03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Í þeim eldhúsdagsumræðum, sem hér standa yfir, hefur mjög verið til þess reynt af andstæðingum ríkisstj. að telja stjórnina fjandsamlega verkalýðssamtökunum og vinnandi fólki yfirleitt. Þetta er raunar alger firra. Þótt skiptar séu skoðanir manna á hinum nýju lögum um útflutningssjóð, svo í verkalýðshreyfingunni sem annars staðar, þá fer það ekki á milli mála, að fjölmargir eru þeir þættir í lagasetningu á tímabili núverandi ríkisstj., sem settir hafa verið beint eftir óskum verkalýðssamtakanna eða þeim til hagræðis, og gegnir þar sannarlega öðru máli, en um vinnubrögð þau og afstöðu alla í verkalýðsmálum, sem uppi var í tíð þeirra ríkisstj., sem íhaldið réð mestu í. Þá var það segin saga, að allt stjórnarkerfið sneri broddum að öllum óskum og tilmælum ættuðum frá samtökum hins vinnandi fólks. Það eitt, sem verkalýðshreyfingin fékk einhverja áheyrn með á þingi, voru þau atriði, sem hún hafði áður knúið fram í samningum við atvinnurekendur og þá jafnan eftir harða verkfallsbaráttu, en án slíkra átaka komust verkalýðssamtökin nær aldrei í kallfæri við stjórnarvöld landsins á velmektardögum þess sama íhalds, sem þykist svo mjög bera hag vinnustéttanna fyrir brjósti.

Þótt ekki verði hér rakin öll þau mál, sem sanna það, að núverandi stjórnarvöld líti öðrum og vinsamlegri augum á verkalýðssamtökin og þjóðfélagslegt gildi þeirra, en fyrri stjórnir hafa gert, má samt nefna til nokkra slíka þætti. Skal þá fyrst talið, að með lögum var ákveðið á síðasta þingi að lengja orlof verkamanna úr tveimur í þrjár vikur, þ. e. að hækka orlofsgreiðslur samkvæmt orlofslögum úr 4% í 6% af kaupi. Með þessari ráðstöfun þrefaldaðist raunar orlofsréttur þeirra hlutarsjómanna, sem áður höfðu aðeins 2% orlofsrétt, en svo var um alla bátasjómenn ráðna eftir Faxaflóakjörum, því að með lögum þessum fengu allir hlutarsjómenn viðurkenndan fullan orlofsrétt eða 6% af hlutarupphæð.

Sá álitlegi tryggingasjóður, sem verkalýðsfélögin nú eiga, þar sem eru atvinnuleysistryggingarnar, var upphaflega aðeins að litlu leyti undir stjórn verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar. Að tilhlutan ríkisstj. hafa áhrif verkalýðshreyfingarinnar á stjórn atvinnuleysistryggingasjóðsins nú verið aukin, og verður það væntanlega verkalýðshreyfingunni mikils virði, þegar sjóðurinn tekur upp almennari lánastarfsemi, en nú er. En það er líklegt að hann geri, eftir að hann hefur eignazt 100 millj. kr. í höfuðstól, en vonir standa til, að því marki verði náð á yfirstandandi ári.

Þess má raunar geta sérstaklega í sambandi við atvinnuleysistryggingarnar, að þær eru ávöxtur af stóra verkfallinu 1955, því hinu sama sem íhaldið hefur löngum kallað landráðastarfsemi. Nú er raunar viðurkennt af öllum, að starfsemi trygginga þessara sé einhver heilladrýgsti og skynsamlegasti almenni sparnaðurinn, sem í landinu tíðkast á þessum dögum.

Varðandi skattalögin hefur sjómönnum verið sýnd veruleg tilhliðrun frá skattgreiðslum, svo sem alkunnugt er, og nú hefur einnig verið samþykkt skattniðurfelling á lágtekjufólki. Hvort tveggja þetta horfir til stórra bóta. Get ég þó ekki skilizt svo við það mál, um leið og ég fagna því, sem vel hefur miðað í þessum efnum, að ég ekki lýsi óánægju minni með það, að enn liggur eftir að leiðrétta skatt þess fólks, sem við framleiðslustörfin í verstöðvum landsins leggur nótt með degi, helga sem rúmhelga daga, til að bjarga framleiðslunni frá skemmdum og vinnur í aflahrotum langt umfram óskir sínar. En frv., sem ég flutti um þetta efni ásamt Gunnari Jóhannssyni, hv. 6. landsk. þm., féll hér á þingi nú í síðasta mánuði fyrir sameiginlegri andstöðu allra flokka annarra en Alþb.

Um tvenn síðustu áramót hefur ríkisstj. beinlínis samið svo um rekstrargrundvöll útvegsins við útvegsmenn og fiskverkendur, að áskildar voru lágmarkskjarabætur fyrir sjómenn. Um áramótin 1956–57 var kjarabót þessi metin allt að 12%, en var nokkuð misjöfn eftir því, hvers konar kjarasamninga viðkomandi félög höfðu áður við sína atvinnurekendur. Á svipaðan hátt varð árangur sjómannaráðstefnu Alþýðusambandsins á s. l. vetri og samningsgrundvöllur sá, sem þar var lagður, verulegur ávinningur fyrir alla fiskimannastéttina. Þar var lágmarkskauptrygging á vetrarvertíð t. d. stórlega hækkuð, og fiskverð til sjómanna hækkaði um 10 aura hvert kg. Þá voru á því þingi, sem nú er að ljúka störfum, samþykkt sérstök lög um réttindi tímakaupsmanna, og eru þau fram borin og samþykkt eftir sérstakri ósk Alþýðusambandsins. Í þeim felst það nýmæli, að tímakaupsmanni, sem vinnur að staðaldri hjá sama atvinnurekanda, verður ekki sagt upp fyrirvaralaust. Slíkum launþega er áskilinn mánaðar uppsagnarfrestur, og einnig er honum ákveðinn fullur launaréttur í sjúkdóms- og slysatilfellum allt að hálfum mánuði í hvert sinn.

Að lokum skal þess getið, að í gær voru samþykkt hér á Alþingi lög um lífeyrissjóð togarasjómanna. Ekki efa ég, að þau lög eru vísir að almennum lífeyrissjóði íslenzkra fiskimanna. Þau lög færa togarasjómönnum 4% beina kjarabót auk þeirrar tryggingar, sem í því felst að vera sjóðfélagi í slíkum sjóði. Lögin hafa líka þann kost að rýra í engu þann bótarétt almannatrygginganna hjá viðkomandi mönnum og máske það, sem bezt er, að ríkið kaupir gömlum togarasjómönnum bótarétt þegar í stað.

Þetta hið síðast talda mál og raunar hvert um sig af þeim hinum, sem nefnd hafa verið, eru svo mikilvæg og þess eðlis, að oft sinnis hefðu hlotizt stórátök af því að koma þeim fram. Nú hafa þau unnizt með öðrum og friðsamlegri hætti. En það er engin ástæða til þess að vanmeta ávinning verkalýðshreyfingarinnar, þann sem fengizt hefur með framgangi þeirra, þótt ekki hafi átökin, sem til sigursins leiddu, verið verkfallsbarátta. Íhaldið hefði auðvitað stigið ofan á hvert einasta þessara mála, ef það hefði mátt eiga þess kost, þótt ekki hafi það beitt sér nema gegn sumum þeirra, þegar það sá sig ekki geta ráðið úrslitum þeirra hvort eð var. Eða hvenær hefur nokkur stjórn íhaldsins fært í lög nokkra þá hluti, sem sambærilegir gætu talizt við þá upptalningu mála, sem ég hef hér gert? Aldrei. Og af hverju ekki? Af því að eðli þess er ekki að vinna með verkalýðshreyfingunni, heldur á móti henni, og það gerir það líka ævinlega, þegar það ræður, þótt það bregði fyrir sig fagurgala og samhyggjutón framan í launþegasamtökin, þegar það er komið í stjórnarandstöðu.

Í umr. hér í gærkvöld voru það efnahagsmál íslenzka þjóðarbúsins, sem flest orð féllu um. Þar er líka vissulega um mál að ræða, sem þörf er á að gefa fullan gaum. Ræða formanns Sjálfstfl., sem að formi til átti að mestu að snúast um þetta efni, var dálítið einstætt innlegg í málið. Uppistaðan var mikill og ferlegur bölsöngur um alla skatta, allar niðurgreiðslur og alla gengislækkun og afneitun Sjálfstfl. á öllu þessu. Þeir, sem horfðu á ræðumanninn hér í pontunni, gátu líka glöggt séð, að þessi ræða kostaði hann mikil átök og svitalæki, og það þarf heldur engan að undra, sem minnist þess, að enn eru ekki liðin full 2 ár, síðan formaður íhaldsins vék úr ríkisstj., þar sem hann hafði á hendi forustuhlutverk einmitt í því að koma fram löggjöf um allt það, sem hann fordæmir nú með miklum belgingi, — belgingi, sem aðeins er notaður þar, sem rök þrýtur. Í stjórnartíð Ólafs Thors fór þjóðin sannarlega ekki á mis við skattahækkanir, niðurgreiðslur eða gengislækkanir. Ívaf ræðunnar voru hreinar og ómengaðar furðusögur þvert ofan í allar staðreyndir, eins og t. d, sagan um það, að ráðherrar Alþb. hefðu svarið að verja hérvist hins erlenda hers. Og þá má teljast þröngt í búi um hin betri málefni hjá hinum stærsta stjórnmálaflokki á Íslandi, þegar svo fráleitar fullyrðingar gegn betri vitund ræðumanns jafnt sem allra manna vitorði þykja frambærilegar sem rök Sjálfstfl. í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi í áheyrn alþjóðar.

Eitt og raunar aðeins eitt í ræðu formanns Sjálfstfl. vil ég taka undir, og það er það atriði, sem hann sagði af nokkurri hógværð, að aukin útflutningsframleiðsla væri bezta efnahagsúrræðið. Það hefði verið mikil gæfa fyrir íslenzku þjóðina, ef hv. þm. G-K. hefði verið búinn að uppgötva þetta, meðan hann enn var ráðherra útvegsmálanna. Þá hefði hann ekki trassað það í 8 ár að gera ráðstafanir til þess að viðhalda togaraflotanum. Þá hefði hann reynt að afstýra því, sem var einkenni á útvegsmálastjórn hans, að fiskiflotinn lá oftast bundinn svo sem einn mánuð í upphafi hvers árs, af því að þjóðfélagið hafði ekki eftirlátið atvinnugrein þessari neinn rekstrargrundvöll og illmögulegt reyndist oft fyrir samtök útvegsmanna að ná tali af ráðherranum um útvegsmálin.

Það hefði ekki heldur til þess komið, að togarar, sem ríkisvaldið hafði ráðstöfunarrétt á, lægju svo að árum skipti ónotaðir í argasta reiðuleysi, meðan ráðuneytið hugsaði sig um, hverjum umsækjanda skyldi gert skipið falt, ef formaður Sjálfstfl., sem lét þetta ske hvað eftir annað í stjórnartíð sinni, hefði þá verið búinn að uppgötva það, sem hann nú sagði og ég vil taka undir, að aukin útflutningsframleiðsla sé bezta efnahagsúrræðið. Ef þm. G-K. hefði uppgötvað þessi sannindi fyrr og hagað sér í samræmi við þau, er ekkert líklegra, en hin svonefndu bjargráð, sem hann átelur óvægilega, hefðu verið alls óþörf. En þar með ber honum líka að viðurkenna, að þeir, sem undan þeim kvarta sérstaklega, eiga ekki síður sökótt við seinþroska fyrrverandi sjútvmrh., Ólafs Thors, en núverandi ríkisstj.

Tillöguleysi Sjálfstfl. í efnahagsmálunum er löngu frægt orðið að endemum. Sami flokkurinn sem taldi það óalandi og óferjandi, meðan hann fór með stjórn, að stjórnarandstöðuflokkur komu ekki fram með till, í slíkum málum, svo sem hent mun hafa einhverja stjórnarandstöðuflokka við afgreiðslu „Ólafs-bjargráðanna“ í ársbyrjun 1956, bjargráðanna frægu, sem ekki entust í ársfjórðung, — hann stendur nú sjálfur tillögu- og úrræðalaus eða a. m. k. ekki með burðugri till. en svo, að hann kýs heldur að geyma þær á sínum kistubotni, en að sýna alþjóð svipmótið á þeim, og það kann vel að vera, að þetta sé þrátt fyrir allt hyggilegast, þótt ekki sé það hetjulegt.

Það er því alveg ljóst, að til þess að fá raunhæfa mynd af efnahagsástandi íslenzku þjóðarinnar, veilum þess og möguleikum, er harla lítinn fróðleik að sækja í belgingsræður Sjálfstæðismanna. Þær eru líka til annars ætlaðar, en útskýringa á málum.

Lengst fram eftir öldum varð íslenzka þjóðin að búa við illan kost. Hér beindist barátta hversdagsins ekki að því að koma upp þægilegu húsi, stórri hlöðu eða vönduðum fiskibát fram til okkar aldar og fram eftir henni, heldur einfaldlega að því einu að bægja sultinum, horfelli fólks og fénaðar, frá dyrum dag frá degi. Það er skiljanlegt, að þjóð, sem skyndilega fær upp í hendur allt aðra og betri möguleika, en hún eygði um aldir, eigi í nokkrum erfiðleikum með að skynja sín takmörk, svo nauðsynlegt sem það þó er.

Það er óneitanlega mikill ljómi og glæsileiki yfir byggingarstarfsemi okkar, rafvæðingunni og fjölmörgum öðrum framkvæmdum síðari ára, þegar litið er á framkvæmdirnar sjálfar einar saman. En glæsileikinn er því miður ekki eins sindrandi og ljóminn ekki eins skær, ef litið er á öll fylgiskjöl málsins. Það er sem sagt staðreynd, að alltaf síðan stríðinu lauk höfum við eytt meira fé, en árlegar tekjur þjóðarinnar hrukku fyrir. Fyrst eyddum víð innstæðum þeim, sem okkur sköpuðust erlendis á stríðsárunum, þegar viðskiptaþjóðir okkar gátu ekki látið okkur í té nema hluta af því vörumagni, sem við nú teljum sjálfsagt að verða okkur úti um erlendis frá. Verulegum hluta af innstæðunum vörðum við til hinna nytsömustu hluta, svo sem endurnýjunar togaraflotans, og er sú ráðstöfun eitt helzta bjargræði þjóðarinnar í dag. Ólafur Thors hefur sem sagt ekki alltaf verið eins slæmur ráðherra og hann reyndist, eftir að nýsköpunarstjórnin féll. En hann þarf góðra manna handleiðslu, og hana vantar hann. En stórum hluta innstæðnanna var eytt, án þess að það undirbyggði blómlegan efnahag svo sem skyldi. Þegar innstæðurnar þrutu, fóru okkur að berast erlendar gjafir, og stóð svo um nokkurra ára skeið. Þá var m. a. Hæringur keyptur. Og þeim fjármunum var öllum eytt auk tilfallandi þjóðartekna, og að loknu tímabili Marshallgjafanna var enn ekki hægt að eyða meiru, en tekjur hrukku fyrir, og var nú tekið að safna erlendum skuldum.

Stundum er auðvitað hagkvæmt að taka lán, og sumt af þeim lánum, sem tekin hafa verið, mun koma þjóðinni í góðar þarfir, áður en langt um líður, í auknum framleiðslumöguleikum. En það er alveg tilgangslaust að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að nú á annan tug ára hefur eyðsla Íslendinga alltaf verið meiri, en tekjur þjóðarinnar hrukku fyrir, og þessi staðreynd er sú blika á himni íslenzks efnahagslífs, sem öðru hverju hefur viðrað illa úr, og það getur enginn verið óhultur fyrir hretum hennar, meðan hún ekki hverfur.

En með hverjum hætti getur þá breyting orðið hér á? Það er aðeins um tvo möguleika að ræða: Útflutningsframleiðslan verður að aukast eða innflutningurinn að minnka, nema hvort tveggja komi til. Lítum á síðari möguleikann, minnkaðan innflutning. Talið er, að innflutningurinn skiptist nokkurn veginn til þriðjunga í neyzluvörur, rekstrarvörur og fjárfestingarvörur. Samdráttur í neyzluvöruinnflutningi er tæpast hugsanlegur að neinu ráði, nema hann hafi í för með sér einhverja lífskjaraskerðingu, og því er hann mjög óæskilegur. Minnkandi rekstrarvöruinnflutningur er aðeins hugsanlegur án þess að valda framleiðslutapi með því t. d., að stuðlað sé að betri nýtingu véla og að innlendir möguleikar séu frekar notaðir, þegar því verður við komið, en kaup séu gerð erlendis, t. d. þegar valið er á milli fóðurbætiskaupa og öflunar innlends fóðurs, en að þessu er rekstrarvöruálaginu, sem ákveðið er í lögunum um útflutningssjóð, ætlað að miða. Þó er vart hægt að binda stórar vonir við, að þarna verði um mikinn gjaldeyrissparnað að ræða.

Um fjárfestingarvörurnar má segja, að þar sé hugsanlegt að létta eitthvað á, því að bæði er, að vafasamt má teljast, að jafnörar fjárfestingarframkvæmdir og verið hafa séu framkvæmanlegar á næstu árum, og eins hitt, að um þessar mundir er hér að taka til starfa innanlands sementsverksmiðja, sem létta mun nokkuð á byggingarvöruinnflutningnum.

Á hinn bóginn á það við um alla þessa liði, að Íslendingum fer ört fjölgandi, og er það eðlilegt, að þarfir aukist til innflutningsins sem því svarar.

Það horfir því ekki til þeirrar áttar, að góður kostur geti talizt að minnka innflutning til muna á næstu árum. Eini eðlilegi og tiltækilegi kosturinn er því að auka framleiðsluna stórlega, og á meðan það ekki tekst, er allt okkar efnahagskerfi ótryggt og lífskjaraskerðing yfirvofandi. Það er auðvitað hæg leið, sem ýmsir andstæðingar ríkisstj, hafa valið sér, að hafa í tíma og ótíma þau ummæli uppi um allar verðbreytingar, hvernig sem þær annars kunna að vera ættaðar, að hækkunin sé gjöf frá ríkisstj. En þetta er mikill síður, sérstaklega kaupsýslulýðsins hér í höfuðstaðnum, þess sem íhaldinu fylgir að málum. Mættu slíkir þó vel hafa í hyggju, að verðbólgan stafar af því, að of fáir framleiða útflutningsvörur, en of margir hafa valið sér hitt hlutskiptið, að reyna að hagnast á að reyna að selja fólki varning, keyptan fyrir þann gjaldeyri, sem aðrir framleiddu.

Í ársbyrjun 1957 var útflutningssjóði komið fót með lagasetningu. Þá var reynt að forða framleiðsluatvinnuvegunum frá þeirri algeru stöðvun, sem þröngsýni og sérgæzka íhaldsforkólfanna í fyrri ríkisstj. hafði leitt þá í. Þrátt fyrir allmikla tekjuþörf var þá farin leið, sem verkaði aðeins að litlu leyti á hið almenna verðlag í landinu, svonefnd verðstöðvunarleið. Íhaldið spyrnti gegn þeim ráðstöfunum, taldi þeim allt til foráttu og gerði enga till. þá fremur en nú frá eigin brjósti. Það viðurkenndi tekjuþörfina, en hafði enga till. uppi um tekjuöflun. Það valdi sér það eitt hlutskipti þá sem og nú að hrópa vammir og skammir að andstæðingum sínum af fullkomnu ábyrgðarleysi. Síðan kom á daginn, að áhrif þeirra aðgerða á verðlagið í landinu voru öllu minni, en íhaldið hafði viljað vera láta. En íhaldið var ákveðið í því að láta ekki sinn hlut eftir liggja í því að skapa það öngþveiti, sem það óskaði eftir. Því tókst t. d. með áhrifum sínum í stéttasamtökum hátekjumanna að stöðva allar samgöngur íslenzkra farartækja við útlönd um alllangt skeið. Auk þessa fékk íhaldið alvarlegan aflabrest að bandamanni veturinn 1957.

Truflunarstarfsemi íhaldsins og aflatregðan urðu svo til þess, að skarð var fyrir skildi og tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs reyndust ónógar, og því skapaðist enn þörf fyrir nýja tekjuöflun. Ný lög fyrir útflutningssjóð hafa verið afgreidd hér á þingi, svo sem alkunnugt er. Sú lagasetning er að sjálfsögðu hreint ekki yfir gagnrýni hafin. Mun ég þó ekki rekja það mál í einstökum liðum, svo mikið sem þegar hefur verið um það sagt í þessum umræðum. Það er þó vert að undirstrika, að sú leið, sem þar er farin, er samkomulagsleið þeirra aðila, sem annars vegar töldu, að halda ætti áfram eftir stöðvunarleið, svo sem Alþb. gerði, og hinna, sem töldu gengisbreytingu réttari leið.

Þótt íhaldið verjist þess nú sem fyrr að sýna, hverjar till. þess eru, af því að það treystir ekki á lýðhylli sinna tillagna, þá er það á flestra vitorði, að íhaldið aðhyllist gengisfellingu, sem mundi nema eitthvað á annað hundrað prósent verðhækkun á erlendum gjaldeyri. Hin nýju lög um útflutningssjóð verka óumdeilanlega til allmikillar verðhækkunar. En þegar blaðakostur íhaldsins vandlætist af því tilefni, að þessi eða hin vörutegundin hækki um svo og svo mörg prósent, þá væri ekki alls ófróðlegt fyrir lesendurna að hugsa sér íhaldsráðin til samanburðar, ráðin, sem sá stóri og gunnreifi flokkur þorði ekki að sýna. En að því er almennar vörur varðar yrðu íhaldsráðstafanirnar í öllum tilfellum margfalt alvarlegri verðhækkanir.

Þótt vandlæting íhaldsins vegna verðhækkana þeirra, sem fyrir dyrum standa, sé yfirdrepsskapur og hræsnin ein saman, er raunar ekki þar með sagt, að ráðstafanir þessar séu góðar og æskilegar, öðru nær. Ekki getur heldur talizt, að þær séu nein endanleg lausn vandamálsins. Eins og þegar hefur verið bent á, verður engin viðhlítandi lausn fengin á okkar efnahagsvandamálum önnur, en framleiðsluaukning. En af þessu leiðir, að þegar halda skal dómþing yfir ríkisstj. og meta frammistöðu hennar í efnahagsmálum, þá ber öllu öðru fremur að meta hana eftir því, hvort hún hefur stuðlað að aukinni útflutningsframleiðslu eða ekki.

Þótt mér finnist, að núverandi ríkisstj. hefði mátt sýna meiri röggsemi og viðbragðsflýti í því að hrinda í framkvæmd smíði á þeim stóru togurum, sem hún undirbýr, þá ber að viðurkenna og meta að verðleikum framkvæmdir hennar í útvegun annarra fiskiskipa. Þess mun nú t. d. skammt að bíða, að til landsins taki að sigla 250 lesta fiskibátar, 12 talsins, og þeir eiga vafalaust eftir að færa björg í bú. Rekstur fiskiskipaflotans hefur stjórnin undirbyggt svo vel, að til engra framleiðslustöðvana hefur komið í hennar tíð. Og öllum ber saman um, að útgerðarrekstur hafi ekki um langt skeið verið eins blómlegur og nú, enda þátttakan í útgerð sívaxandi og meiri nú, en nokkru sinni áður, öfugt við það, sem raun var á í tíð fyrrverandi stjórnar, þegar öll útgerð koðnaði og dróst saman og arðsvon var nær eingöngu bundin við verzlun, helzt brask og spákaupmennsku, sem raunar eru leiðarstjörnuhugsjónir Sjálfstfl., svo að ekki var nema eðlilegt þó að, að þeim væri hlúð.

Þótt stöðugt verðlag sé óneitanlega ákjósanlegra, en tíðar verðhækkanir, hvort heldur á kornvöru, kaffi, bifreiðum eða benzíni, þá er þó ekkert af þessu eins alvarlegur hlutur að horfast í augu við og sú aflarýrnun, sem greinilega hefur orðið á fiskimiðum okkar á undanförnum árum. Minnkandi fiskafli er ískyggilegasta efnahagsfyrirbærið, sem við eigum nú við að etja. Heildaraflamagn okkar hin síðustu ár hefur að mestu staðið í stað þrátt fyrir aukna veiðarfæranotkun, lengdan vinnudag bátasjómanna, fullkomnari veiðitækni og sókn á fjarlægari mið en áður. Þetta þýðir, að afli á hvert línubjóð eða í hvert net fer minnkandi. Það er von til, að síðasta vertíð sé hér undantekning, en ekki er það að fullu vitað enn þá. En ekki breytir það heildarsvip málsins.

Svo sem oft hefur lýst verið, þá er sjávaraflinn okkar eini stóri gjaldeyrisstofn, og á honum verða lífskjör okkar að langmestu leyti að byggjast. Ef við ættum einskis annars kost en að horfa á ofveiðina yrja mið okkar upp og aflamagnið minnka, svo sem líkast er að verða mundi, ef ekki væri að gert, þá væri allt annað en bjart, að líta til framtíðarinnar. En sem betur fer, er hér góður möguleiki eftir. Þótt okkar útgerð hafi vaxið á síðustu árum, erum við Íslendingar enn ekki orðnir hálfdrættingar við aðrar þjóðir á okkar miðum. Íslandsmið eru sem sagt ekki nema að litlu leyti viðurkennd séreign okkar þjóðar, enda eru þau sótt og nytjuð af erlendum aðilum, meira en af okkur sjálfum. Fullvíst má því telja, að miklir möguleikar skapist til að binda endi á ofveiðina með því, að við tökum okkur einkarétt til að veiða á stærra svæði á miðum okkar, en við nú höfum. Það er þess vegna grundvöllur allra efnahagsmála á okkar landi, að íslenzk fiskveiðilandhelgi verði stækkuð. Ákvörðun um stækkun landhelginnar í 12 mílur, undanþágulaust að því er erlend skip varðar, er því langsamlega mikilvægasta efnahagsráðstöfunin, sem þessi ríkisstj. hefur gert. Sumar erlendar þjóðir hafa látið í það skína, að þær muni ekki láta okkur haldast það uppi, að framkvæma hina ákveðnu landhelgisstækkun, nema þær fái ákveðin réttindi innan hennar. Við höfum fyrr heyrt slíka hótun, og við höfum staðið af okkur viðskiptastyrjöld við Breta vegna landhelgismálsins áður. Þeir gátu þá ekki bakað okkur teljandi tjón, og þeir standa í engu betur að vígi nú, ef íslenzka þjóðin er sameinuð í að sækja rétt sinn. Hitt er annað mál, að illu heilli er þjóð okkar flækt í bandalag hernaðarþjóða, Atlantshafsbandalagið. Þar höfum við stofnað til samstöðu með þeim þjóðum, sem minnstan skilning virðast hafa á gildi fiskveiða okkar eða almennum efnahagsþörfum. Máske er það tillitssemi við slíka aðila, sem felst í flutningi þeirrar yfirlýsingar, sem formaður Sjálfstfl. gaf hér í umræðunum í gær, að hann vildi enga aðild eiga að landhelgismálinu. Og e. t. v. eru vífilengjur hæstv. utanrrh. í ræðu hér í gær um, að tíminn til viðræðna við Atlantshafsbandalagið hefði verið of naumur og að samkomulagið um málið hér heima sé kannske ekki endanlegt, af sömu rótum runnar. Það er því rétt að spyrja báða þessa aðila um það, hvort þeir séu enn að hugleiða það sem möguleika að leyfa erlendum skipum einhvern veiðirétt í okkar landhelgi. Ef svo er ekki, þá ættu þeir að afneita þeirri hugmynd hér í alþjóðar áheyrn, því að ella sleppa þeir alls ekki við það, að á þá falli slíkur grunur.

Það kann vel að vera, að um stund geti hrópandi stjórnmálaforingjar fengið til liðs við sig eitthvert fólk með ábyrgðarlausum sleggjudómum um lögin um útflutningssjóð. En ef Sjálfstfl. eða aðrir halda, að hugi landsmanna megi vinna með því að hlaupast frá skyldunni við íslenzku þjóðina, en láta í þess stað að óskum erlendra yfirgangsmanna, eins og nú hafa verið sýndir nokkrir tilburðir til í sambandi við landhelgismálið, hið eina stóra efnahagsmál Íslands, þá skjátlast þeim. Í því máli mun þjóðin ekki láta neina erlenda ásælni, hverjum búningi sem hún kann að verða klædd, villa sér sýn, heldur standa sem fastast saman um framgang þess máls með festu og öryggi, en vísa hverjum þeim, sem metur aðra hluti meira, en hagsmuni Íslands, á bug sem vargi í véum. Og það munu allir þjóðhollir Íslendingar sjá, að sá, sem ekki ann þjóðinni þeirrar einnar lífsbjargar, sem hún á tiltæka, aflans af Íslandsmiðum, hann er enginn hollvinur þjóðarinnar í öðrum bjargráðum heldur.