23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2255)

12. mál, brunavarnir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé mikilsverðu máli hreyft, sem skylt sé að veita fulla athygli, því að engum getur dulizt, að hinir ítrekuðu brunar hafa mjög alvarlegt tjón í för með sér. Í fyrsta lagi er hæpið, að verðmætin séu að fullu vátryggð, a.m.k. öll þau óþægindi, atvinnutjón og annað slíkt, sem þessu er samfara. En við það bætist, að jafnvel þótt fullt vátryggingarverð sé, þá hlýtur þetta að stórhækka iðgjöld og veldur þannig miklu og varanlegu fjárhagslegu tjóni. Enn fremur er sú hætta, sem hér er á ferðum fyrir líf og limi, og er sannast sagt guðs mildi, að ekki skuli hafa orðið af alvarlegri slys, en þó raun ber vitni. Ég er því hv. tillögumanni þakklátur fyrir að hafa hreyft þessu máli og vonast til þess, að málið fái góðar viðtökur og verði athugað gaumgæfilega í þingnefnd, sem fái það til meðferðar.

En það var eitt atriði, sem hann vék að í sinni fyrri ræðu, en er sérstök ástæða til að minnast á eftir hans seinni ræðu, en það er varðandi þessar brunavarnir, sem nú eiga sér stað.

Það vill þannig til, að einmitt fyrir einum eða tveimur dögum kom til mín maður, sem á heima úti á landi, og sagðist hafa slökkvitæki á heimili sínu, og það væri þess eðlis, að endurnýja þyrfti slökkviefnið í tækinu á vissum fresti. Nú hefði hann leitað eftir því að fá þetta efni keypt og að því er mér skilst einmitt leitað til þeirrar stofnunar, sem hv. þm, minntist á, suður í Hafnarfirði, en hefði þar verið tjáð, að nú síðustu mánuðina hefði þetta efni verið með öllu ófáanlegt. Mér skildist, að fyrst hefði verið tregða á því að veita innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir því að fá þetta nauðsynlega efni, þótt kostnaðarverð þess væri sáralítið. Eftir nokkurra mánaða þóf á þessu sumri hefði efnið þó fengizt og væri nú komið til landsins, en væri búið að liggja vikum saman á hafnarbakkanum og fengist ekki innleyst. En meðan þessu færi fram, væri fjöldi manna víðs vegar um landið með tæki, sem að vísu litu liðlega út, en væru í raun og veru ónothæf og kæmu ekki að gagni.

Slíkar brunavarnir eru auðvitað til þess að svíkja sjálfan sig og duga ekki. Nú var ég búinn að gera nokkrar ráðstafanir til þess að reyna að afla nánari upplýsinga um þetta, en hef þær ekki, hvort þetta er í alla staði eins og mér var sagt. En úr því að málinu er hér hreyft, tel ég rétt, að þetta komi hér fram í Alþingi, og vonast til þess, að sú hv. nefnd, allshn., sem fær málið vonandi til athugunar, íhugi einnig þessa hliðina, vegna þess að verst af öllu er að gera ráðstafanir og leggja í kostnað, sem telur mönnum trú um, að þeir séu sæmilega öruggir, ef þannig er búið að, að þetta kemur ekki að haldi, þegar mest á reynir. Hér er því um fullkomið alvöruefni að ræða, og vildi ég sem sagt beina því til hv. n., að hún kynni sér þetta, og ef svo er sem ég hygg, að hér sé rétt með farið, þá hlutist hún til um það við rétt stjórnarvöld, að úr því verði bætt hið bráðasta.