05.11.1957
Sameinað þing: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram, að ég er alveg jafnréttkjörinn frsm. n. eins og hv. þm. N-Þ. og á ekki síður en hann að nefnast því nafni, úr því að hæstv. forseti hafði þá nafngjöf um hann. Nefndin klofnaði og kaus sér sinn hvorn frsm. Án þess að það skipti miklu máli, þá er það rétt, sem rétt er.

Út af fyrir sig er nefndin sammála um það, að við það kjörbréf, sem hér liggur fyrir, sé ekkert að athuga, að sá maður, sem þar er sagður kjörinn, sé réttkjörinn sem 2. varaþm. Alþb. fyrir Rvík. Hins vegar töldum við tveir í kjörbréfanefnd, að þetta mál væri svo vaxið, að við vildum láta koma fram athugasemd um tilefni þess, að þessi hv. fulltrúi er kvaddur til þingmennsku. Ég skal ekki fara að rekja hér formleg atriði, sem vissulega skipta þó máli í þessu sambandi, um skyldu þingmanna til að gegna þingstörfum og að þingmenn megi ekki kalla varamenn sína, nema annaðhvort forföll hamli eða þeir hafi fengið leyfi forseta til brottfarar. Um þetta eru ákvæði í kosningalögum og þingsköpum. Hitt er rétt, að það hefur yfirleitt ekki verið fylgzt sérstaklega með því, að því er ég hygg, hingað til, hvorki af forsetum — og þetta mundi einkum heyra undir deildarforseta — né þingheimi, hvort um raunveruleg forföll eða fjarvistarheimildir er að ræða, og ég geri það út af fyrir sig ekki að till. minni í sambandi við þetta mál, að um þetta verði tekinn upp annar háttur, en verið hefur. Engu að síður tel ég, að brottför hæstv. félmrh. nú af landi og raunar hæstv. forseta Nd, einnig sé með þeim hætti og af þeim orsökum, að fullkomin vanræksla væri, ef ekki væri bent á það hér á Alþingi Íslendinga, að brottför þeirra er ekki aðeins vanræksla á þeirra þingstörfum, heldur er þar um algert þjóðarhneyksli að ræða, vansæmd fyrir íslenzku þjóðina.

Það er kunnugt, í hvaða erindum þessir menn hafa nú látið frá landi. Þeir fara til þess að taka þátt í 40 ára minningarhátíð kommúnistabyltingarinnar í Rússlandi, hátíð, sem halda á 7. nóv. n. k. Þeir eru boðnir til þessarar hátíðar af rússneskum stjórnvöldum með mismunandi hætti, að því er mönnum skilst. Þeir eru að vísu ekki boðnir þangað sem félmrh. Íslands né forseti Nd. Alþingis, heldur annar sem fulltrúi Alþýðusambandsins og hinn sem fulltrúi Sósíalistaflokksins. Ég tek það skýrt fram, að út af fyrir sig hef ég hér ekkert við það að athuga, þó að þessir menn hefðu farið, ef þeir væru einungis og yrðu skoðaðir sem fulltrúar þessara tveggja stofnana. Það er frelsi ráðandi í okkar landi, menn ráða sjálfir ferðum sínum, einnig félagasamtök, sem hafa þekkzt hið rússneska boð, hafa sjálf fullkomna heimild til þeirrar ákvörðunar. Það er vitað, að a. m. k. um Sósfl. er ekkert eðlilegra, en að formaður hans fari til Moskvu og sé staddur við byltingarafmælið. Sósfl. er angi af alþjóðasamtökum kommúnista, og þess vegna er formaðurinn einungis að fara til sinna heimastöðva, þegar hann leitar nú í hlaðvarpann hinn 7. nóv. n. k. Um Alþýðusambandið stendur öðruvísi á. Það er mál, sem vafalaust verður tekið þar upp. Því er raunar lýst, t. d. í Alþýðublaðinu í morgun, að svo muni verða gert, þegar þar að kemur. En það er atriði, sem Alþingi Íslendinga hefur ekki nein ráð yfir, heldur einungis félagar í þeim samtökum, sem Alþýðusambandið mynda.

En þess verður að gæta, að þeir tveir hv. þm., sem hér eiga hlut að máli, eru ekki aðeins meðlimir eða forustumenn annars vegar í Sósfl. og hins vegar í Alþýðusambandi Íslands, heldur er nú annar jafnframt félmrh. Íslands, æðsti maður íslenzku þjóðarinnar á sínum vettvangi, og hinn er forseti neðri deildar Alþingis, þeirrar stofnunar, sem við Íslendingar stærum okkur af að sé elzta löggjafarþing í hinum frjálsa heimi, og hversu fegnir sem þessir menn vildu, — og við skulum vona, að þeir vilji það í þessu tilfelli, — sundurskilja sinn persónuleika, þá lánast það ekki. Þegar þeir koma á þetta mót austur í Moskvu og hvarvetna sem til ferða þeirra spyrst, þá verður fyrst og fremst talið, að þar séu á ferð félmrh. íslenzka ríkisins og forseti neðri deildar Alþingis.

Ég tel, að það sé í fullri óþökk yfirgnæfandi meiri hluta íslenzku þjóðarinnar, að fulltrúar ríkisins og Alþingis fari á þessa samkomu með þeim hætti, sem hér er ráðgert, og ég vil lýsa algerri andstöðu minni og minna flokksmanna við þá ráðstöfun, jafnframt því sem ég verð að játa, að meiri hluti Alþingis — með því að hafast ekki að — hlýtur að taka ábyrgð á sig og gerast samábyrgur um það þjóðarhneyksli, sem hér er að gerast, þjóðarhneyksli, sem í raun og veru mátti sjá fyrir, að eitthvað slíkt hlyti, ef ekki annað verra, áður en yfir lýkur að bera að höndum, því að einmitt í dag er rétt ár liðið, frá því að þessi sami hæstv. forseti Nd. misnotaði hér í þessum sal forsetavald sitt til þess að hindra þingheim í því að votta ungversku þjóðinni samúð í þeim hörmungum, sem þá höfðu yfir hana gengið daginn áður og enn stóðu, og það er verðugt framhald þess leiks, að nú skuli þessi hæstv. forseti ásamt fylgdarliði haldinn til höfuðstöðvanna, þaðan sem blóðbaðinu var stjórnað.