17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1676)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björgvin Jónsson) :

Herra forseti. Við höfum í samgmn., eins og ég sagði áðan, rætt þetta frv. á þremur fundum fram og aftur. Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki þá sérþekkingu á rekstri veitinga- og gististaða, að ég geti örugglega sagt um, hvort frv. sé hroðvirknislega úr garði gert, en ég verð að benda á það, að samtök matsveina og veitingaþjóna hafa eindregið mælt með því, að þetta frv. næði fram að ganga, og eins benda á hitt, að þær sérstöku aths., sem Samband veitinga- og gistihúsaeigenda gerir við þetta frv., virðast ekki við fljóta yfirsýn vera mikilvægar.

Ég get fyrir mína hönd lýst því hér yfir, að ég mundi t. d. fylgja brtt., ef fram kæmi, sem miðar að 1. liðnum, sem þeir tala um, veitingamennirnir, þar sem þeir telja óæskilegt, að fellt sé niður ákvæði um, að leita verði leyfis til þess að leyfa gistingu og veitingu um borð í skipum, eftir að þau eru komin á ákvörðunarstað.

Hvað 2. tölul. viðvíkur, þá finnst mér alveg sjálfsagt, að það séu skýr ákvæði í veitingalögum í sambandi við áfengismál. Við vitum, að í veitingahúsum fer fram mikið af samkomum, og það verður að girða fyrir það alveg örugglega í löggjöf, að veitingamenn stundi á nokkurn hátt leynivínsölu, og ég get ekki séð, að það sé á nokkurn hátt móðgun við veitingamannastéttina, þó að löggjafinn girði fyrir það í upphafi, að um nokkra misnotkun á því geti verið að ræða.

Um 3. aths. Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda er það að segja, að það eru víst í þessari löggjöf svipuð ákvæði hvað viðkemur erlendum ríkisborgurum og í lögum um aðrar atvinnugreinar, og við töldum ekki ástæðu til að taka upp í þennan lagabálk sérákvæði.

Hvað 4. aths. viðvíkur hygg ég, að við gerum okkur allir grein fyrir því, að ástandið í gistihúsamálum hjá okkur hér á landi er alls ekki jafngott og það ætti að vera, að það er örugglega fullkomin ástæða til þess, að sérstakri stofnun eins og ferðaskrifstofu ríkisins, sem er sá aðili, sem á að hafa forgöngu um t. d. að gera landið að ferðamannalandi, sé falið að hafa eftirlit með því, að gististaðir og veitingahús séu eins úr garði gerð og gert er ráð fyrir í löggjöf.

Við vitum, að á ýmsum hinna smærri staða er ákaflega erfitt ýmissa hluta vegna fyrir lögreglustjóra og heilbrigðisnefndir að hafa þetta eftirlit á hendi. Þar kemur margt til, þó að ekki sé annað en sveitarígur og annað slíkt, sem getur gert þetta eftirlit gagnslítið.

Um 5. aths. get ég aðeins vísað til þess, sem ég sagði um þá fjórðu. En ég tel og við í meiri hl. n., að það sé ákaflega mikils virði, að þessi lög séu endurskoðuð. Og þó að svo færi, að það kæmi í ljós, að lögin væru ekki alfullkomin, þá hefur víst annað eins komið fyrir og þó að till. um einhverjar breyt. á lögunum kæmu fram á næsta þingi, eftir að reynslan fer að skera úr um í framkvæmd.

Ég vil mæla eindregið með því, að þessu máli verði vísað til 3. umr., tek það fram, eins og segir í nál. okkar, að við nm. erum óbundnir eða getum fylgt eða flutt brtt., ef hægt er að sýna okkur fram á, að þær séu til bóta.