04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

167. mál, lögskráning sjómanna

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. í tilefni af hneykslun hv. 1. þm. Vestf. á því, að í frv. okkar hv. 4. landsk. þm. um dánarbætur sjómanna hafi falizt það geysilega ranglæti að hans dómi, að sjómenn yrðu bættir hærri bótum en aðrir landsmenn, þá vildi ég — með leyfi hæstv. forseta lesa upp ummæli hv. 1. þm. Vestf, frá 1960 um það sérstaka mál, hvort bætur sjómanna eigi að vera hærri en annarra, en í umr. um frv. um almannatryggingar árið 1960 sagði hv. þm.:

„Hitt er aftur á móti efnislegt atriði, sem ég vildi ræða um. Það er samkv. 17. gr. Þar stendur, eins og hæstv. ráðh. lýsti, að ekkja skuli fá 90 þús. kr. sem dánarbætur, hvort heldur viðkomandi aðili, hennar maki, ferst af slysi á sjó eða landi. Ég tel þetta algerlega rangt. Ég tel, að sú kona, sem missir sinn mann í sjó, eigi kröfu á að fá miklu hærri bætur en sú, sem missir hann af slysi í vegavinnu.” Og hv. þm. hélt áfram: „Mér er alveg ókunnugt um það, að konur yfirleitt eigi margar andvökunætur um það, hvort menn þeirra slasist við vegavinnu, á bíl eða traktor. En hinar eru ekki fáar, sem eiga andvökunætur í vondum veðrum um það, hvort þær fái manninn sinn heim vestan frá Grænlandi eða ekki. Og ég tel, að það sé mjög misráðið hér, að það sé einn þátturinn í því að draga fólkið frá hættustörfum á sjó, að dánarbætur fyrir eftirlifendur þeirra séu miklu lægri eða jafnar og þær eru í landi.“

Þetta sagði hv. þm. fyrir tveimur árum. Þetta var hans skoðun þá. Nú á hann helzt engin nógu kröftug orð til að lýsa hneykslun sinni yfir því, að sjómenn eigi að njóta hærri tryggingar en aðrir landsmenn. Ég hef að vísu ekki setið lengi á hv. Alþ., en ég hef heldur aldrei orðið vitni að öðrum eins skýringarlausum hringsnúningi og fram hefur komið hjá hv. 1. þm. Vestf. í einu og sama máli aðeins á tveimur árum, hvað þá að menn hafi gert sér far um að auglýsa þann hringsnúning sinn, og ég efast um, að það met hans í þessu efni verði slegið. En ef það yrði hins vegar slegið, þá yrði það aðeins gert af honum sjálfum, en þar þarf ærið til.

Ég tók það skýrt fram í umr. um frv. okkar hv. 4. landsk. þm. um 200 þús. kr. sérbætur til sjómanna, að till. um þær bætur væri ekki fyrst og fremst flutt til þess, að sjómenn væru hærra bættir en aðrir, heldur til þess að leiðrétta það misrétti, að sjómenn, jafnvel á sama báti, njóti ekki sömu trygginga, þannig að sumir hafi 90 þús. kr. bætur, en aðrir 290 þús. kr. Eins tók ég það skýrt fram, að það væri okkar skoðun, að ef nokkur stétt í landinu ætti rétt á því að njóta mannsæmandi bóta, þá væri það sjómannastéttin. Ef hins vegar þjóðin hefur efni á því að bæta alla landsmenn mannsæmandi bótum, þá munu sjómenn sízt hafa á móti því.

Hv. 1. þm. Vestf. veggur sig sannarlega fram og telur mikið á sig leggjandi til þess, að komið verði í veg fyrir, að nú þegar verði bætt úr því herfilega misrétti, sem sjómenn og aðstandendur þeirra eru beittir. En hann er í þessu máli í erfiðari aðstöðu en flestir stjórnarþingmenn aðrir, sem fellt hafa þetta réttlætismál sjómanna með köldu blóði.