16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kom inn í þessar umr. nokkru eftir að þær byrjuðu, en það eru viss atriði, sem fram hafa komið, sem ég vildi leyfa mér að gera athugasemdir við.

Hv. þm. V-Húnv. (SkG) flutti hér skilmerkilega ræðu um ýmsa þætti skattamála og eðli félagsskapar, hlutafélaga, samvinnufélagsskapar og svo í þriðja lagi þeirra samlaga, sem hér hafa verið nokkuð til umr. og gerði grein fyrir skoðunum sínum á því, hvað eðlilegt kynni að vera um skattlagningu slíkra félaga.

Ég verð að segja það, að ýmislegt af því, sem þarna kom fram, er í sjálfu sér athyglisvert og það má vel vera eða til sanns vegar færa, að eðlilegt væri, að sérstök löggjöf, eins konar rammalöggjöf, væri fyrir samlögin, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fleiri slík samlög, með eitthvað svipuðum hætti og er um hlutafélagalöggjöfina og samvinnufélagalöggjöfina. Þessi lög eru nú ekki, eins og hv. þm. sagði, fyrir hendi, en hins vegar hefur starfsemi þessara félaga blessazt um alllangan aldur og skortur slíkrar löggjafar þess vegna ekki sýnzt vera því til hindrunar, að þessi starfsemi eða þetta félagaform ræki mjög umfangsmikla framleiðslustarfsemi og útflutningsstarfsemi eða hafi rekið á undanförnum árum til mikilla hagsbóta fyrir land og lýð. En ég held, að þessi ræða sé flutt einu ári of seint, því að ef hv. form. fjhn. vissi svo gerla sem hann nú virðist vita, að með frv. eða lögunum í fyrra, stjórnarfrv. um breytingu á félagalöggjöfinni, væri meiningin að setja ný skattalagaákvæði um þessi samlög, þá bar honum, einkum og sér í lagi sem formanni fjhn., bæði að gera grein fyrir því í n. og þingheimi. En ég fullyrði, að það er rétt, sem hv. þm. Snæf. segir, að þingmenn hafa alls ekki í fyrra, þegar þessi löggjöf var afgreidd, gert sér grein fyrir því, að með afgreiðslu löggjafarinnar þá væri verið að setja ný skattalagaákvæði á sölusamlögin og slík eins og hér hefur verið lýst á Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem áður hefur ekki greitt skatta af sinni hálfu, heldur meðlimirnir hver í sínu lagi, — að það væri verið að leggja á slíkan félagsskap skatta, sem nema á aðra millj. kr. á ári. Og ég held, að það komi ekkert fram um þessi atriði í meðferð málsins í fyrra í þinginu. Það er þess vegna mín skoðun, að það sé ekki með þeirri brtt., sem hér er flutt af fjórum hv. þm. úr öllum þingflokkum, í raun og veru verið að taka upp nein ný ákvæði um skattgreiðslur sölusamlaganna, heldur aðeins verið að undirstrika það og slá því föstu, að þingheimur í fyrra ætlaði ekki að breyta þessum ákvæðum. Þetta er skoðun þessara fjögurra flm. þessarar brtt., og það kom greinilega fram í máli hv. þm. Snæf., það er og eindregin mín skoðun, sem á sæti í fjhn. Nd. og fjallaði um þetta mál lengst af í fyrra. Að vísu var ég ekki við, þegar málið var endanlega afgreitt, svo að það kann eitthvað að hafa komið fram við endanlega afgreiðslu málsins umfram það, sem ég segi nú, en það var mín skoðun, eins og þessara fjögurra flm. þessarar brtt., að með breytingunum á skattalöggjöfinni í fyrra hafi ekki verið ætlazt til eða að því stefnt, að slíka gífurlega breytingu á aðstöðu sölusamlaga til skattgreiðslna væri um að ræða. Og það má mikið og merkilegt heita, ef slíkt var á ferðinni raunverulega, að menn skyldu ekki gera sér grein fyrir því. Engir af þeim ýmsu aðilum, sem áttu viðræður í fyrra við fjhn. Nd., en það komu á fundi n. umboðsmenn frá víðtækum félagasamtökum, verzlunarráðinu, stórkaupmannafélaginu og ýmsum félögum kaupsýslumanna, ræddu þessa þætti skattalöggjafarinnar. Í engum þeim viðræðum minnist ég, að nokkru sinni hafi verið vikið að því, að hér væri um að ræða þá breytingu, sem skattanefndin hér í Reykjavík virðist hafa skilið að fælist í þessum lögum og þar af leiðandi lagt á aðra millj. kr. tekju- og eignarskatt á Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, eins og skýrt hefur verið frá, en hins vegar yfirskattanefndin við nánari athugun málsins hefur komizt að annarri niðurstöðu um og fellt þess vegna niður þá álagningu, sem skattanefndin var búin að ákveða. Það er þess vegna ágreiningur um skilning löggjafar frá í fyrra. Skattanefndin lítur svo á, að hún gefi nýja heimild til skattálagningar á sölusamlög. Yfirskattanefnd lítur svo á, að í löggjöfinni felist ekki þessi heimild. Hér koma fjórir flm. með brtt., sem er í raun og veru til þess að árétta sinn skilning í þessu máli. Og á sama hátt hef ég kvatt mér hljóðs til þess að árétta minn skilning, að ég gerði mér ekki grein fyrir því í fyrra og minnist ekki, að það hafi nokkurn tíma verið sérstaklega rætt, að í breytingum á skattalöggjöfinni ætti að felast sú breyting á aðstöðu þessara aðila til skatts, sem menn nú vilja vera láta. Þess vegna sagði ég áðan, að sú mjög svo skilmerkilega ræða hv. þm. V-Húnv. um skattlagningu þessara félaga og aðstöðu til skatts, miðað við hlutafélög og samvinnufélög, hefði átt að vera flutt í fyrra, til þess að menn þá hefðu getað tekið ákvörðun um það, hvort menn vildu gera þessa breytingu.

Ég tel mig undir allri meðferð málsins í fyrra, svo lengi sem ég fjallaði um málið, en eins og ég sagði, var ég ekki við endanlega afgreiðslu, — alls ekki hafa gert mér grein fyrir þessu, né að nokkur annar hafi þá bent á þessa breytingu, sem nú er af sumum talin felast í þessu. Þess vegna tel ég eðlilegt, að þingheimur nú samþykki þá brtt., sem flutt er á þskj. 372 og eftir minni skoðun er í raun og veru engin breyting, heldur bara til þess að kveða upp úr um ágreiningsatriði og til þess að taka af tvímæli. Ég mundi álíta, að ef dómstólarnir fjölluðu um þetta mál, þá gætu þeir ekki eftir þeirri meðferð, sem þetta mál fékk hér í þingi í fyrra, annað en úrskurðað á sama hátt og yfirskattanefndin nú hefur gert, að þessir aðilar skuli ekki fremur nú en áður, en breytingin var samþykkt í fyrra vera skattskyldir.

Varðandi það, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að þetta mundi verða erfitt í framkvæmd, þá get ég ekki skilið, hvað hann á við í því sambandi, því að þetta breytist ekkert í framkvæmd frá því, sem verið hefur. Löggjöfin hefur verið um þann langa aldur, sem þessi sölusamlög hafa starfað, í gildi og óbreytt, þangað til í fyrra að sumra dómi, en í raun og veru ekki breytt að annarra dómi — og þingmanna líka — frá því í fyrra, og málið fellur þá tvímælalaust í þann farveg, sem það hefur áður verið í og á ekki að þurfa að valda neinum erfiðleikum í framkvæmd. Hitt skal ég svo alveg fallast á með hv. þm. V-Húnv., að það getur verið full ástæða til þess, að einhver almenn rammalöggjöf sé sett um sölusamlögin, hliðstæð við hlutafélagalöggjöfina og samvinnulöggjöfina, en það er bara annað mál og kemur ekki við afgreiðslu þessa máls, sem hér er um að ræða. Mér þykir því alveg einsýnt, að a. m. k. þeir þingmenn, sem hafa í raun og veru það sama mat á þessu og ég, sem — eins og ég sagði — átti sæti í fjhn. í fyrra og enn, vilji fá öll tvímæli tekin af í þessu sambandi og það sé í raun og veru ekki annað en það, sem verið er að gera með samþykkt brtt. á þskj. 372.