15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

Landhelgismál

Ólafur Thors:

Herra forseti. Dagblöðin í dag segja enn á ný frá leiðum atburðum í sambandi við lögbrot Breta hér á landi. Ég hef hér með mér blað ríkisstj., sem — með leyfi hæstv. forseta — skýrir þannig frá þeim atburðum, sem ég ætla aðeins að minnast á:

„Herskip hindraði töku togarans, sem var 3.5 mílur frá landi. — Í gærkvöld kom varðskipið Óðinn að brezka togaranum Swanella frá Hull að ólöglegum veiðum um 3.3 sjómílur undan Snæfellsnesi. Varðskipið setti út dufl hjá togaranum, sem var á leið út, og reyndist hann vera 3.5 sjómílur frá landi. Stóð þarna í þófi um stund, þar sem varðskipið skaut nokkrum aðvörunarskotum að togaranum. Stöðvaði hann loks för sína, en aðrir brezkir togarar reyndu að hindra Óðin í að komast að Swanella. Að lokum kom herskipið Scarborough á vettvang og hélt að duflinu. Mældu herskipsmenn legu duflsins og töldu samkv. mælingum sínum, að það væri rúmlega hálfri sjómílu utar, en mælingar Óðins sýndu. Meinaði herskipið Óðni að halda áfram töku togarans og skipaði honum að halda áfram veiðum. Þar sem veður var erfitt, hvasst og skyggni misjafnt, var varðskipið Ægir sent Óðni til aðstoðar, og bar mælingum Ægis saman við mælingar Óðins á duflinu. Stóð í þessu þófi þarna í gærkvöld, er blaðið fór í prentun, en málið átti að afhendast utanríkisráðuneytinu í morgun til meðferðar.“

Samkv. þessari skýrslu blaðs ríkisstj. liggur það fyrir, að tvö af íslenzku varðskipunum telja sökudólginn hafa verið aðeins 31/2 mílu frá landi og þar af leiðandi innan þeirrar gömlu 4 mílna línu, sem Bretar a.m.k. í verki höfðu sætt sig við. Þetta er, ef ég man rétt, í þriðja sinn, sem slíkur atburður kemur fyrir. Ég hygg, að það hafi verið 13. nóv., sem annar enn höstuglegri atburður var á döfinni, því að þá var sökudólgurinn aðeins 21/2 mílu frá landi. Ég leyfði mér þá að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til að ræða það mál. Ég mun hafa verið allbituryrtur, en ekki að mínu viti umfram það, sem efni stóðu til. Ég hef engan áhuga fyrir að endurtaka þau ummæli, sem ég þá hafði um slíkt atferli, en vísa til þess, sem ég sagði.

Ég vil nú leyfa mér í tilefni af þessum atburði að spyrja, hvað það er, sem hæstv. utanrrh. hefur aðhafzt í málinu. Og ég vil, af því að ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, taka það alveg skýrt fram, að ég tel alls ekki nægilegt að halda áfram nótusendingum, þar sem verið er að mótmæla þessu, vitandi það, að Bretar virða okkur ekki svars. Mér finnst það vera farið að minna á það, þegar þeir eru að brjótast út af Litla-Hrauni og settir inn aftur og fara svo, þegar þeim sýnist, og hlæja að okkur. Ég veit ekki nema það sé farið að brosa að því í London, að hæstv. utanrrh., virðulegur maður og alkunnur Bretavinur eins og ég, sendir mótmæli, en er aldrei virtur raunverulegs svars, þannig að það sé neitt tekið tillit til hans orða. Það getur ekki gengið þannig til langframa.

Ég vil þess vegna leyfa mér að fara fram á, að utanrrh. — helzt nú þegar — kalli saman utanrmn., svo að við getum rætt þetta mál, og ég tel, að nótusendingar nægi ekki. Það þarf meiri aðgerðir.

Ég leyfi mér að minna á, að Sjálfstfl, hefur hvað eftir annað borið fram óskir um vissar og ákveðnar aðgerðir og þá fyrst og fremst það, að ríkisstj. Íslands krefjist þess, að kallaður sé saman fundur æðstu manna NATO og Bretar þar kærðir. Það getur vel verið, að Bretar beri enn þá meiri virðingu fyrir öðrum utanríkisráðherrum og öðrum ríkisstjórnum og annarri stjórnarandstöðu, en fyrir ríkisstj. á Íslandi og stjórnarandstöðunni á Íslandi, og það er óreynt mál, hvað upp úr því kann að hafast. En það verður ekki tekið mjög hátíðlega til langframa, að utanrrh. láti nægja að senda þessar nótur og komi svo og tilkynni Alþingi, eins og vant er: „Ég er ekki virtur svars.“

Ég minni enn á þær aðgerðir eða þær tillögur, sem Sjálfstfl. æ ofan í æ hefur borið fram, um leið og ég lýsi því yfir, að komi fram aðrar tillögur, sem við teljum að séu líklegar til árangurs, þá erum við auðvitað til viðtals um þær.

Ég leyfi mér að lokum að endurtaka ósk mína til hæstv. utanrrh. um það, að hann kveðji saman fund utanrmn. tafarlaust, þar sem við getum rætt um þetta mál og þar sem við sjálfstæðismenn munum bera fram óskir um, að gerðar séu gagngerðari ráðstafanir en þær, sem hafa sýnt sig að gera ekkert gagn.