23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. viðurkennir berlega, að það hafi verið meining hæstv. ríkisstj. að draga úr íbúðabyggingum í landinu, þeirri fjárfestingu. Það er einmitt þetta, sem er sannleikur. Hæstv. ríkisstj. hefur af ráðnum hug ráðizt á þessa starfsemi með margvíslegu móti og torveldað fólki að framkvæma þá lífsnauðsyn að byggja þak yfir höfuðið á sér. Þetta er eitt af mörgum ávirðingum hæstv. ríkisstj. En mig undrar, að þessi hv. þm. skuli vilja verja þessar aðgerðir ríkisstj., því að þær eru raunverulega fyrir neðan allar hellur. Hv. þm. upplýsti það einnig nú og í gær, að umsóknir um lán til húsnæðismálastjórnar hefðu aldrei verið jafnmargar og nú. Hvað sýnir þetta? Ég efast ekki um, að það sé rétt, en það sýnir, að skorturinn á þessu sviði sverfur harðar og harðar að fólki með hverju ári, sem liður. Og það sýnir einnig, að þörf manna verður með ári hverju almennari fyrir lán. Hvort tveggja er sök hæstv. ríkisstj., hennar stefnu í þessum málum.

Ég tók það fram í gær í minni ræðu, að ég held, að mér þætti kostuleg sú kenning stjórnarflokkanna, að íbúðabyggingar séu einhvers konar munaður, sem nauðsyn sé á að takmarka, en þannig virðast leiðtogar þessara stjórnarflokka líta á þetta mál, það sé nauðsyn að draga úr íbúðabyggingum og torvelda mönnum að byggja þak yfir höfuðið á sér. Afleiðingin verður þessi, að á tímabili, þegar sæmilegt stjórnarfar er í landinu, eins og var t.d. 1956–58, þá var mikið byggt, enda þörfin þá orðin mjög brýn eftir undanfarandi stjórnarskeið. Nú kemur aftur afturkippur í þessi mál, það dregur úr byggingum, og nú er knúið fast á dyr. Hvers vegna? Vegna þess, að hér er um lífsnauðsynjar fólksins að ræða. Og það hefur komið mjög greinilega fram, og þar fer ekki hnífurinn á milli Sjálfstfl. og Alþfl., að hér er barizt af kappi enn í dag gegn því, að fólk geti byggt sér þak yfir höfuðið. Það er barizt gegn því, að nokkur ráðstöfun sé gerð til þess að draga úr hinum óhæfilega byggingarkostnaði. Og það er barizt af jafnmikilli ákefð gegn því af þessum fulltrúum stjórnarflokkanna að auðvelda mönnum leið til lána. Sérhver tillaga í þá átt skal felld. Þetta finnst mér ákaflega skammsýn og heimskuleg afstaða til þessa mikilsverða máls. Þetta hefnir sin, að hefta þannig þessa lífsnauðsynlegu starfsemi, byggingu íbúðarhúsa í landinu.