13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

11. mál, skipakaup

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Stjórnin hefur lýst því yfir, að frv. þetta sé framkvæmd á einu aðalstefnumáli hennar, en með því er gengið lengra í þjóðnýtingu atvinnuvega en Alþ. hefur áður viljað samþykkja. Nú virðist vera mikill meiri hluti á Alþ., sem vill fara inn á þessa braut. Það verður ekki annað sagt en að frv. lýsi talsvert mikilli bjartsýni, þar sem hér er um mikla fjárhæð að ræða á okkar mælikvarða. Sú bjartsýni skal að vísu ekki löstuð. Það er bjartsýni um lánstraust, sem vonandi bregzt ekki, og það er bjartsýni um rekstur hins opinbera, sem ég og margir aðrir vilja draga í efa, að eigi rétt á sér.

Framtíðarhorfur togaraútgerðarinnar eru ekki glæsilegar, eins og sakir standa. Allir vita, að skipin eru öll rekin með miklum halla, og þeir, sem skipin gera út, eru í miklum vandræðum með allan reksturinn. Þar að auki virðist nú vera svo komið, að tvö síðustu árin hefur mjög brugðizt veiði á sumum beztu fiskimiðum landsins. Má þar til dæmis nefna „Halann“, sem um mörg ár hefur verið eitthvert aflasælasta fiskimið landsins, en hefur svo að segja alveg brugðizt síðustu tvö árin.

Það má líka minna á karfann, sem verið hefur eitt aðalverkefni togaranna síðustu tvö til þrjú árin. Svo virðist sem karfamiðin séu staðbundin og hægt sé að tæma þau, eins og þegar ausið er upp úr kistu, enda hefur það sýnt sig, að þau mið, sem menn töldu mjög auðug karfamið, hafa verið þurrausin á mjög skömmum tíma. En ég segi ekki þetta til þess að gefa í skyn, að ég álíti, að ekki eigi að gera út togara á Íslandi. Það er síður en svo. Ég tel, að við verðum að gera út togara á Íslandi, og þess vegna verðum við að líta með bjartsýni á framtíðina, jafnvel þótt útlitið sé slæmt eins og stendur. Þess vegna verður ekki komizt hjá því að endurnýja togaraflotann. Allir hugsandi menn sjá, að slíkt verður að gera, Og togaraflotinn verður að sjálfsögðu að endurnýjast á skynsamlegan hátt og með hæfilegu millibili, þannig að skipin gangi ekki alveg úr sér.

Hæstv. sjútvmrh. sagði, að við þyrftum í raun og veru að láta byggja 20 togara í staðinn fyrir 15 skv. frv. Það er að vísu fulldjúpt tekið í árinni, en hitt mætti segja, að gæti verið skynsamlegt, að byggja 2–3 skip á ári og endurnýja þar með flotann á 15–20 árum. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að gerðar séu ráðstafanir til þess að smíða 15 skip, ef menn telja, að það sé fullt verkefni fyrir þessi skip og að hægt sé að reka þau á nokkuð heilbrigðum rekstrargrundvelli.

En ég vil þá spyrja, hvort þetta frv. byggist eingöngu á góðum vonum, eða hvort ríkisstj. hefur ríka ástæðu til að telja, að hún hafi þá lánsmöguleika erlendis, að þessu sé hægt að koma í framkvæmd.

Frv. gerir ráð fyrir, að þessir togarar eigi að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta orðatiltæki, „jafnvægi í byggð landsins“, hefur verið talsvert misnotað í seinni tíð. Allt, sem gert er til þess að auka atvinnu úti á landinu, er gert til þess að halda jafnvægi í byggð landsins. Ég skal ekki út af fyrir sig lasta það, en ég spyr: Er þetta heilbrigðasta og réttasta leiðin til að halda jafnvægi í byggð landsins? Halda menn, að útkjálkabyggðirnar muni halda fólkinu frekar, ef það fær togara til umráða? Það hafa engin rök verið sett fram í þessu máli, sem ég hef heyrt, sem hafa sannfært mig um það, að þetta sé rétta leiðin til þess að halda jafnvægi í byggð landsins eða til að hjálpa útkjálkastöðum í lífsbaráttunni.

Ég veit ekki, hvort þeir, sem að þessu frv. standa, gera sér grein fyrir, að með því er verið að gera stórbyltingu í togaraútgerð landsins. Verði 4. gr. laganna samþykkt og skipin keypt, verður allur togarafloti landsins kominn í ríkisútgerð eftir nokkur ár. Menn skulu ekki halda, að hægt sé að stíga þetta skref, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar. Þetta er að mínu áliti stærsta skrefið, sem stigið hefur verið til þjóðnýtingar á atvinnuvegum hér á landi, og það varhugaverðasta,

Að þessum atvinnuvegi hefur verið svo búið á undanförnum árum, að einstaklingar og félög, sem áður ráku hann, eru nú að gefast upp. Við hafa svo tekið bæjarútgerðir, og er óhætt að segja, að margar þeirra séu mjög illa reknar og tapa stórfé vegna þess, hversu illa er á haldið. En þegar ríkið hefur gengið inn í útgerðina, verður reksturinn með eindæmum. Það geta menn reitt sig á, og það á reynslan eftir að sanna. Ef ríkið á að fara að gera út togara og haga sér eftir því, hversu togað er í ríkisstj. frá ýmsum hliðum og af pólitískum ástæðum, mun sú reynsla sanna, að það verður ekki happadrjúg útgerð. En þá geta menn líka reiknað með einu, og það er, að bæjarfélögin vilja ekki til lengdar standa undir tapsútgerðinni. Þegar ríkið er tekið við útgerðinni, munu þau vilja losna við sína tapsútgerð, og þau gera það. Ríkið yfirtekur bæjarútgerðirnar, áður en langt um líður. Bæjarútgerðirnar hafa yfirtekið einkaútgerðina, og ríkið yfirtekur bæjarútgerðirnar. Og að lokum verður annar aðalatvinnuvegur Íslendinga kominn í ríkisrekstur. Það getur vel verið, að skammt verði þá þangað til bátaflotinn hljóti sömu örlög. En þá er líka takmarki sósíalistanna náð.

Ef sjávarútvegurinn fer í þjóðnýtingu, hvað verður þá langt þangað til landbúnaðurinn verður tekinn þeim tökum, sem sósíalistar vilja, að hann verði settur í samyrkjubú, eins og nú þekkist í sumum löndum? Það getur orðið stutt á milli.

Ég mun greiða atkv. gegn þjóðnýtingu á þessum aðalatvinnuvegi landsins, og ég mun leyfa mér að bera fram brtt. við 3. umr. málsins.