25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

47. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa langt mál um efnishlið þessa frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að það hefur verið svo þrautrætt hér áður, að menn hafa efalaust gert sér fulla grein fyrir afstöðu sinni til þess. En aðaldeilumálið er, hvort leyfa skuli minkaeldi í landinu eða banna það. Mér hefur heyrzt á sumum hv. þm., að þeir teldu, að allflókið væri að leysa úr till. n., en ég held, að það sé næsta auðvelt, ef menn lesa málsskjölin. En ég skal nú skýra bæði vinnubrögð nefndarinnar og hvað er í till. hennar auk þess, sem hv. þm. hafa þegar kynnt sér. Á þessu þingi hafa komið fram tvö frv. um loðdýrarækt og loðdýraeldi. Annað er borið fram af hæstv. ríkisstj. í Ed., þar sem gert er ráð fyrir að leyfa minkaeldi í landinu framvegis, en lögð aðaláherzla á aukið eftirlit með því. Hitt frv. kom fram á svipuðum tíma í Nd. og er borið fram af þeim hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn., sem í aðalatriðum felur í sér bann við eldi minka og að öllum aliminkum sé lógað og breyta reglum um eyðingu villiminka. Þessu frv. var vísað mjög fljótlega eftir að það kom fram til landbn. Nd. N. athugaði málið og virtist nokkuð óeðlilegt, að tvö frv. um sama efni væru til umr. í þinginu á sama tíma, þar sem annað bannaði eldi aliminka, en hitt leyfði það. Eðlilegast var því að sameina umr. um málið og töldum við, að skoðanir með og móti minkaeldi gætu komið fram við umr. um hvort málið sem væri. Við ákváðum því að bíða eftir afgreiðslu frv. þess, sem lá fyrir Ed. Frv. gekk í gegnum Ed. með nokkrum breyt., sem leyfa minkaeldi með nokkrum takmörkunum næstu fimm árin, en þá skal lóga öllum aliminkum og hætta minkaeldi. Það voru einkum þrjú atriði, sem rætt var um í þessu sambandi í nefndinni, en það var ráðunauturinn, róttækar ráðstafanir til útrýmingar á villiminki og hvort banna skyldi minkaeldi í landinu. Um fyrsta atriðið urðum við sammála, að ráðunautsembætti í loðdýrarækt skyldi lagt undir Búnaðarfélag Íslands og þar með lagt niður sem sjálfstætt starf, og mun það hafa nokkurn sparnað í för með sér. Allir nm. voru sammála um annað atriðið, að gera eins róttækar ráðstafanir og mögulegt væri til útrýmingar á villiminki, og um það varð enginn ágreiningur í n. En ágreiningur varð fyrst og fremst innan n. um þriðja atriðið, hvort banna skyldi minkaeldi. Meiri hluti n. var sammála um það, að slíkt væri ekki heppilegt, heldur bæri að vinna að því öllum árum að útrýma villiminkinum. Meiri hl. taldi ekki, að öll hættan lægi hjá þeim minkum, sem nú væru í eldi, og mætti búa svo um, að þeir slyppu ekki úr vörzlu og þó að minkur og minkur slyppi, þá væri það ekki nema einn á móti hundruðum eða þúsundum villiminka. En á síðari árum hefur það getað verið arðvænlegt að ala minka, og hefur afkoma þeirrar atvinnugreinar batnað síðan genginu var breytt. Einnig er það kunnugt, að minkaalendur hafa lagt í allmikinn kostnað til að fá góð dýr til landsins, og má búast við nokkrum tekjum af því á næstu árum. Og við álitum, að á meðan ekki væri sýnt, að takast mætti að útrýma villiminkum úr landinu, þá væri gott að geta fengið nokkrar tekjur af aliminkum. En hv. minni hl. var á annarri skoðun í þessum efnum, en hann mun sjálfur gera grein fyrir henni hér á eftir. Minni hl. vildi láta útrýma villiminkum, en hann taldi það ekki nægilegt, heldur vildi hann einnig banna eldi minka og lóga þeim dýrum, sem nú væru til í landinu. Þetta er meginágreiningurinn á milli nm., og í samræmi við það eru till. nefndarhlutanna. Þannig stendur n. öll að og ber fram brtt. um útrýmingu villiminka, og eins og tili. bera með sér, eru þær mjög svipaðar till. þeim, sem þeir hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. báru fram í sínu frv. og aðeins um orðalagsbreytingar að ræða frá þeim. Hins vegar ber meiri hl. fram till. á þskj. 522, þar sem hann leggur til, að frv. sé fært í sama form og frv. ríkisstj. var í, þegar það var borið fram í Ed., sem sé ekki tekið fyrir leyfi manna til að ala minka. Minni hl. ber fram sínar till. á þskj. 523, þar sem lagt er til, að allt minkaeldi skuli bannað í landinu frá 1. jan. 1952. En það er, eins og ég sagði, höfuðágreiningsefnið innan n. og yfirleitt, þegar um þessi mál er rætt. Ég held því, ef menn athuga málið vel, að það komi mjög ljóst frá n. Það er um, hvort minkaeldi skuli bannað samkvæmt till. minni hluta, eða leyft, þó með nokkurri skerðingu, samkv. till. meiri hl.

Þetta mál hefur nú verið svo þrautrætt, að ég sé ekki ástæðu til að ræða það frekar, en vildi með þessum orðum skýra afstöðu n.