23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

164. mál, innheimta opinberra gjalda

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. mælti fjhn. einróma með Því, að frv. yrði samþ. eins og það þá lá fyrir og hafði verið lagt fyrir hv. d. Eftir þá umr. kom í ljós við nánari athugun þeirra sérfræðinga, sem að undirbúningi málsins hafa unnið, að það mundi þörf á að setja nokkur viðbótarákvæði inn í frv., og hefur fjhn. athugað þær till. og flytur á sérstöku Þskj. á grundvelli þeirrar athugunar till. um, að teknar verði inn í frv. tvær nýjar greinar, eins og Þar segir.

Önnur Þessara greina, sem fjallar um að samræma gjalddaga ýmiss konar gjalda, stafar af því, að athugun hefur leitt í ljós, að í ýmsum lögum um hin einstöku gjöld eru mismunandi reglur settar varðandi innheimtu og ýmis önnur atriði, sem greinin nánar fjallar um. Það er því talið mjög hæpið, að það kynni ekki að leiða til árekstra, ef það yrði ekki ótvírætt tekið fram, að heimilt væri að samræma þessar innheimtureglur og ýmis atriði þar að lútandi. Þetta er í rauninni ekki neitt verulegt efnisatriði í sambandi við skattheimtuna, heldur er það nauðsynlegt, til þess að hægt sé að framkvæma hina sameiginlegu skattheimtu með eðlilegu móti, því að það mundi skapa mikil vandkvæði, ef þyrfti að hlíta mismunandi ákvæðum um þetta efni varðandi einstök gjöld. Um þetta atriði fjallar önnur brtt. nefndarinnar.

Hin brtt. varðar sérstaklega sjúkrasamlagsgjöld, en það er gert ráð fyrir, að sjúkrasamlög geti orðið aðilar að hinni sameiginlegu innheimtu. Félmrn. hefur útbúið Þá brtt., sem nefndin hefur tekið upp og flutt í þessu sambandi, og er sú till. einnig við það miðuð, að ekki þurfi að skapa vandræði, að sjúkrasamlagsgjöldin eru nú innheimt sameiginlega með öðrum gjöldum, sem m.a. leiðir það af sér, ef ekki væru sett um það sérstök ákvæði, að það yrði mjög erfitt að fylgjast með iðgjaldagreiðslum. Og það er ekki hægt að beita þeim ákvæðum, sem nú eru um viðurlög í því sambandi, Þegar samlögin hafa ekki aðstöðu til að fylgjast með innheimtunni á sama hátt og áður. Ég sé ekki ástæðu til þess, nema sérstakt tilefni gefist til, að fara að gera nánari grein fyrir því atriði eða þessum brtt. Þær hníga báðar í þá átt að skapa nauðsynlega forsendu fyrir því, að þessi sameiginlega innheimta geti orðið framkvæmd árekstralaust og án þess að það þurfi að stangast á einstök lagaákvæði, sem kynnu að verða því til hindrunar, að þetta geti orðið með eðlilegum hætti. Með þessu eru engar nýjar kvaðir á gjaldendur lagðar, heldur eru þetta tæknileg atriði, sem hér er um að ræða, og nefndin leggur einróma til, að þessar tvær viðbótargreinar verði teknar inn í frv. og frv. verði samþ.