15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í D-deild Alþingistíðinda. (2965)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 11. þm. Reykv. Hann var að tala um vextina. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði um daginn. Ég tók það fram þá, að ég vissi, að þessi hv. þm. segði aldrei vísvitandi ósatt, og það reyndist rétt. Við áttum tal um þetta á eftir, og hann hafði aðeins litið á skýrslu frá Fiskifélaginu, og þar var talað um vexti af rekstrarfé, en þá er bara átt við lán, sem fæst til rekstrar bátanna, og það er eitthvað 200 þús. Sennilega. hefur verið miðað við 60 tonna bát, og það má gizka á, að það sé 1/5 hluti of heildarstofnkostnaðinum, þannig að vextirnir, sem hann var að reikna með, eru sennilega eitthvað fimmtándi hluti af heildarstofnkostnaði bátsins, og Fiskifélagið skrökvaði engu og prófessorinn ekki heldur, bara það, að Fiskifélagið hlýtur að reikna á öðrum stað vexti af heildarstofnkostnaðinum. Þetta var aðeins lánið, sem fæst í bankanum, og prófessorinn og hagfræðingurinn athugaði þetta ekki betur en hann leit bara á bókstafinn og dró svo ályktunina. Úr því varð náttúrlega hrein vitleysa. Þarna var ekki að tala um að skrökva, heldur var bara. um óaðgæzlu að ræða. Og þarna sannaðist það, sem ég var að halda fram, það er ekki nóg að vera bóklærður, maður þarf að hafa lífsreynslu. Ef prófessorinn og hagfræðingurinn hefði verið búinn að gera út bát í nokkur ár, hefði hann aldrei reiknað eftir þessum bókstöfum. Meira skal ég nú ekki tala um þetta að sinni.

Viðvíkjandi gengismálunum vildi ég taka það fram, að ég skal játa, að ég álít til bóta að leggja niður útflutningssjóðinn. Hann hafði svo mikla galla í för með sér. Skilin voru sein, og það, sem prófessorinn benti hér á áðan, er réttmætt að því leyti til, að það var alls ekkert vit í því að leggja áherzlu á að flytja inn óþarfavörur. En hinu var ég algerlega á móti. að gengið væri lengra en það í gengislækkuninni, að gengið væri aðeins rétt af sem næmi útflutningssjóðnum, þannig að það skapaðist ekki frekar kjaraskerðing hjá neytendunum, og þá var það 25–27% meira, sem gengið var fellt, heldur en þurfti. Nú vil ég spyrja hv. sjálfstæðismenn: Halda þeir, að útvegurinn græði á því, að þeir fella gengið um 25% í viðbót við það, sem þeir gerðu í fyrra? Ímynda þeir sér það? Nei, ég efa, að þeir trúi því sjálfir. En ef útvegurinn græðir ekki á því að fella gengið um 25% nú, þá græddi hann ekki heldur á því í fyrra. Staðreynd er, að útgerðin getur aldrei grætt á gengislækkun hér á landi. Ég var að enda við að skrifa grein um þetta, og hún birtist í Tímanum á morgun eða hinn daginn, þar sem ég rökstyð. að kaupið tekur 40% af brúttótekjum bátsins nú. og er algerlega miðað við brúttótekjur. Ef fiskurinn hækkar í verði, vegna þess að gengið er lækkað. þá hirða sjómennirnir sitt, og þetta er út af fyrir sig kostur, því að þetta freistar ekki útgerðarmannanna að óska eftir gengislækkun. En það er einmitt þessi barnaskapur, sem bæði hagfræðingarnir og útgerðarmennirnir hafa látið blekkjast af. Þeir halda, að þeir geti grætt á því, að kaupið standi í stað, en þeir fengju fleiri krónur fyrir fískinn. En þetta hefur bara ekki verið, vegna þess að sjómennirnir hafa ýmist fengið hækkunina sama árið eða næsta ár á eftir, svo að þarna eru bæði útgerðarmenn og sérfræðingar ríkisstj. að elta sitt eigið skott, og þeir eru búnir að gera það nógu lengi. En hinir liðirnir, sem tilheyra útgerðinni. eru allir bundnir við gengið, sem nokkru máli skipta. Það eru veiðarfæri fyrst og fremst. Á netaveiði hirða þau um 40% af aflaverðmæti. Svo eru tryggingarnar. Það vita allir, að það þarf að tryggja skipin fyrir hærri upphæð, ef gengið breytist, og mennina líka, heildartryggingarnar verða að hækka. Svo er olía, beita og annað slíkt, sem allt fylgir genginu, þannig að það er útilokað að græða á gengislækkun og skapar ekkert annað en aukinn rekstrarfjárskort og erfiðleika fyrir útgerðina og er hin versta blekking. Það var þetta, sem ég var á móti.

Nú er ekki hægt að neita því, að fólkið hefur orðið fyrir kjaraskerðingu. Það er rétt, að ríkisstj. reyndi að —bæta þessa kjaraskerðingu að nokkru með fjölskyldubótum og lækkuðum tekjuskatti, en við vitum, að peninga, sem fólk fær án þess að vinna fyrir þeim, metur ,það lítils, og svo fá ekki allir þessa fyrirgreiðslu, og þess vegna er ástandið þannig nú, að það er óhjákvæmilegt að bæta kjör fólksins. Sjómenn eru búnir að fá 10–11% kauphækkun, — ég, reiknaði það út. Það er aldrei hægt að fullyrða um það endanlega, vegna þess að verðflokkun á fiskinum getur breytt tekjunum, en þeir hafa alltaf fengið 10–11% kauphækkun með samningunum nú. Ég tel, að kjörin séu ekki ósanngjörn um skiptingu milli útgerðar og sjómanna, þannig að í raun og veru megi báðir aðilar vel við una. Þeir voru betur launaðir en óbreyttir verkamenn áður. Óbreyttir verkamenn, verzlunarfólk, iðnaðarfólk og bændur voru verr launaðir, og þess vegna álit ég óhjákvæmilegt að samræma kjörin, og ég er sannfærður um, að eina leiðin, sem ríkistj. getur farið, eina, skynsamlega leiðin, er að lækka verðlagið í landinu, og það getur ríkisstj. gert með tvennu móti, með því að hækka gengið lítið eitt og. með því að leggja niður 8.8% söluskattinn. En um leið verður hún að lækka útgjöld ríkisins, og það getur hún gert með því að afnema fjölskyldubætur með fyrstu tveimur börnunum, lækka framlag til atvinnuleysistrygginga, og ef almennt vöruverð lækkar í landinu, er hægt að lækka almannatryggingar líka. En kjör fólksins eru þannig í landinu, verkamanna, sem vinna fyrir 5 þús. kr. á mánuði, og verzlunarfólks og yfirleitt allrar alþýðu, að það þarf annaðhvort að gera, að hækka kaupið í krónutölu eða auka verðgildi peninganna, og sú leiðin, sem ríkisstj. á að fara, er að auka verðgildi peninganna. Ef verkalýðssamtökin vilja ganga inn á þá lausn, sem ég efast satt að segja ekki um að þau vilji, þá á ríkisstj. hiklaust að gera þetta. En reynslan mun sýna það, að aðra hvora leiðina. verður að fara.

Viðvíkjandi ásökunum hv. 11. þm. Reykv., að stjórnarandstaðan nú hefði sýnt ábyrga afstöðu, þá má það vel vera, að við höfum ekki sýnt fullkomlega ábyrga afstöðu til einstakra mála, en ég vil bara minna prófessorinn á það: Hvaða tillögur gerðu sjálfstæðismenn til úrbóta, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu í tíð vinstri stjórnarinnar? Ég heyrði þær aldrei varð aldrei var við þær. En ég álít hitt, alveg eins og prófessorinn tók fram, að stjórnarandstaða á hverjum tíma, það er eðlilegt og heilbrigt að gagnrýna, en hún á vitanlega að segja til um, hvað hún vill gera, og svo á fólkið að dæma í kosningum. Ég er prófessornum algerlega sammála um það. Hitt er ég honum ekkí sammála um, að við höfum hagað okkur verr í stjórnarandstöðu en hans eigin flokkur, síður en svo.

Viðvíkjandi því, að engir peningar séu til til að bæta kjör fólksins í landinu, Þá er náttúrlega ekki hægt að neita því, að þegar eytt er í ábyrgðarlitið brask, eins og togarakaupin nú, þó að ég vilji engan veginn segja, að það sé eingöngu sjálfstæðismönnum að kenna, siður en svo, þá er eins hægt að verja fjármununum til einhvers annars. Ég held hinu fram líka, að hin mikla kjaraskerðing, sem varð af óþarflega mikilli gengisfellingu, var óþörf, og það verður óhjákvæmilegt að leiðrétta hana.