02.05.1957
Neðri deild: 90. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

128. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breytingar á tollskrárlögunum er stjórnarfrv., upphaflega flutt í hv. Ed. Í athugasemdum með frv. er gerð glögg grein fyrir þeim breytingum, sem frv. fól í sér, eins og það var, þegar það var lagt fyrir þingið, og sé ég ekki ástæðu til að skýra það nánar. Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um breytingar, sem hv. Ed. gerði á frv.

Lækkaður er tollur af netjatjöru og netjalit samkv. ósk iðnrekenda til hagsmuna fyrir innlenda netjagerð. Sú breyting er í 1. tölulið 1. gr.

Samkv. 4. tölulið er lækkaður tollur á plastfloti til netjagerðar. Mun vera farið að nota slíkt efni í staðinn fyrir kork, og þykir því rétt að láta sömu reglur gilda um toll af því. Hef ég fengið þær upplýsingar hjá fjmrn., að önnur aðflutningsgjöld af plastfloti til netjagerðar muni einnig verða ákveðin eins og af netja- og nótakorki.

Í 5. tölulið er hækkaður verðtollur á svampgúmmíi, sem notað er til annars en skógerðar. Er þetta til verndar fyrir innlent fyrirtæki, sem býr til dýnur, setur og fleira úr þessu efni og er talið, að þetta sé í samræmi við tollvernd, sem önnur svipuð fyrirtæki njóta fyrir sína framleiðslu.

13. töluliður er um lækkun á nótablýi, svo að sami tollur reiknist af því og tilbúnum sökkum úr blýi. Ráðuneytið telur unnt að framkvæma þetta þannig, að lækkunin komi aðeins á blý, sem notað er á þennan hátt.

Í 16. tölulið er ákveðin lækkun verðtolls á helztu tegundum hljóðfæra.

Auk þeirra breytinga á 1. gr. frv., sem hér hafa verið nefndar, gerði hv. Ed. tvær breytingar á 2. gr. Sú fyrri er um að láta koma til framkvæmda tollfrelsisákvæði alþjóðasamnings frá 1956 um sameiginlega greiðslu kostnaðar af tiltekinni flugþjónustu á Íslandi. Hin breytingin er heimild til að innheimta sömu aðflutningsgjöld af hvalveiðaskutlum, hvalveiðabyssum og skotfærum til þeirra eins og af öðrum veiðarfærum, en sumt af þessum áhöldum mun nú vera í hærri tollflokkum en önnur veiðarfæri.

Loks samþykkti Ed., að aðflutningsgjöld skyldi innheimta í heilum krónum. Er ákvæði um þetta í 4. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir, og ákvæði 3. gr. frv. er um breytingu, sem snertir sama atriði.

Fjhn. þessarar deildar hefur athugað frv., og í nál. á þskj. 456 mælir hún með samþykkt þess. En á þskj. 457, sem útbýtt var ásamt nál. á þessum fundi, flytur nefndin till. um breytingar á frv., og eru þær till. fram bornar eftir tilmælum ráðuneytisins.

Fyrri brtt. er nm hljóðfæratollinn. Er þar lagt til, að tollur á blásturshljóðfærum og harmonikum og hlutum til þeirra verði sá sami og á píanóum og orgelum og hlutum til þeirra.

Síðari till. á þskj. 457 er um breytingu á staflið v í 3 gr. tollskrárlaganna. Sá stafliður er nú svo hljóðandi: „Heimilt er að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af farartækjum fyrir lamað og bæklað fólk svo og af gervilimum, sem ekki verða gerðir hér á landi, enda sé þörf þess brýn fyrir þessar vörur, sönnuð með læknisvottorði og meðmælum heilbrigðisstjórnarinnar.“

Samkv. þessu heimildarákvæði hafa lamaðir og bæklaðir menn fengið eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af farartækjum, og hefur þar verið farið eftir úrskurði tryggingayfirlæknis um þörf þeirra.

Nú þótti hins vegar ástæða til að breyta heimildinni, m.a. á þann hátt, að unnt væri að láta fleiri en þá, sem eru lamaðir eða bæklaðir, njóta slíkrar fyrirgreiðslu, ef þeir væru haldnir þannig sjúkdómum, að þeir hefðu brýna þörf fyrir farartæki og slíka aðstoð við að eignast þau. Fékk því ráðuneytið 6 menn í nefnd til að íhuga þetta mál og gera till. um það. Í n. áttu sæti þessir menn: Páll Sigurðsson tryggingayfirlæknir, Haukur Kristjánsson læknir, Þórður Benediktsson forstjóri Sambands íslenzkra berklasjúklinga, Jón Ólafsson forstjóri bifreiðaeftirlits ríkisins og tveir stjórnarráðsfulltrúar, þeir Baldur Möller og Jón Skaftason.

Er till., sem hér er flutt af fjhn. eftir beiðni ráðuneytisins, í aðalatriðum byggð á áliti þessarar sex manna nefndar. Hæstv fjmrh. kom á fund fjhn. til að ræða um þetta mál og skýra það, og lét hann fjhn. hafa álit sex manna nefndarinnar til athugunar.

Brtt. um þetta efni, sem er síðari till. á þskj. 457, er þannig, með leyfi hæstv. forseta: V-liður 3. gr. tollskrárlaganna orðist svo: „Að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld á allt að 50 bifreiðum árlega fyrir fólk með útvortis bæklanir eða lamanir, enn fremur fólk með lungnasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma og loks fólk, sem þjáist af afleiðingum slysa, allt á svo háu stigi, að það getur ekki farið ferða sinna án farartækis. Enn fremur að fella niður aðflutningsgjöld af hjólastólum og gervilimum, enda sé þörf fyrir þessar vörur sönnuð með nákvæmu læknisvottorði. Eftirgefin aðflutningsgjöld af hverri einstakri bifreið mega ekki nema hærri fjárhæð en kr. 40000.00.“

Þannig hljóðar 1. mgr. brtt.

Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því, að fjmrh. skipi þriggja manna nefnd, sem úrskurði umsóknir um eftirgjöf aðflutningsgjalda af bifreiðum, og er ákvörðun n. fullnaðarúrskurður um þetta efni, segir í till. Þessir nm. þrír eiga allir að vera læknar, einu skipaður eftir tilnefningu Sambands ísl. berklasjúklinga, annar eftir tilnefningu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og sá þriðji án tilnefningar.

Till. þessi um nefndarskipunina er samhljóða till. sex manna nefndarinnar, sem ég áður gat um, um það atriði.

Samkvæmt því, sem ég hef hér tekið fram, er það till. fjhn., að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem nefndin ber fram till. um á þskj. 457.

Þess má að lokum geta, að þegar fjhn. afgreiddi málið, höfðu einstakir nm. orð á því, að þeir mundu ef til vill íhuga einstök atriði frv. nánar fyrir 3. umr., en ekki get ég sagt um það nú, hvort það leiði til þess, að nokkrar brtt. verði þá fram bornar.