28.01.1956
Neðri deild: 54. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

146. mál, framleiðslusjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til 1. umr. og lagt er fram af ríkisstj., frv. til l. um framleiðslusjóð, er án efa eitt af stærstu málum, sem legið hafa fyrir þessu þingi, og væri áreiðanlega hægt að gera þá réttmætu kröfu til ríkisstj., að hún gerði ýtarlega grein fyrir, hvað það er, sem veldur, að hún hefur talið nauðsynlegt að bera fram till. um svo þunga skatta á þjóðina sem frv. þetta mælir fyrir um, og jafnframt, á hvaða rökum hún reisir þörfina fyrir þær framleiðslubætur þeim til handa, sem frv. ákveður slíkar bætur.

Þetta mál hefur að vísu að því leyti nokkuð verið rætt, að bæði hefur ríkisstj. gefið út tilkynningar um, hverjar umbætur hún hafi hugsað sér í þessu máli, fyrir nokkrum dögum, auk þess sem á málið hefur oft verið minnzt hér á Alþingi, svo að segja má, að hv. þm. sé efni þess nokkuð kunnugt. Þó þykir mér skylt að fara um málið nokkrum orðum og skal leitast við að hafa þau ekki fleiri en nauðsyn býður, en vænti, að menn virði mér til vorkunnar, þó að ég þurfi að hafa mál mitt kannske lengra en mín er venja.

Eins og allir muna, gerðu menn sér ljóst, þegar kauphækkanir urðu hér á s. l. vori, að af því mundi leiða margvíslegar breytingar og raskanir í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Þessar kauphækkanir voru í öndverðu taldar frá sjónarmiði atvinnurekandans nema 13.6%. Afleiðing af þeim varð að sjálfsögðu hækkað þjónustugjald á öllum sviðum, sem svo að íslenzkum lögum leiddi til hækkaðs verðlags á landbúnaðarafurðum, og allt hefur þetta svo leitt til vísitöluhækkunar, sem einnig var séð fyrir að verða mundi, þannig að nú eru kaupgjaldshækkanirnar orðnar, að því er fróðustu menn telja, tæp 22%.

Það gefur nú auga leið um það, að íslenzk framleiðslustarfsemi er ekki bær um að standa undir slíkum kaupgjaldshækkunum, án þess að einhverjar bætur komi fyrir eða aðstoð komi einhvers staðar frá í þeim efnum, og bið ég menn þá að hafa hugfast, að einn hinn langveigamesti þáttur í framleiðslukostnaðinum er einmitt kaupgjaldið.

Varðandi bændurna og aðstoð til þeirra minni ég á það, að samkv. íslenzkum lögum eiga þeir kröfu á vissu verðlagi á afurðum sínum, sem miðast við afkomu annarra stétta í landinu. Á s. l. hausti stóðu sakir þannig, að fyrir bændur var að velja milli þess að gera annað tveggja, að hækka verðlag þess hluta kjöts, sem selt var á innlendum markaði, nægilega mikið til þess, að þeir bæru úr býtum fyrir heildarkjötmagnið að meðtöldu því, sem út var flutt, það, sem þeim bar, til þess að kjötverðið yrði nægjanlega hátt til myndunar þeirra tekna, sem bóndinn á kröfu til samkv. áðurgetnum lögum, eða hins vegar að hætta við þessa hækkun á kjötverðinu á innlendum markaði gegn því, að ríkisstj. gæfi þeim fyrirheit um uppbætur á útflutt kjöt, áætlað 1500 smál. minnir mig, sem jafngiltu uppbótunum, sem sjávarútvegsmenn fá á sínar vörur í formi bátagjaldeyrisins, en einmitt svipaðar uppbætur voru taldar nægja til þess, að bóndinn bæri sitt úr býtum samkv. gildandi lagaákvæðum.

Ríkisstj. valdi síðari kostinn, að gefa fyrirheit um að beita sér fyrir, að slíkar bætur væru veittar bændum, og gerði það ekki fyrir bændurna eina, — og það segi ég þeim til minnis, sem telja allt ofan í bændur, — heldur var þetta gert fyrir heildarhagsmunina. Hækkun á kjötverðinu innanlands hlaut að leiða til verulegrar hækkunar á vísitölu, sem þá bitnaði á öllum þeim, sem kaupgjald þurfa að greiða. Nú er gerð tilraun til að efna þetta heit með þessu frv., þar sem ætlað er samkv. því að verja úr hinum svokallaða framleiðslusjóði, sem frv. fjallar um, 15 millj. til uppbóta á útflutningsvöru bændanna. Ég skal ekki fjölyrða um þá hlið málsins, en vil leyfa mér að vísa til þess, sem hæstv. landbrh. kann um það að segja, ef hann telur frekari skýringa þörf.

En nú var eftir hlutur sjávarútvegsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tekjur sjávarútvegsins eða tekjuhliðin byggist fyrst og fremst á tvennu, annars vegar á aflamagninu, sem hverju sinni berst að landi, og hins vegar á verðlagi á erlendum markaði. Yfir hvorugu ráðum vér Íslendingar nema að óverulegu leyti. Við höfum þó nokkur áhrif á aflamagnið að því leyti að taka í okkar þjónustu þá tækni, sem á hverjum tíma er fullkomnust. Við höfum leitazt við að gera það og gengið á undan öðrum í þeim efnum, a. m. k. ekki látið okkar hlut eftir liggja, og þurfum engan kinnroða fyrir það að bera. Varðandi hins vegar verðið á erlendum markaði erum við mörgum og mörgu háðir og getum á það ákaflega lítil áhrif haft. Við höfum á undanförnum árum reynt að leita nýrra markaða sem allra víðast. Hvort það þykir nóg, sem að því hefur verið gert, skal ég ekki staðhæfa neitt um, en talsvert og raunar mikið hefur verið aðhafzt og árangur af því orðið góður, og er sjálfsagt að halda áfram á þeirri braut. En vitaskuld spyr kaupandi íslenzks fisks ekki að því, hvað kosti að framleiða þann fisk á Íslandi, heldur að hinu, hvers virði honum sé þessi matvara, miðað við aðra matvöru af sama tagi eða svipuðu, sem hann gæti keypt. Við erum þess vegna ævinlega því ofurseldir, að þær þjóðir, sem búa við lægri framleiðslukostnað, hafi aðstöðu til þess að bjóða sína vöru lægra verði og þar með að hindra sölu á okkur vöru eða knýja okkur til verðlækkunar umfram það, sem við höfum aðstöðu til, ef litið væri á framleiðslukostnaðinn einan. Það er einmitt við þennan vanda, sem við höfum orðið að glíma. Það er vegna þess, að þessi vandi verður ekki umflúinn, sem íslenzk stjórnarvöld hafa á undanförnum árum æ ofan í æ orðið að leita nýrra úrræða til þess að bæta upp framleiðslustarfseminni og þá einkum við sjávarsíðuna það, sem af framleiðslunni hefur verið heimtað umfram gjaldgetu hennar, eins og hún er raunverulega, með tilliti til þess, sem ég áðan var að geta um.

Árið 1949 var svo komið, ef ég man rétt, að flotinn var að stöðvast og þótti þurfa milli 100 og 200 millj. kr. í nýja skatta til að fullnægja þeim kröfum, sem hann þá bar fram til að skapa hinn svokallaða rekstrargrundvöll. Upp úr því spannst svo gengisfellingin, sem ætlað var að mætti nægja að minnsta kosti í bili. Hún reyndist ófullnægjandi, og liggja til þess margar orsakir, m. a. verðhækkun á erlendum markaði á okkar nauðsynjavörum og sú staðreynd, sem ekki verður hrakin, að íslenzkt verzlunarárferði var mjög lélegt einmitt á þeim árum. Það varð þess vegna þá að grípa til nýrra bjargráða, og þá var sett á hið svonefnda bátagjaldeyriskerfi, sem hér er margrætt, flókið kerfi, sem ég ætla að reyna að komast undan að þurfa að skýra, í trausti þess, að allir hv. alþm. þekki það. Þetta kerfi hefur svo verið til endurskoðunar um hver áramót, þannig að fulltrúar Landssambands íslenzkra útvegsmanna hafa átt viðræður við fulltrúa ríkisstj. um svonefndan starfsgrundvöll fyrir útveginn. Í því sambandi hafa verið athugaðar minni eða meiri háttar breytingar á bátakerfinu og reyndin þó jafnan orðið sú, að því hefur verið haldið svo að kalla óbreyttu frá 1951, er það var sett á, og þar til um síðustu áramót. Þá gerði ríkisstj. tilraun til þess að skerða kerfið þannig að minnka aflamagnið, sem bátagjaldeyrisfríðindin féllu á, úr 50% og niður í 40% á aðalvertíðinni, þ. e. frá áramótum og fram til 15. maí. Þetta var skerðing á bátagjaldeyriskerfinu á þessum aðalveiðitíma um 10%.

Útgerðarmenn vildu illa sætta sig við þetta, en létu þó gott heita að una sínum hlut fyrir fortölur ríkisvaldsins eða ríkisstj. og í því trausti, að enn mætti aukast aflamagn, sem heldur hafði farið vaxandi og raunar mikið vaxandi, eftir að friðunarráðstafanir voru gerðar með reglugerðinni 19. marz 1952, en afli hafði þá farið stórvaxandi frá því, sem hann var lægstur, en lægstur mun hann hafa verið um 5 smál. í róðri, en kominn var hann yfir 7 smál., þegar þessi skerðing var gerð.

Skerðingin var þó gerð, ekki aðeins af þessum ástæðum, heldur einnig til að sanna viðleitni ríkisvaldsins til að hindra nýjar verðhækkanir í landinu, og það var kannske það frekar en annað, sem varð þess valdandi, að útvegsmenn sættu sig við þessa skerðingu á sínum hlut. Ríkisstj. sagðist vonast til, að þjóðin vildi þá fremur una óbreyttum kjörum, ef útvegurinn sætti sig við minnkandi fríðindi bátagjaldeyris, en auðvitað hafði stjórnin eins og aðrir áhuga fyrir því að reyna að halda öllu sem mest í sama horfi og verið hafði, en þá hafði vísitalan staðið sem næst óbreytt í tvö ár, áttavitar fjármálalífsins sýndu stefnuna rétta og veðurspáin var góð.

Svo verður að játa, að eftir að þessar tilraunir til að halda öllu í skorðum fóru út um þúfur vegna kauphækkananna í apríllok 1955, má segja kannske, að þessi skerðing hafi verið gerð að ófyrirsynju. Nú um áramótin a. m. k. urðu menn þó ekki sammála um að rétta þennan hlut aftur að útvegsmönnum, en fríðindin, sem þeir þarna voru sviptir, jafngiltu verðlækkun á slægðum fiski með haus, sem nam rúmum 6 aurum, ef ég man rétt, á kg, sem er, eins og menn sjá, nærri 12 millj. kr. skaði fyrir bátaútveginn einan.

Í öllum þessum hugleiðingum og bollaleggingum um, hvernig ráða mætti fram úr vandkvæðum útvegsins, deildu menn mjög um, hvort byggja skyldi á grundvelli bátagjaldeyrisfríðindanna eða hafna því kerfi að fullu. Ég vil skjóta því hér inn í til að fyrirbyggja allan misskilning, að vegna þess, hversu oft hefur gengið stirðlega á undanförnum árum að samræma sjónarmið útgerðarmanna annars vegar og ríkisstj. hins vegar, var það nú viðleitni stjórnarinnar að reyna að fyrirbyggja, að nokkur skaði gæti af slíku hlotizt nú um þessi áramót. Fyrir því skipaði ríkisstj. nefnd fjögurra sérfræðinga — allir voru þeir hagfræðingar — til þess að athuga þetta mál fyrir þingbyrjun eða í þingbyrjun, en auk þess fjölluðu um málið þeir embættismenn ríkisvaldsins eða ríkisstj., sem því voru kunnugastir og mest hafa að því staðið á undanförnum árum, ráðuneytisforstjórarnir, fiskimálastjóri o. fl., undir forustu Gunnlaugs Briems ráðuneytisstjóra í atvmrn. Þó að svo snemma væri á málinu tekið, tókst samt svo ógiftusamlega til, að nokkur bið varð á því, að róðrar gætu hafizt rétttímis, en þó kom það ekki mjög að skaða, vegna þess að óveður hefðu hvort eð er verulega hindrað róðrana.

Í öllum þessum bollaleggingum var við það miðað, að þau fríðindi, sem útvegurinn hafði búið við um síðustu áramót, væru nokkuð nærri lagi, enda hafði verið mjög mikil vinna lögð í rannsókn þess máls, áður en að því var gengið um áramótin 1951–55.

Endir bollalegginganna um það, hvort viðurkenna skyldi bátagjaldeyriskerfið áfram, jafnvel stækka það, eins og sumir vildu og ég hefði fyrir mitt leyti verið tilleiðanlegur til þess að vissu marki, enduðu í því, að ríkisstj. sagði við útgerðarmenn, að hún vildi beita sér fyrir því, að bátagjaldeyriskerfið stæði óbreytt, álagið yrði það, sem nú er, og listinn sá, sem nú er. Þetta varð niðurstaðan. Þetta kerfi hefur sýnt fleiri galla en við sáum fyrir, sem að því stóðum, þegar það var sett á, en það hefur enn þá kosti, sem því ráða, að ég hef ekki fyrir mitt leyti komið auga á annað betra. Ég tel megingalla kerfisins vera þann, að jafnvel þótt gjaldeyrisskortur sé, eigi menn kost á því að kaupa eða fá gjaldeyri til kaupa á vöru, sem síður er nauðsynleg en það, sem nauðsynlegast er talið, því að það er einmitt á bátagjaldeyrislistann valin vara, sem talið er að fólkið vilji gjarnan kaupa, en getur þó án verið, ef það vill. Þetta er meginstefna listans, þó að þarna séu undantekningar. Ég tel þetta galla. Hins vegar er það náttúrlega kostur, ef hægt er að taka þennan skatt, því að það er skattur af vörum, sem fólkið getur verið án, auk þess sem kerfið hefur sýnt, að það ýtir undir aukna framleiðslustarfsemi í landinu, og hefur raunar ýmsa aðra kosti, samanborið við önnur úrræði, sem hægt hefur verið að benda á í þessu sambandi.

Þegar búið var að viðurkenna, að þessa væri þörf, var spurt: Hvers meira er þá þörf, hverju þarf að bæta við vegna kauphækkananna, sem áður eru orðnar, og þeirra annarra breytinga, sem þar hafa orðið á kostnaðarliðunum? Um það var mikið deilt, og eðlilega héldu útvegsmenn sínum rétti fram og vinnslustöðvarnar líka, en embættismenn ríkisins gerðu þá skyldu að reyna að kryfja málið til mergjar og segja stjórninni sína dóma um það. Að lokinni rannsókn um þetta virtist niðurstaðan verða sú varðandi togarana,að þeirra hlutur væri verstur. Þeir höfðu samkvæmt till. mþn., sem skipuð var á árinu 1954, eins og menn muna, fengið 2 þús. kr. í bætur á útgerðardag, en niðurstaða reikninga, byggð á sama grundvelli og þessi mþn. hafði sjálf byggt á, sýndi nú, að þörf var fyrir 6500 kr. dagbætur, og er þá ekki gert ráð fyrir kaupgjaldshækkunum, sem fram undan eru og nauðsynlegar eru sjómönnunum til handa, miðað við það, sem orðið er á öðrum sviðum.

Ríkisstj. sá sér ekki fært að taka tillit til þess að fullu, en lagði hins vegar til, að bæturnar yrðu 5 þús. kr. á dag. Þá er ekkert reiknað fyrir fyrningu og ekkert fyrir ýmsum öðrum kostnaðarliðum, en stjórnin taldi sér ekki fært að ganga lengra.

Varðandi bátana var ákveðið að bæta þeirra hag með því að greiða niður hálft iðgjald hvers báts með vissum skilyrðum, þ. e. a. s., að hann hefði einhvers staðar verið gerður út á aðatvertíð. Kostnaður af því er um 8 millj. kr., og ég hygg, að það jafngildi fyrir bátana um 4 aurum á hvert kg af slægðum fiski með haus.

Nú var þetta náttúrlega ekki nóg, það vissum við. En þegar tillit var tekið til þess, að bátaútvegurinn hafði rétt sinn hlut, vegna þess að í nóvembermánuði var hækkað bátagjaldeyrisálag úr 60 upp í 70 á EPU-gjaldeyri og úr 25 í 35 á clearing-gjaldeyri og að hlutur bátsins af þeirri hækkun nam 3.7 aurum á kg, taldi fiskimálastjóri, en útgerðarmennirnir beygðu sig að lokum undir þann dóm, að með þessum hætti stæði báturinn heldur skár að vígi en hann gerði í fyrra, enda var vitað, að fram undan stóðu samningar við sjómenn, þar sem talið var, að eitthvað smávegis þyrfti að hækka fiskverðið, og var þá reiknað með 3 aurum, hvort sem samningar nást um það eða ekki, það er mér ekki kunnugt um.

Þegar hér var komið sögu, kom að vinnslustöðvunum, og þær upplýstu, að aðstaða þeirra til að greiða sama verð og í fyrra væri þannig, að það kæmi ekki til mála. Vinnslustöðvarnar héldu því fram, a. m. k. frystihúsin, og það eru vanalega þau, sem mest er um rætt, að aukinn kostnaður við vinnsluna vegna kauphækkana í vor næmi 14–16 aurum á kg, miðað við slægðan fisk. Sérfræðingar þeir, sem ríkisstj. fékk til að dæma um þetta, töldu þetta ofmat og að nóg væri að ætla þeim 12 aura.

Til þess að efla aðstöðu frystihúsanna til að greiða sama verð og í fyrra, — en það var auðvitað nauðsynlegt, einfaldlega vegna þess, að tekjuáætlanir bæði togarans og bátsins eru byggðar á sama verði og í fyrra af hendi vinnslustöðva, — var ákveðið að greiða úr þessum framleiðslubótasjóði 5 aura til vinnslustöðvanna sem vinnslugjald á hvert kg af slægðum fiski með haus. Sú greiðsla kostar sjóðinn um 18 millj. og nemur 5/12 af því, sem okkar sérfræðingar töldu að frystihúsin þyrftu vegna aukins framleiðslukostnaðar. Svo að menn sjái þá mynd rétta, minni ég enn á þá hækkun, sem varð á álagi á bátagjaldeyrinum á s. l. hausti, sem ég áðan gat um, en hlutur frystihúsanna af því álagi er rúmir 6 aurar, jafnvel 6.2 aurar. Og ef þau þannig hafa þessa 6.2 aura, að viðbættu því 5 aura vinnslugjaldi, sem þetta frv. mælir fyrir um, þá hafa þau fengið 11.2 aura af þeim 12 aurum, sem sérfræðingar okkar töldu, að þau þyrftu.

Sagan er þó með þessu móti ekki öll sögð, vegna þess að ef miðað er við þessa þörf, er gengið út frá, að vissir markaðir, sem við þurfum mjög á að halda, en verðfall hefur orðið á, verði ekki hagnýttir nema að litlu leyti. Það var afar rík ósk hjá frystihúsunum að mega framleiða fyrir Ameríkumarkaðinn og selja þangað jafnmikið magn og selt var þangað á árinu 1954, en það er helmingi meira en selt var þangað árið 1955. Ef við þessari ósk hefði verið orðið, hefði það kostað 7 aura á kg á allan bátafiskinn, sem hefði þá numið einum 13 millj. kr. úr sjóðnum, en það sá stjórnin sér ekki fært að gera.

Enn fremur var það rík ósk frystihúsanna að mega framleiða í betri umbúðir vissan hluta af því, sem fer til Rússlands, en ríkisstj. vildi ekki heldur fallast á að greiða úr þessum sjóði í því skyni, enda þótt hvort tveggja væri talið æskilegt út af fyrir sig, að efla Ameríkumarkaðinn, sem í dag er nokkru lægri um vissar fisktegundir en hann var í fyrra og getur að sönnu hækkað aftur, og þó að játað sé, að öruggara væri til að festa sig betur á Rússlandsmarkaðnum að hafa umbúðirnar betri, jafnvel þótt stjórn Rússlands eða umboðsmenn hennar hefðu ekki lagt áherzlu á það í samningunum, sem við þá voru um þetta.

Það kom ýmislegt fleira til, sem studdi kröfu vinnslustöðvanna um hærra framlag, en ég hirði ekki að rekja það hér. Niðurstaðan varð sú, að enda þótt óskir þeirra væru um 15 aura framlag, eftir að þær höfðu verið færðar niður í löngum samningaumleitunum, varð niðurstaðan ekki önnur en sú að leggja fram þessa 5 aura á kg, sem ég hef getið um.

Ég hef sagt frá, hverjar bætur á að greiða togurunum. Ég held, að ég hafi gleymt að tala um, að það er talið, að þær muni kosta 66 millj. úr sjóðnum. Ég hef sagt frá bótunum til vinnslustöðvanna, sem talið er að kosti fyrir báta- og togarafisk 18 millj. kr. Við það á svo að bæta bótum fyrir smáfisk af bátum, sem vinnslustöðvarnar vinna úr, það eru aðallega frystihúsin og raunar kemur það líka bæði á saltfisk og skreið, en augljósust er nauðsynin fyrir þessar bætur, þegar aðeins er litið á frystihúsin, þó að hún komi mjög til greina og sé réttmæt á öðrum sviðum líka.

Efni málsins er, að á undanförnum mörgum árum hefur verið sama verð fyrir smáfisk og fyrir stórfisk. Nú er það staðreynd, að smáfiskurinn er miklu minna virði, sem kemur til af því, að bæði eru flökin, sem úr honum koma, miklu minni en úr sama þunga af stórum fiski, þ. e. a. s. úrgangurinn er hlutfallslega meiri úr smáum fiski en stórum, en auk þess eru auðvitað handbrögðin fleiri og vinnslan dýrari, því smærri sem fiskurinn er. Réttlátt hefði verið, að þessi vara, sem er minna virði, yrði greidd lægra verði. Það þótti hins vegar ekki auðið, af því að með því hefði verið skertur hagur sjómanna og útvegsmanna, einmitt þeirra, sem kannske sízt mega við því, og þó að menn hefðu viljað leggja þessar kvaðir á frystihúsin áfram, þá lentu þær einmitt á frystihúsunum, sem við örðugastan hag eiga að búa, frystihúsunum víða úti um landið, sem hafa minna aflamagn og þess vegna verri aðstöðu til sæmilegrar heildarafkomu en önnur frystihús.

Ég held þess vegna, að þessi krafa styðjist við fullkomið réttlæti. Hún kostar 7 millj. kr.

Þá er þarna einnig getið um verðuppbætur á ýsu og steinbít um 2 millj. kr. Frá því að ýsa var í hærra verði en þorskur, er svokallað skiptiverð hærra á ýsu en þorski, þannig að sjómenn fá meira fyrir ýsukílóið en þorskkílóið. Nú hefur ýsa fallið í verði og er a. m. k. þá ekki nema á Ameríkumarkaðinum eitthvað lítið hærri og þó lítið, þannig að þetta er líka réttlátt. Þetta kostar 2 millj. kr.

Þá hef ég gert grein fyrir öllum útgjöldunum, öðrum en síldinni á Suðvesturlandi og í Austurdjúpi, sem er ætluð þarna á gjaldaliðunum 10 millj. Þetta er fyrirheit, sem stjórnin gaf varðandi árið 1955 og búið er að greiða mikið af, og er þó ætlað, að ríkissjóður fái þetta aftur, en þá náttúrlega haft í huga, að á þessu ári kynni eitthvað svipað að koma til greina, þó að menn vilji ekki binda sig við það að fullu, fyrr en sýnt er, hver þörfin þá verður.

Er þá ekkert ótalið af útgjaldaliðunum annað en 26 millj., sem ætlað er að verja til að kaupa upp B-skírteini. Ég geng út frá, að alþingismenn viti, að B-skírteinin eru þau skírteini, sem útgerðarmenn mega selja með álagi. Þau hafa safnazt fyrir og voru rétt reiknað um síðustu áramót um 55 millj. liggjandi af þessum skírteinum óseldum. Ég tel og við í stjórninni, að það geti verið nokkur hætta að láta of mikið safnast fyrir af þeim. Vegna stækkandi bátaflota og vonandi a. m. k. ekki minna aflamagns en hefur verið og verðlag ekki lægra er hætta á, að þessi hali, sem kallaður hefur verið, af B-listum fari vaxandi, ef ekki er gerð nein ráðstöfun til að minnka hann. Þess vegna eru ætlaðar þessar 26 millj. kr. til að kaupa upp þessi B-skírteini. Það er aðeins til að taka þau úr umferð og láta útgerðarmenn fá peninga upp í, þar sem þeir eiga þetta. Ríkið kaupir það, í staðinn fyrir að almenningur kaupi það, og eyðir skírteinunum, í staðinn fyrir að þeim sé varið til að kaupa fyrir vörur, og er þetta sem sagt aðeins ráðstöfun til að hindra, að of mikið safnist fyrir af þessum skírteinum, sem við í stjórninni teljum að gæti verið skaðlegt.

Þetta er gott og blessað sjálfsagt, svo langt sem það nær. En, segja menn, rignir þá gulli af himnum ofan eingöngu vegna þess, hversu ágæta stjórn við höfum í landinu? Ég, sem hef miklar mætur á stjórninni, hef enga trú á, að gulli rigni af himnum ofan, og segi því, að næstu þungu sporin í þessum efnum voru auðvitað að leita að tekjustofnum til þess að standa undir þessum þörfum.

Alls er útgjaldaþörfin, eins og ég hef getið um, um 152 millj. kr. Upp í það hefur verið leitað tekna, 137 millj., en við bætist svo, að við eigum eftirstöðvar í togarasjóðnum, 15 millj., og gerir þetta til samans 152 millj. Nýir skattar eru þess vegna 137 millj., eða skattar eða tollar. En rétt þykir mér að geta þess, að jafnframt fellur niður bílaskatturinn, sem á s. l. ári varð 38 millj., minnir mig, og eru þá 99 eða 100 millj., sem nettóskattaaukningin verður.

Sjálft gerir frv. grein fyrir, hvernig skattarnir eru teknir, og ég tel það þarfnast miklu minni skýringa en hitt, hvernig á að verja peningunum og hvers vegna þeim er varið eins og stjórnin leggur til. Menn eiga miklu meiri heimtingu á að spyrja um: Ja, hvernig stendur á, að þið ætlið að borga 5 aura vinnslugjald? Hvernig stendur á, að þið ætlið að borga niður hálfa vátryggingu? Hvernig stendur á, að þið ætlið að borga uppbætur á ýsu? Hvernig stendur á, að þið ætlið að borga uppbætur á smáfisk og annað þess háttar? A hverju byggið þið þetta? Það er miklu eðlilegra, að menn spyrji um það, heldur en um, hvað felist í fyrirmælunum um tollana, því að það þekkja allir hv. þm. eins vel og við í stjórninni. Það má spyrja um, hvernig standi á, að við völdum þessa tolla og skatta, en ekki eitthvað annað. En hitt sjá menn af sjálfum ákvæðum laganna, hvar á að taka tekjurnar, og eru alveg jafnbærir um að dæma um, hvort það sé réttlát leið, eins og við, sem í stjórninni erum, og tel ég það þess vegna aðeins málalengingu, ef ég fer að rekja það frekar en gert er í frv.

Ég hygg nú ekki, herra forseti, að ég bæti mikið mál mitt með frekari skýringum á þessu stigi. Ég vænti, að þm. hv. hafi fengið nokkur svör við því, sem þeir hefðu haft tilhneigingu til að spyrja stjórnina um á þessu stigi, en mun að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að svara, eftir því sem mín þekking nær, þeim spurningum, sem fyrir mig kunna að verða lagðar hér í umr.