23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3285)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti. Mig langar til þess í sambandi við þetta frv. að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort hún hafi látið fara fram athugun á því, hve sá sparnaður yrði mikill, sem yrði við sameiningu þessara tveggja stofnana. Það er ekki hægt að sjá neitt um það atriði í grg., sem frv. fylgir. Það er sjálfsagt að sameina þessar stofnanir, en mér finnst óviðeigandi og óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki, um leið og hún leggur fram frv. um sparnað, gera nákvæma grein fyrir því, í hverju sparnaðurinn er fólginn og hvað hann nemur miklu. Enn fremur væri æskilegt að fá að vita um það atriði varðandi forstjóra þessara tveggja stofnana, hvor þeirra eigi að víkja eða hvort ráða eigi nýjan mann.

Þá mætti líka í þessu sambandi ræða um það, úr því að verið er að tala um einkasölur, hvernig þær eru reknar og hvað þær megi bjóða almenningi í viðskiptum, því að í þeim efnum er ekki í annað hús að venda. Nú upp á síðkastið hefur Tóbakseinkasalan haft vörur á boðstólum, sem fólk vildi almennt ekki kaupa, ef úr öðru væri að velja. Eins og hv. 3. landsk. þm. tók fram, hefur gengið um það orðrómur í dagblöðum hér, að ástæðan væri sú, að forstjóri stofnunarinnar hefði áhuga á því, að þessar tóbakstegundir væru fluttar inn, en ekki aðrar, — og vil ég engan trúnað á það leggja. En ég vil láta það koma fram hér, að hann hefur tjáð mér, að hann hafi verið neyddur til þess af ríkisstj. að flytja inn þessar tegundir, af því að þær eru ódýrari en aðrar, sem fólkið vill heldur kaupa. Ég tel það skyldu hæstv. ríkisstj. að hlutast til um, að þessi ríkisfyrirtæki hafi á boðstólum vörur, sem fólkið vill neyta, og komi í veg fyrir, að hægt sé að halda að því vörum, sem það vill ekki.