18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

73. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (BSt):

Ég verð mjög að draga í efa, að hv. þm. N-Ísf. hafi lesið öll þau erindi, sem hafa borizt til Alþingis, eða nokkur af hans aðstoðarmönnum hafi á svo stuttum tíma sem leið, getað gengið úr skugga um það, að engin áskorun fælist í þeim til Alþingis. (SB: Vill ekki forseti láta rannsaka það?) Ég get gjarnan gert það, en ég sagði ekki almennt, að það hefðu borizt áskoranir, ég sagðist telja það víst, að frá tilteknum aðila og í tilteknu augnamiði hefðu borizt áskoranir um að samþ. þetta frv., því að það mundi hafa áhrif í þá átt, sem þeir aðilar vilja vera láta. — Annars verð ég enn að taka það fram, að ég tel það ekki þinglegt að bera á menn eða flokka þær sakir, sem eru refsiverðar að lögum. Kosningakúgun er refsiverð, það er m.ö.o.: að beita kosningakúgun er glæpur.