14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

62. mál, kaup sjómanna síldveiðiflotans

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessi till., sem hv. þm. Siglf. (ÁkJ) hefur nú talað hér fyrir, fer fram á að fela ríkisstj. að hlutast til um, að nú þegar verði innleystar sjóveðskröfur þær, sem til hafa orðið vegna síldveiðanna s. l. sumar, og jafnframt verði sjómönnum þeim, sem kröfurnar eiga, greidd laun sín án frekari dráttar, eins og það er orðað. Hv. þm. sagði réttilega, að bankarnir mundu innleysa kröfurnar, þar sem þeir hefðu svo mikilla hagsmuna að gæta. Ég er að vísu sammála um, að hægara væri að ná þessu hjá bönkunum, ef þeir hefðu sama hugsunarhátt og hv. þm. En það vill nú oft verða svo, þar sem menn eru í ábyrgðum, að þeir greiða ekki fyrr en þeir hljóta að greiða. Ég mun síðar gefa skýrslu um það til viðkomandi n., hvað lagt hefur verið út til að létta af sjóveðum á undanförnum árum. Ég ætla, að það sé allt í allt komið upp í 29½ millj. kr., ýmist sem uppbætur eða aðstoð í öðru formi, og nefni ég þessar tölur til að sýna, að ríkið hefur ekki látið sjóveðin og vandræði af því tagi sér með öllu óviðkomandi. En nú eru þessi vandkvæði í höndum sérstakrar n., er hefur öll vandamál útvegsins til meðferðar, en í höndum ríkisstj. eru engar skýrslur um það, hvernig ástandið er í þessum efnum. Það hefur ekki heldur neinn beðið sjávarútvegsmálaráðuneytið að skerast í þessi mál. Hinu skal ég vel trúa, að margir hafi átt erfitt með kaupgreiðslur til sjómanna á þessu ári, eins og ég veit á hinn bóginn, að margir hafa þó klofið þær greiðslur. Ég tel sjálfsagt, að þessu máli verði vísað til nefndar.

Ég vil ekki taka undir ásakanir til bankanna um, að þeir hafi hvatt menn til að gera út á síld í ár, og væri þá ekki síður Alþingi að ásaka í því efni, ef nokkurn væri um að saka. Hitt er svo aftur raunalegt, að síldveiðarnar skyldu bregðast enn. Það er vitanlegt, að skuldaástand útvegsins fælir menn frá að sækja sjó, það er mjög alvarlegt mál. Hv. flm. þessarar till, ættu því að athuga, hvort afstaða þeirra hvað snertir sannvirði fyrir aflann sé ekki í ósamræmi við það ástand. Það er árum saman búið að taka við sjávaraflanum, eða gjaldeyri fyrir hann, á miklu hærra verði en sannvirði, og ekki er von á góðu, þegar í hendur helzt fiskleysi og mannanna verk, það er að segja það að reikna framleiðsluna með hærra verði en rétt er. — Ég er því samþykkur, að þessi till. fari til fjvn., því að ef ríkið ætti að framkvæma einhverjar aðgerðir í þessum efnum, væru það þær einar, sem sú n. tæki þátt í. Ríkissjóður getur hvatt bankana til að leysa sjóveð, en getur ekki fyrirskipað þeim það. Hins vegar er náttúrlega hægt að taka skellinn á ríkið, ef Alþingi velur þann kost.