25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að frv. því, sem hér liggur fyrir, vil ég leyfa mér að gera með örfáum orðum grein fyrir afgreiðslu heilbr.- og félmn. á frv. um sama efni á þskj. 114. Minni hl. n., þeir Hannibal Valdimarsson og Jón Skaftason, hefur gefið út nál. um það frv. á þskj. 597, þar sem okkur, sem meiri hl. skipum, er borið á brýn, að við höfum tafið afgreiðslu málsins í n. Áminnzt frv. var nokkrum sinnum rætt í n., og við gerðum þá minni hl. jafnan grein fyrir, að við vildum ekki taka afstöðu til þess, fyrr en séð yrði, hverja afgreiðslu það frv. fengi, sem nú er komið til hv. d. frá Ed., þ.e.a.s. frv. Jóns Þorsteinssonar o.fl. á þskj. 64, sem flutt var áður en frv. Hannibals Valdimarssonar o.fl. kom fram í þessari hv. d. Þegar að því kom, að minni hl. n. tók ákvörðun um að gefa út nál. sitt, létum við í ljós, að við mundum enn bíða með að skila áliti um frv. á þskj. 114, þar sem við værum þessu frv. fylgjandi, og héðan af teljum við óþarft að gefa út nál. um frv. á þskj. 114.

Þegar ljóst var orðið, að það frv., sem hér liggur fyrir, mundi koma til kasta hv. d., var haldinn sameiginlegur fundur heilbr.- og félmn. beggja deilda til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins, þegar það kæmi til n. í Nd. Málið var rætt á hinum sameiginlega fundi og okkur, fulltrúum Nd., gafst tækifæri til að kynna okkur gögn málsins og umsagnir, sem fyrir lágu. Eftir þann fund taldi ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til annars en að ætla, að þegar heilbr.- og félmn, deildarinnar fengi málið til meðferðar, mundi afgreiðsla þess í n. ganga mjög greiðlega, þótt ekki yrðu allir á eitt sáttir um málið sjálft. Mér þykir rétt að geta um þetta vegna ágreinings, sem einn nm. gerði í gærkvöld við formann nefndarinnar út af boðun nefndarfundar að lokinni umr. þá, en vitanlega gat nefndarformanninn ekki órað fyrir því, að hv. 4. landsk. þm. mundi nota þetta mál til að setja met í samfelldum ræðuflutningi á þessu þingi með því að tala í 4 klst. og 20 mínútur samfleytt. Í framhaldi af þessu tel ég jafnframt skylt að geta þess, að hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, var ekki sjálfur mættur á hinum sameiginlega fundi, heldur mætti þar flokksbróðir hans, hv. 11. landsk. þm., Gunnar Jóhannsson, í hans stað.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa síðast í gær kvartað undan því, að mál fengjust ekki afgreidd í nefndum. Ég vísa þessu á bug, hvað heilbr.- og félmn. hv. d. snertir. Sú nefnd hefur afgreitt öll mál, sem til hennar hefur verið vísað á þessu þingi, og haldið alls 21 fund. Þeir menn, sem krefjast afgreiðslu mála, mega ekki jafnframt láta það henda sig að skorast undan að mæta á nefndarfundum, jafnvel á óvenjulegum tímum, þegar liður að þingslitum. Mér skilst, að það hafi oft komið fyrir í þingsögunni, að fundir hafi verið boðaðir á óvenjulegum tímum, þegar liður að þinglokum.

Frv. Jóns Þorsteinssonar o.fl. á þskj. 64 felur það í sér, að á árunum 1962–1967 skuli launajöfnuður nást milli kynjanna í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu, en það eru þau störf, sem langalgengast er að konur og karlar vinni hlið við hlið. Þetta á að ske þannig, að hinn 1. jan. 1962 skulu laun kvenna hækka um einn sjötta hluta launamismunarins og síðan árlega um 1/6 hluta, þar til fullur launajöfnuður næst 1. jan. 1967. Þriggja manna nefnd á að fylgjast með launabreytingunum og því, hverjir eigi rétt til þeirra á hverjum tíma, og er hlutverk n. fyrst og fremst að tryggja þeim, sem réttinn eiga, þær hækkanir, sem þeim ber. Til þess að n. geti unnið þetta verk, er henni nauðsynlegt að fylgjast með gerðum kjarasamningum og breytingum, sem á þeim kunna að verða á hverjum tíma, því að ákvæði laganna hindra það á engan hátt, að launþegasamtökin semji sjálf við vinnuveitendur um að jafna launamismuninn á skemmri tíma en lögin ákveða.

Ég skal í örstuttu máli gera grein fyrir þeim umsögnum, sem heilbr.-og félmn. hv. Ed. bárust um þetta frv. — Kvenfélagasamband Íslands telur frv. spor í rétta átt og að þær samræmingar launa, sem frv. gerir ráð fyrir, muni einnig hafa áhrif til samræmingar innan þeirra starfsgreina, sem frv. nær ekki til. Félag ísl. iðnrekenda, Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtök Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, Vinnuveitendasamband Íslands og Verzlunarráð Íslands mótmæla öll frv. og telja varhugavert að lögbjóða kaup vissra starfshópa, án þess að tillit sé tekið til greiðslugetu atvinnuveganna. Alþýðusamband Íslands mótmælir frv. vegna þess, að það gangi of skammt, sbr. bréf sambandsins, sem prentað hefur verið sem fskj. með nál. Hannibals Valdimarssonar og Jóns Skaftasonar á þskj. 597 um frv. Hannibals Valdimarssonar o.fl. um þetta sama efni. 35 kvenfulltrúar á 27. þingi Alþýðusambands Íslands sendu áskorun til Alþingis um að samþykkja frv. Landssamband ísl. verzlunarmanna mælir með frv. og þeim framkvæmdamáta, sem þar er gert ráð fyrir að viðhafa á launajöfnuðinum. Kvenréttindafélag Íslands mælir fastlega með því, að frv. verði gert að lögum, þar sem lítil líkindi séu til þess, að launajafnréttið náist í einum áfanga. Iðja, félag verksmiðjufólks, skorar á Alþingi að samþykkja frv. Kvenfélag Alþfl. í Reykjavík og stjórn verkakvennafélagsins Framtíðarinnar í Hafnarfirði skora einnig á Alþ. að samþykkja frv., og stjórn Bandalags kvenna gerir slíkt hið sama.

Talsverðar umr. urðu um mál þetta við 1. umr. í gærkvöld, og talaði hv. 4. landsk. þm. í 4 tíma og 20 mín., eins og ég gat um áðan, án þess þó að segja nokkuð markvert, og mun ég ekki eyða tíma þingsins í að svara ræðu hans sérstaklega. En ég vil benda á í sambandi við launajafnréttismálið, að s.l. sex ár hefur mismunurinn, sem verið hefur á launum karla og kvenna, aðeins minnkað um 2%. En með frv., ef það verður að lögum, á það að vera tryggt, að mismunurinn hverfi á næstu sex árum, en sá mismunur, sem eftir er, er talinn vera 22% í þeim starfsgreinum, sem algengastar eru. Á það hefur verið bent, að í þeim kaupkröfum, sem nú eru uppi, sé ein aðalkrafan sú, að kaup kvenna verði 90% af karlmannskaupi. Um þetta vil ég segja, að allir, sem til kaupsamninga þekkja, vita, að venjan er sú, að þær kröfur, sem fram eru settar, fást aldrei samþykktar til fulls. Þess vegna má gera ráð fyrir, að þannig verði einnig með þessa kröfu. Og jafnvel þó að hugsanlegt væri, að atvinnurekendur kæmu í þessu efni til móts við kröfu verkalýðssamtakanna, er það eins líklegt, að þá liði ekki eitt ár, heldur fimm ár eða tíu ár, þangað til atvinnurekendur koma næst til móts við kröfur verkalýðssamtakanna að þessu leyti. Aftur á móti tryggir frv. það, að launamismunurinn hverfi í jöfnum skömmtum, ef svo mætti segja, á næstu sex árum. Ég tel þess vegna fyrir mitt leyti, og sú er skoðun meiri hl. heilbr.- og félmn., að með þessu frv. sé séð fyrir endann á lausn mikils réttlætismáls, og þess vegna leggjum við til, að frv. verði afgreitt frá þessu þingi, þó að segja megi, að æskilegt væri í slíku máli að geta stigið stærra spor.