31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

145. mál, skipun læknishéraða

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun ekki lengja umræður, herra forseti. Það var út af ummælum hæstv. dómsmrh. í fyrri ræðu hans, þar sem hann spurði, hvað hefði breytzt t. d. í Húnavatnssýslu eða í Blönduóshéraði, frá því að mest var rætt í hv. Nd. um kostina á því fyrirkomulagi að hafa tvo lækna í víðlendustu héruðunum. Sú breyting hefur á orðið síðan þessar umræður fóru fram, að Höfðakauptún eða Skagastrandarkauptún hefur vaxið upp og hefur nú, ætla ég, nálægt 400 manna íbúatölu, og það er örðugt og af því leiðir mjög verulegan kostnað fyrir svo fjölmennt þorp að þurfa jafnan að sækja lækni upp undir 25 km leið. Það er sú meginástæða, sem liggur til þess, að svo fast er sótt eftir því að skipta héraðinu, og ég ætla, að það sé ástæðan til þess, að landlæknir mælir með því, að svo sé gert, jafnvel þó að ekki sé búið .að framkvæma þá endurskoðun á skipun læknishéraða, sem allir eru sammála um að sé æskileg.

Að því er Kópavog snertir, þá er það rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að meðlimir sjúkrasamlagsins í Kópavogi leita yfirleitt til læknanna hér í Reykjavík og hafa samning við félagið hér um læknishjálp. Sá samningur er í höfuðatriðum ekki ósvipaður þeim samningi, sem sjúkrasamlagið hér í Reykjavík hefur gert við læknana, en þó er sá munur á, að sérstakur aukakostnaður fellur á vegna bílferða suður í Kópavog, vegna fjarlægðarinnar, sem þangað er. Væri sérstakur héraðslæknir skipaður í þetta hérað með búsetu í Kópavogshreppi, þá ættu héraðsbúar rétt á því, að hann gegndi kalli fyrir venjulegan héraðslæknistaxta, sem er stórum lægri en sú greiðsla, sem embættislausir læknar, praktiserandi læknar hér í Reykjavík taka fyrir sín störf. Ég skal náttúrlega ekki um það fullyrða, hvort meginhluti Kópavogsbúa mundi notfæra sér þetta og halda sig að héraðslækninum, en mér þykir ákaflega líklegt, ef vel tækist til um val á þeim manni, að það mundi mikill hluti þeirra gera, af þeirri einföldu ástæðu, að það er auðveldara að ná til læknisins og það er kostnaðarminna að vitja hans, heldur en að sækja praktíserandi læknana hingað inn í Reykjavík. Kópavogur er orðinn það stórt hérað, hátt á þriðja þús. manns, að það er auk þessa nauðsynlegt að hafa þar mann í ráðum með allar heilbrigðisframkvæmdir í kauptúninu og annað þess háttar. Það er ekki fullt starf, — það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., — en kauptúninu er nauðsynlegt í sambandi við framkvæmd heilbrigðismálanna að hafa þar mann, sem getur verið þeirra ráðunautur í því efni og aðstoðað þá við samningu reglugerða og eftirlit með því, að þeim sé framfylgt.

Ég hef, síðan ég talaði hér áðan, reynt að kynna mér nokkuð afstöðuna til þessa máls hér í deildinni og þykist sjá fram á það, að ekki séu neinar líkur til, að fram nái að ganga skipting Blönduóshéraðs, sem er nú það atriði í frv., sem ég legg áherzlu á, og mun ég því greiða atkv. með till. til rökstuddrar dagskrár frá hv. þm. Barð. og sjá, hvernig hún fer, en að öðru leyti vísa ég um afstöðu mína í nefndarálitið á þskj. 677.