21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (1812)

22. mál, landkynning og ferðamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 5. landsk. (EmJ) spurðist fyrir um það, hvaða innlendir aðilar væru óánægðir með það skipulag, sem nú er á þessum málum. Hann virtist ekki hafa orðið var sjálfur við slíka óánægju og svaraði sér sjálfur, að það mundu vera innlendar ferðaskrifstofur og umboðsmenn erlendra ferðaskrifstofa.

Nú er það svo, að eindregins fylgis með þessu frv. og andúð og óánægju gegn núverandi skipulagi hefur orðið vart m.a. frá Sambandi gistihúsa- og veitingahúsaeigenda, sem eru þó ekki þeir aðilar, sem hv. þm. nefndi, og enn fremur frá hinu nýja félagi áhugamanna um þessi mál, Ferðamálafélaginu. Ég býst ekki við, að hv. þm. við athugun vilji væna þessa aðila um það, að þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta sem umboðsmenn fyrir erlendar ferðaskrifstofur.

Þeir menn, sem fást við gistihúsarekstur og veitingahúsarekstur, vita auðvitað ákaflega vel, hversu ferðamálin og landkynningin eru þýðingarmikil, ekki einungis fyrir þá sjálfa, heldur fyrir landið. Og Ferðamálafélagið, sem er samtök áhugamanna hér, hliðstætt því, sem er í nágrannalöndum, telur núverandi skipulag á þessum málum algerlega óhafandi.

Það er þess vegna mikill misskilningur, ef menn halda, að engir séu óánægðir með núverandi skipun aðrir en innlendar ferðaskrifstofur, sem vilja fá athafnafrelsi, og umboðsmenn erlendra ferðaskrifstofa.

Hv. 5. landsk. sagði, að aðalefni þessa frv. væri að leggja ferðaskrifstofuna niður. Þetta er misskilningur, því að samkv. frv. á ferðaskrifstofan að starfa áfram. Hann orðaði það einnig þannig síðar í sinni ræðu, að .hún yrði lögð niður í sínu núverandi formi. Ef til vill telur hv. þm. það að leggja ferðaskrifstofuna niður, ef hún er svipt einokunaraðstöðunni, en í frv. er einmitt gert ráð fyrir, að ferðaskrifstofan starfi áfram og í verulegum atriðum að þeim sömu verkefnum og hún hefur unnið þegar, en hins vegar þær tvær breytingar, sem ég gat um, annars vegar, að fleiri fái heimild til þess að starfa að þessum málum, og að ferðaskrifstofan verði sett undir hið nýja ferðamálaráð.

Nú er það svo, að um mörg atriði í þessu frv. virðast menn sammála, bæði hv. 5. landsk. og forstjóri ferðaskrifstofunnar, sem skrifaði ýtarlegt álit um málið í fyrra. Forstjóri ferðaskrifstofunnar virtist út af fyrir sig vera ánægður með það, að stofnaður verði ferðamálasjóður samkv. frv., en ríkissjóður á eftir því að leggja fram hálfa milljón á ári, auk þess sem ferðamálaráð á að gera till. um fjáröflun að öðru leyti til sjóðsins, og þessi sjóður á að standa undir kostnaði við þessi mál, landkynningu, og veita lán til gistihúsbygginga og annarrar fyrirgreiðslu og bættrar aðstöðu. Enn fremur virtist á umsögn forstjóra ferðaskrifstofunnar, að hann hefði ekki við það að athuga, að stofnað væri ferðamálaráð og þar tengdir saman til sameiginlegra átaka þeir aðilar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta og mestan áhuga á þessum málum.

Það, sem andstaðan snýst um, og þar miðar allt að einum punkti hjá hv. 5. landsk. og forstjóra ferðaskrifstofunnar, er einkarétturinn og aftur einkarétturinn. Þessari einokunaraðstöðu, sem ferðaskrifstofunni er tryggð til þess að taka á móti erlendum ferðamönnum, á að halda, hvað sem það kostar. Nú hef ég ekki heyrt rök, sem a.m.k. mér þykja frambærileg fyrir því, að skipan þessara mála þurfi endilega að vera allt önnur hér á okkar landi en annars staðar á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu. Í öllum þessum löndum er starfsemi ferðaskrifstofa frjáls, og það þykir bæði æskilegt og nauðsynlegt að hafa hana frjálsa. Í sumum þessara landa hafa t.d. samherjar hv. 5. landsk., sósíaldemókratar, haft árum saman meiri hluta á þingum og farið með stjórn landanna. Það virðist aldrei hafa hvarflað að þeim að taka upp þennan hátt eftir hinni íslenzku fyrirmynd, að einoka starfsemi ferðaskrifstofu og landkynningar. Það hafa þeir ekki gert í Danmörku, ekki í Noregi, ekki í Svíþjóð, ekki í Englandi á valdatímum sósíaldemókrata þar. Það virðist því vera einhver sérstök grein af sósíaldemókratíinu hér uppi á Íslandi, sem krefst þess, að þetta skuli vera með allt öðrum hætti hér en annars staðar. Og eftir því sem ég hef rætt við erlenda menn um þessi mál, sem ég skal viðurkenna að ekki er ýkjamikið, þá hefur mér alls staðar heyrzt á mönnum, að þeir telji þetta mjög óeðlilegt skipulag, að ein ríkisskrifstofa hafi einokun í þessu efni.

Það eru rök að vísu, ef rök skyldi kalla, gegn þessu frv. og með einokuninni, sem hv. 5. landsk. orðaði hér, að það væri hættulegt, að starfsemin væri bútuð niður í marga smáa parta, þannig að enginn ynni af fullum krafti að þessum málum. Þetta eru auðvitað hin sígildu rök ríkisrekstrar- og þjóðnýtingarmanna, að það megi ekki nema einn aðili komast að neins konar atvinnurekstri eða viðskiptum, en við höfum nú mörg dæmi þess, að hvort tveggja hefur sýnt sig. Við höfum dæmi þessa í nokkur ár til dæmis. Ég nefni það vegna þess, að þessi sami hv. þm. hafði töluvert með þau mál að gera sem ráðherra, að ríkið rak hér og hafði einokun á fólksflutningum, bæði norður í land og hér milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Og það voru vitanlega þau rök, að ríkið yrði að sjá um þetta, það væri hættulegt að fara að skipta þessu niður og að fleiri aðilar kæmust þar að. Þetta hefur nú samt sem áður verið gert. Niðurstaðan er sú, að ég ætla, að almenningur telji þjónustuna alveg jafngóða eða jafnvel betri við sig. En ríkissjóður hefur verið losaður við milljónahalla af þessum atvinnurekstri.

Ég býst við, að fari alveg eins þegar að því kemur, að einokun ferðaskrifstofunnar verður aflétt, því að það er bara tímaspursmál, hvenær að því kemur. Þegar að því kemur, munu menn sjá, að hér blómgast atvinnuvegur og fyrirgreiðsla í þessum málum, sem hefur mikla þýðingu fyrir alla íslenzku þjóðina. Þá munu risa upp margir nýir aðilar, sem vinna að þessum málum, og ferðamannastraumur hingað mun vaxa í stórum stíl og allur aðbúnaður stórbatna, til þess að þetta geti, eins og í okkar nágrannalöndum, t.d. þá fyrst og fremst Noregi, orðið þýðingarmikil atvinnugrein og lyftistöng fyrir íslenzku þjóðina í heild.

Ég hef ekki og vil ekki kasta neinni rýrð á ferðaskrifstofuna eða forstöðumann hennar, sem vafalaust er samvizkusamur maður og reynir sitt bezta í þessum efnum. En hinu er ekki að neita, að framfarirnar í þessum efnum hafa ekki verið neitt svipaðar hjá okkur og í öðrum löndum, þar sem hið frjálsa skipulag hefur ríkt. Við vitum, og það viðurkenna allir, að skipan þessara mála er í hinum megnasta ólestri hjá okkur, fyrst og fremst gistihúsamálin, en enn fremur landkynningarmálin, þannig að hér er þörf stórfelldra umbóta. Og ég vil ekki segja, að það sé á neinn hátt ferðaskrifstofunni eða hennar forstjóra að kenna, að svo hefur til tekizt. Ég vil segja, að það er sumpart skipulaginu að kenna og sumpart of litlum skilningi ýmissa ráðamanna þjóðfélagsins á þessum málum. En reynslan í þessu er sú, að eftir að hafa prófað þessa skipan einokunarinnar í nærri tvo áratugi, eru málin í þessu ófremdarástandi. Hvers vegna þá ekki, ef menn viðurkenna nauðsynina á umbótum i þessu, að ganga hreint til verks og reyna að skapa hér nýja forustu? Það er eitt aðalefni þessa frv. að tengja saman og laða til samstarfs alla þá aðila, sem helzt hafa um þessi mál að fjalla, hafa áhuga og hagsmuna að gæta, laða þá til samstarfs í ferðamálaráðinu, sem hafi forgöngu um verulegar og raunhæfar umbætur í þessum málum.

Ég ætla, að það þurfi ekki að ræða þetta mál frá minni hendi frekar við þessa umr. Við flm. birtum með frv. okkar umsagnir þriggja aðila, sem leitað var til í fyrra. Hv. 5. landsk. spurði, hvers vegna við birtum ekki fjórðu umsögnina, frá ferðaskrifstofunni. Það er miklar upplýsingar úr þeirri skýrslu að fá. Það er allt að því heil bók. Og þó að ekki væri önnur ástæða en sparnaðarástæða, þá vildum við ekki fara að láta prenta heila bók sem fskj. með þessu frv. En ég vil bæta því við, að ég held, að árlega hafi forstjóri ferðaskrifstofunnar sent þingmönnum fjölritaða skýrslu um störf ferðaskrifstofunnar, og í þessari skýrslu, sem hv. þm. minntist á, er flest það sama og áður hefur komið fram í þessum fjölrituðu skýrslum.