07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

94. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Nú verð ég að játa, að mér finnst vera mjótt í samhengisþræðinum hjá vini mínum, hv. þm. V-Sk., því að l. fjalla eingöngu um, að það megi ekki breyta íbúðarhúsum í bænum, sem hafa verið teiknuð sem slík og voru tekin í notkun, þegar l. voru sett, til annarra nota. Það er ekkert í þeim l. um það, að eigendum húsa hér í Reykjavík sé bannað að rífa hús sín og að þeir megi ekki nota grunninn til þess að byggja aðra byggingu á eða heimila öðrum að kaupa lóðina og byggja á henni. Það allt saman heyrir undir byggingaryfirvöld Reykjavikurbæjar og enga aðra og getur ekki heyrt undir aðra. Ég er afar hræddur um, að það hefði heyrzt hljóð úr horni, ef löggjöfin hefði gengið svo á rétt hins persónulega eignarréttar að setja þá kvöð á, að aldrei mætti rifa hús hér í bænum. Ég veit ekkert, hversu ágætt þetta hús hefur verið á Laugavegi 18, en það mun hafa verið gamalt timburhús, — er það ekki rétt? — sem núna hefur verið rifið, og þar mun eiga að byggja nýtt stórhýsi. Það heyrir að öllu leyti undir byggingaryfirvöld Reykjavikurbæjar, í fyrsta lagi að leyfa þessar athafnir eða banna og samþykkja teikningu og annað athafnafrelsi á þeirri lóð, þegar hún hefur verið hreinsuð sem húslaus lóð í borginni. Það kemur ekkert til undanþágu frá þessari löggjöf og á ekkert skylt við það, sem hér er verið að gera, það er allt annars eðlis. En hv. þm. V-Sk. er vissulega frjálst, ef hann vill koma með löggjöf um að banna húseigendum í Reykjavík að rífa hús sín og banna að byggja upp á þeim grunni aftur. Það ætla ég ekki að gera, ég ætla ekki að setja slíka löggjöf. En varðandi lögin um bann við notkun íbúðarhúsa, inn á það svið kemur þetta ekki, það tilheyrir eingöngu valdssviði byggingaryfirvaldanna í Reykjavíkurborg, og mundu yfirvöldin telja sig þannig liðuð nú, að þau gætu ráðið því, sem þau vildu í þeim efnum, og þyrfti hvorki liðsinni frá mér né hv. þm. V-Sk. um það.