14.05.1958
Efri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

187. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um lífeyrissjóð togarasjómanna, er stjórnarfrv. Það er samið af nefnd, sem sjútvmrh. Lúðvík Jósefsson skipaði hinn 10. maí 1957 til þess að semja frv. til laga um lífeyrissjóð togarasjómanna. Nefndina skipuðu þessir menn: Ólafur Jóhannesson prófessor, sem var form. n., Guðmundur J. Guðmundsson fjármálaritari verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Eyjólfur Jónsson lögfræðingur, Jón Sigurðsson ritari Sjómannafélags Reykjavíkur og Tryggvi Helgason form, Sjómannafélags Akureyrarkaupstaðar. Þess er þó skylt að geta, að ríkisstj. varð sammála um nokkrar minni háttar breytingar á frv. frá því, sem nefndin lagði til, þegar hún skilaði því, og er gerð nánari grein fyrir þeim breytingum í aths., sem prentaðar eru með frv.

Í flestum meginatriðum er þetta frv. sniðið eftir lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Nefndin naut sérfræðiaðstoðar Guðjóns Hansens tryggingafræðings, og gerði hann margvíslegar athuganir og útreikninga fyrir nefndina, m.a. útreikninga til stuðnings við mat á því, hver iðgjöldin þyrftu að vera, miðað við þær bætur, sem lífeyrissjóði togarasjómanna er ætlað að greiða. Eins og hv. alþm. sjá, er álitsgerð tryggingafræðingsins prentuð með frv. sem fskj.

Þeir lífeyrissjóðir, sem hingað til hafa verið lögboðnir, hafa verið vegna starfsmanna í opinberri þjónustu, aðallega vegna starfsmanna ríkisins. Sérstakir lífeyrissjóðir annarra starfsstétta hafa hins vegar byggzt á frjálsum samningum milli atvinnurekenda og launþega. Það má því segja, að farið sé nú inn á nýja braut með því að lögbjóða lífeyrissjóð fyrir togarasjómenn. Tel ég það ánægjulegt nýmæli og í alla staði eðlilegt, að byrjað sé á togarasjómönnunum, eða hvers vegna skyldi þeim ekki vera tryggð sams konar kjarabót og öryggi, sérstaklega öryggi, og opinberir starfsmenn hafa lengi notið vegna lífeyrissjóðs síns? Auðvitað er ekkert sjálfsagðara. En þar við bætist svo, að hér er um þjóðfélagsráðstöfun að ræða til þess að reyna að laða unga menn til að gerast togarasjómenn. Með auknu öryggi fyrir þá og þeirra nánustu og bættum kjörum mætti a.m.k. vænta þess, að fleiri röskir menn gerðu sjómennsku að lífsstarfi sínu. Það er hvað eftir annað vikið að þessu sjónarmiði í aths., sem fylgja með frv. Þar segir t.d. svo á einum stað:

„Í öllum umræðum um sjóðsstofnun þessa hefur verið lögð áherzla á, að hún ætti að fela í sér verulega kjarabót fyrir togarasjómenn og ætti m.a. að stuðla að því, að ungir og dugandi menn sæktust eftir starfi á togurum.“

Á öðrum stað í grg. frv. er einnig vikið að þessu sjónarmiði, eiginlega þessum þjóðfélagslega ávinningi við stofnun lífeyrissjóðs togarasjómanna, á þessa leið:

„Á það má benda, að vafalaust hefur útgerðin og reyndar þjóðfélagið í heild óbeinan hag af stofnun þessa lífeyrissjóðs. Það er líklegt, að hún leiði til þess, að menn vinni meir að staðaldri á togurum en áður, en það er alkunnugt, að afköst eru miklu meiri hjá vönum togarasjómönnum, heldur en hjá óvönum mönnum. Og líklegt er einnig, að lífeyrissjóðurinn geti leitt til þess, að færri útlendinga þurfi að ráða á togaraflotann en nú.“

Tryggvi Helgason, einn af höfundum frv., víkur líka að þessu sjónarmiði í aths. sínum, sem prentaðar eru hér með frv., en þar er hann raunar í leiðinni að ræða um það, að hann taldi ekki óeðlilegt, að ríkissjóður borgaði 2% af þeim hluta iðgjalda, sem sjómönnum er samkv. frv. ætlað að greiða, en í tilefni af þessari till. sinni sagði Tryggvi Helgason annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég áleit, að þótt stofnun lífeyrissjóðsins sé mikið hagsmunamál togarasjómanna og stefni að efnalegu öryggi þeirra, sem gera vilja sér sjómennsku á togurum að lífsstarfi, beri einnig og ekki síður að skoða það sem alvarlega tilraun til þess að leysa erfitt þjóðfélagslegt vandamál, þ.e. að greiða fyrir því, að nægilega margir dugandi íslenzkir sjómenn vilji starfa á togurum að staðaldri; sé því réttmætt, að þjóðfélagið styðji þessa sjóðsstofnun og starfsemi hennar.

Togararnir hafa skilað á land um það bil þreföldum afla fyrir hvern mann, sem á þeim starfar, á við önnur fiskiskip og báta okkar að meðaltali. Þessi fáu skip með um 1.200 sjómenn að starfi leggja til afla, sem gefur þjóðinni um það bil þriðja hluta af gjaldeyristekjunum. Nokkur undanfarin ár hafa ekki fengizt nægilegs margir landsmenn til starfa á togurum. Hefur verið reynt að mæta þeim vanda með því að ráða útlenda sjómenn á skipin og til þess orðið að fórna stórum fjárhæðum árlega í erlendum gjaldeyri. Er slíkt ástand hvorki hagkvæmt né traust að byggja á til frambúðar rekstur afkastamestu framleiðslutækja landsins og þeirra, sem öðrum fremur eru undirstaða þeirra lífskjara, sem þjóðin býr við og vill ekki rýra.“

Þetta var umsögn Tryggva Helgasonar um þetta atriði sérstaklega. Þetta finnst mér vissulega vera þungbær rök fyrir réttmæti þess að lögbjóða einmitt nú lífeyrissjóð fyrir togarasjómenn, og má vafalaust mörgum rökum við þau bæta. Hitt er svo vitað mál, að ekki munu langir tímar líða, þar til sjálfsagt þykir að lögfesta lífeyrissjóð fyrir sjómenn almennt, og í framhaldi af því má svo síðar búast við, að ráðizt verði í stofnun lífeyrissjóðs fyrir fleiri og fleiri vinnustéttir þjóðfélagsins, og væri raunar æskilegt, að það gæti orðið sem fyrst.

Félmrh. mun samkvæmt ályktun seinasta Alþingis skipa mþn. til að rannsaka, hvort ráðlegt sé og tiltækilegt að koma á fót almennum líftryggingarsjóði vinnandi fólks til sjávar og sveita, en slík þál. var á síðasta þingi flutt af prófessor Ólafi Jóhannessyni, og er í athugun hjá ríkisstj., hvernig vinna skuli að framkvæmd hennar.

Nú vil ég freista þess að gera grein fyrir aðalefni þessa frv.

Í 1. gr. þess segir, að stofna skuli sérstakan sjóð til þess að tryggja togarasjómönnum, ekkjum þeirra og börnum lífeyri samkv. reglum þeim. sem settar eru í þessum lögum. Sjóður þessi nefnist lífeyrissjóður togarasjómanna, og skal heimili hans og varnarþing vera í Reykjavík. Enn fremur segir í þessari sömu grein, upphafsgrein frv.: „Ríkissjóður leggur sjóðnum til sem stofnfé 1/2 millj. kr. árið 1958 og 1/2 millj. kr. árið 1959,“ — samtals 1 millj. kr. sem stofnfé.

Sjóðfélagar eru allir þeir, sem lögskráðir eru á íslenzkum togurum, og er þeim skylt að greiða iðgjöld í sjóðinn, enda eiga þeir þá rétt á lífeyrir honum. Þannig ná, eins og menn sjá, réttindi og skyldur sjóðfélaga bæði til unglinga, sem lögskráðir eru á togarana, og einnig til útlendinga, sem gerast skipverjar á íslenzkum togurum. Nú kynni að verða álitamál, hvort þetta væri rétt, en þetta er rökstutt allvel af höfundum frv. Segir um þessi atriði í skýringum m.a. við 3. gr.:

„Ekki er gert ráð fyrir lágmarksaldri til þátttöku í sjóðnum, enda mun það svo, að þeir menn, sem skipverjar gerast á togurum, séu að jafnaði taldir fullvinnandi menn, enda þótt þeir oft hefji sjómennsku áður, en unglingsárunum er lokið. Virðist því hvorki rétt né sanngjarnt, að sjómenn séu fyrir æsku sakir útilokaðir frá því að verða sjóðfélagar.“

Um útlendingana segja höfundar frv.:

„Engin ástæða virðist til að undanþiggja útlendinga skyldu til að vera sjóðfélagar. Sú hefur orðið reyndin, að margir útlendingar, sem komið hafa til starfa hér á landi, hafa ílenzt hér, og verður eigi fram hjá því gengið, að svo geti einnig orðið um ýmsa þá menn, sem hefja starf sitt hérlendis á togurum. Virðist því sjálfsagt, að þeir njóti í þessu tilliti sama réttar og Íslendingar, sem að framleiðslustörfum vinna um langt árabil. Í þeim lögum, sem áður hafa verið sett um lífeyrissjóði, mun ríkisborgararéttur ekki skipta máli. Loks skal bent á, að þeir útlendingar, sem hætta störfum á togurunum, áður en þeir hafa öðlazt rétt til lífeyris úr lífeyrissjóðnum, fá eins og aðrir sjóðfélagar endurgreidd íðgjöld þau, sem þeir hafa greitt í hann.“ Í slíkum tilfellum verður iðgjaldahluti launagreiðandans hins vegar áfram eign sjóðsins, og getur þátttaka útlendinga þannig fremur orðið tekjuauki fyrir sjóðinn sjálfan, en hið gagnstæða. Það er til hags fyrir sjóðinn, heldur en hitt.

Í 4. gr. frv. segir, að réttindi þau, sem togarasjómenn öðlast með lögum þessum, skuli á engan hátt rýra rétt þeirra til elli-, örorku- eða barnalífeyris, slysa- eða dánarbóta skv. lögunum um almannatryggingar, enda ber þeim að gjalda til almannatrygginga eins og áður.

Það er talið, að lífeyrir togarasjómanna skv. þessu frv., að viðbættum bótum eftir almannatryggingalögum, eigi samtals fyllilega að samsvara lífeyri opinberra starfsmanna.

Stjórn lífeyrissjóðs togarasjómanna skal skipuð þremur mönnum. Formaður hennar verður skipaður af hæstarétti, en hinir stjórnendurnir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. Virðist þessi skipun vera eðlileg. Reikningshald og dagleg afgreiðsla sjóðsins skal vera í höndum Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 7. gr. frv. er kveðið á um, hvernig sjóðurinn skuli ávaxtaður, og eru þau ákvæði um flest hliðstæð þeim, sem gilda um aðra lífeyrissjóði, sem stofnaðir hafa verið með lögum. Í gr. er sérstaklega fram tekið, að sjóðfélagar skuli sitja fyrir um lán eða lánveitingar til íbúðabygginga og skuli slík lán í engu skerða rétt þeirra til íbúðalána samkv. lögunum um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl. Þeir eru því þarna með nokkrum forréttindum að því er snertir íbúðalánamöguleika. Það má telja víst, að sú fyrirgreiðsla, sem sjóðurinn þannig getur veitt togarasjómönnum, verður þeim til mikils hagræðis, þegar stundir líða. Verður því heldur ekki neitað, að sjómenn standa miklu verr að vígi, en flestir aðrir til þess að geta notað tómstundir til ígripavinnu við að koma upp eigin íbúðarhúsnæði.

Þá er einnig í þessari sömu grein ákvæði þess efnis, að það fé sjóðsins, sem ekki sé ráðstafað í föstum lánum eða verðbréfum, skuli ávaxtað, eftir því sem við verði komið, í tryggum lánsstofnunum á þeim stöðum, þar sem fé sjóðsins fellur til. Viðleitni skal höfð til að dreifa fjármagninu út um land, safna því ekki öllu saman hér í Reykjavík, eins og oft vill verða.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fjárhagsgrundvöllur sjóðsins verði endurskoðaður fimmta hvert ár, og mun algengt, að svo sé gert um aðra tryggingasjóði. Þörfin er þó talin öllu ríkari til þessarar 5 ára endurskoðunar hér, af því að togarasjómenn skipta svo oft um starf og það getur haft áhrif á afkomu sjóðsins. Þessu er öðruvísi varið, en t.d. með fasta starfsmenn í þjónustu hins opinbera.

Sjóðfélögum í lífeyrissjóði togarasjómanna er samkvæmt 9. gr. frv. skylt að greiða 4% af heildarárslaunum sínum í iðgjöld til sjóðsins. Skal launagreiðanda skylt að halda iðgjöldunum eftir af launum sjóðfélaga og hafa greitt þau aftur til sjóðsins innan tveggja vikna frá útborgun launanna.

Í viðbót við þetta skal svo launagreiðandi, þ.e.a.s. togaraeigandi, greiða sem iðgjöld til sjóðsins 6% af heildarárslaunum sjóðfélaga, sem hjá honum vinnur. Þannig nýtur lífeyrissjóður togarasjómanna þá 10% iðgjalda af tekjum skráðra togarasjómanna, en þeir munu vera um 12–13 hundruð talsins á öllu landinu.

Nú munu menn segja: Er þá útgerðinni ætlað að bera þessi 6% iðgjaldaútgjöld af eigin fjárhagslegum rammleik? Og því er skylt að svara, að svo er ekki, því að með þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi og verið er á þessari stundu að ræða í hv. Nd., er einmitt gert ráð fyrir tekjuöflun til handa togaraútgerðarmönnum, sem nemur 7 millj. kr., en það er sú upphæð, sem 6% iðgjaldagreiðsla mun kosta þá.

Þegar sjóðfélagi hefur svo greitt gjöld til sjóðsins í 35 ár, þá falla iðgjaldagreiðslur hans niður svo og iðgjaldagreiðslur útgerðarmanns hans vegna. Af þessu leiðir, að hámarkslífeyrir er ekki veittur, nema sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld í 35 ár. Undantekning er þó frá þessu viðvíkjandi þeim mönnum, sem um er rætt í bráðabirgðaákvæði frv. Hins vegar er það lágmarksákvæði í 11. gr. frv., að þeir einir, sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins a.m.k. í 10 ár og eru orðnir 65 ára að aldri, geti öðlazt rétt til árlegs ellilífeyris úr sjóðnum.

Upphæð ellilífeyrisins er ákveðinn hundraðshluti af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans, og fer hundraðshluti þessi hækkandi eftir því, sem starfstíminn verður lengri. Eftir 10 ár er ellilífeyrir togarasjómanns þannig 10% af meðallaunum hans á s.l. 10 árum. Eftir 15 ár er ellilífeyrir hans orðinn 17.5%, eftir 25 ár 32.5% og eftir 35 ár 50% af meðallaunum 10 síðustu ára. Það telst svo eitt starfsár samkvæmt þessum lögum, hafi sjóðfélagi tekið laun sem togarasjómaður 9 mánuði eða meira á sama almanaksári. Loks er svo ákvæði í þessari grein, að ellilífeyrir megi aldrei verða hærri en 75% af meðallaunum á hverjum tíma í sams konar starfi og því, sem sjóðfélaginu lét af. Þetta mun vera hliðstætt gildandi ákvæðum annarra lífeyrissjóða um sams konar efni.

Í 12. gr. segir, að sjóðfélagi, sem ófær verður til þess að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt, eða missir sökum örorku verulegan hluta af launum sínum, eigi rétt á örorkulífeyri, ef tryggingayfirlæknir metur örorku hans meira en 35%. Skal örorkumat þetta aðallega vera miðað við vanhæfni mannsins til þess að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt að undanförnu.

Í 13. gr. frv. segir: „Nú andast sjóðfélagi, og lætur hann eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum, enda hafi hinn látni greitt iðgjöld til sjóðsins í 10 ár eða lengri tíma og hjónabandinu hafi eigi verið slitið að lögum, áður en hann lézt“.

Ef sjóðfélagi deyr, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins skemur en 10 ár, skal endurgreiða eftirlifandi maka hans með vöxtum þau iðgjöld, sem hann hefur greitt til sjóðsins. Upphæð lífeyris hins eftirlifandi maka fer svo eftir starfstíma hins látna og meðalárslaunum hans síðustu 10 starfsár hans. Ef starfstíminn er rétt 10 ár, er hinn árlegi lífeyrir 20% af meðalárslaununum, en skal síðan hækka um 0.6% fyrir hvert starfsár, unz hámarkinu, 35% af meðalárslaunum, er náð eftir 35 ára starfstíma. Lífeyrir eftirlifandi maka skal þó aldrei vera meiri, en 50% af meðaltekjum manna í sömu starfsgrein á hverjum tíma.

Í skýringum við þessa gr. segja höfundar frv., að til álita hefði getað komið að ákveða lágmarkslífeyri til eftirlifandi maka látins sjóðfélaga lægri, eins og gert er um ellilífeyri, en á móti mælir það, eins og þeir segja, að greiðsla til ekkna frá almannatryggingum getur verið til muna lægri, en ellilífeyrir, og í öðru lagi það, að gera má ráð fyrir, að ekkjur þeirra togarasjómanna, sem eiga að baki sér tiltölulega skamman starfstíma, hafi fyrir börnum á ómagaaldri að sjá og eigi því erfitt með að stunda vinnu utan heimilis. Get ég ekki betur séð, en þetta sjónarmið eigi hinn fyllsta rétt á sér.

Ef sjóðfélagi frestar að taka lífeyri og gegnir starfi sínu áfram, eftir að iðgjaldagreiðslu hans er lokið og hann hefur þannig öðlazt rétt til þess að hætta störfum á fullum lífeyri, þá hækka lífeyrisgreiðslur til slíks manns um 3% af meðalárslaunum hans síðustu 10 ár fyrir hvert það ár, sem hann frestar að taka lífeyri. Er þessi hækkun nokkru meiri, en ákveðin er í lögum um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda kannske nokkru fyllri ástæða til að stuðla fremur að því, að menn haldi þarna áfram starfi, meðan þeir hafa starfsþrek.

Í 15. gr. frv. segir, að börn og kjörbörn eða fósturbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 16 ára, skuli fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þar til þau verða fullra 16 ára, enda hafi hinn látni séð um framfæri þeirra. Sama rétt öðlast og börn og kjörbörn sjóðfélaga, ef hann verður öryrki.

Þá er og ákveðið í þessu frv., að þeir togarasjómenn, sem í lifanda lífi láta af störfum þeim, sem veittu þeim réttindi í sjóðnum, og ástæðurnar eru aðrar en elli eða örorka, skuli fá endurgreidd vaxtalaus þau gjöld, sem þeir hafa greitt í sjóðinn. Slík endurgreiðsla getur því aldrei farið fram, fyrr en 9 mánuðir eru liðnir síðan sjóðfélagi var síðast afskráður af togara, nema því aðeins að hann eigi lögheimill erlendis, þá þurfa ekki að líða 9 mánuðir til greiðsludagsins.

Flytjist sjóðfélagi í lífeyrissjóði togarasjómanna í starf, sem veitir aðgang að öðrum lífeyrissjóði, sem stofnaður hefur verið með lögum, þá má endurgreiða með vöxtum öll iðgjöld, sem greidd hafa verið sjóðnum hans vegna, en það er þó skilyrði fyrir slíkri endurgreiðslu, að henni sé beint varið til kaupa lífeyrisréttinda fyrir viðkomandi mann í þeim lífeyrissjóði, sem hann flyzt til. Þessi endurgreiðsla má þó aldrei hærri vera, en nauðsynlegt er til að kaupa hliðstæð réttindi í hinum nýja lífeyrissjóði.

Í 19. gr. frv. eru ýmis verndarákvæði um inneignir sjóðfélaga hjá sjóðnum. Það er t.d. óheimilt að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur, og ekki má heldur leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak. Þá getur og enginn skuldheimtumaður úr dánarbúi eða þrotabúi skert kröfurnar á nokkurn hátt. Og að lokum er lagt bann við því, að lífeyrisfé sé haldið eftir til greiðslu opinberra gjalda.

Með því, sem ég nú hef sagt, hef ég leitazt við að skýra aðalefni þessa merka frv. En í 20. gr. er svo bráðabirgðaákvæði vegna elztu sjómannanna, sem nú eru á togurunum, þegar lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna taka gildi. Ákvæði þessarar greinar þýða það, að ríkissjóður tekur að sér að kaupa þessum mönnum lífeyrissjóðsréttindi, og tel ég það alveg sjálfsagða ráðstöfun, og hygg ég að flestir séu á því máli. Bráðabirgðaákvæðið er þannig, með leyfi forseta:

„Skipverji á togara, sem við gildistöku þessara laga er orðinn eldri, en 55 ára, skal við 65 ára aldur eiga rétt til lífeyris og annarra bóta og réttinda eins og sá, sem greitt hefur til sjóðsins í 10 ár“ — það er ætlunin, að hann öðlist þennan rétt án greiðslu iðgjalda — „og náð hefur 65 ára aldri. Haldi hann áfram á togara eftir að hafa náð þeim aldri, fær hann aukin réttindi samkvæmt ákvæðum laganna. — Sá, sem við gildistöku laganna er orðinn 65 ára, er enn á togara og hefur verið það minnst 10 ár, skal strax fá réttindi, þannig að sá, sem er 65 ára, fær sömu réttindi og sá, sem greitt hefur til sjóðsins í 10 ár, 66 ára eins og sá, sem greitt hefur í 11 ár, 67 ára í 12 ár o.s.frv.“

Með því að lesa þetta brb.-ákvæði hygg ég, að öllum sé ljóst, að þetta er alveg sérstök öryggisráðstöfun fyrir gömlu togarasjómennina, sem nú væru hvað af hverju að hætta störfum, en hafa ekki greitt nein iðgjöld til þessarar tryggingar. Með brb.-ákvæði þessu er komið í veg fyrir það, að nokkur maður, sem á togara starfar nú, verði settur hjá um að njóta réttinda þeirra, sem í lögunum felast. Hefði það sízt mátt henda, að elztu togarasjómennirnir hefðu þannig orðið útundan. En þess eru þó nokkur dæmi, að menn á aldrinum frá sextugu til sjötugs séu enn á togurunum. Margir menn eru það nú að vísu ekki. Sumir þessara manna hafa nær hálfrar aldar starfsferil að baki sér á íslenzkum togara. Það þótti þó ekki eðlilegt, að kostnaður vegna réttinda þessara sægarpa yrði greiddur úr sjálfum sjóðnum af iðgjöldum sjóðfélaganna, og þess vegna var, eins og ég áðan sagði, horfið að því ráði, að ríkissjóður skyldi kaupa þeim réttindi. Er það þá eins konar viðurkenning, viðurkenningarvottur skulum við segja, af þjóðfélagsins hálfu fyrir ómetanleg störf þessara þrekmiklu manna.

Ég hef nú rakið þetta mál allrækilega, af því að ég tel hér tvímælalaust vera um merkilegt mál að ræða, sem eigi heimtingu á fyllstu athygli alþm. Þetta er mikið hagsmunamál sjómannastéttarinnar, enda hafa sjómenn og samtök þeirra um alllangt skeið lagt mikla áherzlu á, að því yrði þokað í höfn og komið til framkvæmda.

Frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna var fyrst flutt á þingi, svo að ég viti, 1955 af þeim Einari Olgeirssyni, Sigurði Guðnasyni og Gunnari Jóhannssyni, en þá náði málið ekki fram að ganga. Var þá strax ljóst, að hér var komið þingmál, sem sjómenn töldu sitt stóra mál. Þeir sendu strax af skipunum eindregnar áskoranir til þm. og þingsins um að samþykkja það, og þetta voru engar pantaðar samþykktir, þær voru ekta og bornar uppi af einlægri von sjómanna um að geta með þessu máli tryggt betur öryggi sitt og sinna að loknum ströngum og áhættusömum starfsdegi. En svarið kom samt ekki tafarlaust frá Alþingi, þess efnis, að sjálfsagt væri að verða við þessum óskum sjómannanna. Aftur var svo málið flutt á Alþingi af þeim Einari Olgeirssyni og Gunnari Jóhannssyni á næsta þingi og náði þó ekki að heldur samþykki þingsins. En upp úr því varð samkomulag um það innan núverandi ríkisstj., að málið skyldi vandlega undirbúið í mþn. og afgr. sem lög á þessu þingi. Lúðvík Jósefsson skipaði svo þessa n., eins og ég sagði í upphafi máls míns, og hefur n. lokið því starfi, sem ég hef verið að gera grein fyrir.

Nú líður að því, að fullar efndir verði á þessu fyrirheiti, og tel ég, að góðu máli sé þá komið í framkvæmd með samstarfi ríkisvalds og verkalýðssamtaka. Ég tel það ánægjulegt að minnast þess, að skammt er síðan annað stórmál verkalýðssamtakanna var hér til umr. og er nú orðið að lögum. Á ég þar við rétt tímakaups- og vikukaupsmanna til uppsagnarfrests og til kaupgreiðslu í veikinda- og slysatilfellum til jafns við mánaðarkaupsmenn. Þetta tel ég sjálfsagt að þakka, og þessu ber auðvitað að fagna. Ég vona, að þetta öryggis- og hagsmunamál íslenzkra sjómanna verði orðið að lögum frá Alþingi eftir nokkra daga.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til heilbr.- og félmn. d., þegar þessari umr. er lokið.