25.02.1960
Neðri deild: 36. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

65. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri hv. n., sem hæstv. ráðh. óskar að mál þetta fari í, og er þar formaður. En með því að ég er á förum um nokkurt skeið til útlanda, þá fæ ég ekki tækifæri til þess að ræða það mál í þeirri n. eða hér á þinginu og vildi því við þessa umr. segja hér nokkur orð um málið í heild.

Ég sé, að frv. er borið fram, eins og hæstv. ráðh. tók fram, eftir að það hefur verið athugað og undirbúið eða samið í n., sem skipuð var á símum tíma, þ.e. 16. apríl 1958, til þess að endurskoða sérstaklega, eins og tekið er fram í aths. við frv., að hækka grunnupphæðir elli-, örorku- og barnalífeyris, að heimila allt að tvöföldun barnalífeyris vegna munaðarlausra barna, að greiða að einhverju leyti lífeyri með barni látinnar móður og að jafna að einhverju eða öllu leyti aðstöðu einstaklinga gagnvart tryggingalögunum. Hér er því um að ræða raunverulega heildarendurskoðun á löggjöfinni. En eins og kunnugt er, hefur þessi löggjöf verið endurskoðuð svo að segja árlega siðan 1946, er hún var fyrst löggilt, upp tekin, og þegar maður lítur á það út af fyrir sig, að hér er um heildarendurskoðun að ræða, þá finnst mér, að það séu ýmis atriði, sem þurfi að taka til athugunar og hafa samráð við hæstv. ríkisstj. um, hvort ekki sé hægt að fá breytingar á. En einmitt með því að sett eru hér inn síðar ákvæði í sambandi við ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá hefði ég haldið og vildi beina því til hæstv. ráðh., að það væri eðlilegra og réttara að gera sérstakar breyt. á lögunum í tilefni af þeim breytingum, því að það verða áreiðanlega ýmis ákvæði í heildarendurskoðun l. eða í heild á frv., sem koma til með að valda mjög miklum ágreiningi í framkvæmd og samþykki á Alþ., og skal ég benda hér á nokkur atriði, sem eru alveg óháð því, sem verið er að gera í sambandi við efnahagsmálin.

Ég vil benda á, að frá því fyrsta hafa verið sífelldar umr, og áskoranir um það að gera landið að einu verðlagssvæði, og eins og hæstv. ráðh. talaði um, þá er orðin sú gerbreyting á þessu frá því 1946, að það er raunverulega ekki stætt á því lengur að hafa tvö verðlagssvæði í landinu. Það er ekki orðið neitt ódýrara nú, eins og var þá, að búa á þeim svæðum, sem sett voru þá undir annað verðlagssvæði. Þar m.a. skal ég benda á, að allir flutningar frá innflutningshöfnunum til þessara svæða gera allar vörur miklu dýrari en þær geta verið á innflutningshöfnunum, svo að ég aðeins taki eitt dæmi. Ég skal einnig benda á, að svo að segja allir bændur landsins verða að lúta því að neyta miklu dýrari mjólkurafurða en gert er í bæjunum á fyrsta verðlagsvæði, svo að aðeins séu tekin nokkur dæmi. Og svo má um fleira segja. Rafmagn úti í sveitunum og þorpunum kostar miklu meira nú en það kostar hér í Reykjavík, og svo má lengi halda áfram, svo að mér sýnist, að það sé burt fallinn alveg grundvöllurinn fyrir því að hafa tvö verðlagssvæði í landinu.

Þá vil ég einnig benda á annað atriði, sem hefur valdið mjög miklum ágreiningi, og það er skerðingarákvæðið í sambandi við örorku og ellilífeyri. Það var hugsað fyrst í upphafi, að skerðingarákvæðið ætti að falla niður 1950. Það var síðan framlengt og hefur verið framlengt síðan ár eftir ár, þar til nú á það að falla í burtu í lok ársins 1960, þ.e.a.s. fyrir 1. jan. næsta ár. Ég sé ekki, að það sé um það neitt hér í þessu frv., og vil biðja hæstv. ráðh. afsökunar, ef mér skyldi hafa yfirsézt um það, en ég vildi gjarnan heyra um það, hvort það sé hugsað að láta skerðingarákvæðið falla niður skilyrðislaust 1. jan. 1961. Mér er sagt, að eftir athugun, sem hafi verið gerð á þeim málum, muni það kosta um 25–30 millj. kr., og þá þarf sannarlega að gera ráðstafanir til þess að taka upp einhverjar tekjur í staðinn.

Þá er eitt enn, sem hefur valdið mjög miklum deilum, og það er það, hvort atvinnurekendur eigi ekki að vera skyldutryggðir. Eins og nú er, eru atvinnurekendur ekki skyldutryggðir, nema aðeins þeir atvinnurekendur, sem stunda sjó og eru lögskráðir á skip. Hinir eru ekki skyldutryggðir, og það eru mjög háar raddir um það að krefjast þess, að allir þegnar í þjóðfélaginu séu skyldutryggðir og hafi þar af leiðandi sömu bætur.

Þá er enn eitt mjög mikið ágreiningsatriði, og það er, hvers vegna ekki séu greiddar sömu bætur til hjóna, sem búa saman, eins og til hjóna, sem búa sitt í hvoru lagi. Þetta er eitt af ágreiningsatriðum í tryggingalöggjöfinni, og ég hygg, að það verði ekki staðið til lengdar á móti því að leiðrétta það ákvæði í löggjöfinni.

Þetta vildi ég hafa látið koma fram í sambandi við þær breyt., sem ég tel, að þurfi að ræða nánar, áður en frv. kemur aftur úr nefnd.

Ég skal svo ekki ræða mikið frv. í heild að öðru leyti, en ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, taki þessar mínar ábendingar til athugunar, ræði þær við hæstv. ráðh. og sjái, hvort hægt sé að fá um það samkomulag, því að ég hygg, að það verði allmikill hluti hér af hv. þm., sem verði mér sammála í því, að það beri að gera þær breytingar á þessum atriðum, sem ég hef minnzt á. Ég skal svo ekki tefja hv. d. frekar, en vildi láta þetta hafa komið fram við 1. umr.