23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að tala í þessu máli, en ræða hæstv. viðskmrh. og hv. 5. þm. Reykv. gaf mér dálítið tilefni til þess.

Viðskmrh. hélt því fram, að svo að segja allt það fé, sem varið væri til fjárfestingar, væri tekið að láni. Hæstv. ráðh. kemur með dálítið einkennilegar stafhæfingar stundum, eins og hann grípi niður á vissum punktum án þess að lesa sér rækilega til um hlutina. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að heildarfjárfesting s.l. 6 ár í landbúnaði hefur verið 1435 millj. kr. En hvað mikið hefur landbúnaðurinn fengið að láni af þessu? Ég athugaði þetta í skýrslum, sem Seðlabankinn gefur út, og þar eru heildarlán veðdeildarinnar, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs í árslok 1959 363 millj. kr., og sumt af þessu fé er lánað, áður en þessi 6 ár byrjuðu. Það eru um 230 millj., sem hafa verið lánaðar á þessum 6 árum, og landbúnaðurinn hefur varið til fjárfestingar á þessu árabili 1435 millj. kr. Er þá allt þetta fé tekið að láni? Heildarfjárfesting á þessu 6 ára tímabili hjá þjóðfélaginu hefur verið 8395 millj. kr., en fjárfestingarsjóðir hafa samanlagt lánað á þessu tímabili, þ.e. til ársloka 1959, — sumt af því lánað raunar fyrir það tímabil, — 2235 milljónir, allir fjárfestingarsjóðirnir, og á þessu tímabili hafa þeir lánað um 1900 millj. eða ekki 1/4 af því fé, sem varið hefur verið til fjárfestingar á þessu tímabili. Þetta kalla ég dálitla ónákvæmni hjá hæstv. ráðh. Ég skal sundurliða þetta ár fyrir ár. Árið 1955 hefur verið lánað til fjárfestingar 192 millj., en fjárfest hefur verið 1078 millj. 1956 hefur verið lánað til fjárfestingar 301 millj., en fjárfest 1420 millj. 1957 hefur verið lánað til fjárfestingar í heild 440 millj., en heildarfjárfesting 1623 millj. kr. Opinberar skýrslur segja þetta, en ekki ég. Árið 1958 hefur verið lánað til fjárfestingar 441 millj., en heildarfjárfesting hefur verið 1632 millj. Árið 1959 hefur verið lánað til fjárfestingar 357 millj., en heildarfjárfesting 1770 millj. Ég held, að þessar tölur sanni, að allt það fé, sem varið hefur verið til fjárfestingar, hefur ekki verið tekið að láni, og það er rúmlega 1/7 hluti af því fé, sem bændur hafa fjárfest á þessu tímabili, sem er tekinn að láni. En til fjárfestingar hjá bændum er m.a. talinn bústofnsauki. Ég held, að þetta ætti að nægja til að sýna, að þarna var dálítil ónákvæmni hjá hæstv. ráðh.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) gat um ýmsa hluti, sem eru meira en vafasamir. Hann gat þess, að menn fengju ekki útborgað úr innlánsdeildum, þegar þeir bæðu um það. Ég held, að það muni vera lítið um þetta. Það er raunar tiltekið í reglugerðum flestra innlánsdeilda, að það á að segja upp með þriggja mánaða fyrirvara. Venjulega hefur þessi uppsagnarfrestur ekki verið notaður. En ég hef yfirleitt ekki heyrt talað um, að það hafi ekki verið greitt út, þegar hann hefur verið liðinn, og ef það væri, þá væri hægðarleikur fyrir einstakling að höfða mál. En það hefur yfirleitt ekki verið gert.

En það er einn hlutur, sem þessir hv. þingmenn gleyma. Hæstv. viðskmrh. var sérstaklega að tala um það, að vegna þess að innlánsdeildirnar nytu þeirra fríðinda, að þeir, sem ættu þar fé, þyrftu ekki að telja það fram, þá væri réttlátt, að þeir legðu einhvern hluta af þessu fé í Seðlabankann, af því að þær hefðu réttindin, þessar stofnanir, þá hefðu þær skyldurnar líka. En það eru ekki innlánsdeildirnar, sem hafa þennan rétt. Það eru einstaklingarnir í landinu, og það er í raun og veru fullkomið hneyksli að lofa ekki öllu fé, þar sem einstaklingur lánar einstaklingi, að lofa því ekki að vera skattfrjálsu. Það er ekkert annað en þarna er skattborgurunum mismunað. Og það, sem skeður með innlánsdeildirnar, er þetta, að kaupfélög eru stofnanir, sem menn vilja lána þessa peninga, — það er það, sem er að gerast, — til þess að gera þessar stofnanir starfhæfar. Ef kaupfélögin fengju ekki þessa peninga að láni, yrðu þau að fá þá annars staðar til þess að geta leyst þau verkefni af höndum, sem viðskiptamennirnir fela þeim.

En það er annað atriði, sem þessir hv. þm. gleyma, og það er, að ríkissjóður ábyrgist sparifé bankanna og þess vegna er honum skylt að líta eftir, að fjármál þeirra séu í lagi. En ríkissjóður ber enga ábyrgð á innstæðum innlánsdeilda og sparisjóða úti á landi, og þess vegna kemur honum þetta raunverulega ekkert við, heldur þeim, sem eiga sparisjóðina, og einkanlega þeim, sem eiga peningana inni í þeim. Þetta er sá stóri skilsmunur, sem aldrei hefur verið ræddur hér, og í þessu eru rangindin fólgin. Ríkissjóður ber enga ábyrgð á innstæðum í innlánsdeildum eða í litlum sparisjóðum úti á landi, en sparisjóðirnir sjálfir hafa sett þau ákvæði í sinar reglugerðir að eiga einhverja vissa prósentu hjá bönkunum til þess að grípa til, ef á þarf að halda, og það er ekki nema réttlátt og skynsamlegt. Það á í raun og veru að vera einkamál sparisjóðanna sjálfra og innlánsdeildanna, hvort þau vilja þetta eða ekki. En ríkisvaldinu út af fyrir sig kemur þetta hreint ekkert við. Þetta er skerðing á einstaklingsfrelsi. Ef einstaklingarnir vilja lána innlánsdeildunum þessa peninga og krefjast engrar ábyrgðar annarrar en ábyrgðar viðkomandi kaupfélaga eða sýslufélaga, þar sem sýslufélögin eiga sparisjóðina, þá kemur ríkisvaldinu þetta út af fyrir sig ekkert við, heldur aðeins þeim mönnum, sem eiga peningana hjá þessum lánastofnunum. Þeir geta farið með það í bankana, sem ríkissjóður ábyrgist, ef þeir vilja það heldur, en ef þeir vilja það ekki heldur, þá eiga þeir að vera frjálsir að þessu.

Í lögunum, sem samþ. voru 1960, er gert ráð fyrir, að nokkur hluti af innstæðuaukningu innlánsdeilda og sparisjóða gangi til Seðlabankans. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, heldur eiga þau skilyrðislaust að leggja 15% af innstæðufénu í bankann, hvort sem þau geta það eða ekki. Raunar er þarna í 3. mgr. 11. gr. tekið fram, að ef örðugleikar verða á þessu, þá sé bankanum heimilt að taka skuldabréf eða eitthvað því um líkt. En það er nú bara, að þau skuldabréf séu til. Sannleikurinn er sá, að þegar þessi ákvæði voru samþykkt í fyrra í efnahagslöggjöfinni, þá gerði ríkisstj. hlut, sem var alveg meinlaus, skipti okkur engu máli. Það átti bara að taka víssan hluta af aukningunni. En vitanlega var ósköp auðgert að hafa hann engan, og þeir hafa ekkert fé fengið þess vegna frá innlánsdeildunum. Þetta ákvæði er hálfu hættulegra, því að það á að taka af heildarinnstæðunni, hvort sem hún minnkar eða vex, m.ö.o., að í flestum tilfellum verður þetta óframkvæmanlegt, því að þegar þeir koma og ætla að fara að taka vissan hluta af innlánsdeildunum, þá er það allt fast í vörum, kjötbirgðum, mjölvöru, vefnaðarvöru og ýmsu dóti. Ég hugsa, að Seðlabankinn kæri sig ekkert um að flytja þær eignir suður. Það er nefnilega mesti misskilningur, að samvinnufélögin geti legið með peningana í kassa. Þau þurfa að eiga verzlunarhús, þau þurfa að eiga sláturhús, frystihús, fiskvinnslustöðvar í mörgum tilfellum, og þar að auki þurfa þau að greiða sjálf nokkurn hluta af framleiðsluvörum viðskiptamannanna, því að það er ekki lánað út á nema 2/3 af þeim.

Ég veit, að þetta er ekki af illvilja hjá þessum mönnum, heldur af ókunnugleika. Það er ekki af því, að þeir vilji öðrum illa.

Ríkisvaldið hefur alltaf verið að ákveða gengislækkun. Gengislækkun þýðir, að það þarf fleiri og fleiri krónur. Þetta hefur valdið því, að sparifé það, sem fyrirtæki, jafnt kaupfélög og önnur fyrirtæki, eru búin að aura saman í rekstur, hefur orðið svo að segja einskis virði miðað við þörfina. Þetta hefur skapað aukna rekstrarfjárþörf hjá öllum fyrirtækjum í landinu. Ofan á þessar endemisráðstafanir á svo að bæta því að taka vissan hluta af þessu rekstrarfé, sem er allt of lítið, og flytja í Seðlabankann. Það getur skeð, að þetta kæmi allt í sama stað niður, ef Seðlabankinn vildi svo lána það aftur, þá væri það bara skopleg hringrás, en sé það ekki gert, horfir til vandræða.

Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um það, að þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fóru með stjórn, hefðu verið aukin lán til samvinnufélaganna. Ég efast ekki um, að þetta sé rétt. En af hverju kom þessi aukning? Hún kom af því, að á þessu árabili stórfjölgar sauðfé bænda og mjólkurframleiðslan eykst m.a. Þetta kemur fram í auknum afurðabirgðum. Við það bætist, að gengið var alltaf að lækka. Það er framleiðsluaukningin og gengislækkunin, sem veldur því, að það þarf að lána fleiri krónur, en ekki, að þessir framleiðendur hafi notið neinna sérstakra fríðinda. Það er lánað eftirtölulaust út á 2/3 af sjávarafurðum, jafnvel upp í 90% og í sumum tilfellum sennilega upp í 100%. Við erum ekkert að telja þetta eftir, en það er bara réttlátt að lána út á landbúnaðarafurðirnar líka. Það eru fluttar út gærur, flutt út ull, flutt út nokkuð af kjöti. Og hver á að leggja til fjármagnið í það kjötmagn og í þær mjólkurvörur, sem þarf að liggja með í landinu, til þess að neytendur hafi þessar vörur handbærar allt árið? Hver á að leggja það fé til? Eiga bændurnir að gera það að öllu leyti, sem framleiða vöruna, eða á þjóðfélagið að gera það sem heild? Hvort er sanngjarnara?

Það er ekkert verið að ræða um annað í þessu tilfelli en að bændurnir eða þeir, sem framleiða landbúnaðarvörur, njóti sömu aðstöðu, sömu fyrirgreiðslu af hendi þjóðfélagsins og bankanna og þeir gera, sem framleiða sjávarafurðir, — ekkert annað. En það var breyting á lánakerfinu á þessu árabili til hagræðis á vissan hátt fyrir framleiðslufélögin og ég sé ekki, að það sé nokkurn hlut við þetta kerfi að athuga, heldur sé það fullkomlega heilbrigt. Hitt er aftur ekki heilbrigt hjá ríkisvaldinu, að ábyrgjast sparifé landsmanna og vera sífellt að gera það verðlausara og verðlausara, þannig að nú eru 5.7 aurar í gulli jafnt og ein króna í seðlum. Það eru svik hjá ríkisvaldinu, en hitt er heiðarlegt, að láta atvinnuvegina búa við sömu kjör, hvaða tegund af framleiðslu sem stunduð er.

Þetta var það helzta, sem ég vildi benda á. Það er aðeins rétt að geta þess, af því að þarna hefur komið fram misskilningur, sem ég álít að ekki sé af illvilja, heldur af því, að menn hafa bara ekki athugað þetta rétt, eru ekki nógu kunnugir hlutunum. En það kemur fram misskilningur í fleiru. Það voru samþykkt hér útsvarslög í fyrra. Ég ætla aðeins að drepa á það, þó að það sé raunar ofur lítið óskylt mál, en þó í sama anda, þar sem það er heimilað að leggja 2–3% veltuútsvar á fyrirtæki úti á landsbyggðinni, en hér eru þau takmörk, að það má ekki leggja á sömu vörutegundir nema 0.5–0.6%, því að það var ákveðið í útsvarslögunum í fyrra, að álagningin mátti ekki vera hærri en árið áður. Úti á landi hefur það verið þannig, að veltuútsvörin hafa verið takmörkuð, þannig að ekki hefur verið lagt veltuútsvar á viðskipti félagsmanna hjá kaupfélögum, heldur bara á utanfélagsmannaviðskipti. Það hefur valdið því, að gjaldstofninn hefur verið minni og veltuútsvörin því þurft að vera hærri. Þetta hefur að sumu leyti komið ranglega niður á smákaupmönnunum, en þeir hafa aftur þá aðstöðu, að þeir eiga auðvelt með að telja ekki alveg grannt fram, vegna þess að það er lítið eftirlit með þeirra bókhaldi. En kaupfélögin eru algerlega neydd til þess, vegna þess að reikningar þeirra eru opinberlega lagðir fram. Veltuútsvör í kauptúnum úti á landi hafa því verið miklu hærri en hér í Reykjavík. Og í framkvæmdinni verður þetta þannig s.l. ár, að hér er lagt veltuútsvar á fyrirtækin 0.5–0.6%, þegar undan eru skilin örfáir söluturnar og glysvarningur, en úti á landsbyggðinni er sums staðar lagt á veltu 2% eða ferfalt hærra. Það var talað um það, þegar útsvarslögin voru samþykkt í fyrra, að þetta ætti að vera til þess að skapa réttlæti og samræmingu. En þetta kalla ég að skapa óréttlæti. Nú er það þannig með sum samvinnufélögin, að þau sleppa með að borga 0.5–0.6% af veltunni, en aftur önnur og það yfirleitt þau verr stæðu, á þeim er níðzt og lagt 2% á þau.

Ég vildi benda hæstv. stjórnarflokkum á, að þetta er ekki réttlæti og ekki viturlegt að gera svona hluti. Skattborgararnir, jafnt fyrirtæki sem einstaklingar, eiga að búa við sömu kjör. Ef kauptún eða sveitahreppur þarf að leggja á hærra útsvar en þessi ákveðni stigi segir til um, þá þarf að hækka það í prósentum, eftir því sem þörf gerist. En línan á að vera sú sama fyrir alla. Þá hefur enginn yfir neinu að kvarta.

Það hefur verið mikið um það talað, sérstaklega í Morgunblaðinu fyrr á árum, að samvinnufélögin nytu skattfríðinda. Ég var kaupfélagsstjóri í fimm ár, og árið 1958 var útsvarið á kaupfélaginu, sem ég sá um, 1% á veltuna, en hér var lagt á verzlanir 0.5–0.6%. Þetta voru hlunnindin, sem við höfðum úti á landsbyggðinni. Og svo var verið að tala um það, að við borguðum ekkert útsvar. Það var hægt að reyta undarlega mikið. Ég býst við, að það hefði verið hægt að fá lækkun með því að kæra, en ég stóð ekki í því, og ég hygg, að mörg samvinnufélög hafi ekki nennt að standa í slíku, því að vitanlega þurfa öll sveitarfélög að hafa sina tekjustofna. En það á að hafa réttlæti í þessum hlutum eins og öðrum. Og útsvarslögin eru nú óréttlát og ranglát.