13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

157. mál, Háskóli Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þetta mál neitt að ráði. Ég vildi aðeins þakka nefndinni fyrir það, að hún hefur tekið til greina þær till., sem ég lét hér í ljós við 1. umr. þessa máls, að sameina þessi þrjú frv., sem þá voru hér til umræðu og útbýtingar sama daginn, í eitt frv. Ég taldi það sjálfsagt, og ég er henni því mjög þakklátur fyrir að gera það, því að það er afskaplega erfitt fyrir menn, sem ætla sér að nota íslenzk lög, almúgamenn, að þurfa að sækja í mörg lög upplýsingar um sama efni. Ég er henni þakklátur fyrir að sameina þau í eitt.