tilrauna til að veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða, markaðsleitar fyrir sjávarafurðir og til annarra rannsókna og nýjunga í þarfir sjávarútvegsins. Í 5. gr. er ákveðið, að veita megi viðbótarlán gegn síðara veðrétti til stofnunar alls konar fyrirtækja, er horfa til eflingar fiskveiðum og hagnýtingar sjávarafurða, og séu lán þessi einkum veitt til þeirra staða, þar sem er tilfinnanleg vöntun slíkra fyrirtækja, en lítið fjármagn fyrir hendi. Undanfarin 3 ár a. m. k. hefur starfsemi fiskimálasjóðs nær eingöngu beinzt að framkvæmdum samkv. 5. gr. l., en í rauninni hefur gersamlega verið vanrækt sú starfsemi, sem sjóðnum hefur verið ætluð samkv. 4. gr. Ásóknin um lán hefur verið svo mikil, að segja má, að tekjum sjóðsins hafi að mestöllu leyti verið varið til lánveitinga, en ekki til þess að leita að nýjum fiskimiðum, tilrauna til nýrra veiðiaðferða eða annars þess, er 4. gr. ætlast til. Meiri hl. sjútvn. er sammála um, að slíkt megi ekki svo til ganga eftirleiðis. Við eigum svo mikið undir því, að reyndar séu nýjar veiðiaðferðir eða leitað sé nýrra fiskimiða og annars slíks, að við höfum ekki ráð á því að láta þann þátt fiskveiðanna vera algerlega vanræktan. Nú er fjarri því, að meiri hl. n. vilji neita því, að það hafi verið þörf fyrir lánveitingar, en þó virðist það vera allmikið um of, þar sem búið mun vera að lofa a. m. k. allt að 3 ára tekjum sjóðsins, eins og þær eru nú, til lánveitinga, og þá með þeim árangri, að ekki verður séð, að sjóðurinn geti að neinu leyti innt af hendi það verk, sem honum er fyrirskipað samkvæmt 4. gr. l.

Nú er að vísu ekki sagt í gildandi l., hvort ætlunarverkið eigi að ganga fyrir, en þó má gera ráð fyrir því, að það ætlunarverk, sem síðar er ákveðið í l., eigi frekar að sitja á hakanum fyrir hinu. En stjórn sjóðsins hefur hins vegar hagað starfi sínu þannig, að hún hefur algerlega látið lánveitingarnar ganga fyrir, en ekki sinnt um það atriði ætlunarverksins, sem fyrr er nefnt og á að rækja lögum samkvæmt. Eftir þeim upplýsingum, sem lágu fyrir sjútvn. Ed. í bréfi frá stjórn fiskimálasjóðs, þá hafa verið veitt lán á árinu 1949 1.193.000 kr., en búið að lofa um 2½ millj. kr. Það er eflaust mikil þörf fyrir slík lán. En það má ekki heldur loka augunum fyrir því, að fyrir sjávarútveginn sem heild og jafnvel fyrir þessa staði, sem hafa fengið lán, þá veltur á miklu að halda uppi hafrannsóknum, þannig að við Íslendingar getum notað okkur þau auðæfi, sem eru hér í sjónum hér við ströndina, og staðið betur að vígi, en aðrar þjóðir. En með því að vanrækja að öllu leyti hafrannsóknirnar og gera tilraunir með ný veiðarfæri og aðrar slíkar tilraunir, þá má segja, að fiskveiðunum sem heild og þjóðarbúinu sé unnið mikið tjón.

Nú er það m. a. vitað, að fiskigöngur eru ekki alltaf á sömu miðum. Norðmenn hafa undanfarin ár gert ítrekaðar tilraunir til þess að finna, hvernig fiskigöngum sé háttað, miðað við sjávarhita og strauma. Þessi þáttur okkar fiskirannsókna hefur verið látinn alveg vanræktur. Það hefur komið fyrir hvað eftir annað, að talsverðar fiskigöngur hafa verið í sjónum og síldargöngur, sem hafa ekki komið upp á yfirborðið og þess vegna ekki náðst, og þorskgöngur, sem hafa ekki haldið sig við botninn og veiðast þess vegna ekki í okkar venjulegu veiðarfæri. Eitt af ætlunarverkum fiskimálasjóðs var það að gera tilraun með ný veiðarfæri til þess að veiða fisk, þegar svo stóð á, að hann hagaði sér þannig, að hann veiddist ekki í þau venjulegu veiðarfæri, sem landsmenn nota árlega. En eins og ég sagði áðan, hefur þessi þáttur af starfi fiskimálasjóðs verið látinn alveg vanræktur. Við höfðum glöggt dæmi af því í vetur, hvaða þýðingu slík vanræksla getur haft, því að í vetur kom einhver sú mesta síldarganga, sem vart hefur orðið við hér við land. Hún var hér fyrir utan Garðskaga, en á því dýpi, að við höfðum ekki veiðarfæri til að ná til hennar. Ef við hefðum rækt okkar skyldu undanfarið árabil, þar á meðal stjórn fiskimálasjóðs, má telja líklegt, að verið hefði til veiðarfæri, sem hægt hefði verið að ná síldinni með, sem stóð þarna rétt við bæjardyrnar hjá okkur meginhluta vetrarins. Það er búið að búa þannig í haginn hér, að til eru allstórar verksmiðjur við Faxaflóa, a. m. k. fyrir 25 þús. mál á sólarhring, og það er enginn vafi, að ef við hefðum náð síldinni, sem var hér í vetur, þá hefðum við ekki þurft að vera í slíkum gjaldeyrisvandræðum og volæði sem við erum nú. Það er rokið til á síðustu stundu skipulagslítið og farið að gera tilraunir með ný veiðarfæri og gera athuganir á mjög óskipu1egan hátt, þegar allt er komið í óefni. Meiri hl. n. telur, að þetta megi ekki svo til ganga. Hann leggur því til, að varið verði fé úr fiskimálasjóði í miklu ríkari mæli, en verið hefur til þessara rannsókna og framkvæmda. En ef farið væri eftir till. minni hl., lítur út fyrir, að ekkert fé verði lagt úr sjóðnum til slíkra framkvæmda á þessu ári eða næstu, en það telur meiri hl. mjög illa farið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég þykist vita, að minni hl. geri grein fyrir sinni afstöðu í þessu máli. Ég get fyrir mitt leyti yfirleitt á margan hátt skilið það sjónarmið, þó að ég hins vegar geti ekki komizt hjá að láta þá skoðun í ljós, að ég hygg, að það sjónarmið mótist ekki af þeim stórhug og framsýni, sem nauðsynleg er til þess að reyna að tryggja, að við getum notað okkur fiskveiðar hér við land í eins ríkum mæli og við þurfum að gera.