28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1795)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv., sem fyrir liggur á þskj. 672, er flutt í hv. Ed. af þrem þm. þar, og mér er tjáð, að því hafi verið útbýtt í þeirri d. 15. febr. s.l. Deildin hefur því haft það alllengi til meðferðar, hv. Ed., og mestan hluta þess tíma mun það hafa legið í nefnd. Mér skildist á hv. Ed. mönnum, þegar ég ræddi við þá fyrir nokkrum dögum, að ekki mundi vera gert ráð fyrir, að þetta mál yrði afgreitt á þessu þingi, og þegar ég af tilviljun var staddur við umr. í Ed. núna rétt fyrir helgina, heyrði ég, að því var haldið fram í þingræðu, að hv. formaður sjútvn. Ed., sem er jafnframt einn af flm. þessa máls, hefði skýrt síldarútvegsnefnd svo frá, að þetta mál mundi að öllum líkindum ekki verða afgreitt á þessu þingi. Ég veit ekki, á hvaða heimildum sú staðhæfing hefur verið byggð, en þetta heyrði ég, að sagt var í ræðu í hv. Ed. Undir lok síðustu viku, þegar komið var að þingslitum, var þetta mál svo skyndilega tekið til meðferðar í hv. Ed. og afgreitt þar.

Til Nd. kom frv. ekki fyrr en í gær, á mánudegi. Það mun hafa verið afgreitt í Ed. á laugardag, svo að þess var varla að vænta, að það kæmi til Nd. fyrr en á mánudegi, en á þeim sama degi var það tekið til 1. umr. hér í hv. d. og afgreitt til n., til hv. sjútvn., sem ég á sæti í. Þá strax á eftir var boðað til fundar í n. og síðan til annars fundar stuttu síðar, en samanlagt stóðu þessir fundir ekki nema stutta stund, og þar var enginn tími til þess að ræða þetta frv. ýtarlega eða bera saman við gildandi lög. Ég taldi mér þess vegna ekki fært að taka þátt í afgreiðslu málsins í n. á því stigi, og sama sagði annar nm., hv. 4. þm. Austf. (LJós), eftir því sem mér skildist. Hann taldi sér ekki heldur fært að taka þátt í afgreiðslu málsins þá á stundinni, enda málið, eins og ég sagði áðan, aðeins komið til n. fyrir stuttri stundu og í raun og veru engar umr. farið fm um það eða það athugað í n. Við hv. 4. þm. Austf. höfum ekki rætt um þetta mál síðan. Það hefur ekki verið tækifæri til þess, enda eru annir miklar nú í þingi, og ég veit ekki, hvort afstaða okkar til efnisatriða málsins er sú sama. Ég veit það ekki, a.m.k. ekki með neinni vissu. En ég hafði hugsað mér, ef tími ynnist til, þótt skammur tími sé liðinn, að gefa út nál. um málið eða a.m.k. gera till. um afgreiðslu. Mér hefur ekki enn þá unnizt tími til þess að gera það, en ég vildi mega vænta þess, að hæstv. forseti gæfi a.m.k., áður en umr. er slitið, ráðrúm til þess, að ég gæti orðað afgreiðslutillögu, þó að ég ekki kæmi því í verk að gefa út nál., gæti a.m.k. komið á framfæri till. um afgreiðslu á málinu, og það yrði þá veitt stutt hlé til þess, ef til kæmi, að umr. yrði slitið.

Ég skal ekki verða mjög langorður um þetta mál, enda er það svo, að ég hef ekki athugað það til þeirrar hlítar, sem æskilegt væri, ef ég ætti að ræða það nákvæmlega. Frv. kom ekki til d. fyrr en í gær, eins og ég sagði, og ég og fleiri voru þeirrar skoðunar fyrir nokkru, að það mundi ekki vera áhugi fyrir því að afgreiða þetta mál, og þar af leiðandi hefur minna verið að því gert að kynna sér það, meðan það var í annarri deild. En ég sé það við lauslega athugun á málinu, að í frv. er lagt til, að gerðar verði breytingar á mörgum greinum þeirra laga, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. laga nr. 74 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl. Það kann að vera, að sumar breytingarnar skipti ekki miklu máli efnislega séð, en þó virðist mér, að hér sé um talsverðar efnisbreytingar að ræða. Ég skal koma að því í fáum orðum á eftir. En það er galli á grg. þessa frv., eins og nú liggur fyrir frá hendi hv. flm., sem eru eins og ég sagði áðan, 3 þm. í Ed., að þessi grg. er tiltölulega mjög ónákvæm. Það er gerð grein fyrir einu eða tveimur efnisatriðum í almennri grg., en síðan er ekki gerð grein fyrir þeim breytingum, sem ætlazt er til að verði gerðar á einstökum gr. laganna. Hér er þó um að ræða alllangan lagabálk í mörgum greinum, og flutningsmenn hafa haft þann hátt á að semja nýtt frv., ekki að gera tillögur um breytingar á einstökum gr. l., heldur semja nýtt frv., og þegar nýtt frv. er samið, þá er það auðvitað til mikils hægðarauka fyrir þm. og er ævinlega gert, þegar stjórnarfrv. eru flutt, að hver grein er tekin út af fyrir sig og gerð grein fyrir þeim breytingum, sem ætlazt er til að gerðar séu á þeirri grein laganna, hvort sem um er að ræða efnisbreytingu eða orðabreytingu. Það gerir þm. og nefndinni miklu auðveldara að setja sig inn í málið. Þetta hefur ekki verið gert að þessu sinni, þannig að auðvelt sé að átta sig á því, eins og menn geta séð, ef menn vilja kynna sér þskj. 367 frá Ed. Þar er grg. aðeins um 20 línur, mest almenns efnis, og sagt að frv, feli í sér nokkrar breytingar á skipun síldarútvegsnefndar. Það er eins og það séu ekki aðrar breytingar í frv. en þessi breyt. á skipun síldarútvegsnefndar, en það er ekki rétt. Það kemur í ljós strax við lauslega athugun, að það eru fleiri breytingar í frv. Þegar þannig var að máli staðið, að gert var ráð fyrir nokkrum breytingum, þá hefði auðvitað verið rétt að segja frá því í grg. og gera grein fyrir því í sambandi við einstakar greinar.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, því að það sýnir, að ekki hefur verið vandað til meðferðar málsins í hv. Ed., því miður, að þó að málið sé búið að ganga gegnum hv. Ed. og komið gegnum 1. umr. í Nd. og frá nefnd eða nefndarhluta hér í Nd., þá liggur ekki enn fyrir umsögn síldarútvegsnefndar um málið, svo að mér sé kunnugt, og hv. sjútn. Ed. virðist ekki hafa gert sér far um það eða komið því í framkvæmd að ræða við nefndina um málið. Síldarútvegsnefnd er sá aðili, sem hefur haft með framkvæmd þessara laga að gera í 26 eða 27 ár og auðvitað hlýtur að þekkja flestum öðrum betur til þessara mála. Maður skyldi því ætla, að þegar verið er að afgreiða breytingar á þessum lögum, þá yrði það fyrsta verk þeirra, sem með þau mál hafa að gera í þinginu, að ræða um það við síldarútvegsnefnd. Það hefur enn ekki verið gert, og ég verð að telja það stóran galla á meðferð málsins, að mönnum skuli ekki vera kunnugt um álit síldarútvegsnefndar á þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og ég sagði áðan, hafa þessi lög, sem hér er gert ráð fyrir að breyta, þessi lög varðandi útflutning og sölu síldarafurða, verið í gildi um rúmlega aldarfjórðung, eða síðan 1934, 1934 eru þau samþykkt á Alþingi. Þau hafa staðið óbreytt allan þennan tíma, og þess vegna má ætla, að allvel hafi til tekizt við setningu þeirra í öndverðu, enda held ég að það sé sammæli flestra, sem til þekkja, þó að dómar kunni að vera misjafnir um einstakar framkvæmdir samkvæmt lögunum, að þau hafi gert mikið gagn þennan tíma. Hitt er svo auðvitað ekki nema eðlilegt, að nú kunni að vera að því komið eftir allan þennan tíma, að æskilegt sé að gera einhverjar breytingar á þessari 25 eða 26 ára gömlu löggjöf, enda ástæður í ýmsu breyttar frá þeim tíma, þegar lögin voru sett, og að sjálfsögðu leiðir reynsla í ljós ýmislegt, sem kann að hafa verið óljóst í þessum efnum.

Þó að ég hafi ekki tekið um það endanlega ákvörðun, þá hlýt ég að hallast mjög að því, sem fram kom hjá hv. minni hl. sjútvn. í Ed., að breytingar á þessari löggjöf ætti helzt ekki að gera nema að mjög vandlega athuguðu máli. — í samræmi við það lagði sá minni hl. til, að frv. yrði að þessu sinni afgreitt með rökstuddri dagskrá, í trausti þess, að ríkisstjórnin láti endurskoða lögin um síldarútvegsnefnd o.fl. og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við ýmsa aðila, sem hafa góða þekkingu á þessum málum og einkum eiga hagsmuna að gæta, og voru í dagskrártillögu þessa efndarhluta í Ed. tilnefndir nokkrir aðilar: síldarútvegsnefnd, Landssamband íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda. Mér finnst þetta nokkuð eðlileg afstaða, og mér virðist hún ekki sízt eðlileg fyrir okkur hér í hv. Nd. nú á næstsíðasta degi þingsins varðandi þetta mál, sem ekki kom til deildarinnar fyrr en í gær. Mér virðist nokkuð eðlilegt, að málinu yrði frestað og að fram kæmi ósk um það, að endurskoðun færi fram á lögunum. Það er mjög algengt, ef uppi eru raddir um það að breyta slíkri löggjöf sem þessari, mikilsverðri löggjöf, sem staðið hefur lengi, að þá er sett á stað endurskoðun á lögunum, stundum með því að skipa nefnd, en yfirleitt þannig, að haft er um endurskoðunina samráð við sérfróða aðila í því máli, sem um er að ræða. Þetta er alþekkt aðferð í löggjöf, og ég hygg, að hún sé yfirleitt talin gefast vel.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að mér þykir ekki ólíklegt, ef á annað borð væri tekið til við slíka endurskoðun á lögunum um síldarútvegsnefnd o.fl., að þá kynnu að koma í ljós fleiri eða önnur atriði, sem aðilum þætti kannske alveg eins ástæða til að hreyta eins og þeim atriðum, sem í þessu frv. er lagt til að breyta. Mér þykir það ekki ólíklegt, að svo kynni að fara, og er það auðvitað illa farið, ef farið væri að breyta þessum lögum nú, eftir að þau eru búin að standa óbreytt í 26 ár, eftir tillögu nokkurra manna.

Á þessu stigi málsins vil ég ekki taka neina afstöðu til efnisatriða frv. Það má vel vera, að þær breytingar séu fullkomlega réttmætar, sem þar er um að ræða. En setjum svo, að slíkar breytingar væru nú samþykktar og svo kæmu eftir eitt eða tvö ár fram tillögur um aðrar breytingar á löggjöfinni. Það tel ég illa farið. Ég teldi það miklu heppilegra, að nú væri dregið að gera breytinguna á lögunum og aðilum gefinn kostur á að taka þátt í endurskoðun og gera þá till. um aðrar breytingar, sem menn kunna að hafa hug á að gera.

Ég vil leyfa mér að benda á það einnig í sambandi við þetta mál, að ég tel, að ef horfið er að því að breyta þessum lögum, og líklegt má telja, að það verði gert fyrr en síðar, þó að það verði ekki gert nú, þá eigi helzt að velja til þess heppilegan tíma á árinu. Það er alkunna, eða a.m.k. kunnugt þeim, sem til þekkja, að snemma á hverju ári hefst sá undirbúningur, sem fram fer á vegum síldarútvegsnefndar og þarf að fara fram jafnan í sambandi við samninga um sölu á síld, og þeir menn, sem eru í nefndinni á hverjum tíma og á þeim tíma, þegar sá undirbúningur hefst, verða að taka ýmsar ákvarðanir í sambandi við þennan undirbúning. Það er æskilegt, að þeir menn, sem þær ákvarðanir taka, fylgist áfram með samningaviðræðum og taki þær ákvarðanir, sem teknar verða síðar á árinu. Ég teldi þess vegna æskilegt, ef að því kemur, að breytingar verði gerðar á lögunum — og alveg sérstaklega ef breytingar yrðu gerðar á sjálfri síldarútvegsnefndinni og skipan hennar, að þá verði það gert í lok árs eða áður en þessi undirbúningur hefst. Ef frv. yrði ekki samþykkt nú, þá vil ég skjóta því hér fram, að mér finnst, að það kæmi vel til mála að láta slíka endurskoðun fara fram á næstu mánuðum, og niðurstaða hennar gæti þá legið fyrir, þegar þing kemur saman í október í haust, og breytingar álögunum þá afgreiddar fyrir áramót á þessu ári. Þetta teldi ég eðlilega málsmeðferð. En ég get varla sagt, að ég telji þá aðferð fyllilega eðlilega, ef frv. væri nú afgreitt sem lög frá þessari hv. deild eftir þá mjög svo lauslegu meðferð, sem það hefur fengið, sérstaklega hér í þessari hv. deild og raunar að því er mér virðist einnig í hv. Ed.