12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Fyrirlitning hæstv. ríkisstj. á Alþ. og þingræðislegum stjórnarháttum hefur sjaldan lýst sér betur, en í dag. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að ráðherrum hefur ekki verið ofþjakað, frekar en öðrum þm. með langri fundarsetu þá mánuði, sem Alþ. hefur nú staðið. Það er ómótmælt, að einn af virðingarmönnum þingsins sagði ekki alls fyrir löngu, að þangað til nú fyrir 2–3 dögum hefði meðaltal funda í Nd. verið 71/2 mínúta, og ég hygg, að forseti hafi minnzt þess sérstaklega annaðhvort í fundarlok eða u.þ.b. sem hann steig úr forsetastól sínum, að það væri einstakur atburður, sem gerzt hefði nú í vikunni, að allur fundartími til kl. 4 var notaður af hv. Nd. Þegar svo stendur, mætti ætla, að hæstv. ríkisstj, virti Alþ. svo mikils, að þann stutta tíma, sem þm. er ætlaður til að ræða hin mikilvægustu mál, sem hrúgað er inn í lok þessa þinghalds, sem nú stendur yfir, létu hæstv. ráðh. svo lítið, að þeir mættu ótilknúðir hér á fundi. En við höfum nú orðið þess ásjáandi og áheyrandi, að það var ekki fyrr, en eftir ríkan eftirrekstur ýmissa þm. og hæstv. varaforseta, þm. N–M., að hæstv. sjútvmrh. var nánast nauðugur dreginn hingað inn í þingdeildina.

Við höfðum orðið þess áheyrandi fyrr í dag, að hæstv. fjmrh. hafði í beinum hótunum við hv. 1. þm. Rang. (IngJ) fyrir það, að hann skyldi vera svo djarfur að segja satt og rétt frá því, sem áður hafði gerzt í ríkisstj. Hæstv. fjmrh. hrópaði fram í frásögn hv. 1. þm. Rang., að það skyldi ekki borga sig fyrir þm. að halda þessu fram. Hafi nokkurn tíma heyrzt hótun úr ráðherrastóll eða frá þeim, sem þykist hafa yfir að ráða stærsta fjársjóði Íslendinga, hafi nokkurn tíma fyrr heyrzt slík hótun, þá hef ég ekki heyrt hennar getið. Sem betur fer, er þvílíkt athæfi ráðh, gersamlega fáheyrt og sannast sagt óskiljanlegt, að jafnveraldarvanur maður og hæstv. fjmrh. skuli gera sig sekan um þvílíka óhæfu, sýnir, að hans geðsmunir eru mjög úr lagi færðir og hann á við meiri bágindi að búa, en áður fyrr, meðan hann hélt nokkurn veginn hýrri há.

Það er einnig mjög eftirtektarvert, að þessi hæstv. ráðh., hæstv. fjmrh., sem áður fyrr reyndi að vanda orð sín nokkuð og segja ekki meira en hann gat staðið við, er nú, eftir að hann er kominn í sinn núverandi félagsskap, staðinn að því hvað eftir annað að segja gersamlega ósatt.

Hæstv. fjmrh. lét hafa sig til þess við útvarpsumr. í vor að halda því blákalt fram, að það væri rangt, sem við sjálfstæðismenn héldum þá fram, að kostur hefði verið á Sogsláni vorið 1956, svo fremi þáverandi stjórn hefði viljað tengja lánsútvegunina við áframhaldandi dvöl varnarliðsins á Íslandi, og hann bar einnig á móti því, að stórlán hefði þá verið fáanlegt í Þýzkalandi. Blað hans hefur hvað eftir annað ítrekað þessa umsögn ráðherrans síðan, og verður að telja, að sú ítrekun standi fyrir hans reikning. Hafi ráðh, mælt af ókunnugleika í vor, sem ég vildi þá telja að þannig hefði á staðið, a.m.k. um annað þessara atriða, að hann hefði verið á kosningaferðalagi, þegar það kom til ákvörðunar ráðherranna, og því farið fram hjá honum, þá hefur hann síðan átt þess fullan kost að kynna sér, hvað raunverulega átti sér stað, og hann er því ber að því gegn þeirri vitneskju, sem hann er skyldugur til að hafa aflað sér síðan, að hafa látið það viðgangast, að hreinum ósannindum væri haldið fram í hans nafni.

Hið sama bar svo við hér í d. í dag, að hæstv. fjmrh. leyfði sér að fullyrða, að við sjálfstæðismenn hefðum í fyrrv. ríkisstj, verið ásáttir með þá skipun á úthlutun atvinnubótafjár, að tveir ráðherrar önnuðust hana. Enginn veit þó betur en hæstv. fjmrh., að hann hafði um það alla forustu að stöðva stjórnarfrv., sem flutt var á þinginu 1955, þar sem lagt var til, að þessu fé og því, sem úthlutað yrði á fjárl. með svipuðum hætti, yrði úthlutað af þingkjörinni 5 manna nefnd. Hæstv. fjmrh. var þá að vísu tilleiðanlegur til þess, að það væri þingkjörin n., sem tæki við þessu starfi, en hann setti það sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að þannig yrði að haga til kosningunni, að kommúnistar gætu eftir þáverandi skipan þingsins ekki fengið neinn mann kosinn í n. Vegna þess að við sjálfstæðismenn vildum ekki fallast á þessa skipan málanna, heldur halda okkur að því, að það væru 5 menn kosnir, hverjir sem kosningu hlytu, — það færi eftir vilja kjósenda hverju sinni, þá beitti hæstv. fjmrh. sér fyrir því, að löggjöfin um jafnvægi í byggð landsins, sem Framsfl. hafði átt þátt í að semja með okkur og hafði stutt fram á síðustu stund, var stöðvuð í þinglokin.

Eftir þennan feril og þó að það sé skjalfest, að málið var stöðvað á síðustu stundu, þá leyfir hæstv. fjmrh. sér að koma hingað og fullyrða frammi fyrir þingheimi, að við höfum ekki viljað breyta til um aðferðina, — við, sem vildum breyta til, en það var hann, sem stóð þar á móti.

Sem betur fer, þá eru þvílík alger ósannindi og umsnúningur staðreyndanna af hálfu ráðherra nokkurt nýnæmi. Ég játa, að þess finnast því miður dæmi í stjórnmálasögu Íslendinga fyrr, en að þau séu jafntíð og nú er orðið hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvmrh., er nýnæmi, og má um atferli þeirra beggja segja, að dregur hver dám af sínum sessunaut. Þó að þeim komi ekki saman um margt, þessum hæstv. ráðherrum, og þó að hæstv. sjútvmrh. kinki kolli, þegar því er haldið fram, að hæstv. fjmrh. sé sekur um hlutdrægni, þá eru þeir báðir sammála um ósannindin, þessir hv. herrar; þar gengur ekki hnífurinn upp á milli þeirra.

En það var býsna fróðlegt í dag, að hæstv. sjútvmrh, lét þó ekki hafa sig til þess að viðurkenna, að úthlutun atvinnubótafjárins hefði farið vel fram, né gefa hæstv. fjmrh. siðferðisvottorð um framkomu hans í ráðherrastóll. Kannske eigum við nú eftir að heyra það líka, áður en yfir lýkur, en þá er mjög að hæstv. sjútvmrh. þrengt, ef hann fæst til að gefa þá yfirlýsingu berum orðum. En hæstv. sjútvmrh. lætur sér vissulega ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann hefur haldið því fram, þannig að ekki hefur verið hægt að misskilja, að hann hafi enga tilraun gert til þess að dylja Alþ. þess, að það frv., sem hér er til umr., væri flutt í sambandi við lausn farmannadeilunnar löngu í sumar, og hann sagði, að þingræður lægju fyrir og það væri hægt að sjá af þeim, að hann hefði haldið þessu fram, löngu áður en hann var knúinn til þess að játa þetta af okkur sjálfstæðismönnum. Hann vitnaði hér sjálfur í þingræður, og þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa upp ræðu hæstv. sjútvmrh., sem hann flutti í Ed., þegar hann lagði málið fyrir, og geta menn þá af henni heyrt, hvort og að hve miklu leyti hann rakti hinar sönnu orsakir þessa frv. og gerði grein fyrir, að það væri flutt í því skyni og brbl. sett til að leysa farmannadeiluna.

Handritið, sem er leiðrétt og ég hef fengið hér frammi á lestrarsal, hljóðar svo: „Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson): Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., en þessi brbl. voru sett með það tvennt í huga, að þörf væri á því að auka nokkuð við tekjur útflutningssjóðs, eins og komið var, þannig að hann gæti fengið nokkrar yfirfærslutekjur af fjárhæðum þeim, sem ganga til greiðslu á leigu á erlendum skipum, og eins með tilliti til þess, að nokkuð væri vikið til hliðar fyrir íslenzkum skipum, sem keppa við hin erlendu um flutninga að og frá landinu. En þróunin hefur verið sú að undanförnu, að mjög hefur verið hallað á aðstöðu íslenzku skipanna í þessari samkeppni, vegna þess að tilkostnaður hefur farið hækkandi hér innanlands, en fragtir almennt heldur lækkandi. Önnur skipafélög hér innanlands, sem hins vegar fá tekjur sínar samkv. flutningatöxtum, sem ákveðnir eru af verðlagsyfirvöldunum í landinu, hafa aftur fengið fragtir sínar hækkaðar, en hin skipin, sem eru í beinni samkeppni við hin erlendu skip á hinum frjálsa markaði, hafa, eins og ég segi, heldur fengið áfall í sambandi við lækkaðar fragtir og hafa því átt erfiðara um í samkeppninni. Þessi brbl. voru sett í þessum tvenns konar tilgangi: annars vegar að skattleggja nokkuð leyfi hinna erlendu skipa til hags fyrir útflutningssjóð, en um leið og það yrði gert, þá yrði aftur heldur ívilnað fyrir íslenzku skipunum, sem þarna eiga í samkeppni við hin erlendu. Ég ætla, að það þurfi ekki að skýra efni þessa máls öllu frekar á þessu stigi málsins, en vænti, að þessu frv. verði vísað til n., sem líklega yrði fjhn, — vildi leggja það til.“

Búið. Hvar er vikið að verkfallinu? Hvar er vikið að undirstöðu þessa máls, hinni raunverulegu ástæðu til þess, að gera þurfti ráðstafanir til þeirrar verðhækkunar, sem hér hefur átt sér stað?

Hæstv. sjútvmrh. heldur því svo fram, að það hafi engin verðhækkun orðið, það hafi þvert á móti lækkað sú vara í verði, sem hér sé um að ræða. Það er eins og hann telji, að þessi verðhækkun sé þess sérstaka eðlis, að hún hljóti að leiða til verðlækkunar. Það er alveg eins og með hæstv. félmrh., sem heldur því fram, að allar kauphækkanir verkalýðsins, meðan hann er í stjórnarandstöðu, séu verkalýðnum óhikað til góðs, en kauphækkanir séu hin mesta bölvun og eitur fyrir verkalýðinn, ef Hannibal Valdimarsson er ráðherra. Það er svipuð rökspeki, sem kemur fram í hugsun þessara tveggja sálufélaga Stalíns heitins.

En ég spyr nú: Hefði það verið mjög hættulegt fyrir þjóðfélagið, þó að verðlækkun hefði komið fram á sementi og timbri? Hæstv. sjútvmrh. segir: Ja, menn hafa ekkert orðið varir við þessa hækkun, af því að fragtirnar fóru lækkandi. — Hví í ósköpunum mátti ekki í öllu þessu dýrtíðarflóði, sem hér hefur orðið, og ekki sízt þeirri gífurlegu hækkun byggingarkostnaðarins, sem allir stynja undan, — hví máttu ekki menn fá að njóta þeirrar lækkunar, sem orðið hefði á frögtum, ef allt hefði verið með felldu? Nei, hæstv. ráðh. kemst ekki undan því með nokkru móti, að sú ráðstöfun, sem hér hefur verið gerð, hvort sem hún er réttmæt eða ekki, hlaut að verka til þess að halda uppi hærra verðlagi í landinu en ella. Og einmitt vegna þeirrar þýðingar þessara ráðstafana var óhjákvæmilegt fyrir ráðh., ef hann vildi segja Alþingi Íslendinga satt og rétt til, að skýra þinginu frá hinni raunverulegu ástæðu til þess, að brbl. voru sett, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til þess að leysa verkfallið í sumar með öðrum hætti en þessum, — þ.e.a.s. meiri hluti hæstv. ríkisstj., því að eins og ég hef áður drepið á, í þessum umr., þá hafði a.m.k. hæstv. félmrh. sérstöðu í þessu efni. Hann lét það óhikað uppi í bréfum, sem hann sendi deiluaðilum á sínum tíma, og samþykktum, sem hann beitti sér fyrir að gerðar voru norður á Akureyri, að hann teldi það eitt rétt að banna þetta verkfall, því að hér væri ekki um neina venjulega kaupdeilu að ræða, heldur einungis skemmdarstarfsemi lítils hóps manna. Eftir skrifum Tímans þá urðu menn einnig að telja, að þetta málgagn hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. væri sömu skoðunar og hæstv. félmrh. En ef verulegur hluti hæstv. ríkisstj. var þessarar skoðunar og þá ekki sízt ef sjálfur félmrh, var þeirrar skoðunar, af hverju voru þá ekki þessi bannlög gegn verkfallinu sett og málinu lokið með þeim hætti? Af hverju var þá valin þessi leið, sem hæstv. sjútvmrh. ber ábyrgð á að valin var, sem sé sú að hækka verðlagið? Og ef það var rétta leiðin, af hverju var þá ekki gripið til þess úrræðis miklu fyrr og þjóðin firrt því gífurlega tapi og örðugleikum, sem stöfuðu af nær 7 vikna verkfalli? Hæstv. sjútvmrh. segir, að það hafi ekki staðið á sér í þessum efnum, hann hafi verið beðinn um að hafa milligöngu í þessu máli strax í upphafi og hann hafi orðið við þeirri beiðni. En ég beini því til hæstv. ráðh.: Hver bað hann um að hafa þá milligöngu? Var það ríkisstj. eða einhver annar? Og hvernig stóð á því, ef ríkisstj, taldi ástæðu til þess, að einhver ráðh. færi þannig á frumstigi málsins að blanda sér í þessa deilu, að til þess var valinn hæstv. sjútvmrh., en ekki sjálfur félmrh., sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands, sem menn að óreyndu mundu hafa ætlað að væri allra manna hæfastur til þess að leiða slíka deilu til lykta? Og hvernig fær það staðizt, sem hæstv. sjútvmrh. segir, að hann hafi verið beðinn um að skipta sér af þessari deilu, — og gaf í skyn, þótt hann segði það ekki berum orðum, að það hafi verið ríkisstj., sem bað hann um þetta, - að hann til að byrja með og á fyrsta stigi málsins sagðist koma þarna alls ekki sem ráðherrann Lúðvík Jósefsson, heldur eingöngu sem hinn mikli áhugamaður Lúðvík Jósefsson, sem af góðvild sinni og umhyggju vildi leysa þetta mál? Hann mun hafa fengið heldur tregar undirtektir, því að aðilum virtist maðurinn ekki mjög trúverðugur, meðan hann hélt því fram, að hann væri einungis einstaklingurinn Lúðvík Jósefsson, þó að þeir teldu sjálfsagt að heyra mál hans, eftir að hann upplýsti síðar, að hann hefði umboð sinna samráðherra til þess.

Hann heldur því fram, hæstv. ráðh., að hann hafi gert sitt til þess að leysa þessa deilu. Ég hef rakið það áður, hvernig aðfarir hans í þeim efnum voru með ólíkindum, gersamlega ótrúlegar, þegar hann hélt því fram hvað eftir annað, að aðilar skyldu ekki samþykkja fyrsta, annað eða jafnvel þriðja sáttatilboð, vegna þess að nýjar tilraunir mundu verða gerðar. Og þegar illa gekk með að koma sættunum saman, þá skeði það, að hæstv. ráðh. leyfði sér við aðila að halda því fram, að þetta væri bara samráðherrum sínum að kenna, hann sjálfur væri fullur velvildar, — hann væri fullur velvildar, ef það væru ekki hinir, — ja, ég vil ekki nota þau ljótu orð, sem eftir eru höfð í þessu sambandi, — sem væru þarna að verki og hindruðu, að eðlilegar sættir gætu komizt á. Hæstv. sjútvmrh. bar á móti því, að slík afskipti hefðu verið óheppileg, og hélt því fram, að ég hefði skotið undan og neitað að birta í Mbl. vottorð frá einum samningsmanni farmanna, þar sem hæstv. sjútvmrh. voru lögð sérstök lofsyrði. Ég gat um það strax við 2. umr. þessa máls, að því fór svo fjarri, að ég reyndi að skjóta þessum ummælum undan, að strax í næsta blaði Mbl., eftir að þau höfðu birzt í öðru blaði, tók ég ummælin upp, og því til sönnunar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þau, enda hafa þau verulega þýðingu við að átta sig á efni þessa máls, Í Mbl. segir svo þriðjudaginn 21. júlí í sumar:

„Örn Steinsson, formaður Vélstjórafélags Íslands, birti s.l. sunnudag í Alþýðublaðinu alllanga grein, sem nefnist: „Hver eru ágreiningsatriðin í kaupdeilunni?“ Örn lýkur grein sinni með þessum ummælum: „Útgerðarmenn hafa ekki fengizt til að ræða kröfur þessar og hafa á engan hátt reynt í samráði við fulltrúa sjómanna að finna lausn á deilunni. Ég hygg því, að deila þessi sé útgerðarfélögunum ekkert hryggðarefni og nokkuð liggi þarna á bak við, sem tíminn mun síðar leiða í ljós. Ríkisstj. hefur og unnið slælega að leysa þessa deilu. Sjútvmrh. hefur þó setið með okkur allmarga fundi til að reyna að finna lausn á deilunni. Ég þakka honum fyrir tilraunir hans. En því miður virðist hann hafa takmarkað umboð. Deilan verður auðsjáanlega ekki leyst, nema aðstoð ríkisstjórnarinnar komi til. Ég skora því á stjórnina að gefa sjávarútvegsmálaráðherra fullkomið umboð til að koma verulega til móts við kröfur sjómanna. Viðræðurnar við sjútvmrh. hafa sýnt, að hægt er að brúa bilið, ef skilningur er fyrir hendi á báða bóga.“ Ath.: Grein þessa neitaði Mbl. að birta. Hvers vegna? Örn Steinsson.“

Þetta er úr grein Árnar Steinssonar. Mbl. svarar svo síðustu athugasemdinni, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Hér við er það að athuga, að Mbl. taldi greinina óþarflega langa og betra væri fyrir málefni það, er greinarhöfundur vildi skýra, og lesendur blaðsins, ef hann vildi stytta hana nokkuð. Um það kveðst greinarhöfundur ekki vera til viðræðu og hefur í þess stað snúið sér til Alþbl. um birtingu hennar.“

Hæstv. sjútvmrh. hélt því fram við síðustu umr. þessa máls, að Mbl. hefði ekki viljað birta greinina vegna lofsins, sem í henni væri um hann sjálfan. Menn hafa nú heyrt það lof og heyrt það, að Mbl. hliðraði sér síður en svo við að birta þann kafla greinarinnar, sem segja mætti að sérstaklega varðaði hæstv. sjútvmrh., enda fer því fjarri, að þessi ummæli afsanni nokkuð, sem Mbl. eða við sjálfstæðismenn höfum haldið fram um þetta mál. Þvert á móti staðfesta þau í einu og öllu það, sem ég hef haldið fram í málinu fyrr og síðar, nú síðast á þessum fundi, að hæstv. sjútvmrh. lék mjög tveim skjöldum í þessu máli, og það var ekki sízt fyrir mjög óheppilega og varhugaverða framkomu hans, sem verkfallið dróst svo á langinn, Ég bið hæstv. þm. að athuga það, að Örn Steinsson skrifar sína grein, þegar verkfallið er búið að standa í nær 6 vikur, en hæstv. sjútvmrh. mun hafa hafið afskipti sín af deilunni, jafnvel áður, en verkfallið skall . En jafnvel þegar svo er komið á elleftu stund og raunar langt fram yfir hana, þá er ljóst af ummælum Arnar Steinssonar, ef þau má marka, að sjútvmrh. segist þarna vera með takmarkað umboð. Ja, takmarkað af hverjum? Voru það ekki hans samráðherrar, sem höfðu takmarkað umboðið við hann, ef takmörkun var á það lögð? Og í frásögn hæstv. sjútvmrh. um, að umboðið væri takmarkað, felst ekki einmitt í henni það, sem ég hef verið að halda hér fram, að sjútvmrh. fræddi farmennina á því, að það stæði ekki á sér, heldur á þeim, sem hefðu aðeins veitt sér takmarkað umboð til að leysa málið, þ.e.a.s. hæstv. samráðherrum hans? Hann hafði ekki manndóm til þess að segja: Lengra getum við ekki gengið, — Nei, hann sagði: Lengra vilja þeir ekki ganga, þeir, sem ekki voru við. Þarna er hæstv. sjútvmrh. lifandi kominn. Hann talar ljúflega og blíðlega við þá, sem hann er að ræða við hverju sinni. Þeir, sem ekki þekkja hann, telja, að þetta sé einstaklega alúðlegur, elskulegur, geðfelldur maður, sem allra vandræði vilji leysa. En það er bara svo, að þegar menn fara að kynnast honum, þá sjá þeir, að hann er dálítið öðruvísi. Þá sjá þeir, að umboðið hjá honum er alltaf dálítið takmarkað. Hann er maður hins takmarkaða umboðs. Það er takmarkað traust, sem hægt er að leggja til orða þessa hæstv. ráðh. Og hæstv. sjútvmrh. má vita það, að félagar hans vita þetta nú orðið ósköp vel.

Hæstv. félmrh., — haldið þið, að hann hafi ekki haft eitthvað á bak við sig, haldið þið, að hann hafi mælt alveg út í bláinn, þegar hann hélt því fram við erlendan blaðamann í sumar, að það væri eiginlega fullráðið, að á þessu ári yrði kommúnistaflokkurinn eða flokkurinn með langa nafnið lagður niður og nýr einingarflokkur, algerlega laus við öll tengsl við Moskvu, stofnaður? Sá, sem hafði hvíslað þessu í eyru hæstv. félmrh., var auðvitað fyrst og fremst hans samráðherra, hæstv. sjútvmrh., sem bæði á undan og eftir þeirra ráðherramennsku hafði ferðazt með honum um landið. Þegar til átti að taka, var það ekki hæstv. félmrh., sem leysti hæstv. sjútvmrh. úr álögum, heldur var það hæstv. forseti Nd., sem fór með þennan hæstv. ráðh. í taumi austur í veizluna til Krúsjefs og drakk þar með honum í nokkra daga til undirbúnings því, að síðan var haldinn fundur, aðalþing kommúnista hér á Íslandi, þar sem því fór svo fjarri, að kommúnistaflokkurinn yrði lagður niður, eins og hæstv. félmrh. hafði haldið fram, að hæstv. sjútvmrh. var tekinn sem gísl í varaformannssæti flokksins, næst á eftir hæstv. forseta þessarar d., manninum, sem nú s.l. tvö ár hefur verið lengst af dveljandi austan járntjalds, þegar hann hefur ekki setið í stól þessarar hv. d. Ef honum hefur unnizt einhver tími til þess frá því að sitja í forsetastól elzta löggjafarþings heims, þá hefur hann dvalið með ástvinum sínum austur í Moskvu eða enn þá austar. Og nú er hæstv. sjútvmrh. tekinn í næsta sess kommúnistadeildarinnar á Íslandi á eftir þessum handgengnasta manni hinum alþjóðlegu kommúnistaforingjum, hæstv. forseta d. Það reyndist sem sé svo, að þegar hæstv. sjútvmrh. var að lofa hæstv. félmrh. því, að kommúnistaflokkinn skyldi leggja niður, þá var umboð hans takmarkað. Krúsjef var ekki búinn að skrifa upp á umboðið, — alveg eins og hæstv. ráðh. a.m.k. hélt fram, að það væri að kenna hæstv. menntmrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. og öðrum, að hann gat ekki boðið farmönnunum meira í sumar, en hann gerði.

Svo leyfði hæstv. sjútvmrh. sér að halda því fram, að skipafélögin hefðu aldrei fram á síðasta dag viljað ganga neitt til móts við kröfur farmanna, annað en að hækka þá allra lægst launuðu um eitthvað lítið. Og hann sagðist aldrei hafa heyrt það fyrr, en ég hélt því hér fram, að þau hefðu af sinni hálfu, a.m.k. Eimskipafélag Íslands, snemma í deilunni látið það uppi, að ef þau fengju bætt það, sem þessari hækkun næmi, þá væru þau til viðtals um kauphækkun. Með leyfi hæstv. forseta, þá verð ég að fá heimild til þess að lesa hér upp tilkynningu frá öllum skipafélögunum, sem segir töluvert aðra sögu, en hæstv. sjútvmrh, hélt fram í dag. Nú sé ég, að hæstv. sjútvmrh. hristir hausinn. Hann kinkar ekki kolli jafnánægjulega og hann gerði í dag, þegar ég var að víta hæstv. fjmrh. Honum líður auðsjáanlega ekki jafnvel nú. (Gripið fram í: Hann furðar sig á þessum málflutningi.) Sem betur fer, er ekki búið að friða Alþingi svo enn, að alþm. megi ekki halda uppi viðræðum við hæstvirta ráðh. Það verður kannske og er ætlunin, eftir að búið er að friða kjördaginn eins og þessum háttvirtu herrum líkar, að þeir ætli sér að friða Alþingi með þeim hætti, sem þeir hafa friðað löggjafarþingin, þar sem þeir hæstv. forseti og hæstv. félmrh. dvöldust fyrir skemmstu. En enn erum við á hinu fornhelga Alþingi Íslendinga og höfum fullkominn umræðurétt og munum nota hann, hvort sem þessum herrum líkar betur eða verr, Og ef þeir skera niður umræður hér eða hindra okkur í eðlilegum málflutningi, þá munu þeir þeim mun betur heyra til okkar á öðrum vettvangi. (Gripið fram í: Eru þetta hótanir?) Hótanir? Þetta eru ekki hótanir um þvílíkar aðfarir, eins og hæstv. fjmrh. hótaði í dag, þegar hann ógnaði þm. með fjárhagslegri kúgun, að þá skyldi ekki borga sig fyrir hann að segja satt lengur í sölum Alþingis Íslendinga. Hér er sú hótun, sem þessum herrum að Vísu svíður mest, að það verður vitnað til skynsemdar kjósendanna um þeirra frammistöðu. Og það er eðlilegt, að þegar vitnað er til þess, að kjósendurnir fái að heyra um þeirra hegðun, þá hljómar það sem ömurleg hótun í eyrum þessara hæstv. ráðh.

Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa fréttatilkynningu frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, sem birt var í Morgunblaðinu 26. júlí síðastliðinn.

„Eins og frá hefur verið skýrt opinberlega, bar sáttanefndin í farmannadeilunni fram þá till. við deiluaðila á fundi s.l. þriðjudag, að deilunni yrði ráðið til lykta með gerðardómi, sem þó yrði um niðurstöður sínar bundinn innan tiltekinna marka. Skyldi gerðardómur eigi ganga skemmra í niðurstöðu sinni, en sáttatill. sú, sem aðilar felldu með atkvgr. 11. og 12. þ. m., að viðbættri hækkun á kaupi um 2–5%, sem sáttanefndin lagði til á fundum með deiluaðilum 15. og 17. þ. m., og hins vegar skyldi dómurinn eigi ganga lengra, en fyrr nefndar tvær till. gerðu ráð fyrir, að viðbættum kröfum í 17 liðum, sem farmennirnir höfðu sett fram til viðbótar umræddum tveim till., eftir að sáttanefndin hafði lagt þær fram. Á fundi s.l. miðvikudag samþykktu farmenn einróma, að því er skýrt hefur verið frá opinberlega, að hafna till. sáttanefndarinnar um gerðardóm á framangreindum grundvelli. Útgerðarfélögin hafa hins vegar samþykkt, að gerðardómur ráði deilunni til lykta með framangreindum hætti. Þó er samþykkt till. af hálfu útgerðarfélaganna bundin því skilyrði, að úrskurður gerðardóms verði ekki bindandi fyrir þau, fyrr en þeim hefur verið tryggð rekstraraðstaða eftir þeim leiðum og að því marki, sem þau telja viðunandi. Eins og afstaða útgerðarfélaganna til sáttatillögunnar, sem til atkvæðagreiðslu kom, bar með sér, töldu þau sér ókleift að taka á sig þau auknu útgjöld, sem tillagan gerði ráð fyrir, þar sem reksturinn berðist í bökkum, Þaðan af síður telja útgerðarfélögin sér fært að bera þá útgjaldaaukningu, sem fólst í viðbótartill. sáttanefndarinnar og 17 kröfuliðum farmanna. Þar sem farmannadeilan hefur hins vegar skapað mikil vandræði í þjóðfélaginu og valdið gífurlegu tjóni, töldu útgerðarfélögin rétt að samþykkja tillögu sáttanefndarinnar um gerðardóm, þó með framangreindum fyrirvara.“

Hér kemur alveg ótvírætt fram, svo að ekki verður um villzt, að útgerðarfélögin eða útgerðarmenn miðuðu sína afstöðu fyrst og fremst við það, að þau töldu sig þurfa að fá að vita, hvaða bætur þau mundu fá til þess að standa undir hinum aukna tilkostnaði. Þetta var aldrei dulið, meðan á deilunni stóð, — margsagt og kom alveg ótvírætt fram í þessari tilkynningu, sem ég hef nú lesið. Þrátt fyrir þær staðreyndir leyfir hæstv. sjútvmrh. sér að halda fram þeirri fjarstæðu, sem hann hefur hér gert, að skipaútgerðarfélögin hafi alls ekki verið til viðræðu um neina hækkun.

Herra forseti. Venjulegur fundartími er nú liðinn, og þannig stendur á, að ég hafði lofað að tala á fundi, sem á að byrja á þeim tíma, sem venjulegir kvöldfundir standa, en ég hef hins vegar ekki lokið ræðu minni. Ég vildi því spyrja, hvort ekki væri ætlunin að fresta umr.,

þannig að ég fengi að halda ræðu minni áfram á síðari fundi, sem þó yrði ekki í kvöld? (Forseti: Það var ætlunin, ef hægt væri, að reyna að halda ofur lítið áfram í kvöld, ef hv. þm. á ekki mikið eftir.) Mín ósk er þessi, og ég þykist sjá eða vita raunar, að hæstv. forseti og hæstv. sjútvmrh. eigi einnig að mæta á fundum, þó að það sé nú ekki á sama fundinn, sem við ætlum allir þrír, og ég hygg því, að það geti verið nokkuð sameiginlegir hagsmunir okkar af því, að við fáum að skreppa heim og borða og síðan að ræðast við annaðhvort á morgun eða eftir helgina. (Forseti: Það var ekki ætlun forseta að halda kvöldfund, en við héldum áfram ofurlítið. Ef hugsanlegt væri, að hv. þm. gæti lokið sinni ræðu nú, þá væri það betra, því að umr. teygjast um þetta mál.) Engum er kunnara, en hæstv. forseta, að ræðumenn þurfa stundum að tala nokkuð lengi, og þó að ég geri engan veginn ráð fyrir, að ég tali eins lengi og hann hefur talað lengst í þingsölum, hvað þá að ég tali 6–8 tíma, eins og tíðkast austur í Moskvu, þá þori ég ekki að ábyrgjast, að ég verði búinn á svo skammri stundu, að það borgi sig fyrir menn að hinkra við, ef þeir vilja fá mat. (Forseti: Ég mun, ef hv. þm. óskar þess að mega hætta sinni ræðu nú, til þess að hann þreytist ekki um of undir þann fund, sem hann á að halda í kvöld, verða við hans ósk.) Ja, ég þakka fyrir. [Frh.]