30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

146. mál, framleiðslusjóður

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar í morgun. Nál. er nú að vísu ekki útbýtt enn þá, og í sjálfu sér skiptir það ekki miklu máli frá sjónarmiði okkar í meiri hl., sem leggjum til, að þetta frv. verði samþ., en minni hl. mun skila sérálitum og sennilega óska eftir því, að það verði einhver frestur á afgreiðslu málsins, þangað til þau eru fram komin.

Ég vil aðeins taka fram í þessu sambandi, að í 5. gr. hefur komið til athugunar innan n., þar sem ræðir um heimild til þess að greiða úr framleiðslusjóði uppbætur á söluverð saltaðrar reknetasíldar, sem veidd var fyrir Suður- og Suðvesturlandi árið 1955, hvort það þyrfti ekki að takast til athugunar, að það mundi vera eðlilegra, að hér væri um Suður- og Vesturland að ræða. Eitthvað af síld hefur verið saltað þar og gert ráð fyrir, að hún nyti sömu fyrirgreiðslu og hér á Suðvesturlandi. Það er þá atriði, sem mætti athuga milli umræðna. Það er álit okkar í meiri hl. að mæla með því, að frv. verði samþ., en eins og ég sagði áðan, eru nál. ekki enn fram komin frá minni hl., og sennilega verður að gera einhverja frestun á afgreiðslu málsins þess vegna. — [Fundarhlé.]