21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

10. mál, dýravernd

Páll Zóphóníasson:

Það er eitt atriði í þessu frv., herra forseti, sem mig langar til að gera hér að umtalsefni.

Þegar ég heyrði, hvert málið hefði verið sent til umsagnar af nefndinni í Nd., þá var það sent Búnaðarfélagi Íslands og dýralæknunum. En hví var það ekki sent menntamálaráði eða háskólanum eða menntamönnunum? Hvers vegna var það nú ekki sent þangað, þegar það á að heyra undir menntmrh. að öllu leyti?

Þeir hafa fundið, að efni þess var ekki í neinum sérstökum tengslum við menntamennina og listamennina, heldur væru þau meiri við búnaðinn, og þess vegna hafa þeir, þrátt fyrir það þótt þeir ætli að láta þetta allt saman heyra undir menntmrn. og það úrskurða þetta allt saman, sent þeim aðilum það, sem fást við búnaðinn. Og ég held líka, að svo eigi að vera. Við skulum segja, að það haldist þessi tíð, sem núna er, nokkuð lengi, og svo komi að því svona einhvern tíma í kringum sumarmálin, að það þurfi að sjá um fóður, til þess að skepnur liði ekki hungurdauða hér og þar úti á landinu, — það getur verið, að það fari svo — haldið þið þá, að menntmrh. fari að koma til skjalanna og senda hey, til þess að búfé falli ekki? Nei, það verður landbrn., sem kemur til skjalanna og hefur fyrirsögn um það, sem gera þarf. Ég held, að það sé alveg misskilningur að ætla menntmrh. — hver sem hann er, það skiptir ekki neinu máli — að hafa eftirlit og framkvæmd með þessum hlutum. Það er alveg nátengt búskapnum í landinu. Það er búfé, sem bændurnir hafa með að gera, sem hér er verið að ræða um, og það heyrir alveg undir landbrn., finnst mér. Ja, mér finnst þetta, og ég vildi biðja nefndina að athuga þetta. Ég skal taka dæmi frá í fyrravetur, og án þess að nefna nokkur nöfn, þá var maður til í fyrravetur, bóndi, sem átti búfé og fór illa með það. Hann hugsaði ekki einu sinni um að hafa nóg hús og rými í þeim. Það var svo þröngt í húsunum, að þegar hann gaf sauðfénu, komst það ekki allt á garða, og það misfórst herfilega hjá honum, þannig að þegar kom fram á veturinn dálítið, einmánuðinn, var það vitað mál, að um sumt af hans fé var þannig ástatt, að því var ekki lífvænt, nema gert væri eitthvað til þess að ráða bót á þessu. Haldið þið, að menntmrh. hafi farið að skipta sér af því? Það minntist enginn úr menntmrn. á það við mig einu orði. Ég var beðinn að fara þarna og hlutast til um, að þetta yrði lagað. Og ég gerði það fyrir áhrif frá landbrh., landbrn., en ekki frá menntamönnunum í landinu eða menntmrn. Svoleiðis held ég að verði allt af og ævinlega, og ég held þess vegna, að það eigi að breyta frv., og mun þess vegna benda n. á það milli umr. að láta það vera landbrn. á hverjum tíma, sem hefur yfirumsjón með þessu, en ekki menntmrn.