26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í D-deild Alþingistíðinda. (3058)

950. mál, vörukaupalán í Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég veit, að mönnum er ljóst, að það er ómögulegt að átta sig á, hvernig horfir um viðskiptin við útlönd yfirleitt, og þá ekki heldur, hvernig horfir um möguleika fyrir lánum til ýmissa fjárfestingarframkvæmda í landinu sjálfu, nema fyrir liggi nokkuð þétt upplýsingar um það, hvernig þessi vörukaupalánaviðskipti við Bandaríkjamenn standa. En þannig er um þau viðskipti, að það eru keyptar þar vörur í talsvert stórum stíl og andvirðið er ekki greitt út úr landinu, heldur leggst fyrir hér í landinu sem eign Bandaríkjastjórnar, og ráðgert um leið, að talsvert mikill hluti af þessu fé geti orðið til útlána í framkvæmdir á Íslandi, en nokkur hluti aðeins og það mjög miklu minni hluti til ráðstöfunar í útgjöld Bandaríkjamanna hér í landinu eða kostnað þeirra hér. Það er sem sé langstærsti hlutinn af þessu fjármagni, sem á að geta komið til útlána innanlands. Og til þess að fá upplýsingar um þetta áður en lengra er haldið að reyna að átta sig á viðhorfinu í efnahagsmálunum, þá eru þessar fsp. komnar fram. Ég held, að það sé alveg ástæðulaust fyrir mig að vera að lesa fsp. upp eða ræða nokkuð um hverja þeirra, og læt þetta nægja.