14.05.1958
Neðri deild: 95. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, þegar efnahagsmálin eru nú tekin hér til umræðu í sambandi við þetta frv., þó að upp séu rifjuð nokkur þýðingarmestu atriðin frá liðnum árum og mánuðum varðandi gang efnahagsmálanna og þá reynt að gera upp fyrir sér, hvernig staðan hefur verið í hvert eitt skipti, þegar glímt hefur verið við þessi mál hér á Alþingi, og hvernig staðan er í aðalatriðum nú, sú sem nú er við að glíma.

Þegar lögin um útflutningssjóð voru sett í árslok 1956, var þannig ástatt, eins og menn muna eftir, að það kerfi, sem þá hafði verið í gildi um hríð, bátagjaldeyriskerfið til stuðnings útflutningsframleiðslunni, var gersamlega komið í þrot. Þá stóðu málin þannig, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett, að bátagjaldeyriskerfið var raunverulega orðið einu ári á eftir tímanum með sínar greiðslur til sjávarútvegsins, eða það kerfi skuldaði þá útvegsmönnum um eitt hundrað og tugi millj. króna. Þó var það svo, að staðan um áramótin, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett, hefði þó orðið enn þá verri, en hún raunverulega varð, hefði sú ríkisstj., sem þá tók við völdum á árinu 1956, ekki gripið til þess, sem kunnugt er, að binda allt verðlag í landinu fast frá ágústmánuði til ársloka og takast með þeim hætti að stöðva vísitöluna og þar með kauphækkanir í landinu við 186 vísitölustig framfærslukostnaðar, í stað þess að hún hefði farið yfir 200 stig um áramótin, ef allt hefði verið látið leika lausum hala. En vegna þess að á árinu 1956 höfðu verið hér mjög miklar almennar verðhækkanir og einnig seinni hluta ársins 1955, þannig að á rösklega 12 mánaða tímabili hafði vísitalan hækkað um 25 stig og kaup auðvitað í samræmi við það, þá stóðu málin einnig þannig, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett í árslok 1956, að til viðbótar við það að afla fjár til þess að borga þær skuldir, sem saman höfðu safnazt, þurfti nú að mæta nýjum stórauknum kröfum frá útflutningsframleiðslunni. Þannig stóðu þessi mál í árslok 1956, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett.

Því var að sjálfsögðu haldið fram, þegar þau lög voru sett, að í kjölfar þeirra mundi renna gífurleg verðhækkun, því að hér væru lagðar óbærilegar álögur á landsmenn. Það var ekkert um það að villast, að það þurfti að afla allmikils fjár. En það var reynt að koma því þannig fyrir, að verðlag hækkaði sem minnst, a. m. k. á þeim vöruflokkum, sem mest skipti hinn almenna launþega í landinu. Og með þessu setti ríkisstj. sér það að reyna að hamla gegn hækkandi verðlagi, eins og tök voru á. Það var gert með því m.a. að setja á fót allstrangt verðlagseftirlit og ákveða þá í byrjun mjög verulega lækkun á álagningu bæði í heildsölu og smásölu. Og fleiri ráðstafanir voru gerðar, sem allar miðuðu að því að reyna að hamla gegn hækkandi verðlagi og reyna helzt að fóta sig þannig, að stöðvun yrði á verðlagshækkununum í landinu. Þannig var mörkuð stöðvunarstefnan, sem reynt var að fylgja eftir, eins og tök voru á.

Það hefur margt verið sagt um þessa stöðvunarstefnu, sem ríkisstj. reyndi í lengstu lög að halda við. Það hefur jöfnum höndum verið reynt að halda því fram, að hún hafi ekki komið að neinu gagni og að óhjákvæmilegt væri að gefa hana upp á bátinn. Staðreyndir sýna það, að frá því í ágúst 1956 og fram í aprílmánuð nú 1958 hafði kaupgjaldsvísitala hækkað um 5 stig. Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að hér sé ekki öll sagan sögð með því, að hin opinbera vísitala hafi hækkað um 5 stig, því að niðurgreiðslur hafi aukizt verulega á þessu tímabili og þannig hafi hluti af verðlagshækkuninni verið falinn. Ég fékk fyrir stuttu upplýsingar frá hagstofunni um það, hvernig þessu væri varið, og nákvæma sundurliðun á því. Frá 1. okt. 1956, eða sem sagt eftir að núverandi ríkisstj. gerði þær ráðstafanir, sem stöðvunarstefnan var byggð á, og fram að þeim tíma, sem hagstofan svaraði mér, eða 25. marz nú í ár, eða eftir rösklega 18 mánaða tímabil, þá höfðu niðurgreiðslur aukizt um 5.21 stig. Og af þessari aukningu er um að ræða hækkun á landbúnaðarvörum frá s.l. hausti upp á 4 stig, önnur niðurgreiðsluaukning var aðeins 1.21 stig. Það er því ekki rétt, þegar því hefur verið haldið fram, að hér hafi farið fram mjög veruleg aukning á niðurgreiðslum og þannig hafi verið falin sú verðhækkun, sem átt hefur sér stað. Hún hefur verið tiltölulega lítil.

Hækkunin á verðlagningu landbúnaðarafurða á s.l. hausti var með nokkuð sérstökum hætti. Að réttu lagi, skv. réttum vísitöluútreikningi, átti verðlagið aðeins að verka á vísitöluna um eitt stig, en verkaði á vísitöluna um nærri 4 stig, vegna þess að fulltrúar bænda fóru fram á það að fá nokkra aukahækkun, vegna þess að þeir töldu, að á undanförnum árum hefði þeirra hagur verið fyrir borð borinn og þeir hefðu ekki fengið það, sem þeim bar skv. sex manna nefndar áliti, og fóru nú fram á viðaukabætur við það, sem bein vísitala hreyfði verðlag þeirra um, sem nam um 3 stigum, og var það vitanlega málefni alveg út af fyrir sig.

Það má því segja, að raunverulega hafi tekizt þannig til á tæpum tveimur árum, að raunverulega hafi bein vísitöluhækkun, þar með taldar auknar niðurgreiðslur, ekki numið nema um 7 stigum, og sú hækkun er sízt meiri hér á landi á þessu tímabili, en í flestum nálægum löndum. Í flestum nálægum löndum hefur kaupgjaldsvísitala eða framfærsluvísitala hækkað fyllilega eins mikið á þessu sama tímabili. En við höfum á þessum tíma, sem stöðvunarstefnan hefur verið reynd, sannarlega haft við ýmsa erfiðleika að glíma. Á þessu tímabili skullu yfir áhrif Súez-stríðsins, sem leiddu óhjákvæmilega af sér mjög verulegar verðhækkanir á ýmsum vörum, þar sem fragtir stórhækkuðu, en verðlag hér í landi er einmitt mjög háð eða bundið fragtatöxtum vegna hinna miklu aðflutninga til landsins. Og þær verðhækkanir hlutu vitanlega að koma fram í verðlagi hér, og það er nákvæmlega sama, hvaða stefna hefði verið ríkjandi hér í okkar efnahagsmálum, við hefðum aldrei getað komizt undan því að taka á okkur einhverja verðhækkun af þessum ástæðum.

En það voru ekki aðeins utanaðkomandi ástæður, sem hér gripu inn í, heldur var það einnig svo, að innanlands var miskunnarlaust unnið að því að brjóta niður þessa tilraun ríkisstj. til þess að halda verðlagi kyrru í landinu. Stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu, stjórnarandstöðuflokkurinn, gerði blátt áfram allt, sem í hans valdi stóð, allan þennan tíma til þess að reyna að brjóta niður þessa stefnu. Hann talaði opinskátt um það í blöðum sínum, að eðlilegt væri og sanngjarnt, að stéttafélög segðu upp samningum sínum og heimtuðu hækkað kaup, og skipulagði slíkar kauphækkanir í ýmsum tilfellum, m.a. hjá launahæstu stéttunum í landinu, og má þar nefna bæði flugmenn og farmenn og fleiri. Í ýmsum tilfellum tókst vitanlega að koma þessu fram til óþurftar fyrir stöðvunarstefnuna. Fjölmenn stéttasamtök, eins og t.d. samtök iðnverkafólks hér í Reykjavík, fengu tiltölulega greiðlega vegna þess áróðurs, sem stjórnarandstaðan hélt hér uppi, þvert ofan í það, sem verkalýðssamtökin almennt settu sér á þessu tímabili, þó nokkra kauphækkun, en þessi kauphækkun verkaði mjög verulega á verðlagningu í landinu, enda var síðan óspart hamrað á því við verðlagseftirlitið, að óhjákvæmilegt væri að verða við beiðnum iðnrekenda um hækkanir á hvers kyns vöruverði, m.a. vegna kauphækkunar þeirrar, sem þeir hefðu samþykkt, og það meira að segja rökstutt í bréfum til verðlagsyfirvaldanna hvað eftir annað.

Þá linnti að sjálfsögðu ekki látum, m.a. hjá stjórnarandstöðunni, að krefjast þess, að verzlunarálagning yrði hækkuð, því að of naumt hefði þar verið skorið, og auðvitað varð að láta þar undan í einstaka tilfellum. Við þetta bættist svo sá mikli áróður, að sú stefna, sem upp var tekin með setningu laga um útflutningssjóð að haga innheimtunni á óhjákvæmilegri tekjuöflun þannig, að ákveðnir vöruflokkar yrðu þar að standa undir meiri álögum, en aðrir vöruflokkar, — þá var því miskunnarlaust haldið fram, að með þessu væri verið að falsa vísitöluna og reyna að koma fram kjaraskerðingu hjá verkafólki í landinu. Og auðvitað hefur þessi áróður haft nokkuð að segja. Þannig hefur vitanlega öllum verið ljóst, að það hefur sífellt orðið hæpnara og hæpnara, að hægt yrði að standa áfram á því að halda hér svo til föstu verðlagi, og mátti því fyllilega búast við því, að hér yrði eitthvað undan að láta. Það er eigi að síður skoðun mín, að sú stefna, sem hér var reynt að halda uppi þetta tímabil, sé sú, sem er í eðli sínu réttust og eðlilegust, og það muni koma að því, áður en langt um líður, að reynt verður að standa gegn hinni ríku tilhneigingu, sem hér er í landinu til þess að skrúfa verðlagið upp sífellt, því að þeir eru orðnir margir í þessu landi, sem hafa beinlínis hagsmuni af því að hækka verðlagið frá ári til árs. En slíkt verður alltaf skammgóður vermir og getur ekki bjargað til frambúðar.

En hvernig var svo staðan nú í árslok hjá framleiðsluatvinnuvegunum, eftir að lögin um útflutningssjóð höfðu staðið um eins árs bil? Jú, staðan var þannig, að það kom fram nokkur rekstrarhalli hjá útflutningssjóði, eða talið er, að rekstrarhallinn hafi numið um 34 millj. kr. Og það kom einnig fram nokkur rekstrarhalli hjá ríkissjóði, sem talið er að nemi um 45 millj. kr. Það, sem gerzt hafði á árinu, var það, að verulegur aflabrestur hafði orðið. Afli í aðalverstöðvum landsins hafði brugðizt mjög mikið. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar urðu minni, við höfðum úr minna að spila en áður, og það hlaut vitanlega að segja til sín. Það kom m.a. fram í því, að þeir vöruflokkar, sem mest áttu að gefa í tekjur bæði fyrir útflutningssjóð og eins fyrir ríkissjóð, hátollavöruflokkarnir, höfðu verið skornir mjög verulega niður í innflutningi, eða þveröfugt við það, sem stjórnarandstaðan í blöðum sínum hafði verið að halda fram allt árið, að lögð væri sérstök áherzla á það að flytja eingöngu inn lúxusvörur og nú væri mönnum neitað um að flytja inn hinar nauðsynlegu vörur, til þess að hægt væri að halda uppi lúxusvöruinnflutningi. En hátollavörurnar voru lækkaðar í innflutningi um rösklega 31% frá árinu á undan, eða síðasta árið, sem Sjálfstfl. var við stjórn.

Innflutningurinn féll úr 254 millj. kr. í gjaldeyri í 174 millj. kr., eða um 80 millj. Þetta þýddi tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð, sem nam yfir 100 millj. kr. Ég veit vel, að það hefði mátt gjarnan halda þannig á sölu gjaldeyrisins á árinu, að ekki hefði komið til þessa eins og gerði, m.a. með því að draga allverulega úr hinni miklu fjárfestingu, sem var í landinu. En um það hefur ekki fengizt samstaða, það hafa verið uppi ríkar kröfur í öllum flokkum að halda uppi hinni miklu fjárfestingu. Útkoman var sú, að fjárfestingin á s.l. ári óx á milli 10 og 13%, að talið er, þrátt fyrir það þó að útflutningurinn hafi minnkað og þó að gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafi minnkað á árinu.

Íbúðarhúsabyggingar í Reykjavik einni saman, jukust um full 12%.

Það, sem helzt er því um að sakast í þessum efnum, er, að það hefur verið látið um of undan þeim almennu kröfum í landinu að halda uppi miklum fjárfestingarframkvæmdum, að sjálfsögðu ýmiss konar nauðsynlegum framkvæmdum, mun meira, en raunveruleg efni hafa staðið til gjaldeyrislega séð. Það hefur ekki þótt fært að stöðva hinar miklu framkvæmdir við byggingu á sementsverksmiðju eða draga neitt verulega úr byggingu á þeim raforkuverum, sem í byggingu eru, eða öðrum stórframkvæmdum í fjárfestingu í landinu. Hvort tveggja er, að í þessum efnum höfum við að verulegu leyti verið bundnir af samningum við verktaka, og auk þess er því ekki að neita, að almenningur í landinu hefur mjög óskað eftir því, að haldið yrði áfram af fullum krafti við þessar framkvæmdir, sbr. t.d. íbúðabyggingar í höfuðstaðnum. En það þýðir ekkert annað, en að játa það eins og það er, að það er erfitt, þegar gjaldeyristekjurnar minnka, að ætla sér þá að standa undir aukinni fjárfestingu, án þess að það komi einhvers staðar niður, og það hefur þarna verið látið koma niður á þessum vöruinnflutningi, sem vitanlega hefur óhjákvæmilega leitt af sér það, að útflutningssjóður og ríkissjóður hafa farið á mis við nokkrar tekjur, sem þessum aðilum voru fyrirhugaðar í upphafi.

En það var ekki aðeins það nú um áramótin, að við stæðum frammi fyrir þessum vanda, að þarna hafði orðið nokkur rekstrarhalli, þó miklum mun minni en áður, heldur var það svo, að það var með öllu óhjákvæmilegt um síðustu áramót að gera nýja samninga við framleiðsluna, sem miðuðu að auknum útgjöldum, þó að þar væri reynt að fara eins naumlega í og nokkur kostur var. Eða gátu menn búizt við öðru, þegar sjómenn okkar höfðu beinlínis haft minni tekjur á árinu 1957 heldur en áður, vegna þess að afli þeirra hafði minnkað og þeirra hlutur var bundinn við aflamagn? Þeir komu heim með færri krónur en áður, en svo að segja allir aðrir landsmenn fengu í sinn hlut fleiri krónur, vegna þess að vísitalan hafði hækkað nokkuð. Öllum embættismönnum landsins voru mældar út fleiri krónur, öllum vinnulýð í landinu, hvaða nafni sem nefndist, voru mældar út fleiri krónur, en sjómennirnir fengu færri krónur. Það var því ofur eðlilegt, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess á komandi ári, ef það átti ekki enn að fara svo, að fleiri og fleiri menn færu frá sjómennskustörfum og færu í land og enn yxi þar þrýstingurinn á fjárfestingarframkvæmdir, að mæta þessum nýju vandamálum m.a. með því að hækka fiskverðið hjá sjómönnum og hækka þeirra kjör, og það var um þetta, sem samið var nú um síðustu áramót. Þar var gert ráð fyrir auknum útgjöldum til framleiðslunnar nálega eingöngu til þess að mæta hækkuðu kaupi sjómanna, en aðeins að litlu leyti til framleiðslunnar sjálfrar, til rekstrarins sjálfs, til þess að mæta minnkandi afla. En að öðru leyti viðurkenndu útvegsmenn það í samningunum, að það hefðu ekki orðið þær verðlagsbreytingar á árinu 1957, að ástæða væri til þess af þeim að gera sérstakar kröfur út af því. En þeir þurftu að fá auknar bætur til þess að geta greitt hærra fiskverð í skiptum til sjómanna, og þeir þurftu að fá lítils háttar hækkun á bótum sínum, vegna þess að meðalaflinn hafði lækkað.

Það var því einnig við þann vanda að glíma nú um áramótin, að útflutningssjóður þurfti á komandi ári eða á þessu ári að standa skil á nokkru hærri bótum en áður, þó að þær hefðu ekki hækkað ýkja mikið. Af hækkandi bótum til sjávarútvegsins leiddi svo það, að bætur til landbúnaðarins hækkuðu af sjálfu sér um leið. Útgjöld ríkissjóðs höfðu svo einnig farið vaxandi sem bein afleiðing af því, að ýmsir helztu útgjaldapóstar ríkisins eru bundnir með lögum og þannig, að þeir hækka nokkurn veginn reglulega frá ári til árs, eins og t.d. útgjöld af menntamálum og tryggingamálum o.fl. Auk þess var svo það, að greiða þurfti allverulega nýja fjárfúlgu samkvæmt kröfu bænda, þar sem þeir töldu, að óhjákvæmilegt væri fyrir þá nú að innheimta aukinn kostnað við dreifingu á landbúnaðarvörum frá því, sem þeir hafa haft á undanförnum árum, því að þeir töldu sinn hlut þar of rýran. Allt þetta leiddi til aukinna útgjalda einnig hjá ríkissjóði, sem líka varð að afla tekna til á einn eða annan hátt.

Þegar þessi mál lágu svo þannig fyrir, þá var um það að ræða að velja, hvernig skyldi aflað teknanna að þessu sinni. Og eins og hér hefur þegar verið gerð grein fyrir af hæstv. forsrh., þá var um það að ræða, hvort það ætti að fara þá leið, sem oft hefur verið haldið hér fram af ýmsum, hina almennu gengislækkunarleið, til þess að reyna að jafna þarna metin, eða hvort ætti að fara þá leið algerlega óbreytta, sem farin hefur verið, í öllum höfuðatriðum eða hvort um einhverjar enn aðrar nýjar leiðir gæti verið að ræða.

Sú leið, sem valin var svo og markast í þessu frv., er auðvitað af hálfu stjórnarflokkanna sem samkomulagsleið, sem ég hygg að allir stjórnarflokkarnir geti sagt um, hver fyrir sig, að þeir hafi sitt hvað út á að setja og hefðu gjarnan kosið, ef þeir hefðu þarna einir mátt ráða, að halla ýmsu öðru til þar á annan veg. En hér er um samkomulagsleið að ræða, millileið, sem valin hefur verið og breytir í nokkrum verulegum atriðum frá því, sem verið hefur, en þó ekki í neinum grundvallaratriðum, eins og ég skal nú víkja að nokkru nánar.

Áfram er sem sagt farin sú leið, eins og hefur verið farin á undanförnum árum, sem brýtur alveg grundvallaraðferð gengislækkunarleiðar, sem er að ákveða að ná inn þeim tekjum, sem óhjákvæmilegt er að ná inn, með mismunagjaldi á hinum ýmsu innflutningsvöruflokkum, en gengislækkunarleiðin einmitt miðast við það að taka þar jafnt gjald yfir alla vöruflokka. Á sama hátt er líka vikið út af grundvallaratriðum gengisbreytingar viðvíkjandi því, hvernig skuli deila uppbótunum út. Það er ekki gert ráð fyrir því að deila uppbótunum út til útflutningsins þannig, að jafnt gangi yfir alla, heldur er áfram farin mismunaleiðin, sú leið, sem bætir þeim upp mest, sem mesta hefur þörfina eftir nánari athugun, og hinum minnst, sem getur komizt af með minnst.

Varðandi þær reglur, sem hafa verið á innheimtu eða álögum gjalda á innfluttar vörur, þá má segja, að fyrirkomulagið að þessu sinni sé í höfuðatriðum eins og það var, að einu atriði undanskildu. Við höfum haft í gildi það fyrirkomulag að hafa sérstakan lággjaldavöruflokk, vöruflokk, sem gjöldin hafa verið lægst á, svonefndan vísitöluvöruflokk oft kallaðan eða allra brýnustu lífsnauðsynjar. Í þessum lággjaldaflokki hafa verið á þessu ári, sem er að líða, um 70 millj. kr., miðað við gjaldeyrisverðmæti af hinum eiginlegu vísitöluvörum. Nú er gert ráð fyrir því að halda þessum flokki, en hafa hins vegar í honum 120 millj. kr. verðmæti eða auka hann nokkuð. Áður bar þessi vöruflokkur yfirfærslugjald, sem nam 16%, en nú er ætlað, að þessi vöruflokkur beri yfirfærslugjald, sem nemur 30%. Raunverulega kemur þetta þannig út, að sá hlutinn í þessum vöruflokki, upp á 70 millj. kr., sem áður bar 16% yfirfærslugjald, fær nú á sig 30%, og er þar um talsverða hækkun að ræða á hinum eiginlegu vísitöluvörum, sem vitanlega verka þá inn í vísitöluna og skila sér aftur út í kaupi til þeirra, sem kaupa. En hinn hlutinn í þessum vöruflokki, um 50 millj. kr. sem nú eru settar í þennan 30% flokk, — þessar 50 millj. kr. eru teknar úr næsta vöruflokki þar fyrir ofan, sem áður bar 34–35% gjald, en nú eru þær settar niður í 30% flokk. Á þeim vöruflokkum er því ekki um hækkun að ræða, eða þessum 50 millj., og segja má því um þennan lággjaldaflokk upp á 120 millj, kr. af nauðsynjavörum, að þar er um mjög óverulega breytingu að ræða frá því, sem verið hefur.

Þá er um að ræða almennar vörur af ýmiss konar tagi. Þær hafa verið núna áætlaðar um 440–450 millj. kr. að innflutningsverðmæti og hafa núna borið gjöld, sem nema um 35%, en þessi vöruflokkur verður nú um 400 millj. kr., af því að um 50 millj. voru teknar af þessum vöruflokki og færðar í lággjaldaflokkinn, og þessi flokkur á ekki að bera 35%, eins og hann bar, heldur 55%. Þarna er um talsverða hækkun að ræða á þessum almenna vöruflokki. En þessar prósentur eru allar miðaðar við gjaldeyrisverðmæti, en að sjálfsögðu verður hin almenna útsöluverðshækkun talsvert miklu minni hlutfallslega.

Svo kemur sá gjaldaflokkur, sem mestar hefur átt að veita tekjurnar í þetta kerfi, en það er hátollavöruflokkurinn, sem á s.l. ári nam í innflutningi um 174 millj. kr., en gjöldin á þeim flokki voru um 120%, miðað við gjaldeyrisverðmæti, þegar meðaltal er tekið út úr þessum flokki, en gjöldin léku þar á frá 60 eða 70% og upp undir 200%, því að þar eru margir undirgjaldaflokkar. En að þessu sinni er þessi vöruinnflutningur — nákvæmlega sömu vörur — færður úr 120% upp í 150%. Þarna er því um talsverða hækkun líka að ræða á þessum hátollavöruflokki, og áfram er haldið því kerfi, sem var, að hátollavörurnar eru í mörgum gjaldaflokkum eins og áður. Fyrirkomulagið í þessu efni er því í öllum atriðum eins og það hefur verið, nema stefnt er til hækkunar.

En svo kemur sú breyting, sem er grundvallarbreyting í sambandi við innfluttar vörur. Áður var innflutningur á svonefndum rekstrarvörum til framleiðslunnar, — það eru allar notavörur sjávarútvegs og landbúnaðar, — áður voru þessar rekstrarvörur ekki með neinum sérstökum gjöldum eða yfirleitt ekki. Þannig var einnig með innflutning á skipum og öðru slíku. Einstaka vörur báru þó lítils háttar gjöld, en yfirleitt mátti segja, að rekstrarvörur voru undanþegnar gjöldum. En nú er ákveðið að hækka rekstrarvörurnar eins og almennan vöruinnflutning til landsins eða láta hann bera 55% í yfirfærslugjöld, og er þarna vitanlega um mjög verulega breytingu að ræða.

Það, sem þarna er því um að ræða, er að gera það upp við sig. Er rétt að halda áfram þeirri stefnu, þegar afla þarf tekna á þennan hátt, sem gert er í þessu frv. og eins í lögunum um útflutningssjóð áður, — er rétt að halda áfram þeirri stefnu, jafnvel þótt um almennar verðhækkanir sé sí og æ að ræða í landinu, að verðhækka ekki neitt rekstrarvörur, láta þær alltaf standa óbreyttar í verði, nema að því leyti til sem þær hækka erlendis, og auka því auðvitað í sífellu mismuninn á milli verðlags á rekstrarvörum og verðlags á öðrum hlutum í landinu? Það gefur t.d. alveg auga leið, ef maður tekur hér dæmi og virðir það fyrir sér, að í þessu felast verulegar hættur, ef þetta er gert til lengdar. Ef við tökum dæmi eins og t.d. vél, sem sett er í fiskibát og ber engin slík gjöld, þá getur hún jafnvel um tíu ára skeið eða svo verið alltaf hér á mjög svipuðu innflutningsverði, vegna þess að það land, sem framleiðir vélina, hefur kannske búið við tiltölulega mjög stöðugt verðlag. En á þessu tíu ára tímabili hafa vinnulaun í okkar landi sem afleiðing af hækkuðu verðlagi verið að síhækka jafnt og þétt, og mismunurinn á milli hins almenna verðlags í landinu og verðlagsins á þessari vél verður að lokum orðinn gífurlega mikill og það sækir óðfluga að því, að sá, sem kaupir vélina, segir: Mér dettur ekki til lifandi hugar að kaupa hið innlenda vinnuafl til þess að gera við vélina. Þegar hún er notuð að litlu leyti eða farin að bila, þá borgar sig ekki að láta gera við hana með því vinnuaflsverði, sem hér er. Við hendum henni og viljum heldur sækja um að fá að kaupa nýja vél. — Það efast enginn um, að þegar svo háttar til, að okkar verðlag hækkar sífelldlega verulega fram úr því, sem er í okkar viðskiptalöndum, þá geta skapazt svona hættur, ef við höldum þannig á málunum, að tilteknir vöruflokkar eru hér ekki látnir breytast neitt í verði. — Nákvæmlega sama hefur átt sér stað með fóðurbætinn hjá bændum, að það er enginn vafi á því, að hann er orðinn það ódýr, að þeir eru í ýmsum tilfellum farnir að hugsa um það. Borgar sig að vera að kaupa vinnuafl til þess að hirða grasið? Borgar sig ekki alveg eins vel að kaupa hinn ódýra fóðurbæti? Og þannig hefur þetta verkað til þess, að við eyðum gjaldeyri langt fram yfir það, sem þörf er. Þarna skapast óeðlilegt misræmi. Ég fyrir mitt leyti hefði kosið að reyna að halda áfram því kerfi, sem verið hefur, að leggja ekki ný aðflutningsgjöld á rekstrarvörur framleiðslunnar, sem vitanlega leiðir það af sér, að framleiðslan verður þá að fá auknar bætur í staðinn, ef hægt hefði verið að komast hjá verulegum verðhækkunum í landinu. En um leið og það liggur fyrir, að það er nálega ómögulegt að komast hjá því, að almennt verðlag í landinu hlýtur að lyftast nokkuð upp, þá hika ég mjög við að halda áfram við að halda rekstrarvörunum einum niðri með því ósamræmi, sem þar skapast í ýmsum greinum. Þetta hefur t.d. mjög greinilega komið fram hjá okkur í sambandi bæði við viðgerðir á skipum og smíði fiskibáta innanlands, en þar hefur dregið svo í sundur á milli innanlandsframleiðslunnar og þeirrar útlendu, að nær er óframkvæmanlegt að láta vinna verkið hér heima.

Sem sagt þetta atriði er gert upp við sig: Á maður út af fyrir sig að fallast á þá breytingu að hækka rekstrarvörurnar í verði, en þó með því skilyrði, að framleiðslan fái slíka hækkun hætta á móti? Aðalútkoman verður sú, að t.d. sjávarútvegurinn verður að kaupa sér dýrari vélar í fiskibátana, dýrari fiskibáta, dýrari veiðarfæri, en fá aftur í staðinn hærra fiskverð, sem þessari hækkun nemur, og þessir aðilar borga því þetta sjálfir fyrst og fremst, og hér er því ekki í aðalatriðum við aðra að sakast, heldur en framleiðendur sjálfa. Mín skoðun var sú, að rétt væri að setja sig ekki gegn þessari breytingu, en þetta er eina verulega skipulagsbreytingin í sambandi við þessar álögur í sambandi við innflutning á vörum til landsins. En það var líka alveg augljóst, að þessi breyting leiddi annað af sér. Það var með öllu óhugsandi að hækka verð á alls konar vélum og tækjum til þeirra, að hækka verð á olíu og öðrum rekstrarvörum, nema af því leiddi það, að ýmsir þeir aðilar, sem nota þessar rekstrarvörur, ýmsar aðrar atvinnugreinar hlutu þá að koma og gera tilkall til þess að fá greiðslur úr uppbótakerfinu, úr útflutningssjóði þar á móti. Við gátum ekki búizt við því, að við gætum hækkað olíuna í verði til t.d. skipafélaganna, sem hér reka flutninga á ströndina, eða til annarra slíkra aðila, án þess að þeir gerðu þá kröfu um það, ef þeir ættu að greiða til sjóðsins, að þá ættu þeir einnig að fá kröfurétt til að fá greiðslu úr sjóðnum Og þá var tekinn upp sá háttur, til þess að þessir aðilar kæmu þar eðlilega út, að ákveða, að þeir skyldu fá greiðslu úr sjóðnum jafnháa og þeir greiða til hans, miðað við þá gjaldeyrisframleiðslu, sem þeir annars standa undir. En þetta þýðir það, að flugfélög, sem raunverulega framleiða 60 millj. kr. í gjaldeyri fyrir þjóðarbúið, en fá aftur út úr þjóðarbúinu afhentan gjaldeyri til síns rekstrar upp á 61 millj. kr., eða 1 millj. kr. meira, fá 55% bætur á þessar 60 millj., en verða aftur að borga gjöld til sjóðsins fyrir þessa 61, sem þau höfðu tekið, eða raunverulega fyrir mismuninn. Og þá gátu þessir aðilar, sem falla þarna undir hinar duldu tekjur og duldu greiðslur, í rauninni ekki undan neinu kvartað, þar sem þeir tóku sinn eðlilega þátt í því að borga til sjóðsins og fá greiðslur úr honum aftur.

Það var þó auðvitað alveg augljóst, að þessi ráðstöfun að hækka rekstrarvörurnar og þar með yfirfærslugjald í sambandi við duldar tekjur og greiðslur mundi leiða til nokkurrar hækkunar á verðlagi í landinu, og það var ókosturinn við þetta, að ekki var hægt að komast hjá því. En það gefur auga leið, að flutningsgjöld og annað þess háttar hlýtur að hækka sem afleiðing af þessu kerfi.

Ég tel, að þetta atriði viðvíkjandi rekstrarvörunum sé það eina raunverulega í sambandi við tekjuöflunina, sem skiptir um „prinsip“ frá því, sem áður var, og menn verða svo að gera það upp við sig, hvort þeir telja, að þetta atriði ráði hér úrslitum um það, hvort þeir geta fallizt á þessa uppbyggingu á tekjuöfluninni fremur eða síður en þá, sem fyrir var.

Á svipaðan hátt er með útflutninginn. Þar er enn þá byggt upp, eins og ég sagði áður, á mismunakerfi, þannig að ákveðið er, að bátarnir skuli áfram fá hinar hæstu bætur. Togurum er að vísu ætlað, þegar fram líða stundir, að hafa nákvæmlega sömu bætur og bátar, en nú fyrst í stað verður það eigi að síður svo, að bátarnir halda þeim sérstöku bótum, sem greiddar hafa verið á smáfisk, ýsu og nokkrar aðrar sértegundir. Og aðrar greinar útflutningsframleiðslunnar, eins og t.d. hvalafurðir og afurðir af Norðurlandssíld, fá minni útflutningsbætur, eins og þessar afurðir hafa hlotið fram til þessa, en þær eru hins vegar hækkaðar með tilliti til þess, sem leiðir m.a. af þessu breytta skipulagi.

Þá er einnig í sambandi við útflutninginn stefnt í þá átt í þessu frv. að samræma hér nokkru meira en áður var, og geta eflaust verið uppi skiptar skoðanir á því, hvort sé betra. Það kerfi, sem við höfum búið við, hefur verið þannig t.d. að taka, að sumarveidda Norðurlandssíldin — við höfum greitt misjafnar bætur á afurðir úr henni eftir því, hvernig afurðirnar hafa verið verkaðar. Þannig hafa verið greiddar lægri bætur á lýsi og mjöl úr Norðurlandssíld en t.d. á saltaða Norðurlandssíld, og það hefur einfaldlega byggzt á því, að álitið hefur verið, að bræðslurnar gætu raunverulega komizt af með knappari bætur, en saltsíld. Svona hefur þessu einnig verið háttað hér í sambandi við ýmsar aðrar greinar framleiðslunnar, að bæturnar hafa verið misháar, eftir því sem rekstraráætlanir hafa sýnt, að þörfin hefur kallað til bótanna. Í öllum aðalatriðum er þessu því haldið eins og það hefur verið, nema sundurgreiningin er ekki alveg eins mikil samkv. þessu frv. og hún hefur verið í framkvæmd. Fram til þessa hefur sá háttur verið hafður á að greiða t.d. fiskibátunum og frystihúsunum allar bæturnar miðað við útflutningsverð á frosnum þorskflökum eða hertum fiski, en greiða hins vegar engar bætur á lýsið, sem fallið hefur til við þessa framleiðslu. En nú er aftur valin sú leið að hafa bæturnar tilsvarandi lægri á þorskbolinn, en bæta aftur einnig á lýsið, sem til fellur, og hafa prósentuna eina og jafna yfir alla framleiðslu. Þetta er að verulegu leyti fyrirkomulagsatriði, en ekki það, að ég telji, að þetta skipti neinu höfuðmáli, nema hér er um nokkru einfaldara kerfi að ræða en það, sem við höfum búið við.

Í aðalatriðum er nú gert ráð fyrir því, að samkv. þessu nýja kerfi eigi sjávarútvegurinn að búa við nokkuð svipuð kjör, þegar á allt er litið, eins og hann hefur búið við. Það er reiknað með því, að bátaflotinn búi við sömu kjör, fái hækkanir aðeins sem nemur þeim hækkuðu útgjöldum, sem bátaútvegurinn verður að standa undir sjálfur. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að kjör togaranna verði bætt talsvert. Ég hygg, að það megi ætla, að það sé ekki minna en um 500 þús. kr. eða 1/2 millj. á hvern togara á ári, miðað við meðalrekstur, sem afkoman ætti að batna um, en þó er vitanlega aldrei gott að segja um það með fullri nákvæmni fyrir fram. Hins vegar er nú gert ráð fyrir því, að jafnhliða þessu frv. verði togaraútgerðinni gert að skyldu að taka á sig allverulegar auknar greiðslur í sambandi við lífeyrissjóð togarasjómanna, og munu þær varla nema minna, en 7 millj. kr. á ári. En þar er einnig um hagsmunamál togaraútgerðarinnar að ræða, sem lýtur að því að tryggja betur, en verið hefur mannskap á togarana.

Ég hygg, að hægt sé líka að slá því föstu, að afkomumöguleikar þeirra, sem stunda síldveiðar, hvort sem er fyrir Norðurlandi eða hér við Faxaflóa, verði að teljast mjög svipaðir, miðað við hið nýja kerfi, eins og það, sem þeir búa við nú. Bæturnar til Norðurlandssíldarinnar eru að vísu hækkaðar talsvert, en sú hækkun fer að langmestu leyti til þess að standa undir verðfalli, sem þar hefur verið að skella á okkur. En áætla má, miðað við það verð, sem orðið er nú í dag, að verðlækkunin á saltsíld frá Norðurlandi og á síldarlýsi muni nema í kringum 16 millj, miðað við ársframleiðslu, bara bein verðlækkun, svo að afla þurfti óhjákvæmilega tekna nú til þess að standa undir því, ef þessi rekstur átti að öðru leyti að búa við svipaða rekstrarafkomu og áður var.

Þá er hér einnig gert ráð fyrir því, að kaup allra sjómanna, hvort sem þeir stunda síldveiðar, þorskveiðar eða annað, hækki um a. m. k. 5%, og fer því hluti af hinum hækkuðu útflutningsbótum beinlínis til þess að standa undir þessum kaupgreiðslum. En gert er ráð fyrir því, að kauphækkun sjómanna og þeirra verkamanna, sem vinna að framleiðsluatvinnuvegunum, sé um það bil 50 millj. kr. á ári, þessi 5% hækkun.

Nokkur hluti af hinni nýju tekjuöflun fer svo til þess að tryggja betur, en áður var, að fé sé til fyrir hendi til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem útflutningssjóður hefur tekið sér á herðar gagnvart framleiðslunni í landinu. En það hefur vantað, eins og ég skýrði frá í upphafi, nokkrar tekjur, til þess að hann hefði nægilegt til þess að standa skil á því, sem hann hefur lofað.

Það er að vísu mjög erfitt að spá nokkru um það á þessu stigi málsins, hvernig það nýja kerfi, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, muni gefast og hvaða afleiðingar verða af því. Það hefur verið áætlað af hagfræðingum, að búast mætti við því, að heildarhækkun á vísitölu sem afleiðing af þessu frv. geti verið 14–17 vísitölustig eftir því, hversu rífleg álagning verður heimiluð. En það virðist gefa auga leið, að ekki komi til mála að heimila jafnháa prósentálagningu á vörur, sem samkvæmt þessu hækka allverulega í verði, því að slíkt mundi vitanlega þýða það, að verzlunarstéttin beinlínis hagnaðist á framkvæmdunum. Ef hér er farin nokkur millileið, þá ætti ekki að þurfa að vera um meiri hækkun að ræða, en 15–16 stig. Og frv. er þannig upp byggt, að gert er ráð fyrir því, að þær álögur, sem í frv. felast, greiði þegar eða taki þegar við 9 stigum, og gæti því fyrir utan þessi 9 stig, sem þegar eru keypt af sér í frv., verið um að ræða 6–7 vísitölustig. En eins og ég sagði, er ekki gott að segja það með fullri vissu, hvernig þetta gengur fyrir sig.

Í sambandi við þetta mál hefur verið minnzt hér nokkuð á vísitölukerfið, og um það er ekkert að villast, að eins og það er upp byggt, þá leiðir það af sér mjög verulegar og snöggar verðbreytingar, ef einhver kaupbreyting verður einhvers staðar í kerfinu. Mér hefur lengi verið það ljóst, að í sjálfu sér er framkvæmdin á vísitölukerfinu óeðlileg í mesta máta í sambandi við launagreiðslur til hinna hærra launuðu í þjóðfélaginu. Það hefur líka verið alveg skýrt tekið fram af forustumönnum verkalýðssamtakanna og kom hvað skýrast fram í seinustu kaupgjaldssamningum, að það var síður en svo ósk þeirra að gera vísitölukerfið þannig, að allt kaupgjald í landinu, hvers eðlis sem það er og hversu hátt sem það er, ætti að mælast eftir framfærsluvísitölu. Þar voru aðrir aðilar að verki, sem ýttu því fram, og það er síður en svo, að það sé ósk verkalýðssamtakanna, að sá háttur sé hafður á.

Ég hef áður minnzt á það, að það gefur alveg auga leið, að þeir, sem háar hafa tekjur, beinlínis græða á því, þegar framfærsluvísitala hækkar, þegar allt þeirra kaup er mælt eftir framfærsluvísitölu. Það er í rauninni mjög augljóst dæmi, sem tekið var, þegar síðasta bakaraverkfall gekk hér yfir, en þá var bent á þessa staðreynd. Afleiðing af bakaraverkfalli var það, að brauðið átti að hækka nokkuð í verði. Með því að brauðin hækkuðu ákveðið í verði, hækkaði framfærsluvísitalan tiltekið á móti og kaupgjaldsvísitala tiltekið á móti. Ef vísitalan hefur verið nokkuð rétt, átti það að vera svo, að með því að brauðið hækkaði tiltekið, átti sú launabót, sem kom til verkamannsins í gegnum hækkaða kaupgjaldsvísitölu, að vega upp brauðahækkunina. Þá hefði verkamaðurinn sagt: þessi vísitala mælir nokkuð rétt, ef ég fæ álíka mikla kauphækkun og brauðahækkunin hefur skilað mér auknum útgjöldum. — En þetta voru tekjur manns, sem hafði um 40–45 þús. kr. tekjur, eða þess aðila, sem framfærslan er miðuð við. En sá, sem hefur tvöfalt hærra kaup, hefur fundið, að þessi brauðahækkun var mesti búhnykkur fyrir hann, því að hann hefur fengið tvöfalda hækkun á við það, sem brauðaútgjöld hans höfðu vaxið um, af því að þarna er verið að mæla allt kaupið eftir framfærsluvísitöluhækkun, sem er í eðli sínu óeðlilegt.

Hitt er svo annað mál, að það er ofur eðlilegt, að verkalýðssamtökin hafi litið þannig á, að vísitalan veitti visst öryggi fyrir láglaunamanninn til þess að halda þá jöfnum kaupmætti á við hækkandi framfærslukostnað á hverjum tíma, og því hefur hann séð sér visst öryggi í kaupgjaldsvísitölu sinni og metið hana mikils. En svo hefur hann einnig fundið með þeirri aðferð, sem nú er farið að viðhafa í sambandi við vísitöluútreikning, að þegar verkamaðurinn tekur sér smávægilega launahækkun, eins og t.d. 5% launahækkun, þá gerist það af sjálfu sér, að vísitalan hækkar þannig í landinu, að t.d. hæst launuðu embættismenn fá án þess að breyta sínum grunni nokkru fleiri krónur út úr öllu saman, vegna þess að verkamaðurinn breytti sínu grunnkaupi um 5%, bara í krafti vísitöluaðferðarinnar. Og það er svo aftur annað mál, hvort það er nauðsyn á því að halda slíku skipulagi.

Það er augljóst, að samhliða þeim ráðstöfunum, sem ráðgerðar eru í þessu frv., verður að tryggja framleiðsluatvinnuvegunum verulega aukið rekstrarfé, og út frá því er að sjálfsögðu gengið. Það er alveg óhjákvæmilegt, að um leið og rekstrarvörur sjávarútvegsins hækka í verði, þá verða líka rekstrarlán að hækka, því að allt annað gæti beinlínis leitt til samdráttar eða stöðvunar í atvinnurekstrinum. Það er líka gefinn hlutur, að það verður að auka stofnlán til fiskiskipakaupa og í sambandi við aðrar stofnframkvæmdir hjá framleiðsluatvinnuvegunum. Þetta verður að endurskoðast í fullu samræmi við hækkað verðlag, sem verður m.a. vegna áhrifa þessara laga.

Mér er það ljóst, að í þessum aðgerðum felast óneitanlega talsverðar hættur. Það veltur vitanlega á því, hvernig til tekst hér með alla framkvæmd. Fari svo, að verðlag fari upp mjög verulega eða skefjalaust og allt velti þar á eftir, þá hefur í rauninni ekki annað gerzt, en það, að eftir ákveðinn tíma stöndum við aftur í sama farinu eða litlu betur, en við stöndum nú. Ég tel því, að hér velti mjög mikið á framkvæmdinni, hvernig verður með niðurstöður. En eins og ég vék að í upphafi, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að það heilladrýgsta sé að reyna að festa verðlagið í landinu sem mest, fóta sig á því, sem fyrir er, en standa yfirleitt gegn verðhækkunum, þá er mér ljóst, að það verða að vera þar ákveðnar forsendur fyrir hendi. Því miður var svo komið nú, að það var búið að brjóta niður þær forsendur að langmestu leyti. Og með því að svo var komið m.a., að fjöldi stéttarfélaga í landinu taldi nú, að þau gætu ekki komizt hjá því að gera ráð fyrir talsverðri grunnlaunahækkun, þá var með öllu óhugsandi, að hægt yrði nú að afla allra þeirra tekna, sem útflutningsframleiðslan þurfti óhjákvæmilega, og þeirra annarra tekna fyrir ríkisbúskapinn, sem óhjákvæmilegt var, eins og sakir stóðu, fyrst aðrar leiðir ekki fundust til úrbóta í þeim efnum, — að þá var það með öllu óhugsandi, og til þess að standa einnig undir hækkuðu kaupgjaldi, án þess að til kæmi meiri eða minni almenn verðhækkun í landinu. Hér var valin ákveðin millileið í þessum efnum. Hefði átt að gera þessar ráðstafanir í gegnum gengisbreytingu, þá fullyrði ég það, miðað við þær rannsóknir, sem fram hafa farið, að alveg hefði verið óhjákvæmilegt að hækka verð á erlendum gjaldeyri um 130%, miðað við þá kaupgjaldshækkun, sem nú er reiknað með í þessu frv., og önnur útgjöld. En það hefði þýtt það, að vísitala hefði hér ekki hækkað um minna, en 50 stig. Hér er hins vegar reynt að forða því, sem unnt er, tryggja það, að útflutningurinn fái þær tekjur, sem hann þarf óhjákvæmilega að fá, en reyna að komast hjá því, að verðlagið fari um of upp í landinu. Ég á ekki gott með að sjá það, hvernig hægt hefði verið að komast hjá því, eins og sakir standa, að hér hefði orðið talsverð verðhækkun.

En það, sem skiptir auðvitað höfuðmáli í sambandi við lausn okkar efnahagsmála, er þó ekki það, að það megi takast rétt aðeins frá ári til árs, að hafa nokkurn veginn nóg upp í útflutningsuppbætur og auka þær kannske aðeins frá ári til árs, heldur hitt, að það sé örugglega stefnt að því að losa sig út úr þessum vanda með aukinni framleiðslu, Það er ekkert um það að villast, að fyrr losnum við ekki út úr þessum vanda, en tekst að halda þannig á málunum, að útflutningsframleiðslan aukist, þjóðartekjurnar vaxi, eða a.m.k. er alveg óhugsandi að ætla að halda uppi öllum þeim fjárfestingarframkvæmdum, sem menn almennt óska eftir í landinu, með öðrum hætti.

Það verður ekki hægt að bera á móti því, að þann tíma, sem núverandi ríkisstj. hefur setið, hefur verið reynt að halda framleiðslunni eins stöðugt og örugglega í gangi og nokkur kostur hefur verið. Það er ekki kunnugt um það, að nokkur þáttur útflutningsframleiðslunnar hafi stöðvazt allan þennan tíma, ekki einn einasta dag. Samningar hafa tekizt um þau tvenn áramót, sem liðin eru síðan stjórnin tók við, og allir þættir framleiðslunnar hafa verið í fullum gangi og það eins og bezt hefur gerzt áður. Hitt fáum við svo ekki við ráðið, þegar við stundum sjóinn 30% meir og betur, en við gerðum áður, þegar við höfum mun fleiri fiskibáta, sem stunda sjó mun fleiri daga á árinu, og kostum meira til, en nokkurn tíma áður, — það er ekki hins vegar á okkar valdi að ráða því, að þeir beri að landi miklu meiri afla, en þeir gerðu. Ef við hefðum fengið aflamagn að landi árið 1957 í hlutfalli við það, sem við fengum miðað við athafnir og tilkostnað á árinu 1956, þá hefðum við átt að hafa fullar 200 millj. í gjaldeyri fram yfir það, sem við fengum. En þetta tókst ekki. Gjaldeyristekjurnar urðu minni, og af því hljótum við að súpa seyðið. Fyrst við ekki tókum það með minnkaðri fjárfestingu og samdrætti einhvers staðar, sparnaði í ríkisrekstri eða á annan hátt, fyrst við ekki tókum það þar, þá verðum við að taka það eftir öðrum leiðum.

Það er knýjandi nauðsyn, að við getum fengið fleiri landsmenn til þess að vinna að útflutningsframleiðslunni, flytja vinnuaflið til úr ýmsum atvinnugreinum, sem nú eru þjóðhagslega vægast sagt vafasamar sumar hverjar, og fá meira af innlendu vinnuafli í útflutningsframleiðsluna. Þetta er aðalatriðið. Það er sárt til þess að vita, að við skulum t.d. á s.l. ári hafa þurft að eyða um 35 millj. kr. í vinnulaunagreiðslur til færeyskra sjómanna og verkamanna, sem unnu að útflutningsframleiðslu okkar, og eyða þannig þeim gjaldeyri, á sama tíma sem við vorum í gjaldeyrisskorti, af því að okkar eigið vinnuafl var að vinna að öðrum gjaldeyriseyðandi störfum.

Spurningin er svo sú: Tekst þannig til með framkvæmdina í sambandi við það kerfi, sem hér er ætlað að setja upp, að það stefni að því, að framleiðslan geti aukizt, að við fáum fleiri menn til þess að vinna að framleiðslustörfunum, en drögum eitthvað úr fjárfestingu og öðru slíku? Tekst þannig til með stjórn peningamálanna í landinu, að fjármagninu verði fremur beint til framleiðsluatvinnuveganna og sérstaklega útflutningsatvinnuveganna, en dregið meira saman á öðrum sviðum? Renni þetta úr reipunum, þá stöndum við a.m.k. ekki betur, en við höfum staðið. Mér er t.d. ljóst, að aðeins eitt ákvæði, sem hér er í þessu frv., sem gerir ráð fyrir því, að greiða skuli 55% yfirfærslugjald á kaup færeyskra sjómanna, jafngildir því raunverulega, að færeysku sjómennirnir hætta að starfa hér hjá okkur, þeir fara heim, þeir koma ekki aftur, eða allar líkur benda til þess. Eigi þetta ekki að verka í þá átt, að framleiðslan dragist saman og minnki, þá verður hitt að gerast um leið, að innlent vinnuafl færist hér yfir og komi í staðinn og við höldum áfram þessari framleiðslu, en það byggist svo á framkvæmdinni í öllu þessu.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, að með því að ákveðið er í þessu frv., að laun verkafólks hækki um 5%, þá er komið þar nokkuð til móts við launþega, þótt ekki í stóru sé, þannig að það megi telja alveg öruggt, að fyrst um sinn geti hér ekki verið um kjaraskerðingu að ræða hjá þeim. Það er hins vegar augljóst mál og hefur komið skýrt fram frá samtökum verkalýðsins í landinu, að þau yfirleitt óttast miklar verðhækkanir. Það skapar alltaf ókyrrð á vinnumarkaði, og allar verðhækkanir fela því í sér verulegar hættur.

Það veltur því á mjög miklu í sambandi við viðhorf verkalýðssamtakanna, að svo takist með framkvæmd alla á þessu, að menn finni það, að gert er allt það, sem í okkar valdi stendur, til þess að láta framkvæmdina fara vel úr hendi og til þess að tryggja það, að hagur láglaunaverkafólks og þess verkafólks, sem vinnur við framleiðsluna, rýrni ekki frá því, sem verið hefur, og síðan verði stefnt að því að fóta sig aftur sem fyrst frá allri verðhækkun og reyna að fá verðlagið sem jafnast og stöðugast, standa gegn verðhækkunum, Það álít ég sé hægt. En framkvæmd þessara mála öll, ekki sízt af hálfu peningastofnana í landinu, ræður eðlilega mjög miklu um það, hvernig árangurinn verður.