21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég held, að það sé mjög fjarri því að vera rétt hjá hæstv. ráðherra, að ríkisútvarpið hafi haft fyllsta kunnugleika af undirbúningi þessa bráðabirgðaákvæðis.

Ég á sæti í útvarpsráði, og aldrei hafði útvarpsráði t.d. verið gefinn kostur á því að láta í ljós sitt álit á framlengingu þessarar tekjusviptingar. Enn fremur er mér kunnugt um það, að enda þótt útvarpsstjóri hafi átt sæti í þessari n., er hann mjög mótfallinn þessari ráðstöfun, þannig að það fær ekki staðizt, að fyllsta samráð hafi verið haft við ríkisútvarpið um þetta. Að sjálfsögðu er hæstv. ráðh. sjálfráður um það, hvaða samráð hann hefur við stofnanir um mál, sem hann hefur í undirbúningi.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki er nóg að bera fram till. um aukin útgjöld á fjárl. Það þarf einnig að tryggja tekjur, þannig að tekjur og gjöld standist á. Ég hélt, að hæstv. ríkisstj. hefði sæmilega æfingu í því, ekki einungis að bera fram till. um útgjöld, heldur einnig að afla sér tekna með tollum og sköttum. Hæstv. ríkisstj. hefur aðeins setið í 9 mánuði. Hún hefur á þessum stutta tíma lagt á nýja skatta og tolla, sem nema um 400 millj. kr.

Þegar á þetta er litið, sýnist það ekki vera nein ókurteisi af stjórnarandstöðunni, þó að hún bendi á það, að eins eðlilegt hefði verið, að hæstv. ríkisstj. hefði aflað sér þeirra 2 millj. kr. tekna, sem hæstv. menntmrh. ætlar sér að nota til að efla með menningarsjóð, í sambandi við setningu fjárl., eins og að leggja í þinglok enn spánnýjan skatt á ódýrustu skemmtanir almennings í landinu.

Ég get ekki varizt því að láta í ljós nokkra undrun yfir þeim hugsunarhætti, sem kemur fram hjá hæstv. menntmrh., þegar hann segir, að skemmtanaskatturinn og verð á aðgöngumiðum að þessum samkomum og skemmtunum, sem ég hef verið að ræða um, hafi ekki hækkað neitt nærri því, sem svarar til hinnar almennu verðhækkunar í landinu. Er það endilega bráðnauðsynlegt, lífsnauðsynlegt, að allt hækki jafnt? Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. ráðh. finnist það alveg sjálfsagt og eðlilegt að leggja nýjan skatt á skemmtanalíf fólksins, vegna þess að skemmtanaskattur og verð á aðgöngumiðum að venjulegustu samkomum hafi ekki hækkað nærri því eins mikið og t.d. kaffi og sykur eða heimilisvélar eða sjóstigvél o.s.frv., þetta þurfi endilega að elta allt skottið hvert á öðru, það sé lífsnauðsynlegt, að allt fylgist að upp á við.

Þetta mun vera kallað það, sem á erlendu máli nú er kallað að vilja hafa „system í galskabet.“ Það er það, sem mér finnst hæstv. menntmrh. eiginlega einna helzt meina með þessu, hann vilji endilega hafa „system í galskabet,“ allt verði að hækka hvert á eftir öðru; ef eitthvað dregst aftur úr, þá verði ríkisstj. bókstaflega að hjálpa til þess, að samræmi skapist.

Ég held, að þetta sé ákaflega hættulegt. Dýrtíðin hefur þjakað Íslendinga á marga vegu í dag, og ekki aðeins í dag, heldur hefur hún gert það á undanförnum árum. Því miður er hún vaxandi í dag eins og hún hefur verið. Hæstv. ríkisstj. hefur þrátt fyrir góðan vilja ekki tekizt að stöðva það kapphlaup, sem átt hefur sér stað milli kaupgjalds og verðlags og skapað hefur dýrtíð og verðbólgu. En það er önnur saga.

Ég vil svo að lokum segja, að það hefur náttúrlega ekki minnstu áhrif á mínar skoðanir á undanþágum frá greiðslu skemmtanaskatts, þó að einn hv. og ágætur flokksbróðir minn í hv. Nd. sé á móti því að afnema undanþágurnar. Atvikin hafa nú einn sinni hagað því þannig, að hann er þm. fyrir byggðarlag, sem nýtur þeirra sérréttinda að hafa undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts af rekstri eins kvikmyndahúss. Hann reynir, eins og allir þeir, sem hafa sérréttindi, að halda í þau. Það gerir Hafnarfjarðarbær líka. Það gerir sá aðili, sem hefur þau á Akureyri, einnig. Menn gera það yfirleitt. Þegar þeir hafa náð í einhver sérréttindi, reyna þeir að halda í þau. En ég álít, að það sé ekki hlutverk löggjafans að halda verndarhendi sinni yfir sérréttindum, sem einhvern tíma hafa ranglega náðst. Og það eru mér mikil vonbrigði, að hæstv. menntmrh. skuli telja sig vera þjón þessara sérréttindaaðila, vegna þess að það er ekki hægt að færa skynsamleg rök fyrir því, að sá atvinnurekstur í landinu, sem talinn hefur bezt borga sig á undanförnum árum og er vissulega ein ábatasamasta atvinnugrein í landinu, skuli endilega vera undanþeginn sköttum, ef hann er stundaður af opinberum aðilum.

Ég álít, að það sé bókstaflega ósæmandi fyrir Alþ. að hafa gengið inn á, að slíkar undanþágur séu veittar, og mér sýnist hæstv. núverandi menntmrh. vera kominn út á enn þá hálli braut með löggjafarvaldið í þessum efnum en það hefur nokkru sinni áður verið, ef ekki verður samþ.brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér við 1. gr. frv. ásamt hv. þm. V-Sk.