02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur klofnað um afstöðuna til frv. til l. um breyt. á lögum um húsnæðismálastofnun ríkisins o.fl. Hv. meiri hl., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en ég tel, að það sé fánýtt úrræði að samþykkja þetta frv., nema á því fáist gerðar verulegar breytingar.

Þó að leitað sé gegnum allt frv., sem á að heita endurskoðun á lögunum um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til húsabygginga o.fl., með logandi ljósi, þá finnast ekki aðrar breytingar í þessu frv. frá gildandi lögum en ein fimm atriði. Og fyrsta breytingin, sem í frv. felst, er sú, að húsnæðismálastjórnarmönnum sé fjölgað um einn mann. Eftir því sem ég veit bezt, mun Sjálfstfl. hafa ákveðinn mann í huga, sem endilega þurfi að komast í húsnæðismálastjórnina. Ég held nú, að þetta sé ákaflega þýðingarlítið atriði til þess að hjálpa húsbyggjendum. Þeir menn, sem fyrir eru í húsnæðismálastjórn, eru sjálfsagt allir af vilja gerðir til þess að hagnýta sem bezt það litla fjármagn, sem byggingarsjóður ríkisins hefur yfir að ráða, og það eykst ekki vitund, þó að einum manni frá hv. Sjálfstfl. sé bætt við í húsnæðismálastjórnina til þess að útdeila fénu. Það er áreiðanlega ekki það, sem húsnæðismálastjórnina hefur vantað, að nm. væru fleiri til þess að annast úthlutun húsnæðislána. Nei, nei, það, sem húsnæðismálastjórnina hefur vantað, er auðvitað fjármagn. En í frv. er alls engin viðleitni sýnd í þá átt að auka fjármagn byggingarsjóðs ríkisins, þannig að húsnæðismálastofnunin geti aukið starfsemi sína og svarað betur þeim óskum og þörfum, sem henni berast í húsnæðismálunum. Þessi brtt. er næsta hláleg: fyrsta till. er sú að fjölga um einn mann í húsnæðismálastjórn. Og þess er varla að vænta, að þær tillögur, sem á eftir koma, eftir þessa fyrstu aðaltillögu, séu þá mikils virði, enda er ekki svo.

Önnur till. er um það, að Alþingi skuli kjósa húsnæðismálastjórn fjórða hvert ár, en ekki þriðja hvert ár, eins og nú er, þ.e.a.s. það er næstmesta nauðsynin til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum í landinu að lengja kjörtímabil húsnæðismálastjórnarinnar. Enn ber að sama brunni. Ekki er þetta á nokkurn hátt úrræði til þess að bæta hag þeirra, sem berjast við að byggja yfir sig og sína. Það skiptir engu máli, hvort húsnæðismálastjórn er kosin þriðja hvert ár eða fjórða hvert ár.

Og þá kemur að þriðju brtt., sem ástæða þótti til að gera og bera fram stjórnarfrv. um. Og það var viðvíkjandi heimild Landsbankans, sem nú er í lögum um það, að Landsbankanum sé heimilt að gefa út árlega bankavaxtabréf að upphæð 100 millj. kr. Nú er lagt til, að þessi heimild Landsbankans sé rýmkuð þannig, að honum sé nú heimilað að gefa út bankavaxtabréf á ári hverju að upphæð allt að 150 millj. kr. Ef það hefði nú verið svo, að Landsbankinn hefði nokkur undanfarin ár notað sína heimild til fulls og gefið út bankavaxtabréf fyrir 100 millj. kr. og þarna hefði því gætt skókreppu hjá Landsbankanum um þessa heimild, hún hefði ekki nægt honum, að hann hefði getað og viljað gefa út bankavaxtabréf fyrir hærri upphæð, þá skyldi ég hafa orðið fyrstur manna til að játa, að það hefði verið umbót að því að rýmka þessa heimild úr 100 millj. í 150 millj., eins og hér er gert. En þegar Landsbankinn hefur á undanförnum árum lítt eða ekki notað sína heimild til að gefa út bankavaxtabréf allt upp að 100 millj. kr., þá kemur fyrir lítið að rýmka heimildina upp í 150 millj. Þess vegna er það augljóst öllum mönnum, að þessi breyting á tölum kemur húsbyggjendum að engu gagni. Í frv. eru engin ákvæði um það, að skyldur séu lagðar á Landsbankann um að nota hina nýju heimild. Ef það hefði verið, þá hefði þessi breyting verið nokkurs virði. En það eru engu meiri líkur til þess en áður, að Landsbankinn noti heimildina, og hann hefur ekkert verið í námunda við það að fullnota þá heimild, sem í lögunum er. Þessi breyting er því ekki virði þeirrar prentsvertu og þess pappírs, sem þurfti til þess að koma henni hér á framfæri á Alþingi. Húsbyggjendur verða nákvæmlega jafnilla settir eftir sem áður þrátt fyrir það, þó að þessi heimild Landsbankans sé rýmkuð úr 100 millj. í 150 millj. á pappírnum.

Þá er fjórða breytingin, og hún ber nú svipmót af því að kunna að vera til einhverra hagsbóta fyrir húsbyggjendur, því að hún er um það, að hámark lánsupphæðar á íbúð skuli breytast úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. Það mun hafa verið svo að undanförnu, að yfirleitt hefur þeim, sem byggðu sér nýja íbúð af þeirri stærð, sem húsnæðismálastjórnin samþykkir, verið ætluð, að vísu í mörgum smápörtum og á löngum tíma, allt að 100 þús. kr. lánsupphæð. En þó hefur það alls ekki verið í öllum tilfellum. Og því verður ekki heldur neitað, að þörfin fyrir, að hámark lánsupphæðar verði 150 þús., en ekki 100 þús., er mikil. En það vantar það, sem við á að éta. Það vantar aukið fjármagn, og fyrir því er ekki séð í frv. Engin brtt. er um það að sjá húsnæðismálastofnuninni fyrir auknu fé. Og hvað þýðir það þá, ef hver lánveiting verður 150 þús. í staðinn fyrir 100 þús.? Það þýðir, að þeim lánum, sem hægt er að veita, hlýtur að fækka um þriðjung, og að því er lítil bót, þegar jafnmargir sækja um aðstoð stofnunarinnar og raun ber vitni. En það dylst engum manni, að þegar stofnunin hefur úr sama fjármagni að spila og lánsupphæðin í hverju tilfelli á að hækka um þriðjung, en upphæðin er óbreytt, þá hlýtur það eitt af þessu að leiða, að möguleikar stofnunarinnar hljóta að rýrna um þriðjung að því er snertir tölu lánveitinga. Og ég sé ekki, hverju menn eru bættari. Það geta kannske einhverjir aðrir séð, þeir í stjórnarliðinu, sem hafa baukað við það nokkrar vikur eða mánuði á kaupi að endurskoða frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins og koma þessum hégómatillögum sínum á framfæri. En hvernig þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að að þessu væri bót, það fæ ég ekki séð.

Þá kemur að fimmtu till. Hún víkur að því, að nokkuð mörg undanfarin ár hefur verið ákvæði í lögum um, að ríkissjóður skuli leggja fram 4 millj. kr. árlega til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis gegn sama framlagi frá sveitarfélögunum. Þessi upphæð hefur verið tekin á fjárlög og því aðeins notuð, að sveitarfélögin legðu fé á móti til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Nú hefur vafalaust verið þörf fyrir að útrýma heilsuspillandi húsnæði bæði hér í Reykjavík og í bæjum og kauptúnum úti um land. En einhvern veginn hefur það verið svo, að sveitarfélögin hafa ekki talið sig hafa fjármagn til þess að notfæra sér það mótframlag, sem stóð til boða á fjárlögum, og athafnir sveitarfélaganna þess vegna svo litlar á þessu sviði, að fjárlagaupphæðin, 4 millj., hefur ekki fullnotazt. Mér þætti nú fróðlegt að fá að vita, hvað mikið fé liggur ónotað samkv. þessari fjárveitingu til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, en nokkur upphæð mun það vera. Og sé það rétt hjá mér, að sveitarfélögin hafi ekki séð sér fært að nota þessa upphæð, hvað þýðir þá þessi breyting á lögunum að taka í burtu ákveðna upphæð? Hún þýðir það, miðað við reynsluna, miðað við óbreyttar athafnir sveitarfélaganna í þessu efni, að upphæð ríkissjóðsframlags til þessara hluta er sennilega lægri, heimilt að hafa hana lægri, einmitt við að nema ákvæðið um upphæðina burt. Og það er ekki einskis verð breyting á lögunum að létta skyldum af ríkissjóði um það að leggja fram 4 millj. á ári til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Það væri því aðeins um aukin útgjöld að ræða eða meiri framlög að ræða af hendi ríkissjóðs til þessa verkefnis, að sú breyting gerðist nú, að sveitarfélögin, t.d. vegna þess að bæjarstjórnarkosningar eru fram undan, ykju allt í einu athafnir sínar við útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og legðu fram í þessu skyni miklu hærri upphæð en þau hafa gert á undanförnum árum, að það gæti komið fyrir, að af þessari breytingu leiddi aukin fjárframlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og finnst mér það í raun og veru næsta ólíklegt, miðað við reynslu undanfarinna ára. Ég held því, að það hefði verið öllu öruggara, að ákvæðið um 4 millj. kr. framlag hefði staðið í lögunum áfram. Mér er kunnugt um, að húsnæðismálastjórnin hefur stundum gripið til þess að fá lán af þessu afgangsfé til þess að lána húsbyggjendum almennt, en samt sem áður á þetta fé að vera tiltækt til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis.

Önnur breyting, sú seinasta í frv., er ósköp smávægileg eins og hinar og dálítið vafasamt, hvort hún er til bóta. Hún er um það, að nú megi ríkissjóður greiða út því sveitarfélagi, sem er að byggja til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, helminginn af upphæðinni, sem sveitarfélagið á að fá, þegar nýja húsnæðið er orðið fokhelt. Nú er ekki til þess ætlazt, að ríkið greiði út féð, fyrr en sveitarfélagið, sem er að útrýma heilsuspillandi húsnæði, er búið að gera hið nýja húsnæði íbúðarfært og leggur fram vottorð um, að gamla, óhæfa húsnæðið hafi verið rifið eða a.m.k. samkv. vottorði viðkomandi embættismanns verið rýmt þannig, að það sé ekki haft til íbúðar lengur. Lögin eru eingöngu til þess, að ríkið leggi fram fé, þegar er verið að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Það á ekki að vera nokkur möguleiki til þess, að þessi ríkisframlög séu látin af hendi, nema því aðeins að hið heilsuspillandi húsnæði sé rifið eða tekið úr notkun örugglega, svo að það sé ekki nýtt fólk, sem fer inn í heilsuspillandi húsnæði, að því er engin bót. En full hætta er á því, að það sé erfitt að hafa eftirlit með þessu, ef féð er látið af hendi, meðan fólkið hírist enn þá í hinu óhæfa húsnæði, því að það gerir það, meðan nýja húsnæðið er ekki orðið nema fokhelt, hálfbyggt. Ég er því dálítið í vafa um, að bót sé að þessari brtt. þeirra vísu manna, sem voru á launum hjá hæstv. ríkisstj. við að endurskoða lögin um húsnæðismálastofnun. Ég mun því aðeins geta aðhyllzt hana, að það sé skýrt tekið fram, að tryggt sé í framkvæmdinni, að hið óhæfa húsnæði verði rýmt og ekki notað til íbúðar, eftir að hið nýja húsnæði er orðið nothæft.

Ég hef nú sýnt fram á, hversu nauða-ómerkilegar þessar brtt. við l. um húsnæðismálastofnunina og byggingarsjóð ríkisins eru, sumar fráleitar, eins og till. um fjölgun í húsnæðismálastjórn og lenging á kjörtímabili stjórnarinnar, og aðrar algerlega gagnslausar húsbyggjendum, bæði till. um að hækka hámark lánsupphæða á íbúð úr 100 þús. í 150 þús. kr., úr því að ekki er aukið fjármagn stofnunarinnar, og eins rýmkunin á heimild Landsbankans til þess að gefa út bankavaxtabréf, þegar engar líkur benda til þess, að Landsbankinn noti þá heimild, sem nú er í lögum, og hefur aldrei notað, hvað þá heldur að hann hækki þá heimild í framkvæmd um þriðjung. Og um þessar tvær tillögur síðustu hef ég nú rætt einnig og sýnt, að á þeim eru þau vandkvæði, að mjög er vafasamt, að þær séu til bóta. Það, sem nýtt stjórnarfrv. um húsnæðismálastofnun ríkisins hefði þurft að fjalla um, það hefði verið tekjuöflun, fjármagnsöflun fyrir húsnæðismálastofnunina og byggingarsjóð ríkisins. En um það er ekki stafkrókur, orð eða setning í þessu frv. Það er sem sé algerlega gengið fram hjá því atriðinu, sem frv. þurfti að fjalla um, ef á annað borð var farið að breyta lögunum um húsnæðismálastofnun ríkisins. Frv., eins og það liggur fyrir, er því hið mesta sýndarplagg og ekki virði þess pappírs, sem það er prentað á.

Ég hef leyft mér á þskj. 587, sem jafnframt er nál. frá mér sem 2. minni hl, heilbr.- og félmn., að leggja til, að frv. verði breytt í verulegum atriðum og þ. á m. alveg sérstaklega, að lagt sé fram stóraukið fjármagn til húsnæðismálanna. Ég legg í fyrsta lagi til, að lán til einstakrar íbúðar sé hækkað ekki aðeins um 50 þús. kr., heldur um 100 þús. kr., tvöfaldað, að þar komi 200 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. Þetta geri ég einungis vegna þess, að ég legg jafnframt til, að nýtt fjármagn komi til, því að öðrum kosti er till. til hækkunar lánsupphæðar einskis virði, leiðir aðeins til þess, að lánin verða færri. Það hefur verið sýnt fram á það, að hækkun meðalíbúðar í verði, síðan húsnæðismálalögin voru sett, nemur um 100 þús. kr., svo að 200 þús. kr. lánsupphæð nú á íbúð er engu meira verðmæti en 100 þús. kr. upphæðin áður. Það er því í raun og veru aðeins breyting til þess, að lánsupphæðin sé nokkurn veginn jafnmikils virði og upphaflega var ákveðið, og er það þó algert lágmark, því að vitanlega hafa lánsupphæðirnar alltaf verið of lágar.

Þá legg ég til í annan stað, að í staðinn fyrir 7% ársvexti komi 4% ársvextir, að vaxtabyrðin sé létt á húsbyggjendum.

Tillögu ber ég hér fram um það, að fyrri mgr. 16. gr. l. skuli orðast svo:

„Nú leggur sveitarfélag fram fé til íbúðabygginga í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði, annaðhvort sem óafturkræft framlag eða lán, og skal þá ríkissjóður lána jafnháa upphæð á móti. Lán ríkissjóðs er bundið því skilyrði, að húsnæðismálastjórn hafi borizt fullgerðar teikningar og sundurliðuð kostnaðaráætlun, áður en framkvæmdir hefjast, og hið ónothæfa húsnæði sé tekið úr notkun, um leið og hið nýbyggða húsnæði er fullgert, en þó er heimilt að afgreiða til viðkomandi sveitarfélags helming lánsupphæðar, þegar nýbygging er fokheld. Húsnæðismálastjórn ráðstafar lánum ríkissjóðs í þessu skyni og hefur eftirlit með, að réttum skilyrðum sé fullnægt.“

Meðan ég var í félmrn., varð ég þess var, að það var á því hin mesta óreiða, að það væri tryggt, að braggarnir, sem látið var í veðri vaka að verið væri að útrýma, væru rifnir, þegar nýja húsnæðið, sem hafði fengið ríkisstyrk, var tekið í notkun og maður brenndi sig því á því, að það væri jafnvel verið að veita styrk hvað eftir annað til útrýmingar sömu braggahreysunum, og það vildi ganga undarlega seint að fækka þeim þrátt fyrir ríkisframlög til nýrra bygginga í þeirra stað. Þess vegna held ég, að ekkert megi slaka til á því í lögunum, að vel sé tryggt, að það íbúðarhúsnæði, sem haft er á orði að sé verið að útrýma, sé rifið eða tekið örugglega úr notkun fyrir aðra íbúa, þegar hið nýja húsnæði með ríkisstyrk hefur verið tekið í notkun.

Þá legg ég í þriðja lagi til, að á eftir 4. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

„Á eftir 23. gr., en í upphafi VI. kafla laganna, Ýmis ákvæði, komi fjórar nýjar gr., svo hljóðandi:

a. (24. gr.) Heimild ríkisstj., sbr. 32. gr. l. nr. 4/1960, til að kveða á um vaxtakjör og lánstíma á lánum hjá byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði verkamanna fellur niður.

b. (25. gr.) íbúðareigandi skal eiga rétt á að fá endurgreidd úr ríkissjóði aðflutningsgjöld og söluskatta af byggingarefni, sem til íbúðarinnar hefur þurft, enda sé íbúðin að hagkvæmni og stærð í samræmi við reglur húsnæðismálastofnunar.“

Þessi till. er um það að draga úr byggingarkostnaði með því að fella niður söluskatta og aðflutningsgjöld af því byggingarefni, sem talið er að fari í vísitöluhúsið, og létta þannig byrðar húsbyggjenda með því að draga úr byggingarkostnaðinum. Það er upplýst mál, að þær upphæðir, sem ríkið tekur til sín í söluskatta og tolla og innflutningsgjöld af efni á meðalíbúð, nema nokkuð mörgum þús. kr., og þegar ríkið er að aðstoða fólk við að byggja yfir sig og sína, þá er ekkert eðlilegra en ríkið gefi eftir innheimtu á þessum gjöldum og auðveldi þannig fólki að byggja yfir sig. Ég hef því lagt hér til, að fólkinu, sem er að byggja, sé hjálpað með lækkun vaxta, með lækkun lánsupphæðar og með því að draga úr byggingarkostnaðinum á þennan hátt, að innheimta ekki söluskatta og aðflutningsgjöld af byggingarefni til íbúðarhúsnæðis. Ég legg til, að endurgreiðslan á þessum gjöldum skuli miðuð við það efni, sem þarf til þess að byggja vísitöluhúsið í okt. 1960, þegar gengislækkunin fór fram, og skal þessi endurgreiðsla innt af hendi í einu lagi, strax eftir að íbúðin hefur verið metin til fasteignamats. Ég legg til enn fremur, að endurgreiðslu samkv. þessari grein eigi að fá eigendur íbúða, sem hafa lokið við byggingu íbúða eftir gildistöku þessara laga, þannig að það verki ekki aftur fyrir sig.

Þá kemur að aðaltill. minni, sem er um fjárútvegunina og er hér í tveimur töluliðum. Ég legg í fyrsta lagi til, að Seðlabankinn skuli veita byggingarsjóði ríkisins 50 millj. kr. lán með 5½% ársvöxtum til íbúðabygginga á hverju ári næstu 5 ár, frá og með árinu 1962 að telja. Þessum lánum á húsnæðismálastjórnin að ráðstafa í samræmi við sínar útlánareglur.

Það hefur verið mikið af því gumað, að Seðlabankinn liggi nú með mikið fryst fé, sem hefur verið dregið saman hingað og þangað utan af landsbyggðinni, jafnvel frá smáinnlánsdeildum kaupfélaganna í hinum fámennustu byggðum, og svo hvarvetna að á landinu, og einkanlega hefur Seðlabankanum áskotnazt fé með því að leggja okurvexti á allar framkvæmdir, þannig að úr þeim hefur dregið, dregið úr húsbyggingum, dregið úr skipakaupum, dregið úr hvers konar mannvirkjagerð og framförum í landinu, og þannig hefur auðvitað safnazt fé. Ég tel, að þessu fé sé ekki betur varið á annan hátt en með því, að Seðlabankinn taki nú að veita lán, t.d. til þess að leysa einhver hin brýnustu verkefni, sem að þjóðinni kalla, t.d. eins og í húsnæðismálunum, því að það er skuld við framtíðina, ef byggt er ár eftir ár minna en sem svarar byggingarþörf þjóðarinnar. En nú liggja fyrir skýrslur um það, að á árinu 1961, hvað þá 1962, eru nýbyggingar íbúðarhúsnæðis komnar langt niður úr því, sem þörf er fyrir, ef á að miða við vöxt þjóðarinnar og eðlilega endurnýjun íbúða, sem fyrir eru.

Að lokum legg ég svo til, að ríkissjóður skuli greiða byggingarsjóði ríkisins 20 millj. kr. sem óafturkræft framlag á árinu 1963 og síðan 20 millj, kr. á ári næstu 4 ár. Það er það einasta, sem ætlazt er til að lagt sé á ríkissjóð, að leggja fram 20 millj. kr. á ári í 4 ár. Það væru ekki nema eins konar skaðabætur til byggingarsjóðs ríkisins fyrir að hafa svipt hann tekjunum af stóreignaskattinum, sem var búið að lögfesta sem tekjur til handa byggingarsjóði og þannig ætlaður því fólki, sem réðist í að byggja íbúðarhúsnæði á næstu árum. En nú hefur hjartagæzka hv. stjórnarflokka til stórgróðamannanna í landinu, sem áttu að bera stóreignaskattinn, sagt til sín og þessi skattur verið niður felldur, og það eykur auðvitað vandkvæði húsnæðismálastofnunarinnar og byggingarsjóðs ríkisins, og tekjuleysið blasir þar við í staðinn. Þess vegna er það hófsamleg tillaga, að ríkissjóður leggi á sig 20 millj. kr. byrði, leggi það á alla þjóðina í staðinn, og leggi þetta fram sem óafturkræft framlag til byggingarsjóðs ríkisins. Þessi tekjuöflun, lán að upphæð 50 millj. kr. frá Seðlabankanum og 20 millj. kr. framlag frá ríkinu, þetta hvort tveggja mundi gera það að raunhæfri breytingu á húsnæðismálastjórnarlögunum að hækka hámark lánsupphæðar á íbúð hverja úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. og þó gera mögulegt að fjölga afgreiðslu lána einnig. En frv., eins og það er, mundi aðeins fækka möguleikum til lánveitinga að því skapi, sem lánsupphæð á íbúð hverja væri hækkuð, og að því er engin bót. Ég get því aðeins fallizt á, að þetta sýndarfrv. sé samþykkt, að því verði gefið innihald með því, að brtt. mínar verði samþykktar.