24.05.1957
Efri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

175. mál, vísindasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að koma hér með tvær litlar brtt. á þskj. 615.

Fyrri brtt. er um það að bæta við þrem orðum inn í fyrri hluta 3. gr. Mér finnst vanta þar, að það sé talað um bæði þau vísindi, sem tilheyra landbúnaðinum beint og fiskifræði beint. Það má að vísu segja, að undir landbúnaðinn heyri grasafræði o.s.frv., ýmsar af þeim upptalningum, þar sem talin eru upp undirstöðufög undir almennum greinum ýmsum bæði í landbúnaðinum og öðrum. En sjálf landbúnaðarfræðin er þar ekki og ekki heldur það, sem beint kemur við fiskifræðinni.

Ég leyfi mér því að leggja til, að bætt verði þarna inn í þremur orðum: fyrst lífeðlisfræði, á eftir líffræði, það er ákaflega þýðingarmikil grein og kannske ein af þeim greinum núna, sem mest er unnið að rannsóknum á, önnur en kjarnorkan, og mest þarf að upplýsa á ýmsan hátt, og á eftir grasafræði komi aftur búvísindi og fiskifræði.

Það má kannske segja, að sumt, sem almennt er talið heyra undir búvísindi geti heyrt annars staðar undir. Ég skal nefna þrjú dæmi frá okkur Íslendingum, þar sem gerðar hafa verið vísindarannsóknir alveg íslenzkar, byggðar upp á Íslandi og allar nú þekktar um allan heim, en óvíst er, að hefðu komizt undir þá upptalningu, sem í greininni er.

Ég skal fyrst nefna, þegar prófessor Dungal fann upp bóluefnið við bráðapest. Það var ný aðferð, nýr háttur að búa það bóluefni til, í öðru formi og af öðrum styrkleika og öðruvísi framkvæmt en áður hafði verið gert annars staðar. Heyrir það undir lækningar? Ja, dýralækningar eru nú yfirleitt ekki taldar heyra undir lækningar í mæltu máli, og læknarnir vilja ekki kannast við dýralæknana nema svona að hálfu leyti.

Þegar Björn Sigurðsson finnur upp bóluefni við garnaveikinni, sem hefur gert okkur ómetanlegt gagn almennt, var náttúrlega enginn vafi á því, að ef hann hefði leitað um styrk til þess að búa það til, hefði hann átt að fá hann. En undir hvað átti hann að heyra, eins og upptalningin er nú? Ég veit ekki. En hefðu landbúnaðarvísindi verið þar með, þá var enginn vafi.

Ég skal í þriðja lagi nefna, þegar Páll, sonur minn, finnur upp efni til að sprauta í ær, svo að heilinn í fóstrinu þroskist eðlilega, þó að þær gangi í fjörunni, og með því kemur í veg fyrir, að lömbin verði skjögruð, en þetta bjargar á hverju ári 40 þús. lömbum á landinu frá því að verða einskis virði, og fæðast skjögruð og drepast.

Þetta eru allt dæmi upp á uppfinningar gerðar hér á landi af mönnum, sem ekki eru kallaðir vísindamenn. En það eru verk gerð hér á landi, sem þeir hefðu átt að fá styrk til, ef þeir hefðu um hann sótt, en rúmast tæplega í greininni eins og hún er orðuð núna. Ég gæti talið upp fleira í þessu sambandi, en ég læt þetta þrennt nægja. Vegna þessa legg ég til, að þessu sé bætt við, svo að þar sé enginn vafi á, að það, sem stefnir að því að upplýsa ný sannindi, ný vísindi, sem efla hagsæld sjálfra atvinnuveganna í landinu, komi þarna undir.

Hin brtt. mín er við 5. gr. og er viðvíkjandi stjórninni á raunvísindadeildinni. Það er ætlazt til, að sitji í henni fjórir menn auk þess fimmta, sem ráðh. skipar, og einn á að vera frá rannsóknaráði ríkisins. Ég tel rannsóknaráð ríkisins mjög óheppilegt sem aðila til að kjósa þarna mann. Þetta er nefnd kosin af Alþ. til 4 ára, og getur alltaf skipt um menn í henni. Henni er ekki ætlað annað starf en hafa eftirlit með ýmsum öðrum framkvæmdum, sem aðrir eiga að vinna. Ég tel hana þess vegna ekki neinn fulltrúa fyrir sjálft atvinnulífið í landinu.

Rannsóknaráð ríkisins er náttúrlega, eins og ég sagði, nefnd, sem kemur og fer, þar að auki eru t.d. núna í henni menn, sem hafa atkvæðisrétt nm þetta á öðrum sviðum. Björn Sigurðsson er læknir og hefur atkvæðísrétt. Hann er þar að auki í læknadeild háskólans og hefur atkvæðisrétt þar, svo að hann getur á þremur öðrum stöðum komið fram til þess að „representera“, hverjir fara í stjórnina. Annar maðurinn, sem núna er í rannsóknaráðinu, er verkfræðingur og sá þriðji er enginn sem stendur. Ég legg þess vegna til, að kosnir séu fjórir menn af læknadeildinni og verkfræðideildinni, eins og gert er ráð fyrir í frv., og að auki sé einn frá atvinnudeild háskólans. Hún er í mörgum deildum, og maður gæti litið á hana sem fulltrúa fyrir vísindastarfið í hinum raunverulegu framleiðslugreinum landbúnaðarins. Þess vegna tek ég hana sem aðila frá framleiðslugreinunum. Mér datt í hug að taka mann frá Fiskifélaginu og Búnaðarfélaginu, en það gat orðið til þess, að mönnunum hefði þá þurft að fjölga. Ég vildi ekki verða til þess, og þess vegna valdi ég forstjóra deildanna í atvinnudeildinni til þess að velja einn mann og svo náttúrugripasafnið, sem er tvímælalaust sá aðilinn, sem á að hafa bezta aðstöðu í öllu, sem snertir almenna náttúrufræði. Ég legg til, að stjórnin verði svona skipuð í staðinn fyrir það, sem frv. nú gerir ráð fyrir.

Ég skal gjarnan, ef nefndin óskar þess, taka aðra hvora eða báðar þessar tili. aftur til 3. umr., það skal ekki standa á mér að gera það. Ég held, að þær séu báðar til mikilla bóta, og sérstaklega alveg sjálfsagt að samþykkja fyrri tillögu mína.