01.11.1957
Neðri deild: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

35. mál, útsvör

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. vildi halda því fram, að þetta frv., þó að samþykkt yrði, hefði í rauninni ekki neina teljandi breytingu í för með sér á valdaaðstöðu nefnda þeirra, sem hér er um að ræða. Ég vil þá aftur inna eftir því, sem ég tel mestu máli skipta í þessu sambandi, en það er þetta: Eins og ég minntist á og varla getur verið ágreiningur um, er valdssvið ríkisskattanefndar og yfirskattanefndar það eitt samkvæmt núgildandi lögum, að þeim er heimilt og ber, eftir því sem þær telja ástæðu til, að leiðrétta innbyrðis útsvör hinna einstöku borgara, ef þeir kæra. Hins vegar hafa þessar nefndir ekki heimild til þess að breyta þeim skattstigum eða þeim útsvarsstigum, sem útsvörin hafa verið lögð á eftir. Ef slíkt væri meiningin, þá væri það auðvitað meiningarlaust að miða við þessi 10%. Þess vegna vil ég aftur spyrja að því og vona, að ég fái við því alveg skýrt svar: Þýðir þetta, að 10% eru færð ofan í 3%, það, að eftir sem áður beri að líta þannig á, að þessar nefndir hafi ekki heimild til þess að breyta hinum almennu skattstigum, heldur aðeins að samræma útsvörin innbyrðis? Ef svo er, þá er ég hæstv. félmrh. í rauninni sammála um, að hér sé ekki um mikið stórmál að ræða. Sé hins vegar ætlunin sú að innleiða það með þessum lögum, að ríkisskattanefnd og yfirskattanefnd hafi heimild til þess að breyta sjálfum útsvarsstigunum, eigi t.d. að hafa heimild til þess að lækka öll útsvör í Reykjavík um 4% eða hvað það er, og þá samsvarandi heimildir gagnvart öðrum bæjarfélögum, þá er ekki vafi á því, að þá er vald þessara nefnda aukið mjög stórkostlega frá því, sem nú er. Það er aukið svo mikið, að í rauninni má segja, að úrslitavaldið í málefnum bæjar- og sveitarfélaga sé komið í hendur þessara nefnda. Þetta finnst mér aðalatriðið og í rauninni varla hægt að taka afstöðu til þessa máls, fyrr en það er vitað. Ég fellst fullkomlega á það með hæstv. félmrh., að þeir, sem nú eiga sæti í ríkisskattanefnd, séu góðir og gegnir menn. En hingað til hefur vald ríkisskattanefndar verið ákaflega takmarkað. Ríkisskattanefnd hefur í rauninni ekki haft neitt pólitískt vald. Það, sem henni er falið, er að leysa reikningsdæmi, og aðalatriði, að þar séu reikningsglöggir menn. Eigi það hins vegar að vera þannig í framtíðinni, að þessar nefndir eigi að geta ákveðið útsvarsstigana eða haft áhrif á þá í bæjarfélögunum, þá er þeim falið stórkostlegt pólitískt vald.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta, en vil aðeins segja það í sambandi við það, sem ég sagði um vinnubrögðin í hinum pólitísku nefndum, — og það stend ég fullkomlega við, — að mér kom það mjög ókunnuglega fyrir sjónir, þegar hæstv. félmrh. talaði um það sem sérstaka óhæfu, nokkuð sem væri alveg óheyrilegt, að ráðherra hringdi í flokksmenn sína í þessum pólitísku nefndum og leitaðist við að hafa áhrif á þeirra afstöðu. Ég er hins vegar sannfærður um, að þetta er ekki eingöngu undantekning, heldur það almenna. Ég hef aldrei notað orðið spillingu yfir þetta. Mönnum þeim, sem sæti eiga í þessum nefndum, er ætlað að gæta þar hagsmuna síns flokks, og það er vitað mál, að það er ekki alltaf af sjálfsdáðum sem ráðherrarnir taka þetta upp. Ef ráðherra hringir t.d. í sína menn í jeppaúthlutunarnefnd eða gjaldeyrisnefnd o.s.frv. og biður þá að útvega þessum manni jeppa, þessum gjaldeyri o.s.frv., þá ber að hafa það hugfast, að á bak við ráðherrana eru aðrir, sem segja: Þú veizt, hvað ég hef gert fyrir flokkinn. Ég ætlast til þess, að þú beitir þínum áhrifum við okkar menn í nefndinni, að þetta sé gert fyrir mig. Verði það ekki gert, þá er ekki víst, að ég gangi eins ótrauður erinda þinna og þíns flokks við næstu kosningar. — Svona röksemdir er hlustað á, og ég lái ráðherranum það ekki. Þetta er aðeins eðli stjórnmálanna. Það er ekki það, að stjórnmálamennirnir séu út af fyrir sig spilltir, sem er orsök þess, heldur er það haftakerfið, sem skapar jarðveg fyrir svona vinnubrögð, en það er önnur hlið á þessu máli, sem ég skal ekki gera frekar, að umræðuefni hér.