28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

193. mál, lausn verkfræðingadeilunnar

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör. Spurningunum hefur fengizt svarað alveg eins og til var ætlazt. Tilgangurinn með fsp. var einungis sá að fá staðreyndir upplýstar í þessu máli, hvernig þessi mál stæðu og hvort þarna væri mikill vandi á ferðum, sem gæti orðið til þess að stöðva eða draga úr verklegum framkvæmdum ríkisins á árinu 1962.

Því miður eru svörin á þann veg, sem ég bjóst við, að málin hafa ekki leystst, hafa ekki fengið neina lausn. Þessar stofnanir allar hafa nú, að mér skilst, ekki neina verkfræðinga í þjónustu sinni, nema forustumenn fyrirtækjanna og yfirverkfræðinga við þeirra hlið, og að öðru leyti hafa svo fyrirtækin í hreinni neyð orðið að ráða til sín verkfræðinga til þess að inna af hendi allra nauðsynlegustu störf í akkorði, og akkorðstaxtinn er auðvitað miðaður við frambornar kröfur verkfræðinganna. Og að því leyti sem neyðin rekur menn til að kaupa þeirra vinnuafl þarna í þessum fyrirtækjum, þrátt fyrir bannið um að semja við þá, það rekur ríkisstj. til að semja við þá um kröfurnar í raun og veru.

Ég er dálítið undrandi á því, ef það er alveg rétt, að það komi ekki að neinum baga á árinu 1962 í sambandi við framkvæmdir ríkisins hjá stofnun, sem hafði 19 verkfræðinga í þjónustu sinni fyrir verkfræðingadeilu, og svarar fyrstu spurningunni neilandi um það, að tekizt hafi að ráða nokkra verkfræðinga í staðinn, og hefur nú ekki nema forstöðumennina og aðstoðarmenn þeirra til verkfræðilegra starfa. Það er að vísu vitað mál, að verkfræðilegur undirbúningur framkvæmda er alltaf nokkuð á undan framkvæmdunum sjálfum, og má vera, að eitthvað bjargist á því, sem búið var að undirbúa af verkfræðingunum, áður en deilan hófst. En þá er a.m.k. alveg horfzt í augu við það, að á næsta ári hlýtur þessi vandi að verða mjög ískyggilegur fyrir ríkið og þessar ríkisstofnanir, ef ekki hefur tekizt að ráða verkfræðinga í þjónustu þessara og annarra fyrirtækja, áður en þessu ári lýkur. Það er því sýnilegt, að að lausn þessa máls verður að vinna, og sýnir þetta það, sem raunar allir vissu, að launamál jafnvel einnar hæst launuðu stéttar landsins. verkfræðinganna, er óleyst og er mikið vandamál. Mér er og sagt, að svipað vandamál sé nú risið að því er snertir náttúrufræðinga, og alkunnugt er um hina láglaunuðu kennarastétt, að hún mun vera í þann veginn að segja upp störfum, vegna þess að hennar launakjör eru óviðunandi. Og þannig virðist heildarmyndin blasa við, að það séu ekki aðeins hinir lægst launuðu verkamenn á Íslandi, sem telji launakerfið sprungið og ekki við það starfandi, flýja heldur úr landi, heldur þurfi að taka þetta allt saman til gagngerðrar endurskoðunar, og því verra sé við það að fást sem hæstv. ríkisstj. snúi blinda auganu lengur að þessum vanda.

Ég sé ekki betur en þessi svör hafi upplýst það, að þessi mál eru algerlega óleyst og hljóta fyrr eða síðar, ef ekki á næstu mánuðum, þá a.m.k. á næsta ári, að valda stöðvun í opinberum framkvæmdum ríkisins.