02.11.1954
Sameinað þing: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. lagði þá spurningu fyrir mig, hvort um það hefði verið samið við Bandaríkjamenn, eftir hvaða reglum Íslendingar mættu fara inn á varnarsvæðið. Því svara ég neitandi. Þeir hafa ekki verið um það spurðir, enda hafa þeir sagt það sjálfir, að þeim kæmi það ekki við, það væri okkar mál að sjá um það.

Ég vil hér með leggja nokkrar spurningar fyrir hv. 8. þm. Reykv. — Hann talaði um eitthvert atriði, sem allur almenningur kvartaði undan. Ég vil spyrja hann: Hvaða atriði er það, sem almenningur hefur kvartað undan í framkvæmdum varnarsamningsins? Og svo vil ég enn fremur spyrja hann: Hvaða rök eða líkur hefur þessi hv. þm. fyrir því, að Hamilton-félagið fari ekki á þeim tíma, sem ég hef minnzt á, þ. e., að það hafi lokið vinnu um áramótin og fari svo smátt og smátt í burtu? Hann reyndi að gera gys að því, að þeir þyrftu tíma til þess að taka saman pjönkur sínar eða eins og hann sagði: taka saman skóflur sínar. Hér er um að ræða mikið af vélum og tækjum, sem tekur langan tíma að ganga frá og búa undir brottflutning úr landinu. Svo vildi ég enn fremur spyrja þennan hv. þm.: Hvaða nauðsyn ber honum til að vita um vissar reglur? Ég er margbúinn að segja, að þessar reglur hafa verið settar sem leyndarmál. Reglurnar hafa komið í okkar hendur sem leyniskjal, og því getum við ekki gefið þær upp, hversu mikið sem um þær er spurt, enda höfum við enga ástæðu til þess að brjóta trúnað við Bandaríkjamenn í þessu efni. Ég er búinn að skýra frá aðalefninu úr þeim. Það hefur verið samið um, hversu margir Bandaríkjamenn mega fara út af vellinum og hvað þeir mega vera lengi og eftir hvaða reglum leyfi skuli gefin. Þetta er efnið í þeim, og ég álít, að þetta sé fullkomlega nægilegar upplýsingar. Hv. þm. dró það í efa, að Ameríkumenn færu eftir íslenzkum umferðarreglum. Þetta er hin mesta fásinna. Bandaríkjamenn fylgja alveg íslenzkum umferðarreglum. Ef þeir brjóta þær, þá er þeim refsað engu síður en Íslendingum. — Hann sló þeirri fullyrðingu fram, að það væru undarlegar reglur, sem hermennirnir vissu ekki, hverjar væru. Ég skal upplýsa fyrir honum, að sá hermaður eða starfsmaður á vellinum, sem fær leyfi, fær vegabréf í hvert skipti, og í því vegabréfi stendur, hve lengi hann má vera í burtu. Það er því ekki torskilið plagg fyrir hermanninn eða þann, sem hefur fengið leyfi. Ég fullyrði, þótt hv. 8. þm. Reykv. dragi það í efa, að það hefur stórkostlega dregið úr ferðum manna af vellinum til Reykjavíkur og til annarra staða. Bezta sönnunin fyrir því er, að blað hans hefur algerlega þagað um þetta efni mánuðum saman. Það mundi áreiðanlega ekki láta það liggja í láginni, ef eitthvað væri verulegt að í þessu máli, því að a. m. k. hefur það gengið svo langt að búa til sögur, sem tæplega geta talizt heiðarlegar, eins og þegar það gerði fyrirspurn um það, hvað sá ameríski bíll hefði verið að gera, sem keyrði á manninn í Hafnarfirði, þó að allir viti, að það voru Íslendingar, sem voru í bílnum. Þetta var gert á móti betri vitund og ekki í góðum tilgangi.

Ég fullyrði það, að hermannaferðir hér í bænum séu ekkert vandamál lengur, og eins og ég sagði áðan í framsöguræðu minni, þegar verkamennirnir eru farnir í burtu, þá dregur vafalaust enn þá meira úr umferðinni. Ég hef enga ástæðu til að vantreysta þeim yfirmanni, sem nú er á vellinum. Ég hef ekki reynt hann að öðru en að hann stæði fullkomlega við það, sem hann hefur lofað. Ég veit enn fremur, að ef reglur, sem hann hefur sett, hafa verið brotnar af hermönnunum, þá hefur hann látið koma fram strangar refsingar fyrir það.