29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

211. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig mjög skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. komi með till. um slíka frestun samkomudags næsta Alþ. sem þessa. Hins vegar hefði ég álitið, að Alþ. sjálft gæti ekki verið eins ánægt með slíka breytingu. Sannleikurinn er, að við hverfum raunverulega frá allmörgum verkefnum óleystum, þegar við förum heim nú, sem þurfti að leysa í byrjun þessa árs. Útlitið viðvíkjandi fiskframleiðslunni, fiskmörkuðunum og þar með öllu atvinnulífinu er það slæmt, að ég álít það ákaflega leitt, að Alþ. hverfi þannig frá þessu. Það er ákaflega skiljanlegt náttúrlega, að það væri óhugsandi að hafa fjárl. tilbúin fyrir annað þing 15. febr., en þau vandamál, sem raunverulega bæði fjárl. og öll okkar afkoma byggist á, eru í slíkum ólestri nú sem stendur, að það er ákaflega leitt fyrir Alþ. að þurfa að hverfa frá því nú í slíku ásigkomulagi. Hins vegar veit ég, að hæstv. ríkisstj. hefur öruggan meiri hl. til að koma þessum málum fram, og enn fremur er það sökum meiri hl. hennar á þinginu í hennar valdi að koma í veg fyrir skynsamlegar aðgerðir viðvíkjandi okkar atvinnulífi, þannig að það þýðir auðvitað lítið sem ekkert, eins og þing er skipað, að reyna að fá fram þarna breytingu á eða reyna jafnvel að knýja það fram, að nýtt þing taki við 15. febr., sem reyndi að leysa þessi vandamál. Þess vegna vildi ég aðeins láta í ljós mína afstöðu um þetta, en mun að öðru leyti ekki reyna að berjast gegn þessu frv. út af fyrir sig. Hins vegar held ég, ef sú efnahagskreppa, sem full ástæða er til að óttast að sé að skella yfir okkur, harðnar svo á næstu mánuðum, að jafnvel hæstv. ríkisstj. sæi sér ráðlegt að ræða við Alþ., að það væri í öllu falli heppilegt, að þetta Alþ. væri ekki rofið fyrr en það er nauðsynlegt kosninganna vegna,enda býst ég nú satt að segja við, að hæstv. ríkisstj. muni varla hafa hugsað sér að rjúfa það fyrr, þannig að ef til kæmi og efnahagsástandið og útlitið í því versnaði að mun, þá sé a.m.k. möguleiki fyrir ríkisstj. til þess að kalla Alþ. saman.

Ég mun fyrir mitt leyti ekki gera neina till. um n. í málinu, þó að ég geti tekið undir með forsrh. um það, að það væri kannske eðlilegt, að það færi til allshn., til þess að viðhalda venjum viðvíkjandi þessu, en ég mun á engan hátt reyna að tefja neitt fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga.