08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

161. mál, okur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem mig langaði til að segja hér í tilefni af þessum umræðum og þá sérstaklega í tilefni af þeim ummælum hæstv. dómsmrh., að hann furðaði sig á því og tryði því varla, að nokkurt okur hefði getað átt sér stað í sambandi við ákveðið fyrirtæki, sem hér hefur verið talað um undir rós í umræðunni, ekki nefnt fullu nafni. Hann sagðist draga það mjög í efa, að slíkt okur eða að slíkir hlutir hefðu getað gerzt þar, eins og hér hefur verið talað um af hv. 2. þm. Reykv. (EOl), þannig að enginn aðili kærði, hvorki opinberar lánsstofnanir, sem hjá þessu fyrirtæki hefðu átt, né forstöðumaður fyrirtækisins.

Nú vil ég af þessu tilefni geta þess, að það hafa margir menn við mig sagt, og ég býst við, að fleiri hafi heyrt það líka, svo að þess vegna megi segja, að það sé almannarómur, að sumar af peningastofnunum landsins reki ákaflega einkennileg viðskipti nú á dögum, viðskipti, sem maður getur látið sér detta í hug að ýti blátt áfram undir okurstarfsemi í þjóðfélaginu. Það hafa allmargir menn sagt við mig, suma gæti ég nefnt með nöfnum, því að ég man þau og kannske af tilviljun. Ég ætla þó ekki að gera það hér á þessum stað. Þeir hafa sagt það við mig, að þeir hafi komið til lánsstofnana hér banka, — að vísu skal ég taka það fram, að einn banka hér í bæ hef ég aldrei heyrt nefndan í þessu sambandi, en þori ekki að fullyrða um, að það sé nema einn, sem er undanþeginn, — þeir hafa komið til banka og óskað eftir að fá lán og fengið þau svör frá yfirmönnum bankanna, að ef þeir gætu fengið einhverja menn til að leggja þá upphæð, sem þeir fara fram á að fá lánaða, inn í bankann, þá skuli bankinn veita þeim lán á eftir. Menn vilja túlka þetta á þann veg, að ef þeir þekki einhverja menn, sem er sama hvort þeir eiga sitt fé í þessum banka eða öðrum, geti fengið þá til að leggja það inn í þennan ákveðna banka, sem þeir hugsa sér að hafa við viðskipti í þessu augnabliki, með því að bjóða þeim sérstaka borgun fyrir, hvað há hún er, skal ég láta ósagt um, hún getur verið mishá eftir því, hvaða menn eigast við, — að þá geti þeir fengið lánið hjá bankanum. Ef þetta er rétt, sem ég hef enga ástæðu til þess að daga í efa, — þetta hafa trúverðugir menn sagt mér, — þá eru bankarnir með þessu móti að ýta undir okurlánastarfsemi í landinu. Og ef svo væri, þá gæti það orðið skiljanlegt, hvers vegna þeir kæra sig ekki um og óska ekki eftir að mál slíkt sem hér hefur verið nefnt undir rós fari til rannsóknar.

Ef það er einnig rétt, sem ég hef heyrt, ég tek það fram, að ég veit ekki um það, ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. dómsmrh., hvort hann hefur heyrt það, — að það fyrirtæki, sem hér hefur verið nefnt undir rós, eins og ég hef sagt, hafi skuldað allmörgum mönnum, sem virðast í sambandi við lánsfé í landinu vera hálfóviðkomandi aðilar, — ef þetta fyrirtæki hefur skuldað þeim stórfé, sem skattskýrslur þeirra t. d. báru ekki með sér að þeir ættu, hvorki hjá þessu fyrirtæki né annars staðar, var þá engin ástæða til þess að rannsaka málið? Ef það er enn rétt, að við það, að þetta fyrirtæki stöðvaði reksturinn, hafi umræddir menn — fyrir utan lánsstofnanir — gefið eftir af sínum kröfum 40%, en bankar í þessu þjóðfélagi tekið að sér að lána þessum mönnum þessi 40%, sem þeir gáfu eftir, til svo og svo margra ára, er það þá ekki eitthvað óeðlilegt? Gefur það ekkert tilefni til að athuga málið nánar? Ef maður gæti sem sé látið sér detta í hug, að til væru bankar, sem væru orðnir svo flæktir í þessi mál, að þeir bættu okrurunum, sem svo hafa verið nefndir, það tap, sem þeir biðu í þessu eina tilfelli, með því að lána þeim fé til þess að verzla með í fimm ár, gefur það þá ekki tilefni til þess að rannsaka þessi mál — og það enn þá ríkara tilefni en annars hefði verið? Þarna gæti verið fundin ástæðan fyrir því, að meira að segja peningastofnanirnar kæra ekki út af þessu tilfelli. Um okrarana sjálfa, hvers vegna þeir kæra ekki, þarf enginn að spyrja; það liggur ljóst fyrir. En hvers vegna kærir ekki verzlunarstjórinn, sem var þriðji aðilinn, sem hæstv. dómsmrh. nefndi í málinu? Gæti það ekki stafað af því, að ef hans fyrirtæki hefði á þennan hátt verið flækt í svona mál, þá hefði fyrirtækið ekki getað haldið uppi löglegu bókhaldi, ekki gefið réttar skattskýrslur o. s. frv., og hefði þess vegna, ef það hefði kært og rannsókn farið fram, raunverulega kært sjálft sig um leið fyrir önnur brot í málinu.

Mér virðist sem sagt, að í þessu máli, sem hér hefur lauslega verið vikið að, liggi á borðinu svo margir óheilbrigðir eða vafasamir hlutir, að það hefði átt að gefa hæstv. dómsmrh. nægilega ástæðu til að láta fara fram rannsókn af þessu tilefni. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að ég stórfurða mig á því að það skuli ekki hafa verið látin fara fram rannsókn í þessu tilefni. Og það út af fyrir sig, að þarna verður ekki beint gjaldþrot, vegna þess að þar grípa inn í öfl — kannske til að bjarga því við — ætti ekki og mætti ekki koma í veg fyrir rannsókn.

Fleira held ég að sé óþarfi að taka fram í þessu sambandi. Af ummælum hæstv. dómsmrh. virðist mér mega vænta þess, að till. sú, sem hér er til umræðu, eigi hans fylgi að fagna, og ég vona, að það sé svo um hæstv. ríkisstj. í heild og hv. þingmenn alla. Ég vænti því góðs af samþykkt þessarar till. og starfi þeirrar n., sem hér er lagt til að verði sett á stofn.