17.12.1960
Efri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram, hefur sá háttur lengi verið hafður á hér um ríkisreikning, að hann hefur ekki verið lagður til samþykktar á Alþingi fyrr en 2 eða jafnvel 3 eða 4 árum eftir reikningsárið. Þessi vinnubrögð eru náttúrlega óhafandi, og ég ætla, að það mundi ekki þykja gott hjá neinu fyrirtæki í landinu, ef það hefði ekki reikninga sína tilbúna á næsta ári eða jafnvel sem skemmstum tíma eftir lok reikningsárs. Að þessu leyti mun ríkið hafa haft algera sérstöðu hér um langan aldur, og ætti þó ríkið fremur að vera til fyrirmyndar öðrum en hið gagnstæða. Nú hefur verið gerð sú breyting á, að á þessu ári hafa verið lagðir fram þrír ríkisreikningar til samþykktar: Ríkisreikningurinn 1957 og ríkisreikningurinn 1958, og er nú búið að afgreiða þá báða, sá þriðji er ríkisreikningurinn fyrir 1959, og liggur hér fyrir frv. um samþykkt á honum.

Til þess að fá umbætur á þessu ófremdarástandi, sem hér hefur ríkt, þurfti í fyrsta lagi að gera ráðstafanir til þess að loka reikningum og sjóðum á vegum ríkisins sem fyrst eftir síðustu áramót, og það var gert nú í fyrra lagi. Í öðru lagi þurfti að láta ljúka reikningagerð sem fyrst eftir áramót, og var öllum reikningum lokið og þeir fullgerðir þó nokkuð fyrr en tíðkazt hefur. Prentun reikningsins tók einnig skemmri tíma og var töluvert mikið fyrr á ferð nú en áður. Og í fjórða lagi urðu yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, þeir sem kosnir eru af Alþ. samkv. stjórnarskránni, við óskum um það að hraða sinni yfirskoðun eða endurskoðun. Allt þetta hefur orðið töluvert fyrr en áður. En loks er það atriði, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, og það er hin svokallaða umboðslega endurskoðun eða tölulega endurskoðun, sem fer fram í endurskoðunardeild fjmrn. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt, að þar sem reikningar hafa yfirleitt verið svo seint á ferð sem raun ber vitni, þá eru ekki möguleikar á því að kippa endurskoðun reikninganna hjá endurskoðunardeildinni í fullkomið lag á svipstundu, þannig að endurskoðunin, í stað þess að endurskoða einn ríkisreikning á ári, þarf að endurskoða 2 eða 3 á einu og sama ári. Slíkt var náttúrlega ekki mögulegt nema með því að fjölga stórIega starfsliði. Það var því sýnt, að áður en yfirskoðun færi fram og áður en málið yrði lagt fyrir Alþingi, þá voru ekki möguleikar á því, að hinni umboðslegu endurskoðun yrði að fullu lokið, nema sem sagt með verulega auknum kostnaði. Hér var því um tvennt að velja: annars vegar að fresta afgreiðslu ríkisreikningsins og vera í sama farinu og áður hefur verið, að Alþ. fengi ekki reikninginn fyrr en nokkrum árum seinna, eða leggja ríkisreikninginn til samþykktar nú strax fyrir Alþingi, þó að hinni umboðslegu endurskoðun væri ekki lokið.

Nú er rétt að taka það fram, eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., að það hefur iðulega komið fyrir, að ríkisreikningur hafi verið lagður fram og afgreiddur endanlega á Alþ., án þess að hinni umboðslegu endurskoðun væri lokið á öllum einstökum reikningum ríkissjóðs. Þetta hefur iðulega komið fyrir. En hins vegar vegna þess, að reikningurinn er fyrr á ferð nú en venjulega, þá er meira ólokið af hinni umboðslegu endurskoðun en áður. Hins vegar lít ég svo á, að það sé engin nauðsyn, og það hefur ekki verið litið þannig á, að það væri nein nauðsyn að bíða með afgreiðslu ríkisreiknings, þangað til þessari endurskoðun væri að fullu lokið, því að venjan hefur verið sú, að ef eitthvað hefur komið fram, sem rétt þótti að breyta eða hefur þurft að breyta við hina umboðslegu endurskoðun, ef slíkt kom fram, eftir að reikningur var afgreiddur á Alþingi, þá er það leiðrétt í reikningi næsta árs og kemur ekki á nokkurn hátt að sök, enda eru þess ýmis dæmi, bæði hjá því opinbera og einstökum fyrirtækjum, að ef eitthvað kemur í ljós, sem þarf að leiðrétta í reikningum fyrri ára, þá er það leiðrétt í næsta ársreikningi.

Þrátt fyrir þennan annmarka þótti sem sagt ekki ástæða til þess að bíða með framlagningu ríkisreikningsins. Ég ræddi þetta við ríkisendurskoðandann, sem taldi enga ástæðu til þess að fresta afgreiðslunni, þrátt fyrir það að umboðslegu endurskoðuninni væri ekki lengra komið en þetta.

Í sambandi við þetta mál er svo rétt að geta þess, að við höfum rætt nokkuð um breytingar á endurskoðuninni og starfsháttum hennar. Nú er það svo, að endurskoðunardeildin byrjar ekki endurskoðun hjá ríkinu eða ríkisstofnunum fyrr en eftir lok reikningsárs og eftir að reikningur frá þeirri starfsgrein liggur fyrir. Ég lít svo á, að það væru heppilegri vinnubrögð og meira aðhald, ef hægt væri að láta endurskoðun fara fram nokkuð jafnóðum og tekjur og gjöld verða til. Til þess að svo megi verða, þarf þó nokkra breytingu á starfsháttum endurskoðunardeildar, og er það mál nú í athugun. En ef sú breyting yrði gerð, að endurskoðunardeildin færi ekki þá fyrst að hefja endurskoðun, þegar loks reikningi hefur verið lokað og reikningurinn liggur fyrir, heldur strax á reikningsárinu jafnóðum, þá ætti hinni umboðslegu endurskoðun að sjálfsögðu að verða lokið, áður en yfirskoðunarmenn hefja sína athugun.

Það, sem veit sérstaklega að Alþingi í þessu efni, eru að sjálfsögðu störf og till. og ábendingar þeirra þriggja yfirskoðunarmanna, sem kosnir eru af Alþingi sem trúnaðarmenn þess. Þeir luku sinni yfirskoðun í fyrra lagi, eins og farið var fram á, og eru þeirra athugasemdir og síðan tillögur ráðuneytisins birtar með reikningnum. Það er að sjálfsögðu rétt, að æskilegast væri, að hinni umboðslegu endurskoðun væri að fullu lokið, áður en Alþingi afgreiddi frá sér reikninginn. En ég tel samt sem áður, að hitt sé meira um vert, að Alþingi fái reikninginn til afgreiðslu með aths. yfirskoðunarmanna strax á næsta ári eftir reikningslok. En um leið og ég segi, að ég tel það meira máli skipta, vil ég undirstrika hitt, að það er í athugun, hvernig megi hraða hinni umboðslegu endurskoðun og helzt breyta starfsháttum hennar þannig, að hún gæti orðið meira jafnóðum en verið hefur.