18.12.1957
Neðri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

82. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég get vísað til þess, sem ég hef sagt um þetta mál í sambandi við fyrra málið. Þetta er í raun og veru hvort tveggja eitt og hið sama og því ástæðulaust að endurtaka nú það, sem uppi var látið við umr. um hitt málið.

Ég vil einungis taka fram vegna ummæla hæstv. menntmrh. í síðustu ræðu hans um það mál, eftir að ég hafði lokið mínum ræðutíma, að það fer mjög illa á því með ráðh., að þeir séu svo óþolgóðir, að þeir hreyti hnífilyrðum í þm., þó að þeir noti sitt málfrelsi og ræði um þau mál, sem flutt eru á Alþ., og gerist svo djarfir að neita ranghermi því, sem stjórnarherrarnir leyfa sér að viðhafa.

Það, að hæstv. menntmrh. er svo óþolinmóður, að hann þolir ekki að taka þátt í venjulegum þinglegum umr., sýnir, að hann á töluvert eftir að læra um það, hvers eðlis þingræði og lýðfrelsi í raun og veru er.

Ég skal svo ekki orðlengja það frekar. En vegna þess, sem hann sló fram, að ef ég teldi, að þingvilji væri fyrir því að leggja þetta gjald á áfengið, af hverju ég hefði þá ekki gert till. um það, þá er því til að svara, að það er einmitt það, sem ég er að gera till. um, og sú n., sem ég skipaði ásamt hæstv. þáv. félmrh., 1. þm. Skagf. (StgrSt), bar einmitt till. fram að meginefni til sammála því, sem ég nú geri till. um. Þetta var skoðun mín, meðan ég var í fyrrv. stjórn, og er óbreytt skoðun mín. Ég er sannfærður um það, að ef þingmenn fengju nú að greiða frjálst atkvæði um þetta, þá mundi mín till. um þetta verða ofan á. Ég veit, að þm. fá það ekki, og þess vegna verður legið á málinu að þessu sinni, en það haggar ekki því, að það mun verða tekið upp aftur, þangað til sú réttarbót fæst, að þetta verði lagfært. E. t. v. er þess skemmra að bíða en hæstv. menntmrh. nú hyggur.

Hinu hefði verið vit í hjá hæstv. menntmrh., að víta mig fyrir að gera ekki fyrr gangskör að löggjöf um vísindasjóð, en ég gerði, sem sagt á árinu 1956. Því til er að svara, að á þeim árum, sem ég gegndi því starfi, var svo margháttuð löggjöf, sem varð að knýja í gegn á stuttum tíma, og við þvílíka örðugleika að etja að fá samþykki fyrir henni allri og þá fyrst og fremst löggjöfinni um skólakostnaðinn, að einfaldlega vannst ekki tími til þess að koma þessari réttarbót á. En ég hygg, að auk margrar minni háttar löggjafar, mjög þýðingarmikillar, eins og um bókasöfn, svo að aðeins eitt dæmi sé nefnt, verði ætíð litið þannig á, að löggjöfin um skólakostnaðinn sé ein mesta endurbót, sem gerð hefur verið í þeim efnum. Og vonir mínar standa einungis til þess, að þeirri löggjöf verði fylgt, en ekki t. d, nú við setningu þessara fjárl. eða síðari verði farið fram hjá ákvæðum hennar. En hætt er við, að svo verði gert, ef hæstv. menntmrh., hver sem hann er á hverjum tíma, hefur ekki ríkan skilning á því, að eins og til hagar í nútímaþjóðfélagi, er almenningsfræðslan undirstaða í senn hinna æðri vísinda og hagsældar þjóðarinnar. Það er tómt mál að tala um almenningsfræðslu, ef ekki er séð fyrir nægu skólahúsnæði fyrir barna- og unglingaskóla. Og sérstaklega ef settir verða hjá þeir staðirnir, sem í örastri uppbyggingu eru, t. d. sjálfur höfuðstaðurinn, þá er voðinn vís, og ég vona, að sú ógæfa eigi ekki eftir að bera við á þessu þingi, að það verði gert.