19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

62. mál, ítök

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa langa ræðu um þetta frv. Það er vel þekkt og hefur legið hér fyrir á tveimur þingum. Síðast þegar frv. þetta var hér til umr., vísaði Nd. því frá með rökst. dagskrá og óskaði þess, að það yrði lagt fyrir búnaðarþing til umsagnar. Þangað sendi hæstv. ríkisstj. málið, og var það tekið fyrir þar, og lagði búnaðarþing einróma til, að málið yrði samþ. með þeirri breyt., að 5. gr. orðist um, og þá breyt. hefur landbn. nú tekið upp í frv., þegar hún fékk frv. ásamt umsögn búnaðarþings frá ríkisstj.

Þessi breyt., sem gerð hefur verið á frv., er í því fólgin, að ítak geti heyrt undir báðar jarðirnar, ef vafi getur leikið á, hvor jörðin hafi meiri not af ítakinu. Við í landbn. höfum athugað þetta nokkuð, en erum ekki alls kostar búnir að ganga frá því, hvort við ættum ekki að breyta orðalaginu á 5. gr. Þar er gert ráð fyrir, að ef ágreiningur verður um það, hvort ítak notist betur af jörðinni, sem það er í, eða af jörðinni, sem á ítakið, þá skuli fara fram mat á því, og er þá gert ráð fyrir, að kostnaður við þetta mat greiðist jafnt af báðum aðilum. Sennilega mundi þó óvíða koma til þessa mats, en til þess að tefja ekki málið að óþörfu, gæti komið til mála að láta þann greiða kostnaðinn við matið, sem biður um það. Þetta var n. sem sagt ekki fyllilega búin að athuga, þegar hún flutti málið. En n. mun athuga þetta fyrir n. k. þriðjudag, hvort hún vill koma með brtt. við 5. gr. Þetta er ekkert höfuðatriði, en n. vill samt athuga þetta, og vænti ég þess, að hæstv. forseti taki málið ekki á dagskrá fyrir þann tíma.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara út í að ræða frv. Það er búið að ræða það á þrem þingum, og öll d. er sammála um nauðsyn þess. Landbn. mun samt athuga þetta, sem ég tók fram áðan, og koma með það fyrir þriðjudag.