04.02.1960
Neðri deild: 22. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

36. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir frá hv. 7. þm. Reykv. undir frv. Viðvíkjandi aths. hans vil ég aðeins taka þetta fram:

Ég tel, að það sé mjög vafasamt, að hægt sé að láta allan erfðafjárskattinn af því fé, sem rennur til arftaka samkv. C-flokki, renna í sjóðinn nema breyta sjálfum erfðalögunum. En sjálfsagt er hægt að hækka þessa upphæð, hækka hundraðshlutann allt upp í 98%, ef menn vildu, án þess að breyta l. En ég tel mjög vafasamt, að það sé hægt að gera það, nema sjálfum erfðal. sé breytt. En um það athugar að sjálfsögðu sú n., sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég tel, að vel geti komið til mála eð setja inn D-flokk, þar sem hærri skattur verði tekinn af fjarskyldari arftökum. Ég barðist fyrir því lengi hér áður, að erfðal. yrði breytt þannig, að fjarskyldari ættingjar fengju engan arf. Meiri hl. hv. þm. vildi ekki fallast á það. En það getur vel verið, að þeir vildu frekar fallast á það, að erfðafjárskatturinn yrði hækkaður á þessum aðilum. Ég veit, að það eru dæmi til þess, að búi hér í Reykjavík hefur verið skipt í 138 staði, og má geta nærri, hvort féð hefði ekki verið betur komið óskipt í þennan sjóð heldur en að skipta því í svo marga staði eins og þar var gert. Ég tel, að þetta verði að breytast í framtíðinni þannig, að þrengt verði mjög rétti arftaka, annarra en barna eða barnabarna eða systkina hins látna. Þetta vildi ég segja um fyrra atriðið.

Um seinna atriðið get ég vel fallizt á, að það sé mjög vafasamt að ákveða með lögum, að erfðafjárskattur verði hækkaður af því fé, sem að arfi er tekið samkvæmt gjafabréfi og erfðaskrá, sem þegar er búið að ganga frá, áður en l. taka gildi, og hef ég ekkert við það að athuga, að það verði sett beint inn í frv., að slík gjafabréf, sem væru dagsett og þinglesin fyrir útgáfudag þessara laga, séu ekki háð þessari grein. En ég tel, að það sé alveg rétt, að gjafabréf séu ekki háð þeim ákvæðum, sem nú eru í l. Ég tel, að það sé rétt, að gjafabréf fari í hærri flokk en nú er samkv. l. Menn hafa að vísu leyfi til þess að ráðstafa ¼, ef þeir eiga niðja, annars öllu sínu fé. En með tilliti til þess, sem ég hef tekið fram í minni frumræðu, þá álít ég, að það ákvæði eigi að breytast, en hins vegar komi vel til mála, eins og hv. þm. tók fram, að þetta gildi ekki um það fé, sem þegar hefur verið ráðstafað, þegar l. taka gildi, ef frv. verður samþykkt.