14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var þar afgr. með samhljóða atkvæðum samkv. meðmælum hv. menntmn. Í því felast tvær smávægilegar breytingar á gildandi lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Sú fyrri lýtur að því, að tekin séu af öll tvímæli um það, að gjald það, sem lagt var með lögum á s.l. vori á kvikmyndasýningar, skuli greiðast af öllum kvikmyndahúsum, þ.e. einnig af þeim, sem að öðru leyti njóta undanþágu frá skemmtanaskatti. Það kom greinilega fram í greinargerð frv. þá og í umr., sem um málið urðu, að þetta nýja gjald ætti að greiðast af öllum kvikmyndasýningum, og ég hafði gert ráð fyrir því, að orðalag laganna um þetta væri algerlega ótvírætt. Ég tel að vísu enn, að svo sé. Þó hefur verið látinn í ljós vafi á, að orðalagið sé nógu skýrt, og er því hér lagt til, að tekin séu af öll tvímæli um þetta. Ef þetta frv. er samþykkt, gerist því það eitt, að því er slegið algerlega föstu, sem þingheimur gerði ráð fyrir, þegar lögin voru afgreidd á sínum tíma.

Hv. sjálfstæðismenn í menntmn. Ed. höfðu fyrirvara um afstöðu sína til málsins. Sá fyrirvari laut að því einu, að þeir væru andvígir þessu nýja gjaldi, en ekki að hinu, að það væri eðlilegt eða væri í samræmi við upphaflegan tilgang lagasetningarinnar, að þetta gjald væri innheimt af öllum kvikmyndasýningum.

Hitt atriðið lýtur að því, að með lagabreytingunni í fyrra var lagt tveggja kr. gjald á dansleiki. Var svo gert ráð fyrir í frv., að þetta nýja gjald skyldi innheimtast af öllum dansleikjum, einnig af þeim, sem undanþegnir eru skemmtanaskatti, og það hefur komið í ljós við athugun, að það að innheimta þetta nýja gjald eitt af þeim aðilum, sem annars njóta undanþágu undan skemmtanaskatti, mundi verða of fyrirhafnarsamt og of kostnaðarsamt. Að vísu mundi innheimtukostnaðurinn falla á þá aðila, sem dansleikina halda, en það þykir ekki sanngjarnt að leggja slíkan kostnað á þessa aðila, þar sem hann mundi í sumum tilfellum nema, meiru en þessu nýja tveggja kr. gjaldi næmi. Þess vegna er þörf á að breyta frv. í þá átt, að þetta gjald skuli ekki innheimtast af slíkum dansleikjum, sem að öðru leyti eru undanþegnir skemmtanaskatti. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að hv. þingdeild afgr. þetta mál sem fyrst og að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn.