14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2092)

47. mál, bann gegn togveiðum í landhelgi

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð til að andmæla ræðu hv. 2. landsk. og hv. 2. þm. S-M. Aðalefni í ræðu hv. 2. landsk. var, að þessi till. mín gangi í öfuga átt, vegna þess að það væri auðvitað tilgangur allra okkar aðgerða í þessum efnum að tryggja landsmönnum sem bezt lífsskilyrði. Ég held, að einn af okkar ágætu fulltrúum hafi á erlendum vettvangi leyft sér að orða þetta þannig, að það væri ekki meiningin að friða fiskinn og drepa fólkið, heldur að friða fiskinn, til þess að fólkið gæti lifað, og bendlað mig við þau ummæli. Ég held nú sannast sagna í aðalefnum, vissulega frekar gengið á hlut hv. 2. þm. S-M., sem setti þessa reglugerð, meðan hann var útvegsmálaráðherra, en þjóðarinnar. Ég segi það svona sem spaugsyrði, en sjálfsagt fylgir talsverð alvara því gamni, að reyndur togarasjómaður sagði við mig, að það, sem okkur er leyft á togurunum, er að fiska alltaf alls staðar þar, sem enginn fiskur er. Reglugerðin er þannig sniðin. En þegar fiskurinn kemur á þessi mið eða meðan hann er þar, þá erum við reknir. Kannske er þetta ofmælt. En einhver sannleikur fylgir því nú samt, og það er þá auðvitað út frá því sjónarmiði, sem ég áðan gat um, að fyrir þáv. hæstv. ráðh. hefur áreiðanlega vakað að reyna að vernda fiskveiði bátanna, einmitt þegar þeim ríður mest á verndinni. Ég held þess vegna, að ef ég hef gengið á rétt fólksins, þá hafi aðrir verið mér djarfari í þeim efnum hvað þetta áhrærir.

Hv. 2. landsk. sagði á þá leið, að nú bæri öllum saman um, að friðun flatfisksins gæti beinlínis spillt fyrir öðrum veiðum. Ég hef heyrt þetta áður, og ég er enginn maður til að kveða niður þennan dóm. En vitur maður spurði, eitthvað á þá leið, þegar verið var að ræða um kolann í Faxaflóa og sagt, að hann væri lagztur í svo þykk lög á botninn, að annar fiskur hefði þar ekki næði: Hvernig fór fiskurinn að lifa í Faxaflóa, þegar engin dragnót var til að hirða kolann með né heldur botnvarpa?

Hjá báðum hv. þm., sem töluðu hér, kom fram sú skoðun, að við gætum lagzt undir ámæli meðal erlendra þjóða um það, að ef slík ákvæði yrðu samþykkt sem hér ræðir um í þessari þáltill., þá værum við beinlínis að hindra, að fiskiföng yrðu dregin í alheimsbúið, eins og þó efni stæðu til hér á Íslandi. Ég segi nú eins og er, að ég skil ekki almennilega þessi rök. Ég man eftir því, að ég átti viðræður við fiskimálaráðherra Englands einu sinni um þetta mál. Og ég held, að hann hafi eiginlega helzt gert sér í hugarlund, að þessum fiski, — það var nú innan 4 mílna línunnar og innan Faxaflóa, — honum væri eiginlega af guði almáttugum staflað upp, eins og maður staflaði saltfiski í pakkhús eða vörugeymslu, og þar lægi hann í háum stafla, þar til hann ylti dauður út af, og þá væri hann öllum ónýtur. Ég sagði honum, að fiskurinn kynni að synda. Og þessi fiskur fer á djúpmiðin, þegar hann er orðinn þreyttur á grunnmiðunum. Ég var að gera mér vonir um það, að þegar kolinn væri uppalinn á friðunarstöðvunum, mundi hann ekki vera síður djarfur að fara út fyrir línuna, en Bretinn er nú að fara inn fyrir hana og þar væri kannske hægt að ná honum, bæði í íslenzka botnvörpu og raunar annarra þjóða. Ég held þess vegna, að það séu ákaflega léttvæg rök, sem hv. þm. báðir færðu gegn ummælum mínum, að ástæða væri til að bera vissan kvíðboga fyrir, að þessi svokölluðu sérréttindi íslenzkra skipa kynnu að spilla málstað okkar, út á við.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til, a.m.k. varðandi botnvörpuskipin, að leggja svo mjög mikið upp úr þessum réttindum. Ég veit það ekki fyrir víst. En ég veit, að það er ákaflega hægt fyrir aðra að segja: Þó að Íslendingar telji, að erlendar þjóðir geti sent skip sín um langa vegu til Íslandsstranda til þess að stunda fiskveiðar, þá vita þeir gerla, að þeirra eigin skip, sem margföld hlunnindi hafa um afnot íslenzkra hafna, er ekki hægt að gera út, nema þau njóti þessara fríðinda. Síðan auka menn, mikla og margfalda þetta í augum þess umheims, sem er reynt að stefna gegn okkur í þessu máli. Og þó að ég geti fallizt á ýmislegt, sem báðir hv. ræðumenn sögðu um þetta, þá breytir það ekki því aðalatriði, að það er áreiðanlega sterkara fyrir okkur að segja: Við Íslendingar sönnum það í verki, að það er hægt að gera með sæmilegum árangri út íslenzka togara, enda þótt þeir njóti engra fríðinda innan 12 mílna línunnar. — Það er áreiðanlega sterkara í baráttunni við útlendingana.

Mér dettur svo ekki í hug, fremur en þessum hv. þm., að hér sé verið að búa til lög, sem eigi að gilda um aldur og ævi. Ég hef ævinlega haldið því fram, bæði á erlendum vettvangi og innanlands, að okkar er rétturinn í þessum efnum, en annarra ekki. Það er okkar einkamál, hvernig við notum þessa okkar eign. Við getum talað þar um innbyrðis deilu milli aðila, sem heimta öll réttindi sér til handa, og hinna, sem segja: Ég fæ ekkert af réttindunum, — og að hve miklu leyti á að taka bæði sjónarmiðin til greina. En þegar við erum búnir að komast yfir örðugleikana, þá er ég reiðubúinn til þess að vera í verki með báðum þessum mönnum og öðrum til að hagnýta þessi auðæfi með sem mestri skynsemi og sanngirni íslenzkum þegnum til handa. Ég hef aðeins ekki enn þá leyft mér að vera eins bjartsýnn og þeir um það, að þessu óheillastríði sé lokið.

Ég veit það, að ég er ráðinn í því fyrir mitt leyti, eins og ég hygg að þeir séu báðir líka, að standa á réttinum og beygja okkur ekki fyrir valdinu. En við megum ekki láta villast á því, að aðrar þjóðir eru ekki búnar að viðurkenna okkar rétt, þó að engir nema Bretar hafi talið sér sæma að koma með herhlaup á hendur vopnlausri þjóð til þess að verja það, sem þeir kalla sin réttindi hér. Mínar till. miðast þess vegna við ástandið, eins og það er, en alls ekki við það, sem verða kann. Og þær eru byggðar á því í fyrsta lagi, að ég hygg, að þó að þetta yrði samþykkt, yrði a.m.k. ekki mjög mikið tekið frá botnvörpungunum. Ég þori minna að segja um dragnæturnar. Og þær eru jafnframt byggðar á því, að ég ber kvíðboga fyrir og ekki alveg rakalaust, að það sé bæði leynt og ljóst — og ekki síður leynt — reynt að nota þetta mál í baráttunni gegn okkur. Og ég tel einnig víst, og það vona ég að allir geti fallizt á, að okkar styrkur er þá mestur í baráttunni, ef við getum hrundið staðhæfingum þeirra, sem halda því fram, að við áskiljum okkur sérréttindi, með því að sýna, að við getum gert út íslenzk skip án þessara sérréttinda. Þetta er kjarni málsins, Og ekkert af þessu hefur verið hrakið.

Ég tók svo eftir, að hv. 2. þm. S-M. sagði, að þegar hann tók þessarákvarðanir og þeir, sem að verki voru með honum, þá hafi meginsjónarmiðið verið það, að hann og þeir töldu nauðsynlegt eða a.m.k. skynsamlegt á frumstigi þessa máls að leyfa ekki Íslendingum nein sérréttindi í þessum efnum — og eins og hann þá sagði — vegna deilunnar við erlendar stjórnir. En ef þetta var þannig í lok ágústmánaðar, að hann vegna deilunnar við erlendar stjórni,r þorði ekki annað en gera þetta eða taldi hyggilegt að gera það, hvað er það þá, sem skeð hefur, sem gefur honum svo örugga vissu fyrir, að nú sé þetta óhæft? Ég veit vel, að það er ekki alveg út í bláinn, þegar hann segir: Ja, ég ber minni kvíðboga núna fyrir árásum erlendra aðila á þessar aðgerðir okkar. En það er nú stundum sagt: Svo mæla börn sem vilja. Og við íslenzkir alþm. höfum viljað standa á því allir, eftir því sem ég bezt veit, eða a.m.k. flestir, að trúa á okkar rétt í þessum efnum. En ég get ekki séð, að það hafi skeð neitt, sem staðfestir það, að hættan, sem hann taldi grúfa yfir okkur fram að 28. ágúst, sé fjarlæg í dag.

Það eru alveg eðlilegar orsakir fyrir því, að þetta mál tafðist, frá því að það kom hér á dagskrá. Ég hafði líka haft nægan tíma til að gera mér grein fyrir málinu, áður en ég flutti það. Ég er ekki að segja, að öll sáluhjálp Íslands velti á því, að þessi till. sé samþykkt. En ég flyt hana af því, að ég álít hyggilegt að samþykkja hana, og ekki af öðrum ástæðum.