13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

121. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Þær brtt., sem ég flyt við þetta frv., hef ég sumpart flutt með hv. 4. þm. Reykv. og sumpart með hv. 8. þm. Reykv., og hafa þau bæði mælt fyrir þeim. Hef ég þar ekki miklu við að bæta. Þó vil ég fara nokkrum orðum um afstöðu mína almennt til þessa frv. og sjálfra tryggingalaganna.

Það eru nú liðin 6 ár síðan því var lofað með samningum þriggja stjórnmálaflokka árið 1944, og bak við þann samning stóð og stendur enn yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, að hér á landi skyldi komið á fullkomnu tryggingakerfi, sem yrði borgurunum vernd frá vöggu til grafar án tillits til stétta eða efnahags og eins fullkomið og í nokkru landi öðru. Á næstu tveimur árum var af heilindum unnið að efnd þessa loforðs, og árangurinn liggur fyrir í lögunum um almannatryggingar frá árinu 1946. Og enda þótt framkvæmd þessarar hugsjónar hafi í mörgum atriðum gengið seinna en tilgangur þeirra var, sem undirbjuggu þessa löggjöf, þá verður að segja, að reynt hafi verið að standa við hið stóra loforð frá 1944. Og þegar þessi lög voru sett, þá var það vitað, að þau mundu ekki komast í framkvæmd í öllum atriðum fyrr en smátt og smátt. Þannig hefur því verið frestað ár frá ári að láta þann hluta þessara laga koma til framkvæmda, sem ég tel hvað merkastan, og því borið við, að skilyrði til þess væru ekki enn fyrir hendi, en þar er um að ræða að veita hinum tryggðu heilsugæzlu og margs konar heilsuvernd frá vöggu til grafar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að það verði ekki fyrr en eftir 5 ár, að þetta komi til mála almennt. Það var svo með sjúkrabæturnar, að þær gengu ekki í gildi fyrr en árið 4948, t.d., og eins er með fleiri ákvæði þessara l., að almenningur hefur verið að átta sig á því síðan þau voru sett, hvaða rétt hann ætti samkv. þeim, og hann er ekki enn kominn til botns í því. Nú, þegar enn harðnar í ári, þá má vænta þess, að enn fastar verði leitað en áður eftir réttarbótum samkv. þessum lögum, og því enn ríkari nauðsyn, að Tryggingastofnunin fái að halda þeim tekjuafgangi, sem nú er mænt á. En bætur allar hafa sem kunnugt er rýrnað mjög í gildi síðan l. voru sett.

Í ákvæðum l. frá 1946 var gert ráð fyrir, að raunverulegt gildi bóta yrði látið haldast, og í bráðabirgðaákvæðum var gert ráð fyrir að miða við raunverulegan framfærslukostnað og endurskoða l. ekki síðar en á árinu 4950 með tilliti til slíkra breytinga á framfærslukostnaðinum.

Nú er vitað, að dýrtíð hefur aukizt svo í landinu, að gildi bótanna stenzt engan samanburð við það, sem þær höfðu, er l. voru sett. Það var lengi svo, að flestallar bætur voru greiddar með vísitölunni 300, enda þótt hin opinbera vísitala væri komin upp í 347 stig og þó röng, eins og einn sá hagfræðingur, sem mest er handgenginn hæstv. ríkisstjórn, lýsti yfir í fyrra. Hafa bæturnar þannig stórlega rýrnað og sífellt áframhald orðið á þeirri þróun.

Í frv. um þetta efni, sem lá fyrir þessari hv. d. í fyrra og undirbúið var af mönnum, sem höfðu reynslu í þessum málum, var gert ráð fyrir því, að þó sama grundvelli væri haldið, væri hægt að auka nokkuð bætur. Var gert ráð fyrir því að taka upp nýja flokka bóta — mæðralaun og uppbætur á elli- og örorkulaun. Í meðferð þessarar hv. d. á því frv. voru þær till. yfirleitt allar samþykktar. Þó var gerð breyting á 34. gr. til hins verra og í sömu átt og nú er gerð með 10. gr. þessa frv.

En við það höfum við gert þá brtt., að sú gr. falli niður.

Nú er allt það, sem endurskoðunarn. tryggingalaganna var sammála um að leggja til í fyrra, fellt úr frv., en þær till., sem hv. 4. þm. Reykv. og ég berum fram, eru yfirleitt á sama grundvelli og lagður var af endurskoðunarn. trygginganna í fyrra. Við beittum okkur fyrir því í fyrsta lagi, að iðgjöld til trygginganna yrðu að hækka jafnt fyrir alla, eins og raunar öll n. er sammála um. Mér er að vísu ljóst, að bæjar- og sveitarsjóðirnir eru þess lítt umkomnir, eins og þeirra fjárhag er komið, að auka gjöldin til trygginganna, en þó höfum við fallizt á, að ekki sé hægt að gera neinar undantekningar um bæjar- og sveitarfélög, ef allir aðrir aðilar greiða hærri gjöld til trygginganna.

Af þeim till., sem ég flyt með hv. 4. þm. Reykv. og má segja, að leiði af sér útgjöld fyrir Tryggingastofnunina, tel ég mest um vert b-lið við l. tili., að Tryggingastofnunin fáí heimild til að hækka lífeyrisgreiðslur til manna, sem eru eignalausir og búa við fullkominn skort á vinnugetu og einstæðingsskap. Ég hygg, að það verði allir sammála um, að þessi flokkur manna eigi við hin ömurlegustu og verstu kjör að búa af öllum og eigi þá ef til vill það bezta skilið af okkur, sem komnir erum á fullorðins ár og höfum einhver áhrif á það, við hvaða kjör þeir búa. Það er gamla kynslóðin, sem hefur í rauninni skapað það, sem til er í þessu landi, og stendur undir framförunum, sem hafa verið, og er nú að komast á elliár, og þeir, sem eru heilsulausir og án vinnugetu og auk þess eignalausir.

Í öðru lagi legg ég fyrir mitt leyti mesta áherzlu á hinn nýja flokk bóta, mæðralaunin, sem endurskoðunarn. tryggingamálanna var sammála um að leggja til að taka upp í fyrra, og eru þær uppbætur, sem gert er ráð fyrir með þessari brtt. okkar, hinar sömu sem þar er gert ráð fyrir.

Þá vil ég aðeins minnast á þær brtt., sem ég flyt með hv. 8. þm. Reykv., og eru 2 hinar fyrri þeirra um þann styrk, sem ætlaður er einstæðum mæðrum, sem allir viðurkenna, að geta átt við erfið kjör að búa. Þessar till. báðar hafa verið studdar eindregið af fulltrúum kvennasamtakanna í landinu, sem mættu hjá n., og leggja þær áherzlu á, að þessar brtt. við frv. nái fram að ganga, jafnvel frekar en nokkrar aðrar, og sumir töldu meira virði, að þessar breyt. á mæðrastyrknum, sem þessar 2 brtt. okkar fjalla um, næðu fram að ganga, töldu það jafnvel meira virði en mæðralaunin sjálf, sem fela þó í sér miklu meiri upphæð fyrir tryggingarnar. Það er viðurkennt, að þetta atriði muni ekki baka tryggingunum nein stórkostleg útgjöld, en þær konur, sem þessum málum eru kunnugastar, telja, að þetta sé stórkostlegt atriði fyrir einstæðar mæður, og hníga öll rök að því, að það sé ekki aðeins fyrir mæðurnar, heldur líka vegna barnanna, sem fæðast við þau kjör, að foreldrar eru ekki til taks að sjá fyrir þeim. Þess vegna legg ég áherzlu á, að þessi breyt. á gildandi l. verði ekki gerð, sem 10. gr. felur í sér.

Síðasta brtt. á þskj. 371 var samþ. hér í hv. d. í fyrra; ég flutti hana þá, og ég trúi varla, að hv. d. geti ekki enn samþ. hana. Hún er aðeins heimild til Tryggingastofnunarinnar og hefur ekki í för með sér verulegan kostnað fyrir hana, en opnar möguleika fyrir sjúkrasamlög að hjálpa heimilum í veikindatilfellum, og mundi kostnaður af því koma á þau sveitarfélög eða sjúkrasamlög, sem kynnu að veita slíka aðstoð.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., hv. meðflutningsmenn mínir hafa mælt fyrir þeim öllum mjög vel, og hef ég ekki meiru við það að bæta.