10.10.1960
Sameinað þing: 0. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Landhelgismálið

Landhelgismálið. Eysteinn Jónsson:

Ég kvaddi mér hljóðs til að gera fyrirspurn utan dagskrár. Það er heldur óvenjulegur háttur á hjá hæstv. forseta að skammta tímann strax fyrir fram. En ég get sagt honum, að mín hugsun var ekki sú að halda hér langa ræðu, heldur einvörðungu að koma hér að stuttri fyrirspurn. En það, sem ég vildi segja, er út af landhelgismálinu, sem flestir munu hugsa mest um nú þessar vikurnar og þessa dagana. Eins og við vitum, hefur hæstv. ríkisstj. farið út í að taka upp samninga við Breta um landhelgismálið.

Ég mun ekki ræða hér ná utan dagskrár landhelgismálíð efnislega eða það út af fyrir sig að leggja út í samninga um málið við Breta, eins og þeim málum var komið. Ég vil aðeins nota þetta fyrsta tækifæri til þess að mótmæla því, að út í slíka samninga um landhelgismálið hefur verið lagt við Breta, og taka skýrt og eindregið undir þau mótmæli, sem fulltrúi Framsfl. í utanrmn. flutti á fundi nefndarinnar 10. ágúst, þegar ríkisstj. greindi frá því, að hún ætlaði að leggja út í þetta. Um efnishlið málsins læt ég þetta í raun og veru nægja núna, vegna þess að það þurfti ekki á fyrsta degi þingsins að kveðja sér hljóðs utan dagskrár til þess að segja þetta, þó að það væri að vísu nauðsynlegt, að það kæmi fljótt fram. En þetta var áður vitað. Það hefur ekki legið neitt í láginni afstaða framsóknarmanna í þessu máli.

En ég kvaddi mér hljóðs af öðru tilefni beinlínis, sem sé vegna þess, að á utanríkismálanefndarfundinum 10. ágúst var því lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að utanrmn. mundi verða látin fylgjast efnislega með því, sem fram færi í þessum viðtölum. En síðan eru liðnir tveir mánuðir, og viðtölin hafa þegar átt sér stað um alllanga hríð, án þess að nokkru sinni hafi verið haldinn fundur í utanrmn. né nefndarmönnum, þeim sem í hana eru kjörnir af hæstv. Alþingi, hafi gefizt nokkur kostur á því að vita, hvað fram fer, og þá ekki heldur öðrum þingmönnum.

Við vitum sem sagt ekki neitt um, hvað hæstv. ríkisstj. er að fara með Bretum í landhelgismálinu. Hvorki utanrmn, né öðrum hefur verið gefin skýrsla um þetta. Þetta er vitanlega með öllu óverjandi, að ekki hefur verið staðið við þessar yfirlýsingar og haft samráð við utanrmn. og þar með við þingflokkana, sem hægt var að gera með milligöngu nefndarinnar, þótt þingið sæti ekki. Ég vil finna mjög að þessu. En ég vil jafnframt því, sem ég finn að þessu, óska eftir því, að nú verði breytt um í þessu efni, þar sem hæstv. Alþingi er nú komið saman.

Ástæðan til þess, að ég fer fram á þetta nú, áður en við skiljum á fyrsta fundi þingsins, er sú, að við höfum ekki hugmynd um, hvað er að gerast, og við vitum ekki nema einmitt sé verið þessar klukkustundirnar eða þennan dag að ganga frá einhverju þýðingarmiklu efnisatriði málsins. Þess vegna vildi ég koma þessari athugasemd á framfæri utan dagskrár nú strax á fyrsta fundi þingsins og þeirri ósk til hæstv. forsrh., að hann lýsi yfir því nú á fundinum í dag, að ekkert verði aðhafzt í samningunum um landhelgismálið við Breta nema í samráði við Alþingi, — að þessu verði lýst skýrt yfir og tekin upp þannig samvinna við þingið. Enn fremur, að hæstv. forsrh. vildi lýsa því yfir, að hann gefi þinginu skýrslu, helzt auðvitað strax í dag, eða þá á morgun t.d., um þetta mál, hvað stjórnin hefur í huga og hvað fram hefur farið í málinu, enda verði ekkert aðhafzt í málinu, fyrr en sú skýrsla hefur verið gefin.

Þetta er vitanlega alveg eðlileg ósk, og hana varð að setja fram nú strax á þessum fyrsta fundi, og því viðhafði ég þá óvenjulegu aðferð að biðja um orðið utan dagskrár á þingsetningarfundinum. Ég vildi alls ekki fara héðan úr húsinu án þess að hafa flutt fram þessa ósk, ef svo ólíklega vildi til, að eitthvað væri að gerast í þessu máli, jafnvel þessar klukkustundirnar. Óskin er þessi, að hæstv. forsrh. lýsi því yfir, að ekkert verði aðhafzt í landhelgissamningunum við Breta nema í samráði við Alþingi, og að hann vildi góðfúslega lýsa því yfir, að skýrsla yrði gefin um málið við allra fyrsta hugsanlegt tækifæri og ekkert yrði aðhafzt í málinu, fyrr en sú skýrsla liggur fyrir Alþingi. Ég skírskota í þessu sambandi til þess, hvaða málsmeðferð landhelgismálið hefur fengið frá fyrstu tíð, þar sem reynt var að halda þannig á því, að um það væri haft fullt samráð.

Þessar óskir vildi ég flytja og vona, að hæstv. ráðherra taki þessu vel.