17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (1824)

38. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Mér þóttu allathyglisverðar umr. í gær um þetta mál og þá ekki sízt, hvað hæstv. landbrh. mælti ákaft með því, að till. hv. landbn. um að vísa málinu til ríkisstj. yrði samþykkt með þeim umbúðum eða ályktunarorðum, sem fram koma í niðurlagi nál. Hæstv. ráðh. las upp úr nál. ýmsar hugleiðingar, sem honum virtust svo vel sagðar, eð hann notaði þær sem texta og lagði út af þeim. En hann komst aldrei svo langt í upplestrinum að lesa upp niðurlag nál., einmitt þann hluta þess, sem hafði verið fundið að og mótmælt hafði verið að mætti fylgja til ríkisstj. sem ályktunarorð deildarinnar. En sem sagt, hæstv. ráðh. las ekki upp þessar umdeildu fyrirskipanir til ríkisstj. og bar fyrir sig gleraugnaleysi og illa upplýstan ræðustól. Ég vil nú telja þessar tvær ástæður mikla málsbót fyrir hæstv. ráðh. og get sett mig í fótspor hans undir slíkum kringumstæðum. En hitt fæ ég ekki alveg útilokað úr huga mínum, þá grunsemd, að hæstv. ráðh. hefði reynt að stauta sig fram úr niðurlagi nál. eins og öðru því, sem hann las upp, ef hann hefði talið það sínum málflutningi til stuðnings.

En þetta umrædda niðurlag nál., sem hæstv. ráðh. komst ekki fram úr, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur því ekki rétt að samþykkja frv. á þskj. 38 á þessu þingi, en leggur til, að ríkisstjórninni sé falið að láta endurskoða lög nr. 38 8. marz 1951, um loðdýrarækt, svo og lög nr. 15 8. marz 1948, um innflutning búfjár, og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frumvarp til laga um þessi efni með tilliti til þess, að innflutningur minka og minkaeldi verði leyft hér á landi. — Í trausti þess, að þetta verði gert, leggur nefndin til, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Hér virðist því ótvírætt vera að finna niðurstöðu n. Hún vill, að hv. þd. ákveði að fresta minkamálinu, sbr. frv. á þskj. 38, á þeim grundvelli, að hæstv. ríkisstj. athugi málið nánar. Og um þetta hafa ekki komið fram neinar skiptar skoðanir og ekki raunar heldur um það, að ríkisstj. sé falið að láta endurskoða lögin um loðdýrarækt og innflutning búfjár. N. leggur svo til, að frv. um þessi efni verði lagt fyrir næsta Alþ., og virðist því mega skilja það svo, að n. ætlist til, að lög um loðdýrarækt og innflutning búfjár verði skeytt saman í einn lagabálk, og geta e.t.v. orðið skiptar skoðanir um, hvort slíkt sé rétt. Vera má, að þetta sé ekki meining n., þó að svona sé til orða tekið, og að hún leggi ekki neina sérstaka áherzlu á að hraða endurskoðun laga um innflutning búfjár, heldur aðeins að ríkisstj. hraði jákvæðri afgreiðslu minkamálsins. Virðist það því vera efni till. hv. landbn. í aðalatriðinu, að n. leggur til, að hv. þd. samþykki að vísa málinu til frekari athugunar til ríkisstj. í trausti þess, að ríkisstj. leggi fyrir næsta þing frv., þar sem lagt verði til, að innflutningur minka og minkaeldi verði leyft.

Eins og fram hefur komið, eru ekki allir hv. þdm. reiðubúnir að samþykkja slíka till. sem þessa, þótt þeir hafi ekki á móti því að vísa málinu til ríkisstj. til nánari athugunar og þar á meðal þá til þess að gefa búnaðarþingi kost á að segja álit sitt um málið. Ég er einn í hópi þeirra, sem vilja, að málinu sé nú á þá lund vísað til ríkisstj. Hitt er svo ekki að furða, þótt hv. 2. þm. Vesturl. lofi hástöfum afgreiðslu hv. landbn. Þessi hv. þm. er gamalþekktur refa- og minkaeldismaður og er enn sami áhugamaður í því efni. Hann finnur réttilega þau fyrirmæli og þá viljayfirlýsingu, sem kemur fram í tillögu hv. landbn., og gleðst yfir því, ef hv. þd. samþykkir þessa afgreiðslu málsins, eins og hv. landbn. leggur áherzlu á.

Um málið sjálft sé ég ekki ástæðu til að ræða nú, þar sem það á ekki að hljóta lokaafgreiðslu á þessu þingi. En ég vil ekki binda mig í þessu máli í ákveðna afstöðu fyrir fram, eins og hv. landbn. fer fram á í raun og veru á talsvert lævíslegan hátt.